Fréttir

Lengi von á einum: Tvær skýrslur á Rf

Nýlega komu út tvær skýrslur á Rf, þar sem birtar eru niðurstöður tilrauna sem gerðar voru á Rf fyrir 12-15 árum, en hafa ekki verið birtar áður. Ástæðan fyrir því að þær eru grafnar upp núna er að niðurstöður þessara tilrauna nýtast nú í verkefnum sem unnið er að á Rf um þessar mundir.

Á Rf hafa um áratugaskeið verið stundaðar rannsóknir á sjávarfangi, og hefur því safnast saman mikil þekking á þessu sviði á stofnuninni. Oftar en ekki nýtast þessar rannsóknir beint, eru m.ö.o. hagnýtar rannsóknir, en stundum skapst þekking sem nýtist ekki fyrr en jafnvel löngu seinna.

Sem fyrr segir voru tilraunirnar, sem liggja að baki áðurnefndum skýrslum, gerðar fyrir um 12 -15 árum en niðurstöður þeirra hafa ekki birst fyrr. Báðar skýrslurnar eru á ensku og nefnist sú fyrri Microbiological changes during storage of lumpfish caviar (Rf skýrsla 02-06) og sú seinni Microbiological changes during storage of salted cod fillets (Rf skýrsla 04-06).

Í fyrrnefndu skýrslunni eru birtar niðurstöður þar sem áhrif gerilsneyðingar, saltstyrks, geymsluhita og bensóats á vöxt ýmissa örveruhópa í grásleppuhrognakavíar voru könnuð. Í síðarnefndu skýrslunni eru hins vegar birtar niðurstöður tilrauna þar sem söltuð þorskflök með um 20% saltinnihaldi voru geymd við 5°C í 330 daga og fylgst var með breytingum á örverufjölda og efnavísum yfir geymslutímann.

Niðurstöðurnar tengjast bæði vöruþróunarverkefni um nýtingu loðnuhrogna og nokkrum verkefnum um verkun og vinnslu á saltfiski.

Fréttir

Fiskiþing haldið föstudaginn 7. apríl

65. Fiskiþing verður haldið á Radisson Hótel Sögu í Reykjavík föstudaginn 7. apríl, 2006. Það hefst kl. 13:30 og því verður slitið kl. 17. Fiskiþing er opið málþing um málefni er varða sjávarútveginn. Þema þingsins er „Sjávarútvegur og umhverfið„.  Einn fyrirlesari verður frá Rf, Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri Neytenda og öryggisdeildar á Rannsóknarsviði Rf.

Fréttir

Stjórn SEAFOODplus fundaði í Reykjavík

Í dag lauk tveggja daga fundi stjórnar SEAFOODplus – risaverkefnisins, en fundurinn var haldinn í Sjávarútvegshúsinu. Sem kunnugt er tekur Rf þátt í SEAFOODplus og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rf, situr í stjórn verkefnisins.

Sjöfn var því gestgjafi stjórnarinnar að þessu sinni og hún segir að um hefðbundinn fund stjórnarinnar hafi verið að ræða, en stjórn SEAFOODplus hittist þrisvar sinnum á ári til að ræða framgang verkefnisins.

Seafoodplus er í raun samheiti fjölda mismunandi verkefna sem hafa það meginmarkmið að auka neyslu á sjávarfangi, rannsaka áhrif sjávarfangs á heilsu og vellíðan fólks, stuðla að auknu öryggi sjávarafurða og frekari fullvinnslu sjávarfangs.

Fréttir

Heimsókn frá Noregi

Hópur nemenda frá Háskólanum í Bodö í Noregi heimsótti Sjávarútvegshúsið eftir hádegi í dag, í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi Rf og Hafrannsóknastofnunarinnar. Heimsóknin er hluti af þéttskipaðri dagsskrá hópsins hér á landi.

Hópurinn, sem eins og áður segir, kemur frá Høgskolen i Bodø (HBO) í Noregi, samanstendur af 6 nemendum og einum kennara, Christel Solberg.  Er þetta annað árið í röð sem hún kemur með nemendur frá HBO hingað til Íslands og er óhætt að segja að þau komi víða við.

