Fréttir

Perlan Vestfirðir 2006

Nú um helgina verður sýningin Perlan Vestfirðir í Perlunni og er aðgangur ókeypis og öllum heimill kl. 11 -17 laugardag og sunnudag. Meira en 100 fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum taka þátt í sýningunni og er markmið hennar að kynna allt það helsta sem Vestfirðir hafa upp á að bjóða á sviði ferðaþjónustu, atvinnulífs og mannlífs almennt.  Rf er á meðal þeirra sem kynna starfsemi sína á Vestfjörðum.

Það er Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem stendur að sýningunni í samvinnu við Markaðsstofu Vestfjarða og er þetta í annað sinn sem sýningin er haldin í Reykjavík, en sú fyrsta var haldin árið 2003.

Rf stundar ýmsar rannsóknir á Vestfjörðum, einkum á sviði þorskeldis, í samvinnu við fyrirtæki í fjórðungnum. Sérstök athygli er hér vakin á því að dr. Þorleifur Ágústson, fiskalífeðlisfræðingur, mun halda erindi kl. 14:30 á sunnudag.

DAGSKRÁ:

Laugardagur 5. maí

Á sviði

11:00  Þjóðlagatónlist frá Þingeyri:  Raivo, Krista og Uku Sildoja frá Eistlandi koma fram.

12:00  Gísli Súrsson:  Elfar Logi Hannesson flytur stytta útgáfu af einleiknum.

13:00  Jón Kr. Ólafsson og Hljómsveit Gunnars Þórðarsonar flytja nokkur lög.

14:00  Harðfisksmökkun:  Þjóðþekktir einstaklingar smakka og dæma vestfirskan harðfisk.

15:00 Palíetturnar frá Bolungarvík:  Heitustu deitin á Vestfjörðum, Soffía Vagnsdóttir, Pálína Vagnsdóttir og Íris Sveinsdóttir flytja frumsamda tónlist með undirleik Zbegniew Jarenko og Hauks Vagnssonar.

15:30  Gísli Súrsson:  Elfar Logi Hannesson flytur stytta útgáfu af einleiknum.

16:00  Heiða Ólafs af Ströndum syngur nokkur lög.

Í kjallara

 12:30  Sögusýning, hrútaþukl og furðuleikar:  Jón Jónsson, þjóðfræðingur og  frá Sauðfjársetri á Ströndum.

13:30  Sumarháskóli á Hrafnseyri:  Dr. Peter Weiss, Háskólasetur Vestfjarða

14:30  Refir á Hornströndum:  Ester Unnsteinsdóttir, líffræðingur,  flytur fyrirlestur með skyggnumyndum.

15:30  Kukl og kæti:  Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Galdrasýningar á Ströndum.

16:30  Vestfirðir – Paradís ferðamanna:  Dorothee Lubecki, ferðamálafulltrúi Vestfjarða.


Sunnudagur 7. maí

Á sviði

 11:30  Þjóðlagatónlist frá Þingeyri:  Raivo, Krista og Uku Sildoja frá Eistlandi koma fram.

 12:00  Gísli Súrsson:  Elfar Logi Hannesson flytur stytta útgáfu af einleiknum.

 13:00  Farfuglarnir:  Hljómsveit skipuð Arnfirðingum leikur tónlist eftir arnfirska höfunda.

 13:30  Jón Sigurður Eyjólfsson, trúbador frá Bíldudal, flytur lög við ljóð vestfirskra skálda við undirleik Farfuglanna.

 14:30  Vagnssystkin frá Bolungarvík ásamt Zbegniew Jarenko

 16:00  Gísli Súrsson:  Elfar Logi Hannesson flytur stytta útgáfu af einleiknum.

Í kjallara

12:30  Draugar og tröll og ósköpin öll:  Jón Jónsson, þjóðfræðingur, frá Þjóðtrúarstofu á Ströndum.

