Vísindatímaritið Climatic Change birti á dögunum grein sem lýsir kerfisbundinni aðferð og leiðsögn um það hvernig sjávarútvegur og fiskeldi geta aðlagað starfsemi sína að áhrifum loftslagsbreytinga. Starfsmenn Matís, þau Ragnhildur Friðriksdóttir og Jónas R. Viðarsson, fóru fyrir þeirri vinnu sem liggur að baki aðferðafræðinni sem lýst er í greininni, en sú rannsóknarvinna átti sér stað innan verkefnisins ClimeFish sem lauk á síðasta ári.
Samstarfsverkefninu ClimeFish, sem styrkt var af Rannsóknaáætlun Evrópu (Horizon 2020), lauk á síðasta ári en niðurstöður og afurðir verkefnisins halda þó áfram að birtast í vísindatímaritum víða um heim. Ein slík var birt í vísindatímaritinu Climatic Change á dögunum, tímariti sem sérhæfir sig í rannsóknum og lýsingum á loftslagsbreytingum, orsökum þeirra, afleiðingum og samverkun þess á milli. Umrædd grein fjallar um mikilvægi þess að sjávarútvegur hugi að aðgerðum til að aðlaga starfsemi sína að breyttu umhverfi vegna loftslagsbreytinga og þeim áskorunum og tækifærum sem í slíkum breytingum felast. Gefnar eru leiðbeiningar fyrir þriggja fasa ferli sem miðar að því að 1) meta helstu áhættur og tækifæri sem starfsemin stendur frammi fyrir út frá framtíðarsviðsmyndum, 2) greina aðlögunarþörf, aðlögunargetu og viðeigandi aðlögunaraðgerðir, og 3) setja upp og fjármagna aðlögunaráætlun. Þessi aðferðafræði var prófuð og sannreynd í sjö evrópskum tilviksrannsóknum (e. case studies) innan fiskeldis og sjávarútvegs í ClimeFish verkefninu, en það var Matís sem leiddi þá vinnu, sem og þróun og útfærslu aðferðafræðinnar.
Loftslagsbreytingar hafa þegar haft áhrif á ýmsa þætti sem snerta á starfsemi sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja og rannsóknir benda til þess að slíkar breytingar munu aukast í náinni framtíð. Þó slíkar breytingar komi til með að vera misjafnar í eðli sínu og umfangi eftir heimshlutum, starfsemi og stöðu í virðiskeðjunni, er ljóst er að þær muni geta haft umtalsverð áhrif á starfsemi sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja, bæði neikvæð og jákvæð. Dæmi um slíkar breytingar innan sjávarútvegs eru t.a.m. tilfærsla mikilvægra nytjastofna, s.s. vegna breytingar í stofnstærð, útbreiðslusvæði eða farmynstri, hættulegri og krefjandi aðstæður úti á hafi, auknar sveiflur í markaðsverði, sem og aukið flækjustig og spenna milli strandríkja og flota þegar kemur að kvótaskiptingu deilistofna. Allt eru þetta dæmi um áhrif sem þegar eru merkjanleg í hér í Norðvestur Atlantshafi og fela í sér bæði áskoranir og tækifæri, en geta lagst misjafnlega á svæði og samfélög. Dæmi um áhrif loftslagsbreytinga á starfsemi fiskeldis er t.a.m. samdráttur eða ný tækifæri í framleiðslu, tjón á innviðum vegna ofsaveðurs, sveiflur í markaðsverði, framleiðslutap vegna sjúkdóma, eitraðra þörunga og sníkjudýra, skert aðgengi að fersku vatni og fóðri og skert framleiðni vegna breytinga í eldisumhverfi.
Á meðan að langflest Evrópuríki hafa sett fram aðlögunaráætlanir vegna loftslagsbreytinga er þessi vinna skammt á veg komin hér á landi og því lítil sem engin yfirsýn til staðar yfir mögulegt loftslagstengt tjón eða aðlögunarþörf innan íslensks sjávarútvegs næstu ár eða áratugi. Hjá Matís standa vonir til þess að fjármagn náist til að nýta þá aðferðafræði sem þróuð var innan ClimeFish verkefnisins og yfirfæra hana á íslenskan sjávarútveg og fiskeldi. Með því væri hægt að meta aðlögunarþörf og leggja grunninn að aðlögunaráætlun fyrir eina af mikilvægustu atvinnugreinum Íslendinga. Slík vinna myndi gefa af sér mikilvægar niðurstöður fyrir umræddar atvinnugreinar og íslenskt samfélag, m.a. í gegnum kortlagningu á áhrifum loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg og fiskeldi út frá framtíðarsviðsmyndum, mat á helstu áhættum og tækifærum út frá umhverfis-, efnahags- og félagslegum þáttum, mat á tjónnæmi greinarinnar og mismunandi starfsemi innan hennar, auk upplýsinga um aðgengilegar og árangursríkar aðlögunaraðgerðir gegn viðkvæmustu þáttum starfseminnar. Ragnhildur mun standa fyrir málstofu um bein og óbein áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg á Sjávarútvegsráðstefnunni, sem haldin verður 11.- 12. nóvember á þessu ári. Hún hefur fengið til liðs við sig málsmetandi menn og konur frá iðnaðinum, íslenskri stjórnsýslu og vísindum og er því um gott tækifæri að ræða til að fræðast um þörfina fyrir aðlögun að loftslagsbreytingum innan íslensks sjávarútvegs og hefja umræðuna fyrir alvöru hér á landi.
Hér má finna umrædda grein í tímaritinu Climate Change.