Fyrstu tvo dagana heimsóttu þau fyrirtæki og stofnanir á Norðurlandi, þ.á.m. Samherja og Brim á Akureyri, Sæplast á Dalvík, Stofnfisk/Haliotis í Hauganesi og fóðurverksmiðjuna Laxá.  Þá fóru þau út í Hrísey og heimsóttu þar Íslenskt sjávarfang.  Einnig heimsóttu Norðmennirnir Háskólann á Akureyri og loks Hólaskóla áður en þau héldu suður yfir heiðar.

Í morgun voru þau í heimsóknum hjá Optimar og Marel og á morgun lýkur þessari yfirreið með heimsóknum í fyrirtæki á Suðurnesjum.

Fréttir

Heilsubætandi áhrif lífvirkra fiskpróteina

Rf hefur, ásamt ýmsum samstarfsaðilum, unnið að fjölda verkefna um aukið verðmæti sjávarfangs á undanförnum árum. Þar á meðal eru nokkur verkefni um aukna nýtingu á próteinum úr aukafurðum og uppsjávarfiskum til manneldis, bæði með því að þróa nýja vinnsluferla, nýjar vörur og með því að kanna markaði fyrir heilsufæði og markfæði.

Eitt þeirra er Propephealth innan SEAFOODplus Evrópuverkefnisins sem stjórnað er af Rf. Markmið þess eru :

  • Að skima eftir, kortleggja og vinna ný heilsubætandi efni úr aukafurðum sjávarfangs eða uppsjávarfiskum með háþróuðum og mildum vinnsluaðferðum
  • Að þróa ný lífvirk íblöndunarefni úr sjávarfangi
  • Að nota þessi efni til að þróa  nýtt markfæði

Í væntanlegu hefti af vísindatímaritinu Process Biochemistry eru birtar fyrstu niðurstöður á rannsókn á áhrifum vatsrofinna fiskpróteina á vöxt brjóstakrabbameinsfruma.   Vatnsrofin prótein, unnin úr þorski, kola, kolmunna og laxi, drógu verulega úr vexti þeirra.

Þessar niðurstöður eru vísbending um hvernig hægt er að þróa þessi fiskprótein áfram til notkunar í heilsufæði og sem fæðubótarefni.  Enn er langt land.  Vísindaleg þekking liggur enn ekki fyrir um hvort í framtíðinni verði hægt að fullyrða um heilsusamleg áhrif þessara próteina á neytendum.  Þessi rannsókn er eingöngu fyrsta skrefið á langri leið.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson: 860 4748/ gudjont@rf.is

Fréttir

Fyrsti fundur í verkefninu Welfare of Fish in European Aquaculture

Eins og sagt var frá hér á vefnum í nóvember, tekur Rf þátt í stóru Evrópuverkefni um velferð fiska í fiskeldi. Nýlega var fyrsti fundur stýrihópsins sem fulltrúi Rf situr í haldinn í Brussel og hér má lesa ágrip af því sem þar var rætt.

COST 867- verkefnið “Welfare of Fish in European Aquaculture” fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um velferð fiska í eldi. Á undanförnum árum hefur víða verið lögð aukin áhersla á velferð dýra, bæði húsdýra og annarra, og koma þar m.a. til siðfræðileg sjónarmið ábyrgra neytenda sem er annt um hirðu og líðan húsdýra, hertar kröfur í reglugerðum um aðbúnað húsdýra og reglur um lífrænt eldi.