13:30  Ferðamöguleikar á Vestfjörðum:  Guðmundur Eyþórsson frá Vesturferðum kynnir.

14:30  Rannsóknir á þorskeldi:  Dr. Þorleifur Ágústsson frá Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins.

15:30  Víkingar á Vestfjörðum:  Dorothee Lubecki, ferðamálafulltrúi Vestfjarða, kynnir Gísla sögu verkefni.

Fréttir

Skýrsla um framgang norræns verkefnis um öryggi fiskafurða

Árið 2004 var ákveðið að setja á fót upplýsinga- og tengslanet varðandi öryggi sjávarafurða á Norðurlöndum og var markmiðið að auka samræmi í norrænum gögnum um efnainnihald í sjávarfangi. Verkefnið er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni (NSK og NEF) og Rf, sem jafnframt leiðir verkefnið. Í vikunni kom út framvinduskýrsla í verkefninu.

Skýrslan greinir frá niðurstöðum seinni vinnufundar í verkefninu, sem haldinn var í Kaupmannahöfn 21 apríl 2006, en í verkefninu hefur verið þróuð sameignleg norræn vefsíða (www.seafoodnet.info) þar sem safnað er saman ýmsum krækjum sem innihalda upplýsingar um efnainnihald sjávarafurða, bæði óæskileg efni og næringarefni. Ísland hefur séð um að þróa vefsíðuna og sér um að viðhalda henni, en hvert land ber ábyrgð á sínum upplýsingum og á uppfærslu þeirra. Lesa skýrslu

Helstu umræðuefnin á fundinum í Kaupmannahöfn voru:

 • Hvernig heimsasíðan hafði verið kynnt í hverju landi fyrir sig og hver viðbrögðin hafa verið.
 • Hvernig mætti betrumbæta heimasíðuna t.d gera hana einfaldari og skýrari.
 • Hvernig væri best að kynna heimasíðuna út á við.
 • Hvernig hægt er að halda heimasíðunni lifandi eftir að verkefninu lýkur.
 • Skilgreina hvar þekkingu vantar á rannsóknarniðurstöðum.

Þátttakendur í verkefninu eru sérfræðingar frá Noregi, Finnlandi, Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum og Íslandi.

Fréttir

Rf auglýsir eftir verkefnastjórum í fiskeldi á Akureyri og Ísafirði

Rf auglýsir eftir tveimur verkefnastjórum til starfa á fiskeldisdeild Rf. Annað starfið er á Akureyri en hitt á Ísafirði. Ekki er um sams konar starf að ræða, enda mismunandi áherslur í starfsemi fiskeldisdeildar Rf á áðurnefndum stöðum.

Hjá Rf á Akureyri er unnið að verkefnum tengdum fóðri og næringarfræði fiska og mun auglýst starf verkefnastjóra þar mun einkum felast í umsjón með rekstri verkefna, samstarfi við fyrirtæki, stofnanir, háskóla og einstaklinga um verkefni.        

Nánari lýsing á starfi á Akureyri

Á Ísafirði er Rf að byggja upp öfluga starfsemi á sviði fiskeldis, sértaklega þorskeldis, og þar er m.a. unnið að verkefnum er lúta að ljósastýringu, lífeðlisfræði og atferli þorsks í eldi.          

Nánari lýsing á starfi á Ísafirði  

Umsóknarfrestur um bæði störfin er til 20. maí 2006. 

Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri Fiskeldisdeildar Rannsóknarsviðs Rf veitir nánari upplýsingar um störfin:  rannveig@rf.is   895 2176

Fréttir

Frostþurrkun sjávarafurða lofar góðu

Út er komin skýrsla á Rf sem ber yfirskriftina Frostþurrkun sjávarfangs: könnun á möguleikum, en þar eru birtar niðurstöður úr þróunarverkefni sem unnið var á síðasta ári á Rf. Markmið þess var að kanna möguleika á framleiðslu og sölu á frostþurrkuðum vörum úr íslensku sjávarfangi.

