Fréttir

Fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi að íslenskri fyrirmynd

Tengiliður

Anna Kristín Daníelsdóttir

Aðstoðarforstjóri / Rannsókna- og nýsköpunarstjóri

annak@matis.is

Nýverið kom út grein þar sem niðurstöður úr tilviksrannsókn Evrópuverkefnisins Mareframe eru kynntar, en í verkefninu var unnið að þróun fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi og leiðir fundnar til að auðvelda innleiðingu þess í Evrópu. 

Áhersla var lögð á vistvæna, sjálfbæra, félagslega og hagræna stjórnun. Einnig á samstarf við sjómenn, útgerðir og vinnslu ásamt öðrum hagsmunaaðilum sem koma að stjórnun fiskveiða.

Í rannsókninni voru íslenskar þorskveiðar sérstaklega til skoðunar og það sem vel hefur tekist í íslenskri fiskveiðistjórnun. Var þar notast við sérstakt fjölstofnalíkan, “Gadget”, sem var þróað af íslenskum þátttakendum verkefnisins og er notað víða erlendis. Jafnframt því var horft til meira samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum sem og annarra hagsmunaaðila við þróun fiskveiðistjórnunarkerfa en það er lykilatriði við innleiðingu fiskveiðistjórnarkerfisins.

Greinina má nálgast hér.

Fréttir

Verðmæt þekkingaruppbygging á sviði veiða og vinnslu uppsjávarfisks

Á undanförnum árum hefur Matís, í samstarfi við Síldarvinnsluna, Háskóla Íslands og GRÓ-sjávarútvegsskóla UNESCO, unnið að uppbyggingu þekkingar á sviði veiða og vinnslu uppsjávarfisks.

Sex doktorsverkefni sem tengjast bættri nýtingu og þróun vinnsluferla og er ætlað að stuðla að aukinni verðmætasköpun hafa fengið styrki frá AVS, Tækniþróunarsjóði og Rannsóknasjóði síldarútvegsins (Sigurjónsstyrkur). Doktorsnemarnir hafa dvalið lengri og skemmri tíma í Neskaupstað til að vinna að verkefnum sínum, leggja stund á mælingar og vinna að þróun nýrra afurða. Umsjónarmenn með doktorsverkefnunum eru Sigurjón Arason prófessor og yfirverkfræðingur hjá Matís og María Guðjónsdóttir prófessor, en Sigurjón hefur haft forystu um rannsóknir og þróun á sviði vinnslu sjávarafurða um áratuga skeið. Hér að neðan má finna stutta samantekt um hvert verkefni.

