Fréttir

Ráðstefna í ríki Vatnajökuls – Matís með erindi

Föstudaginn 7. og laugardaginn 8. nóvember verður haldin ráðstefna á Höfn og á Smyrlabjörgum um atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökuls.

Ráðstefnan hefst með ávarpi ferðamálastjóra Ólafar Ýrar Atladóttur. Á föstudagskvöldinu verður uppskeruhátíð ferðaþjónustunna haldin á Smyrlabjörgum og hefst með borðhaldi kl. 20.30.

Mörg áhugaverð erindi verða á dagskrá og eru fólk hvatt til þess að mæta. Fyrirlestur Guðmundar H. Gunnarssonar verkefnastjóra hjá Matís má nálgast hér.

Eins og sést á dagskránni (sjá hér) hefst ráðstefnan á föstudegi í Höfn en um kvöldið flyst ráðstefnan yfir á Hótel Smyrlabjörg þar sem haldin verður Uppskeruhátíð Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélags A-Skaftafellssýslu. Dagskrá laugardagsins mun einnig fara fram á Smyrlabjörgum.

Frítt er á ráðstefnuna en verð á uppskeruhátíðina er 4.900 kr.

Tilkynna þarf um þátttöku á ráðstefnuna og uppskeruhátíðina hjá Söndru Björgu í netfang sbs@hi.is eða í síma 470-8044 í síðasta lagi mánudaginn 3. nóvember 2008.

Mögulegt er að gista á Smyrlabjörgum en panta þarf herbergi þar, sími 478-1074.

Fréttir

Matís opnar Matarsmiðjuna á Höfn í Hornafirði

Síðastliðinn miðvikudag opnaði Matís matarsmiðju á Höfn í Hornafirði. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra opnaði smiðjuna að viðstöddu fjölmenni en vel á annað hundruð manns voru mætt.

Í kjölfar formlegrar opnunar hlustuðu gestir á nokkra stutta fyrirlestra frá starfsfólki Matís um leið og boðið var upp á veitingar framleiddar úr staðbundnum hráefnum t.d. saltfisk, folald, reykta önd, ís ofl. en Matís hefur komið að þróun, hönnun og markaðssetningu á þessum matvælum.

Matarsmiðjan er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni.

Á myndinni má sjá þegar Einar K. Guðfinnsson klippir á borða við formlega opnun en til verksins notaði ráðherra sérstök humarskæri. Með honum á myndinni eru Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn og Guðmundur M. Gunnarsson verkefnastjóri hjá Matís á Höfn.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Matís, www.matis.is.

Fyrirlestur dr. Harðar G. Kristinssonar frá opnuninni.

Fréttir

Aukin arðsemi veiða og vinnslu – FisHmark: íslenskur hugbúnaður

Nú er tilbúin frumgerð að hugbúnaði fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur til hagkvæmasta fyrirkomulagið í veiðum og vinnslu á fiski, getur aukið virði sjávarfangs og um leið stuðlað að auknum hagnaði fyrirtækja.

Hvernig er unnt að stjórna veiðum og vinnslu þannig að sem mest hagkvæmni og arðsemi náist út úr starfseminni í heild? Ítarlegt viðtal birtist fyrir stuttu í Viðskipablaðinu við Svein Margeirsson, deildarstjóra hjá Matís, um FisHmark hugbúnaðinn sem er algerlega íslenskur. Viðtalið má sjá hér.

Fréttir

Lokun á skiptiborði Matís dagan 4. og 5. nóvember nk.

Skiptiborð Matís verður lokað 4. og 5. nóvember vegna haustferðar starfsmanna og opnun vöruþróunarseturs á Höfn í Hörnafirði.

Beinn sími örverudeildar er 422 5116 og beinn sími efnadeildar er 422 5154. Önnur bein símanúmer starfsmanna er að finna á heimasíðu okkar www.matis.is.

Afgreiðslan í Borgartúni 21 verður einnig lokuð þessa daga en opið verður á Skúlagötu 4 og að Gylfaflöt 5.

Fréttir

Grandskoðum þann gula frá miðum í maga

Á síðastliðnum árum hefur krafa neytenda um matvöru sem framleidd er á vistvænan hátt aukist til muna og erlendir kaupendur á íslenskum fiski leggja því mikil áherslu á gæði og rekjanleika í fiskvinnslu ásamt jákvæðri ímynd um hollan og ómengaðan fisk.

Markmið verkefnisins er að safna ítarlegri upplýsingum en áður hefur verið gert um eiginleika þorsks í gegnum alla virðiskeðjuna eða allt frá miðum og í maga með nákvæman rekjanleika að leiðarljósi.

