Verkefni þessu er ætlað að leita leiða til þess að nýta hliðarafurðir úr garðyrkjuframleiðslu til aukinnar verðmætasköpunar og jafnframt minnka sóun í grænmetisframleiðslu.
Verkefnið gengur út á að velja ákjósanlegar nýtingarleiðir fyrir mismunandi hliðarafurðir frá garðyrkju, m.a. það sem fellur til við afblöðun tómat- og gúrkuplantna, blöð af útiræktuðu grænmeti eins og blómkáli og spergilkáli, auk blaða og stilka úr blómarækt. Auk þess á að skoða grundvöll fyrir bættri nýtingu á annars flokks vörum og umframmagni af gulrófum og kartöflum. Skoðaðir verða möguleikar á að vinna lífefni og lífvirk efni úr völdum lífmassa með það að markmiði að nýta sem innihaldsefni í nýjar verðmeiri afurðir. Hér má nefna trefjar, andoxunarefni og örveruhemjandi efni til að auka geymsluþol matvæla og vinnsla á bragðefnum. Mikilvægt er huga að því að neysla á hliðarafurðum sé örugg og verður það gert með hættugreiningu á hráefnunum auk efna- og örverumælinga á lykilafurðum.
Niðurstöður verkefnisins verða nýttar til þess að:
1) Fá upplýsingar um helstu hættur sem gætu falist í nýtingu hliðarafurða og meta annmarka við nýtingu þeirra.
2) Þróa innhaldsefni og/eða matvæli úr völdum hliðarafurðum grænmetisframleiðslu.
3) Einangra lífefni og lífvirk efni úr völdum hliðarafurðum sem nota má sem innihaldsefni í matvæli, fæðubótarefni eða snyrtivörur.
4) Útbúa leiðbeiningar til að bæta nýtingu, draga úr sóun og auka verðmæti garðyrkju.
Verkefnið mun stuðla að sjálfbærni grænmetisgeirans á Íslandi og aðstoða við þróun hans í tengslum við aukna verðmætasköpun, ný atvinnutækifæri og nýjungar. Meginmarkmið verkefnisins er að auka virði grænmetisframleiðslu, bæta nýtingu og auka sjálfbærni.
Þetta samstarfsverkefni Matís, Orkídeu og Bændasamtaka Íslands er styrkt af Matvælasjóði.
Hér má lesa frétt um verkefnið: Aukin sjálfbærni grænmetisgeirans á Íslandi, verðmætasköpun, ný atvinnutækifæri og nýjungar.
Hér má nálgast skýrslu verkefnisins: Verðmætaaukning hliðarafurða frá garðyrkju