Í júní 2005 var settur upp nýr frostþurrkari, Genesis 25 SQ EL, á Rf, en hann var m.a. keyptur til að hægt væri að rannsaka möguleika á því að framleiða hágæðavörur úr sjávarfangi til notkunar í alls konar sérfæði, fæðubótarefni og markfæði.

Frostþurrkun er ferli þar sem vatn er fjarlægt úr frosinni afurð með uppgufun og undirþrýstingi. Þessi aðferð hefur yfirburði yfir aðrar þurrkunaraðferðir að því leyti að hún varðveitir betur bragð, lit, lífvirkni og aðra eiginleika í viðkvæmum afurðum.  Frostþurrkun hefur einkum verið notuð til að varðveita viðkvæma vöru s.s. ýmis ber, en trúlega er þó þekktasta frostþurrkaða afurðin instant kaffi.

Frostþurrkun á viðkvæmum afurðum eins og fiskpróteinum varðveitir betur þá eiginleika sem þau hafa.  Þetta er sérstaklega mikilvægt í rannsóknum og framleiðslu á lífvirkum peptíðum, en rannsóknir á því sviði er einmitt eitt af áherslusviðum Rf. 

Það var AVS-sjóðurinn sem styrkti verkefnið, en höfundar skýrslunnar eru þeir Guðjón Gunnarsson, Irek Klonowski og Guðjón Þorkelsson. Verkefnisstjóri var Guðjón Þorkelsson, deildarstjóri Vinnslu- og þróunardeildar Rf (s: 8604748)

Skýrslan Frostþurrkun á sjávarfangi: könnun á möguleikum

Fréttir

Lengi von á einum: Tvær skýrslur á Rf

Nýlega komu út tvær skýrslur á Rf, þar sem birtar eru niðurstöður tilrauna sem gerðar voru á Rf fyrir 12-15 árum, en hafa ekki verið birtar áður. Ástæðan fyrir því að þær eru grafnar upp núna er að niðurstöður þessara tilrauna nýtast nú í verkefnum sem unnið er að á Rf um þessar mundir.

Á Rf hafa um áratugaskeið verið stundaðar rannsóknir á sjávarfangi, og hefur því safnast saman mikil þekking á þessu sviði á stofnuninni. Oftar en ekki nýtast þessar rannsóknir beint, eru m.ö.o. hagnýtar rannsóknir, en stundum skapst þekking sem nýtist ekki fyrr en jafnvel löngu seinna.

Sem fyrr segir voru tilraunirnar, sem liggja að baki áðurnefndum skýrslum, gerðar fyrir um 12 -15 árum en niðurstöður þeirra hafa ekki birst fyrr. Báðar skýrslurnar eru á ensku og nefnist sú fyrri Microbiological changes during storage of lumpfish caviar (Rf skýrsla 02-06) og sú seinni Microbiological changes during storage of salted cod fillets (Rf skýrsla 04-06).

Í fyrrnefndu skýrslunni eru birtar niðurstöður þar sem áhrif gerilsneyðingar, saltstyrks, geymsluhita og bensóats á vöxt ýmissa örveruhópa í grásleppuhrognakavíar voru könnuð. Í síðarnefndu skýrslunni eru hins vegar birtar niðurstöður tilrauna þar sem söltuð þorskflök með um 20% saltinnihaldi voru geymd við 5°C í 330 daga og fylgst var með breytingum á örverufjölda og efnavísum yfir geymslutímann.

Niðurstöðurnar tengjast bæði vöruþróunarverkefni um nýtingu loðnuhrogna og nokkrum verkefnum um verkun og vinnslu á saltfiski.