Í virðiskeðju íslenskra sjávarafurða eru gerðar fjölmargar mælingar. Margar þessara mælinga eru framkvæmdar af opinberum aðilum í misjöfnum tilgangi. Þetta verkefni er samstarf Matís, Hafrannsóknarstofnunar, Fiskistofu, fiskvinnslu Guðmundar Runólfssonar og HB Granda. Með þessu samstarfi er hægt að ná mikilli hagkvæmni með því að nýta veiði- , eftirlits- og rannsóknarferðir til sýnatöku og mælinga. Efna- og vinnslumælingar eru á ábyrgð Matís.

Verkefnið er mjög fjölþætt og er meðal annars ætlað að svara neðangreindum spurningum:

  1. Er samband á milli holdafars þorsks og fituinnihalds lifrar?
  2. Eru tengsl á milli fituinnihalds lifrar og lifrarstuðuls?
  3. Hefur fituinnihald lifrar áhrif á nýtingu þorsks í vinnslu ?
  4. Hvernig hefur kyn, aldur og kynþroski áhrif á vinnslueiginleika eins og flakanýtingu, los o.fl og hvernig má nýta slíkar upplýsingar í vinnsluspám ?
  5. Getur þorskur verið uppspretta efna sem skortir í fæðu Íslendinga ?
  6. Er magn efna ( næringarefna og óæskilegra efna) mismunandi milli veiðisvæða?
  7. Er árstíðabundinn munur á magni efna?
  8. Er munur á magni óæskilegra efna í unnum fiski og fiski sem kemur beint úr sjó ?
  9. Hvernig eru tengsl á milli magns óæskilegra efna í þorski og aldurs, kyns og búsvæðis hans ?

Á fyrsta verkefnisárinu var þorski safnað úr sjö veiðiferðum. Teknir voru þrjátíu þorskar í hvert skiptið, þeim fylgt eftir í gegn um vinnslu og í efnamælingar, ítarlegar upplýsingar um hann voru skrásettar á öllum stigum s.s. veiðistaður, stærð, aldur, þyngd lifrar, nýting, ormar o.s.frv. Auk þess eru vatnsheldni og vatn mælt í öllum sýnum og snefilefni og PCB efni í völdum sýnum. Í tveimur veiðiferðum (Hafróröllum) voru ennfremur tekin samtals 400 lifrarsýni, í þeim hefur verið mæld fita og vatn en þessar upplýsingar á m.a. að nýta til að rannsaka samband á milli holdafars þorsks og fituinnihalds lifrar.

Sýnatökur tókust vel, en það hefur reynst nauðsynlegt að fagmenn taki sýnin og framkvæmi mælingar um borð og í vinnslunni til þess að tryggja gæði þeirra gagna sem unnið er með og minnka óvissu í mælingum.

Eftir fyrsta árið er ótímabært að draga ályktanir af þeim niðurstöðum sem liggja fyrir. Gangaúrvinnslu er ekki lokið, en hún er flókin þar sem mikill fjöldi breyta kemur inn.  Mikilvægt er að nægilegur fjöldi mælinga liggi fyrir áður en ályktanir eru dregnar.  Þess má þó til gamans geta að niðurstöður benda til þess að ákveðinn munur geti verið á kynjunum þegar nýting, ormar og los er skoðað.  Virðast t.d. hrygnurnar innihalda meiri orma en hængar, en hængar mælast með meira los að meðaltali. Það verður spennandi að sjá hvort gagnaúrvinnslan sýni fram á að þetta standist eða ekki.
Verkefnisstjóri er Ásta M. Ásmundsdóttir efnafræðingur hjá Matís ohf á Akureyri.

Sjá nánar á www.avs.is.

Skýrslur

A brief summary of processing fish proteins

Útgefið:

01/11/2008

Höfundar:

Arnljótur B. Bergsson, Margrét Geirsdóttir, Rósa Jónsdóttir, Þóra Valsdóttir, Hörður G. Kristinsson, Guðjón Þorkelsson

Styrkt af:

Tækniþróunarsjóður Rannís

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

A brief summary of processing fish proteins

Oxun er áríðandi viðfangsefni við proteinvinnslu. Skýrslan er samantekt með vali á vinnslubreytum og eiginleikum fiskpróteina og í lok skýrslunnar má finna tillögur varðandi áhrif vinnslubreyta á eiginleika próteinanna. Í skýrslunni má finna drög að áhættuþáttagreiningu með gæðaþáttum prótein-, ísolat- og hýdrólýsatvinnslu.

Oxidation is high profile topic in protein processing. This report is a summary on the influence of process and a selection of process parameters and properties, quality and yield of fish proteins, isolates and hydrolysates and it includes suggestions regarding the effect of processing parameters on these protein properties. The report lists up a draft for hazard analysis of quality parameters in protein, isolate, and hydrolysate processing.

