Fréttir

Nýting flaka mismunandi eftir veiðisvæðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýting flaks af þorski sem er veiddur út af Suðausturlandi er betri heldur en af þorski sem er veiddur út af Norðurlandi. Þá er flakanýting betri á tímabilinu júní til ágúst miðað við aðra ársfjórðunga, að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands) sem ber heitið Verkunarspá-tengsl hráefnisgæða við vinnslu og verkunarnýtingu þorskafurða.

RF-40848

Í rannsókninni, sem er samstarfsverkefni Matís og Fisk Seafood, er að finna niðurstöður á því hvernig þorskur, sem veiddur var á mismunandi veiðisvæðum og á ólíkum árstíma, nýtist sem hráefni við vinnslu og verkun léttsaltaðra þorskafurða, en sú afurð hefur átt vaxandi vinsældum að fagna á mörkuðum í S-Evrópu á undanförnum árum. Í rannsókninni voru skoðaðir þættir eins og aldur hráefnis frá veiði, los, mar, holdafar og og fleira sem getur tengst árstíðabundnum sveiflum í ástandi hráefnisins og veiðisvæðum ásamt veiðiaðferðum og meðhöndlun afla frá veiði til vinnslu.

“Fram komu vísbendingar um mismunandi eiginleika þorsks á mismunandi veiðisvæðum og árstímum. Helstu niðurstöður voru þær að veiðisvæði út af Suðausturlandi gáfu marktækt betri flakanýtingu í þorski heldur en veiðisvæði út af Norðurlandi, auk þess sem flakanýting var betri á tímabilinu júní-ágúst, miðað við aðra ársfjórðunga,” segir Sigurjón Arason sérfræðingur hjá Matís.

Hann segir að þegar þorskinum hafi verið skipt í þrjá þyngdarflokka, hafi komið í ljós að léttasti flokkurinn (1,4-2,1 kg) var með meiri þyngdaraukningu við verkun léttsaltaðra afurða en þyngri flokkarnir. “Það gefur til kynna að þyngri þorskurinn þurfi lengri tíma í pæklun en léttari þorskurinn. Vatnsheldni var áberandi lægri á veiðisvæðum út af Norðurlandi og Norðausturlandi en á öðrum miðum.”

Verkefnið var styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

IS