  • Paulina E. Wasik (Romotowska) vann verkefni um hámörkun gæða frosinna makrílafurða. Geymsluþol frosinna makrílafurða var kannað og lögð áhersla á að finna hvernig best væri að frysta, geyma og flytja makrílinn. Í framhaldi af þessu verkefni hefur verið unnið að bættu vinnsluferli við flökun á makríl og vöruþróun á roðlausum, frosnum makrílflökum. Paulina lauk doktorsnáminu árið 2016.
  • Hildur Inga Sveinsdóttir vinnur að verkefni sem ber heitið „Virðisaukning úr flakavinnslu Atlantshafsmakríls – geymsluþol, bestun vinnslu og nýting hliðarafurða.“ Makríllinn sem veiðist hér við land er sérlega fitumikill og því erfiður meðhöndlunar. Sérstaklega er kannað hvort unnt sé að roðskera makrílinn án þess að það hafi áhrif á gæði flakanna en með því er unnt að auka geymsluþol afurða. Verkefnið tekur einnig á nýtingu þess roðs og dökks vöðva sem skorinn er frá við roðskurðinn og stuðlar því að fullnýtingu makrílsins. Þá er kannað hvort mögulegt sé að nýta myndgreiningartækni við eftirlit og bestun vinnslu roðlausra flaka. Áætlað er að Hildur ljúki doktorsverkefninu vorið 2020.
  • Carina Fernandes vinnur að vöruþróun á afurðum úr Atlantshafsmakríl sem veiddur er við Ísland. Markmið verkefnisins er að byggja áfram á þeirri þekkingu sem hefur skapast með vinnslu makrílafurða á Íslandi til að þróa reyktar, þurrkaðar og niðursoðnar hágæðaafurðir. Verkefnið samanstendur af ítarlegum vinnslugreiningum og markaðsgreiningum fyrir nefndar afurðir til þess að tryggja að þær skili sér inn á viðeigandi markaði. Stefnt er að því að Carina ljúki verkefninu vorið 2022.
  • Stefán Þór Eysteinsson hefur unnið að rannsóknum á rauðátu, en rauðáta er ein meginfæða uppsjávarfiska í Norður-Atlantshafi. Tilgangur rannsóknanna er margþættur. Í fyrsta lagi er skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska könnuð og skoðað hvernig best er að meðhöndla afla, stýra vinnslunni og geyma afurðirnar þegar áta er í fiskinum. Í öðru lagi er kannað hvaða áhrif rauðáta hefur á vinnslu á mjöli og lýsi og loks eru eiginleikar átunnar skoðaðir með tilliti til þess hvort nýta megi hana sjálfa á einhvern hátt. Gert er ráð fyrir að Stefán ljúki doktorsverkefni sínu vorið 2020.
  • Guðrún S. Hilmarsdóttir hefur unnið að rannsóknum á hvernig megi endurhanna fiskimjöls- og lýsisferla þannig að unnt verði að hefja framleiðslu á fiskpróteinum meðal annars til manneldis. Farið er yfir mikilvægustu þrep framleiðslunnar, arðsemi metin ásamt möguleikum á vöruþróun. Efna- og eðliseiginleikar framleiðslunnar eru mældir bæði með hefðbundnum mæliaðferðum og með nýstárlegum litrófsmælingum. Nýr vinnslubúnaður er reyndur og framleiðsla úr ákveðnum hlutum hráefnisins aðskilin. Gert er ráð fyrir að doktorsverkefni Guðrúnar ljúki haustið 2020.
  • Nguyen Thi Hang vinnur að verkefni sem fjallar um gæðabreytingar í próteinum við fiskvinnslu. Aðalmarkmiðið er að rannsaka áhrif helstu vinnsluaðferða á próteingæðin s.s. við hitun, þurrkun, frystingu og frostgeymslu, fiskmjölsvinnslu og við vinnslu annarra afurða til manneldis. Megináhersla er lögð á áhrif helstu vinnsluaðferða á próteingæði við fiskmjölsframleiðslu og kannað hvernig breyta megi vinnsluferlinu til að auka gæðin. Áætlað er að Nguyen Thi Hang ljúki doktorsverkefninu síðari hluta árs 2021.

Mikilvæg verkefni sem geta haft mikil áhrif til framtíðar

Sigurjón segir að samstarfið við Síldarvinnsluna hvað varðar doktorsverkefnin hafi verið afar farsælt. „Þetta samstarf hefur verið leiðandi í að tengja saman háskólaumhverfið og atvinnugreinina. Það er ómetanlegt að eiga samstarf við fyrirtæki sem leggur mikla áherslu á að stuðla að framförum og um leið auka þau verðmæti sem unnt er að ná út úr hráefninu. Með samstarfi fræðimanna og fyrirtækisins hefur tekist að ná sífellt betri tökum á vinnslu á makríl en makríllinn sem veiðist hér við land er mjög erfitt hráefni. Makríllinn getur verið átumikill og er í bráðfitun, fitan fer úr 5-10% upp í 25-30% fituinnihald og vöðvar fisksins eru lausir og viðkvæmir. Þá er verið að leita leiða til að auka fjölbreytni við framleiðsla á fiskmjöli, finna nýja markaði og auka verðmæti þess. Á sviði mjölvinnslunnar er unnið að merkum rannsóknum í samstarfi við Síldarvinnsluna. Staðreyndin er sú að þetta eru allt spennandi og mikilvæg verkefni og niðurstöður þeirra geta haft mikil áhrif til framtíðar litið,“ segir Sigurjón.