Skýrslan er lokuð í 2 ár / Report closed for 2 years

Skoða skýrslu

Skýrslur

Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum; söfnun og greining sýna / Fishing, grading, pre-processing, processing and marketing of mackerel products catches by pelagic vessels; collecting and analysing samples.

Útgefið:

01/11/2008

Höfundar:

Ragnheiður Sveinþórsdóttir

Styrkt af:

AVS

Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum; söfnun og greining sýna / Fishing, grading, pre-processing, processing and marketing of mackerel products catches by pelagic vessels; collecting and analysing samples.

Markmiðið með þessu verkefni er að kanna veiðar uppsjávarfiskiskipa á makríl á Íslandsmiðum, gera formmælingar á fiskinum, koma með lausnir hvernig flokka megi makrílinn frá öðrum fiski um borð og hvernig vinnslu skuli háttað í frystiskipum. Greindur verður tækjakostur sem nauðsynlegur er við vinnsluna, einnig verða markaðir kannaðir fyrir makríl veiddan á Íslandsmiðum eftir árstímum. Í þessum hluta var söfnun og greining makrílsýna sem safnað var sumarið 2008 gerð skil. Kynntar eru fyrstu niðurstöður verkefnisins sem snúa að stærð, þyngd, hauslengd, hæð og breidd, kyni, fitu-, vatns- og þurrefnisinnihaldi sýnanna.

The objective of this project is to study mackerel fishing on Icelandic fishing grounds, perform geometrical measurements on the fish, find the best solution for grading the mackerel by size and species on board and how to process it in freezer vessels. Part of this will be to analyze what kind of technology is necessary for processing the mackerel. Market analysis will be carried out for mackerel caught on Icelandic fishing ground during the summer. In this report results from sampling during the summer 2008 are presented.

Skoða skýrslu

Fréttir

Aukin verðmætasköpun úr vannýttu sjávarfangi – Umfjöllun í fréttablaðinu

Matís og MPF Inc. skrifuðu á dögunum undir samstarfssamning milli fyrirtækjanna. Samningurinn felur í sér að fyrirtækin vinni saman að sameiginlegum rannsóknum á þróun surimi úr vannýttum tegundum eins og kolmunna og loðnu. Grein um þetta birtist í Fréttablaðinu og má finna hér.

Surimi er fiskpróteinmassi sem unnin hefur verið úr fiski með ýmsum aðferðum, og er afar vinsæl vara þessa dagana. Surimi er notað í ýmsar afurðir, eins og t.d. krabbakjötslíki sem mikið er notað í sushi. Markaður fyrir surimiafurðir hefur vaxið mjög ört að undanförnu og er reiknað með að eftirspurn á þessu ári sé um 600 þúsund tonn á meðan heimsframleiðslan sé eingöngu um 480 þúsund tonn. Í ljósi þessa aðstæðna hefur verð á surimi tvöfaldast á einu ári. Matís og MPF sjá mikil tækifæri fyrir surimiframleiðslu á Íslandi, sérstaklega úr tegundum sem eru vannýttar til manneldis.

Það þarf hinsvegar að yfirstíga margar hindranir til að framleiða gæða surimi úr tegundum eins og kolmunna og loðnu. Samstarfssamningurinn felur í sér sameiginilegar rannsóknir sem taka á þessum hindrunum, eins og t.d. vinnsluaðferðum til að minnka þránunarvandamál í lokaafurð ásamt hámörkun á geljunareiginleikum vörunnar.  Matís hefur áralanga reynslu á meðhöndlun og vinnslu sjávarfangs, sem nýtist mjög vel í þessu verkefni, á meðan MPF hefur mikla reynslu á þróun og iðnaðarframleiðslu próteinafurða úr ýmsum fisktegundum.  Það er von beggja fyrirtækjanna að á Íslandi rísi arðbær surimivinnsla innan fárra ára.

Nýting vannýttra tegunda í arðbærar vörur, eins og surimi, er mjög mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg.  Í ljósi mikils skorts á þessum vörum þá er markaðurinn mjög opinn fyrir notkun nýrra tegunda í surimi.  Nú þarf að leggja mikla vinnu í nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi og fá meira fyrir okkar góða hráefni.  Þessi samningur á eftir að leggja mikið af mörkunum hér “ segir Dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri hjá Matís

Nánari upplýsingar veitir: Hörður í síma 422-5063 / 858-5063.

Fréttir

Lyktina burt

Notkun ósons við þurrkun á fiski minnkar verulega lykt frá þurrkverksmiðjum, en hjá Matís er unnið að því að gera tilraunir með notkun ósons í samstarfi við Laugafisk á Akranesi.

Markmið verkefnisins er að minnka lykt við framleiðslu þurrkaðra afurða úr bolfiskvinnslu með aukinni stýringu á þurrkferlinu. Vegna aukinna krafna um lyktarminni framleiðslu er nauðsynlegt að vinna að lausnum til úrbóta fyrir framleiðslu á þurrkuðum afurðum úr aukahráefni.