Fréttir

Fiskiþing haldið föstudaginn 7. apríl

65. Fiskiþing verður haldið á Radisson Hótel Sögu í Reykjavík föstudaginn 7. apríl, 2006. Það hefst kl. 13:30 og því verður slitið kl. 17. Fiskiþing er opið málþing um málefni er varða sjávarútveginn. Þema þingsins er “Sjávarútvegur og umhverfið“.  Einn fyrirlesari verður frá Rf, Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri Neytenda og öryggisdeildar á Rannsóknarsviði Rf.

Fréttir

Stjórn SEAFOODplus fundaði í Reykjavík

Í dag lauk tveggja daga fundi stjórnar SEAFOODplus – risaverkefnisins, en fundurinn var haldinn í Sjávarútvegshúsinu. Sem kunnugt er tekur Rf þátt í SEAFOODplus og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf, situr í stjórn verkefnisins.

Sjöfn var því gestgjafi stjórnarinnar að þessu sinni og hún segir að um hefðbundinn fund stjórnarinnar hafi verið að ræða, en stjórn SEAFOODplus hittist þrisvar sinnum á ári til að ræða framgang verkefnisins.

Seafoodplus er í raun samheiti fjölda mismunandi verkefna sem hafa það meginmarkmið að auka neyslu á sjávarfangi, rannsaka áhrif sjávarfangs á heilsu og vellíðan fólks, stuðla að auknu öryggi sjávarafurða og frekari fullvinnslu sjávarfangs.

Fréttir

Heimsókn frá Noregi

Hópur nemenda frá Háskólanum í Bodö í Noregi heimsótti Sjávarútvegshúsið eftir hádegi í dag, í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi Rf og Hafrannsóknastofnunarinnar. Heimsóknin er hluti af þéttskipaðri dagsskrá hópsins hér á landi.

Hópurinn, sem eins og áður segir, kemur frá Høgskolen i Bodø (HBO) í Noregi, samanstendur af 6 nemendum og einum kennara, Christel Solberg.  Er þetta annað árið í röð sem hún kemur með nemendur frá HBO hingað til Íslands og er óhætt að segja að þau komi víða við.

Fyrstu tvo dagana heimsóttu þau fyrirtæki og stofnanir á Norðurlandi, þ.á.m. Samherja og Brim á Akureyri, Sæplast á Dalvík, Stofnfisk/Haliotis í Hauganesi og fóðurverksmiðjuna Laxá.  Þá fóru þau út í Hrísey og heimsóttu þar Íslenskt sjávarfang.  Einnig heimsóttu Norðmennirnir Háskólann á Akureyri og loks Hólaskóla áður en þau héldu suður yfir heiðar.

Í morgun voru þau í heimsóknum hjá Optimar og Marel og á morgun lýkur þessari yfirreið með heimsóknum í fyrirtæki á Suðurnesjum.

Fréttir

Heilsubætandi áhrif lífvirkra fiskpróteina

Rf hefur, ásamt ýmsum samstarfsaðilum, unnið að fjölda verkefna um aukið verðmæti sjávarfangs á undanförnum árum. Þar á meðal eru nokkur verkefni um aukna nýtingu á próteinum úr aukafurðum og uppsjávarfiskum til manneldis, bæði með því að þróa nýja vinnsluferla, nýjar vörur og með því að kanna markaði fyrir heilsufæði og markfæði.

Eitt þeirra er Propephealth innan SEAFOODplus Evrópuverkefnisins sem stjórnað er af Rf. Markmið þess eru :

 • Að skima eftir, kortleggja og vinna ný heilsubætandi efni úr aukafurðum sjávarfangs eða uppsjávarfiskum með háþróuðum og mildum vinnsluaðferðum
 • Að þróa ný lífvirk íblöndunarefni úr sjávarfangi
 • Að nota þessi efni til að þróa  nýtt markfæði

Í væntanlegu hefti af vísindatímaritinu Process Biochemistry eru birtar fyrstu niðurstöður á rannsókn á áhrifum vatsrofinna fiskpróteina á vöxt brjóstakrabbameinsfruma.   Vatnsrofin prótein, unnin úr þorski, kola, kolmunna og laxi, drógu verulega úr vexti þeirra.