Fréttir

Fyrirlestraröð um fiskveiðistjórnun og nýsköpun

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

FarFish verkefnið stendur fyrir röð fyrirlestra um fiskveiðistjórnun og nýsköpun (marine management and innovation) dagana 9-13 mars.

Í FarFish verkefninu er sjónum beint að veiðum fiskveiðiflota Evrópusambandsins á alþjóðlegum hafsvæðum og innan lögsögu þriðja heims ríkja sem gert hafa samninga um aðgang að fiskveiðiauðlindum sínum. Mikilvægur hluti í verkefninu snýr að kennslu og miðlun þekkingar til hagaðila, hvort sem er meðal útgerðarmanna í Evrópu eða fulltrúa strandríkja sem Evrópusambandið hefur samið við. Einn partur af þeirri kennslu og þekkingarmiðlun er í formi námskeiðs sem Háskólinn í Tromsö skipuleggur. Matís bíður þeim sem áhuga hafa á, að sitja einstaka fyrirlestra í námskeiðinu. Streymt verður frá fyrirlestrunum inn í kennslustofu á Matís og í framhaldi verða umræður sem stýrt er af starfsmönnum Matís sem taka þátt í FarFish verkefninu.

Streymi á fyrirlestrana má nálgast hér.

Eftirfarandi fyrirlestrar eru í boði:

Mánudagur 9. Mars

8:15-9:00 Welcome and introduction to the course

9:15-10:00 Fisheries management and international law

12:15-13:00 International legal framework related to fisheries management

13:15-14:00 Data flows between fleets and administrations

Þriðjudagur 10. Mars

8:15-9:00 Control in practice: Use of Vessel Monitoring System VMS / Automatic Identification System AIS

9:15-10:00 Marine Protected Areas MPAs/ Vulnerable Marine Ecosystems VMEs: what, how and why?

12:15-15:00 Fisheries economy

Miðvikudagur 11. Mars

8:15-10:00 Supply chains and value chain

Fimmtudagur 12. Mars

8:15-10:00 Information logistics and traceability

12:15-13:00 Quality and processing

13:15-14:00 Food safety

Föstudagur 13. Mars

8:15-10:00 Fishing vessel economics

Þeir sem áhuga hafa á að sækja einstaka fyrirlestra eru beðnir um að skrá sig minnst sólahring áður en fyrirlestur hefst, með því að senda tölvupóst á jonas@matis.is.

Fréttir

Vísindaleg gögn forsenda markaðskynningar á íslenskum sjávarafurðum

Íslenskt sjávarfang hefur lengi verið markaðssett þannig að áhersla hefur verið lögð á hreinleika og heilnæmi þess. Ekki nægir þó að fullyrða að vara sé heilnæm. Vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni í íslensku sjávarfangi eru lykilatriði til að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis. Útflutningur íslenskra matvæla er einnig háður því að unnt sé að sýna fram á að öryggi þeirra, með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum markaða.

Í nýlegri skýrslu Matís eru teknar saman niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs 2019. Vöktunin hófst árið 2003 fyrir tilstuðlan þáverandi Sjávarútvegsráðuneytis, núverandi Atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðneytisins, og sá Matís ohf. um að safna gögnum og útgáfu á skýrslum vegna þessarar kerfisbundnu vöktunar á tímabilinu 2003-2012. Undanfarin ár hefur skort fjármagn til að halda áfram vinnu við þetta vöktunarverkefni og því var gert hlé á þessari mikilvægu gagnasöfnun sem og útgáfu niðurstaðna á tímabilinu 2013-2016. Verkefnið hófst aftur í mars 2017 en vegna fjárskorts nær það nú eingöngu yfir vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs úr auðlindinni sem ætlað er til manneldis, en ekki fiskimjöl og lýsi fyrir fóður. Af sömu ástæðu voru ekki gerðar efnagreiningar á PAH, PBDE og PFC efnum í þetta sinn.