Ýmsar lausnir og hreinsibúnaður geta dregið úr lykt sem myndast við hausaþurrkun, m.a. notkun á ósoni. Óson er mjög hvarfgjarnt efni og oxar allt sem það kemst í snertingu við. Því var brýnt að skoða áhrif ósons á umhverfi og afurðir. Ósonið drepur örverur, það eyðist fljótt og skilur ekki eftir neinar leifar eða aukabragð, líkt og klór.

Keyptur hefur verið búnaður til framleiðslu á ósoni, og hann notaður við rannsóknir í þurrklefa Matís á lyktarmyndun við þurrkun þorskhausa. Fyrstu niðurstöður sýndu að með því að dæla ósoni í þurrklefann minnkaði lyktarmyndun af völdum niðurbrotsefna umtalsvert.

Lyktarefni graf

Línuritið sýnir styrk lyktarefna í þurrklefa Matís, fyrir og eftir meðhöndlun með ósoni. Notaður var gasskynjari (FreshSence II) til greiningar á lyktarefnum. Helstu lyktarefnin sem búnaðurinn skynjar eru kolmónoxíð (CO), ammoníak (NH3) og brennisteinsdíoxíð (SO2).

Á næstunni er ætlunin að gera tilraunir með ósonbúnaðinn í sérsmíðuðum tilraunaklefa hjá Laugafisk á Akranesi. Þurrklofti verður safnað í sérstakan gám sem staðsettur er ofan á þurrklefanum og það meðhöndlað með ósoni. Áhrif ósons á gæði afurða verða einnig skoðuð.

Fréttir

Næringargildi og öryggi byggs til manneldis

Matís ohf. og Landbúnaðarháskóli Íslands hafa leitað leiða til að nýta íslenskt bygg til manneldis. Það er Framleiðnisjóður landbúnaðarins sem hefur styrkt þetta starf. Niðurstöðurnar verða kynntar á málþingi í húsi Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti 31. október nk.

Prófanir hafa verið gerðar á framleiðslu byggbrauða, byggmalts og bjórs. Bygg úr ræktunartilraunum Landbúnaðarháskólans og frá bændum var rannsakað með tilliti til næringargildis og öryggis til manneldis. Góður árangur náðist við framleiðslu byggbrauða og tókst að framleiða brauð með allt að 40% af byggmjöli á móti hveiti. Framleidd voru 600 kg af malti úr íslensku byggi og var maltið síðan notað til að framleiða bjór. Þeir sem bragðað hafa á bjórnum eru sammála um að hann sé ágætur og vel hafi tekist til í þessari tilraun. Mælingar á efnainnihaldi íslenska byggsins benda til að það henti til manneldis. Ýmsir möguleikar eru á notkun byggs og byggmjöls í matvælaiðnaði. Verðhækkanir á innfluttri mjölvöru gætu stuðlað að því að gera íslenskt bygg samkeppnishæfara en áður.

Miklar framfarir hafa orðið í kynbótum og ræktun byggs hér á landi. Byggið hefur fyrst og fremst verið nýtt sem skepnufóður en áhugi á nýtingu þess til manneldis hefur farið vaxandi. Það er ekki síst vegna þess að meira er af trefjaefnum í byggi en hveiti. Frá manneldissjónarmiði er mikilvægt að auka magn trefjaefna í fæði Íslendinga. Það er sérstaklega áhugavert að í bygginu eru vatnsleysanleg trefjaefni sem kallast beta-glúkanar. Þessi trefjaefni geta lækkað kólesteról í blóði og haft dempandi áhrif á blóðsykur. Hægt er að auka hollustu brauðvara með því að nota að hluta til bygg í staðinn fyrir hveiti. Það er því hægt að mæla með því að bökunariðnaðurinn fari að nota bygg í framleiðslu sína.

Staður: Hús Landbúnaðarháskóla Íslands, Keldnaholti, efstu hæð

Tími: Föstudagurinn 31. október 2008, kl 14-16.

Fundarstjóri: Áslaug Helgadóttir

Dagskrá:

14:00 – 14:20Bygg til manneldis. – Næringargildi og öryggi (Ólafur Reykdal, Matís)
14:20 – 14:40Framleiðsla á íslensku bygg (Jónatan Hermannsson, LbhÍ)
14:40 – 14:55Brauðvörur úr byggi (Aðalheiður Ólafsdóttir, Matís)
14:55 – 15:10Íslenskt byggmalt til bjórgerðar (Jón Guðmundsson, plöntulífeðlisfræðingur, LbhÍ)
15:10 – 15:25Íslenski bjórinn (Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar)
15:25 – 16:00Umræður
 Veitingar: Bjórinn og brauðið.
IS