Velferð er flókið hugtak og ekki er til nein einhlít skilgreining á velferð eldisfiska, enda hefur þetta lítið verið rannsakað og ekki eru til líffræðilegir mælikvarðar á velferð eldisfiska. Deilt er um hvort fiskar geti fundið til, en enga að síður hefur þessi umræða skotið upp kollinum í tengslum við fiskeldi og ekki síður fiskveiðar. Það er því mikilvægt að tekið sé af skynsemi á þessu máli og að iðnaðurinn hafi frumkvæði að því að hrinda umræðunni af stað. Þó að menn greini á um hvernig beri að skilgreina velferð, þá ættu flestir að geta verið sammála um að forðast beri árekstra á milli velferðarsjónarmiða og hagkvæms rekstar eldisfyrirtækja. Það er beint samband milli velferðar, trausts neytenda og gæða í framleiðslu.

Markmið verkefnisins er að ná saman fulltrúum þeirra sem tengjast velferð fiska á einhvern hátt. Þátttakendur eru fiskeldismenn, fulltrúar stjórnsýslu og fulltrúar rannsóknastofnana. Gert er ráð fyrir því að unnið verði að því að móta leiðbeiningar og starfsreglur um velferð eldisfiska og að skilgreina mælikvarða á velferð eldisfisks. Einnig verður unnið að viðamiklu riti þar sem teknar verða saman upplýsingar um velferð fiska, sem nýtast munu m.a. í allri stefnumótun á þessu sviði. Auk þess að fjalla um velferð eldisfisks verður líka tekið á velferð fiska sem tilraunadýra, skrautfiska og og í tengslum við fiskveiðar. Það er því mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga fulltrúa í þessum hópi.

Verkefninu er skipt í þrjá vinnuhópa (working groups). Þeir eru:

  1. Líffræði fiska sem skipta máli varðandi velferð.
  2. Mælanleg velferð í fiskeldi.
  3. Velferð fiska og stjórnun.

Íslenskir þátttakendur í verkefninu og sem sitja í stýrihóp verkefnisins eru fyrir hönd Rf dr. Þorleifur Ágústsson (mynd t.h.) og dr. Helgi Thorarensen frá Hólaskóla.

Þess má geta að í undirbúningi er gerð sérstakrar vefsíðu verkefnisins og verður hún unnin af Háskólasetri Vestfjarða, í samstarfi við Rf og háskólann í Stirling í Skotlandi.

Vefsíða COST

Fréttir

Gestavísindamaður flutti fyrirlestur í morgun um saltfiskrannsóknir

Dr. Kristin Lauritzen, sérfræðingur við Fiskeriforskning í Tromsø í Noregi, flutti í morgun fyrirlestur um rannsóknir á breytingum sem verða á þurrkuðum saltfiski við geymslu og flutning.

Kristin Lauritzen, sem eins og fyrr segir starfar við Fiskeriforskning í Norgegi, er stödd hér á landi sem e.k. “gestavísindamaður” á Rf um mánaðartíma.  Heimsókn hennar tengist einkum rannsóknum á verkun saltfisks, en doktorsverkefni hennar fjallaði einmitt um rannsóknir á saltfiski.  Þess má geta að Kristín vinnur að einum hluta í stóru verkefni sem unnið er að á Rf og nefnist Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks.

Norðmenn framleiða þó nokkuð af saltfiski, einkum þurrkuðum ((klippfisk á norsku),  og eru mikilvægustu markaðir þeirra einkum í Brasilíu, Dóminíkanska lýðveldinu og á eyjunum við Karabíska hafið.  Saltfiskvinnsla er mikilvægur þáttur í fiskvinnslu á Íslandi og saltaðar fiskafurðir hafa undanfarin ár verið um 15-20% af verðmæti útfluttra sjávarafurða héðan.  Mikilvægustu markaðir Íslendinga eru í S-Evrópu.

Um 30 manns hlýddu á fyrirlestur Lauritzen í morgun, aðallega starfsfólk Rf, en einnig voru þar aðilar frá saltfiskvinnslu hér á landi.   

Glærur frá fyrirlestri

Fréttir

Rf óskar eftir að ráða verkefnastjóra til starfa á Höfn í Hornafirði

Um helgina auglýsti Rf eftir því að ráða verkefnastjóra til starfa á Höfn í Hornafirði.  Um er að ræða nýtt starf sem unnið verður í nánum tengslum við starfsemi Frumkvöðlasetur Austurlands ehf.