Almennt voru niðurstöðurnar sem fengust 2019 í samræmi við fyrri niðurstöður frá árunum 2003 til 2012 sem og 2017 og 2018. Niðurstöðurnar sýndu að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxín, PCB og varnarefni.

Vísindaleg gögn af þessu tagi frá óháðum rannsóknaraðila um styrk óæskilegra efna í sjávarfangi eru mjög mikilvæg í markaðskynningum á sjávarafurðum fyrir væntanlega kaupendur og styrkir allt markaðstarf fyrir íslenskar sjávarafurðir. Gögnin nýtast ennfremur til að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis sem og við áhættumat á matvælum.

Skýrsluna má nálgast hér.

Fréttir

Sjálfbær framleiðsla próteingjafa úr örþörungum

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Verkefnið Energy-2-Feed fór formlega af stað í Matís á Vínlandsleið í síðustu viku. Markmið verkefnisins er að þróa sjálfbæra prótein- og fitugjafa úr örþörgungum sem innihalda mikið magn af ómega-3 fitusýrum. Örþörungaræktunin notast við hreina orkugjafa og náttúrulegan koltvísýring.

Verkefnið Energy-2-Feed fór formlega af stað í Matís á Vínlandsleið í síðustu viku. Markmið verkefnisins er að þróa sjálfbæra prótein- og fitugjafa úr örþörgungum sem innihalda mikið magn af ómega-3 fitusýrum. Örþörungaræktunin notast við hreina orkugjafa og náttúrulegan koltvísýring.

E2F mun bjóða upp á fullkomlega sjálfbæra örþörungaræktun, en vinnslan fer fram í stýrðu umhverfi upp á Heillisheiði og býður þannig upp á stöðuga framleiðslu allt árið um kring. Framleiðslan mun nýtast evrópska fiskeldisiðnaðnum sem hefur fyrst og fremst þurft að reiða sig á innflutta og ósjálfbæra próteingjafa, t.d. Soja-baunir frá Suður-Ameríku.

Þátttakendur verkefnisins eru Matís, Siemens, Waitrose og Algaennovation. Matís leiðir verkefnið sem er styrkt af EIT Food.

Fréttir

Mikilvægi örveruflóru hafsins

Þann 5. febrúar síðastliðinn var gefin út sérstök stefnulýsing, eða vegvísir, fyrir rannsóknir á örveruflóru Atlantshafsins. AORA (Atlantic Ocean Research Alliance) stendur fyrir þessari útgáfu, en það eru samtök um hafrannsóknir í Atlantshafi sem Bandaríkin, Kanada og Evrópusambandið eru aðilar að.

Markmið AORA er að hlúa að heilbrigði og varðveislu Atlantshafs og jafnframt að velferð, farsæld og öryggi komandi kynslóða. AORA samstarfið er leitt af Fisheries and Oceans CanadaDirectorate General Research and Innovation hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og National Oceanic and Atmospheric Administration í Bandaríkjunum.

Í stefnulýsingu AORA segir að örverflóra hafsins gegni lykilhlutverki fyrir samfélag manna; fyrir heilsu, fæðu, iðnað og vistkerfi. Því sé mikilvægt að vísindasamfélagið, iðnaðurinn og stefnumótendur stilli saman strengi sína í því að hlúa að hafinu og rannsaka betur eiginleika örveruflórunnar og möguleg tækifæri sem hún hefur upp á að bjóða. Matís tók þátt í setja saman stefnulýsingu AORA.

