Tengiliður
Jónas Rúnar Viðarsson
Áherslusviðsstjóri
jonas@matis.is
North Atlantic Seafood Forum fer fram dagana 8.-10. júní og er ljóst að ráðstefnan verður einn merkilegasti netviðburður í sjávarútvegi og fiskeldi ársins 2021. Alls verða fluttir yfir 160 fyrirlestrar í 18 málstofum, og er búist við yfir 2000 þátttakendum víðsvegar að úr heiminum og úr hinum ýmsu hlekkjum í virðiskeðju sjávarafurða. Láttu ekki þennan viðburð fram hjá þér fara!
Í mars ár hvert, síðastliðin 15 ár, hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst til Bergen til að sitja ráðstefnu North Atlantic Seafood Forum (NASF). Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Sökum COVID hefur nú verið ákveðið að NASF21 verði netviðburður, sem gefur tækifæri til að auka fjölda þátttakenda og lækka ráðstefnugjaldið verulega.
Ráðstefnan fer fram dagana 8.-10. júní og er búist við að þátttakendur verði a.m.k. 2.000 talsins. Dagskrá ráðstefnunnar er sérlega spennandi að þessu sinni, en sjá má hana hér: Program for NASF 2021.
Ef stiklað er á stóru yfir dagskrána, þá vekja eftirfarandi málstofur sérstaka athygli:
- Áhrif laxalúsar á fiskeldi
- Fiskeldisfóður og þróun þess
- Framboð og eftirspurn í fiskeldi
- Nýjar framleiðsluaðferðir í fiskeldi
- Framboð og markaðir fyrir hvítfisk
- Konur í sjávarútvegi
- Framboð og eftirspurn í rækju
- Fjárfestingar í sjávarútvegi
- Framboð og markaðir uppsjávartegunda
- Umfjöllun um lykilmarkaði fyrir sjávarafurðir í umsjón Norwegian Seafood Council
- Sjálfbærni og sjávarafurðir
Íslensk fyrirtæki og einstaklingar skipa nokkuð stóran sess í dagskránni. Þar er fyrst að nefna að Valka og Marel eru meðal helstu styrktaraðila ráðstefnunnar. Þá verða eftirtaldir Íslendingar eða aðilar tengdir Íslandi með á mælendaskrá:
- Jón Birgir Gunnarson hjá Völku mun fjalla um flökun fyrir dauðastirðnun
- Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir hjá Marel mun fjalla um stafræna byltingu í virðiskeðju fiskeldis
- Bjorn Hembre hjá Arnarlax mun fjalla um laxeldi á Íslandi
- Sturlaugur Haraldsson hjá Norebo mun fjalla um framboð á hvítfiski frá Rússlandi
- Þór Sigfússon hjá Sjávarklasanum mun fjalla um nýtingu aukahráefna og velta upp spurningunni hvort 100% nýting sé möguleg
- Guðmundur Gíslason mun koma fram fyrir hönd Fiskeldis Austfjarða (Ice Fish Farm), Bjorn Hamre fyrir hönd Arnarlax (Icelandic Salmon) og Stein Ove Tveiten fyrir hönd Arctic Fish í málstofu fjárfesta.
- Jóhannes Pálsson mun fjalla um áhrif Brexit á uppsjávargeirann
- Guðlaugur Þór Þórðarson mun fjalla um sjálfbærni í sjávarútvegi
Þátttaka á NASF síðustu ára hefur ekki verið á allra færi þar sem skráningargjaldið eitt og sér hefur verið nálægt 200 þús. kr. auk þess sem ferðir og uppihald í Bergen kostar sitt. Engu að síður hafa yfir 800 manns séð ástæðu til að sækja ráðstefnuna síðustu ár. Þar sem nú verður um netviðburð að ræða er unnt að upplifa NASF fyrir umtalsvert lægri kostnað. Ráðstefnugjaldið er um 43.000 ISK (290 EUR) á þátttakanda, en svo er magnafsláttur í boði fyrir fyrirtæki sem skrá fleiri þátttakendur.
Nú er til dæmis boðið upp á tilboð svo ef þrír þátttakendur eru skráðir fer verðið niður í 150 EUR/pers.
Allir fyrirlestrar verða aðgengilegir í a.m.k. mánuð eftir að ráðstefnunni lýkur og því er vel þess virði að skrá sig, þó svo að þátttakendur hafi ekki tækifæri til að sitja ráðstefnuna í „rauntíma“.
Einn mikilvægasti hluti þess að taka þátt í NASF hefur ávallt verið það tækifæri sem felst í því að safna saman helstu áhrifavöldum í sjávarútvegi á einn stað til að stofna til og viðhalda samstarfi. Góð og trygg viðskiptasambönd byggja jafnan á persónulegum samskiptum og þar hefur NASF gengt mikilvægu hlutverki. Í þetta sinn verður leitast við að mæta þeim þörfum með því að bjóða upp á að tengja aðila saman á örfundum. Mismunandi „pakkar“ eru í boði þegar kemur að slíkum tengingum, en sá „pakki“ sem líklegast er að flestir velji sem áhuga hafa á að nýta þetta tækifæri kostar 500 EUR. Fyrir þann „pakka“ fá fyrirtæki sitt nafn og kynningu upp á „vegginn“ og þá geta allir almennir þátttakendur bókað fund með því fyrirtæki.
Þeir sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar um NASF21 er bent á að hafa samband við Jónas R. Viðarsson jonas@matis.is eða í síma 4225107.