Hlutverk verkefnistjórans er að stjórna og vinna að verkefnum á vegum Rf. á Hornafirði en þau fela m.a. sér:

  • umsjón með daglegum rekstri, öflun verkefna og áætlanagerð
  • samstarf við fyrirtæki og einstaklinga um verkefni
  • vinna við verkefni sem tengjast humarveiðum og vinnslu
  • kortlagning á tækifærum
  • kynna verkefni og tækifæri í umhverfinu.

Umsækjendur skulu hafa lokið meistaraprófi í raunvísindum eða verkfræði. Umsækjendur þurfa að hafa frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á ensku og íslensku og lipurð í mannlegum samskiptum.

Fyrirhuguð starfsemi verður með aðsetur í þekkingarsetrinu Nýheimum Höfn í Hornafirði.  Í Nýheimum eru  meðal annarra  til húsa Fruman , Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu,  Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Háskólasetur Háskóla Íslands, Þjóðgarðurinn í Skaftafelli,  Þórbergssetur,  Frumkvöðlafræðslan SES, og Fuglaathugunarstöð suðausturlands . Nýheimar er ný sérhönnuð bygging þar sem lögð er áhersla á að innleiða nýja hugsun, tækni og vinnubrögð í menntun, menningarmálum,  þróunarstarfi og nýsköpun, sem nýtist við styrkingu menningar og atvinnulífs.

Umsóknum með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla sendist til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Umsóknafrestur er til 31.mars 2006. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, sigurjon@rf.is, sími 530 8600

Fréttir

Próteinfyrirtæki Rf flytur á Sauðárkrók

Eins og greint var frá í fréttum í vikunni, hefur Rf flutt próteinfyrirtæki sitt, Iceprotein ehf, til Sauðárkróks. Fyrirtækið, sem stofnað var árið 2005, er þróunar-, framleiðslu- og markaðsfyrirtæki sem þróar, framleiðir og mun selja blautprótein fyrir fiskiðnað á Íslandi og þurrkuð prótein fyrir heilsu- og fæðubótarmarkaðinn.

Markmiðið með stofnun Iceprotein ehf var að þróa, framleiða og selja próteinafurðir úr uppsjávarfiski og afskurði af bolfiski í fiskafurðir og í heilsuvörur. Fyrirækið var til að byrja með staðsett á Akranesi, en fljótlega kom í ljós að finna þurfti hentugri aðstöðu fyrir fyrirtækið, sérstaklega m.t.t. matvælaframleiðslu. Á endanum var ákveðið að Iceprótein ehf fengi inni í húsnæði FISK Seafood á Sauðárkróki.

Tilkynnt var um flutninginn þegar Verið, Þróunarsetur Hólaskóla var formlega opnað þ. 7.mars í sama húsnæði FISK Seafood við höfnina á Sauðárkróki.  Þróunarsetrið er samstarfsverkefni Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, FISK Seafood og Hólaskóla og leggja iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið samtals 9,6 milljónir króna til verkefnisins.  Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, undirrituðu samning þess efnis við athöfnina í Verinu þ. 7. mars.

Iceprótein ehf er þó fjarri því að vera eini vettvangur próteinrannsókna á Rf.  Má t.d. nefna að Rf stýrir Propephealth-hlutanum í SEAFOODplus, stóru evrópsku vísindaverkefni, þar sem m.a. er rannsakað hvort að það séu einhver önnur efni í fiskinum en ómegafitusýrur sem hafi jákvæð áhrif á heilsu manna. Ákveðnar vísbendingar eru um að svo sé og beinast rannsóknirnar einkum að próteinum og peptíðum sem finna má í uppsjávarfiskum, loðnu, síld og kolmunna.

Þá má nefna rannsóknir á því hvort nýta megi vannýtt prótein úr frárennsli frá fiskvinnslum í landi, jafnvel til manneldis, en venjulega eru próteinin nýtt í fóður eða þau tapast út í umhverfið.  Verkefnið mun stuðla að hreinni framleiðslutækni, auka verðmæti þess afla sem berst að landi og stuðla að þróun á tæknilegum íblöndunarefnum úr vannýttu hráefni. 