Frekari upplýsingar um AORA samtökin má finna hér og sérstakt kynningarmyndband um vegvísinn má finna hér að neðan:

Fréttir

Alþjóðlegur dagur stúlkna og kvenna í vísindum

Alþjóðlegur dagur kvenna og stelpna í vísindum er í dag, 11. febrúar.

Sameinuðu þjóðirnar settu þennan dag á laggirnar til að vekja athygli á mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna og stelpna í vísindum, en núna er hún tæplega 30%. Deginum hefur verið fagnað árlega síðan 2016 til að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni.

Til hamingju með daginn!

Fréttir

Matís auglýsir eftir starfsfólki í Vestmannaeyjum og á Akureyri

Matís ohf. leitar að tveimur sérfræðingum til starfa, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Vestmannaeyjum. Starfið felur að mestu í sér vinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni á starfssviði Matís.

Þessar ráðningar eru í samræmi við stefnu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um eflingu starfsemi á landsbyggðinni. Um fullt starf er að ræða.
Starfssvið:

  • Efla samstarf Matís við atvinnulíf á sviði tækni og nýsköpunar.
  • Afla verkefna á sviði Matís í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu.
  • Setja upp og stýra rannsóknarverkefnum.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Starfsreynsla og þekking á sjávarútvegi og/eða matvælaframleiðslu.
  • Háskólagráða sem nýtist í starfi – framhaldsmenntun er kostur.
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
  • Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og tengslamyndun.
  • Færni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku

Umsóknarfrestur er til og með 17. febrúar n.k.

Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson, fagstjóri hjá Matís í síma 422 5000 eða tölvupósti jonas@matis.is

Fréttir

Meistaravörn í matvælafræði –Kaldhreinsun á olíu úr átu og uppsjávarfiskvinnslu

Jónas Baldursson, meistaranemi í matvælafræði, heldur opinn fyrirlestur í tengslum við meistaravörn sína á verkefninu „Kaldhreinsun á olíu úr átu og uppsjávarfiskvinnslu. Áhrif hitastigs á kaldhreinsun á verðmætum fitusýrum úr hliðarstraumum fiskmjöls og lýsisvinnslu“.

Fyrirlesturinn fer fram þriðjudaginn 30. janúar kl. 15:30 í stofu 312 hjá Matís að Vínlandsleið 14. Allir áhugasamir velkomnir!

Fréttir

Hvernig bragðast lax sem étur skordýr?

Í dag fer fram formleg smökkun á eldislaxi í húsakynnum Matís ohf. Það sem gerir þennan lax sérstaklega áhugaverðan er að hann var alinn á fóðurblöndu sem inniheldur skordýr.

Í verkefninu Metamorphosis, sem er leitt af Birgi Erni Smárasyni hjá Matís, er unnið að því að breyta lífrænum úrgangi í verðmætt hráefni til að nýta í fiskeldisfóður. Skortur á próteinríku fóðri hefur kallað eftir nýjum lausnum til að mæta vaxandi eftirspurn iðnaðarins. Yfir helmingur allra fisktegunda er nú ræktaður með fiskeldi og er líklegt að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu 15 árum.

Rannsóknir hafa sýnt að skordýr henta mjög vel í fóðurframleiðslu fyrir fisk, en margar skordýrategundir hafa þann eiginleika að geta breytt lífrænum úrgangi í fæðu sem er rík af fitum og próteinum. Verkefnið skoðar sérstaklega þróun á nýju fóðurhráefni sem unnið er úr skordýrum sem hægt væri að nýta til að bregðast við auknum próteinskorti í Evrópu með sjálfbærum hætti.

Nú fer þessu rannsóknarverkefni senn að ljúka og það eina sem er í raun eftir er athuga hvernig eldislax sem hefur verið fóðraður með þessari nýstárlegu fóðurblöndu smakkast.

Verkefnið er styrkt af EIT Food .

IS