Þessar niðurstöður eru vísbending um hvernig hægt er að þróa þessi fiskprótein áfram til notkunar í heilsufæði og sem fæðubótarefni.  Enn er langt land.  Vísindaleg þekking liggur enn ekki fyrir um hvort í framtíðinni verði hægt að fullyrða um heilsusamleg áhrif þessara próteina á neytendum.  Þessi rannsókn er eingöngu fyrsta skrefið á langri leið.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson: 860 4748/ gudjont@rf.is

Fréttir

Fyrsti fundur í verkefninu Welfare of Fish in European Aquaculture

Eins og sagt var frá hér á vefnum í nóvember, tekur Rf þátt í stóru Evrópuverkefni um velferð fiska í fiskeldi. Nýlega var fyrsti fundur stýrihópsins sem fulltrúi Rf situr í haldinn í Brussel og hér má lesa ágrip af því sem þar var rætt.

COST 867- verkefnið “Welfare of Fish in European Aquaculture” fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um velferð fiska í eldi. Á undanförnum árum hefur víða verið lögð aukin áhersla á velferð dýra, bæði húsdýra og annarra, og koma þar m.a. til siðfræðileg sjónarmið ábyrgra neytenda sem er annt um hirðu og líðan húsdýra, hertar kröfur í reglugerðum um aðbúnað húsdýra og reglur um lífrænt eldi.

Velferð er flókið hugtak og ekki er til nein einhlít skilgreining á velferð eldisfiska, enda hefur þetta lítið verið rannsakað og ekki eru til líffræðilegir mælikvarðar á velferð eldisfiska. Deilt er um hvort fiskar geti fundið til, en enga að síður hefur þessi umræða skotið upp kollinum í tengslum við fiskeldi og ekki síður fiskveiðar. Það er því mikilvægt að tekið sé af skynsemi á þessu máli og að iðnaðurinn hafi frumkvæði að því að hrinda umræðunni af stað. Þó að menn greini á um hvernig beri að skilgreina velferð, þá ættu flestir að geta verið sammála um að forðast beri árekstra á milli velferðarsjónarmiða og hagkvæms rekstar eldisfyrirtækja. Það er beint samband milli velferðar, trausts neytenda og gæða í framleiðslu.

Markmið verkefnisins er að ná saman fulltrúum þeirra sem tengjast velferð fiska á einhvern hátt. Þátttakendur eru fiskeldismenn, fulltrúar stjórnsýslu og fulltrúar rannsóknastofnana. Gert er ráð fyrir því að unnið verði að því að móta leiðbeiningar og starfsreglur um velferð eldisfiska og að skilgreina mælikvarða á velferð eldisfisks. Einnig verður unnið að viðamiklu riti þar sem teknar verða saman upplýsingar um velferð fiska, sem nýtast munu m.a. í allri stefnumótun á þessu sviði. Auk þess að fjalla um velferð eldisfisks verður líka tekið á velferð fiska sem tilraunadýra, skrautfiska og og í tengslum við fiskveiðar. Það er því mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga fulltrúa í þessum hópi.

Verkefninu er skipt í þrjá vinnuhópa (working groups). Þeir eru:

 1. Líffræði fiska sem skipta máli varðandi velferð.
 2. Mælanleg velferð í fiskeldi.
 3. Velferð fiska og stjórnun.

Íslenskir þátttakendur í verkefninu og sem sitja í stýrihóp verkefnisins eru fyrir hönd Rf dr. Þorleifur Ágústsson (mynd t.h.) og dr. Helgi Thorarensen frá Hólaskóla.

Þess má geta að í undirbúningi er gerð sérstakrar vefsíðu verkefnisins og verður hún unnin af Háskólasetri Vestfjarða, í samstarfi við Rf og háskólann í Stirling í Skotlandi.

Vefsíða COST

IS