Þá má nefna verkefni um notkun fiskpróteina við flakavinnslu, en þar er tilgangurinn sá að geta notað próteinafurðir sem náttúruleg hjálparefni til að bæta stöðugleika og nýtingu afurða. Einnig má nefna verkefni um notkun fiskpróteina sem fæðubótaefnis þar sem markmiðið er að er að vinna lyktar- og bragðlaus og vatnsleysanleg prótein með hátt næringargildi úr fiski sem hægt.er að nota sem  fæðubótarefni.

Samningur iðanaðar/sjávarútvegsráðherra

Fylgiskjal með samning

Fréttir

Rf á Raunvísindaþingi 2006

Raunvísindaþing H.Í. 2006 hefst í dag í Öskju, Náttúrufræðihúsi H.Í. í Vatnsmýrinni og stendur það yfir í tvo daga. Markmið þingsins er að kynna hinar miklu og fjölbreyttu rannsóknir í raunvísindum sem stundaðar eru við Háskóla Íslands og stofnanir hans. Á þinginu verða rannsóknir kynntar í erindum og á veggspjöldum og kynnir Rf sjö rannsóknir á veggspjöldum.

Rf hefur lengi átt gott samstarf við Háskóla Íslands, sérstaklega matvælafræðiskor H.Í. þar sem sérfræðingar Rf hafa sinnt kennslu um árabil. Af 13 veggspjöldum sem kynnt eru í flokknum Matvæla- og næringarfræði eru fimm frá Rf að þessu sinni. Eitt veggspjald er síðan í flokknum Líffræði og loks eitt í flokknum Efna- og lífefnafræði.

Eftirfarandi veggspjöld eru frá Rf:

Matvæla- og næringarfræði

  • V309: Þurrkun rækju og fiskskífa í varmadæluþurrkara / Study on heat pump dried shrimp and fish cake. – Zhang Guo-chen, Sigurjón Arason og Sveinn Víkingur Árnason.
  • V310: Stöðugleiki fiskdufts úr ufsa (Pollachius virens) / Stability of fish powder made from saithe (Pollachius virens). – Margrét Bragadóttir, Eyjólfur Reynisson, Kristín A. Þórarinsdóttir og Sigurjón Arason. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskóli Íslands.
  • V311: Áhrif hitastigs og pökkunar á fituskemmdir í þorskaafurðum (afskurður og lifur) við Frystigeymslu / Effects of storage condition on lipid degradation in cut-offs and lipids from cod (Gadus Morhua). – Kristín A. Þórarinsdóttir, Margrét Bragadóttir og Sigurjón Arason. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskóli Íslands.
  • V312: Low field NMR research on the state of water at superchilling and freezing temperatures and the effect of salt on the freezing process of water in cod mince. – María Guðjónsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir og Sigurjón Arason. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskóli Íslands.
  • V313: Rokgjörn efni sem gæðavísar í kældum fiski: Mat á niðurbrotsefnum örvera með Rafnefi / Volatile compounds as quality indicators in chilled fish: Evaluation of microbial metabolites by an electric nose. – Guðrún Ólafsdóttir. Matvæla- og næringarfræðiskor Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Líffræði:

  • V436: Mat á mismunandi þreifaratækni og tækjum til að auka greiningarhæfni rauntíma PCR / Evaluation of probe chemistries and platforms to improve detection limit of real-time PCR. – Eyjólfur Reynisson, M.H. Josefsen, M. Krause og J. Hoorfar. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Danish Institute for Food and Veterinary Research, Kaupmannahöfn.

Efna- og lífefnafræði:

  • V206: Rannsóknir á geljunareiginleikum þorskpróteina með ljósdreifingu / Light Scattering Investigations of Cod Muscle Proteins. – Tom Brenner, Ragnar Jóhannson og Taco Nicolai. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Université du Maine.
IS