Fréttir

Fagfundur Sauðfjárræktarinnar 2023

Fagfundur Sauðfjárræktarinnar var haldin í gær, fimmtudaginn 13. apríl á Hvanneyri. Fundurinn sem er árlegur var haldinn í húsakynnum Landbúnaðarháskólans og er það fagráð sauðfjárræktar sem stendur fyrir viðburðinum.

Mörg áhugaverð erindi voru tekin fyrir á fundinum. Guðjón Þorkelsson stefnumótandi sérfræðingur hjá Matís var með erindið: Skiptir fitusprenging máli fyrir bragðgæði íslensks lambakjöts? og Sæmundur Sveinsson fagstjóri hjá Matís var með erindið: Leitin að erfðaþáttum bógkreppu- Staða verkefnis og framtíðarhorfur.

Mynd: Lbhí
Mynd: Lbhí

Við hvetjum áhugasama til að horfa á fagfundinn í heild sinni á Youtube rás Bændasamtaka Íslands, með því að smella hér.

Erindið: Leitin að erfðaþáttum bógkreppu- Staða verkefnis og framtíðarhorfur hefst 1:43:00

Erindið: Skiptir fitusprenging máli fyrir bragðgæði íslensks lambakjöts? hefst 2:07:00

Forsíðumynd: Lbhí

Fréttir

Örverumæliþjónusta Matís fær endurvottun á faggildingu NYSDOH

Örverumæliþjónusta Matís fékk nýverið úttektaraðila frá NYSDOH (New York State Department of Health) í heimsókn. Þessi úttekt er liður í að viðhalda faggildingu rannsóknarstofunnar til að mæla örverur í átöppuðu neysluvatni sem er ætlað til sölu á Ameríku markað.

Örverumæliþjónusta Matís er eina rannsóknarstofan hér á landi sem uppfyllir þessar NYSDOH kröfur samkvæmt NELAC staðlinum. Að auki uppfyllir Matís kröfur ÍST EN ISO / IEC 17025 staðalsins og er einnig með faggildingu á vegum Swedac (Swedish Board for Accreditation and Conformity).

Heimsóknin stóð yfir frá 8. mars til 9. mars og gerði úttektaraðilinn ítarlega könnun á gæðakerfinu í heild sinni auk þess að taka fyrir þær rannsóknaraðferðir sem faggiltar eru samkvæmt NELAC staðlinum. Eins og áður kom fram eru þetta aðferðir til að mæla örverur í átöppuðu neysluvatni.

Úttektir eins og þessar bjóða upp á frábær tækifæri, og starfsfólk Örverumæliþjónustunnar leggur metnað í að nýta þær til að betrumbæta gæðakerfið og alla þjónustu við sína viðskiptavini í heild sinni.

Halla Halldórsdóttir gæðastjóri rannsóknastofa

Kynnið ykkur faggiltar rannsóknaraðferðir sem í boði eru hjá Örverumæliþjónustu Matís með því að smella hér.

Fréttir

Hefur þú áhuga á eldi? Þverfaglegt námskeið á meistarastigi

Með aukinni fólksfjölgun þarf að tryggja fæðuöryggi framtíðarinnar en jafnframt gæta að áhrifum á umhverfi og loftslag. Matur sem kominn er af eldi hefur eitt lægsta kolefnisspor dýraafurða og þá sérstaklega matur sem kemur af lægri stigum fæðukeðjunnar. Það eru til dæmis ostrur, kræklingar og sæeyru. Um þetta, og fleira er fjallað í nýju netnámskeiði sem UiT Norges arktiske universitet (The Arctic University of Norway) býður upp á. Námskeiðið er þverfaglegt og á meistarastigi.

Námskeiðið opnar 3. apríl, og er opið öllum.

Í námskeiðinu er farið yfir víðan völl tengt eldi á lægri stigum fæðukeðjunnar. Fjallað er um líf- og vistfræði helstu tegunda, umhverfisáhrif, sjálfbærni, hagfræði og fleira. Nemendur með ólíka þekkingu og reynslu ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Námskeiðið byggir á stuttum fyrirlestrum á formi myndbanda, verkefnum og lesefni. Ljúki nemendur námskeiðinu geta þeir fengið skírteini þess efnis frá UiT.

Námskeiðið var búið til sem hluti af AquaVitae verkefninu, en það er Evrópuverkefni, styrkt af Horizon 2020 (Grant Agreement No 818173) áætlun Evrópusambandsins, með það að markmiði að auka vægi eldis á lægri stigum. Matís er hluti af bæði verkefninu og þróunarteymi námskeiðsins.

Kynntu þér námskeiðið nánar, hér.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Katrínu Huldu Gunnarsdóttur sérfræðing hjá Matís katrinh@matis.is.

Fréttir

Nýtt vefforrit til að reikna næringargildi

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Á vefsíðu Matís er nú boðið upp á vefforrit til að reikna næringargildi matvæla út frá uppskrift. Forritið sækir upplýsingar í ÍSGEM gagnagrunn Matís en það auðveldar útreikninga á næringargildinu.

Vefforritið var unnið í verkefninu Nýjar lausnir fyrir vinnu við merkingar matvæla en það var styrkt af Matvælasjóði. Verkefnið var unnið í samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla / Beint frá býli. Matís hefur unnið með samtökunum mörg undanfarin ár og því var ljóst að þörf var á því að auðvelda vinnuna við merkingar matvæla. Vefforritið á að flýta fyrir og einfalda vinnuna við merkingar matvælanna þar sem bæði er hægt að vinna með ÍSGEM gögn og eigin gögn. Mjög mikilvægt er fyrir smáframleiðendur að halda vel utan um upplýsingar um öll hráefni. Vefforritinu fylgir ítarleg handbók um notkun forritsins og aðrar upplýsingar sem þarf á að halda við merkingar matvæla. Forritunarvinna var unnin af fyrirtækinu Hugsjá ehf.

Vefforritið má nálgast hér.

Leiðbeiningar um notkun vefforritsins má finna hér:

Fréttir

Græn skref í rekstri Matís

Ánægjulegt er að greina frá því að fyrsta Græna skrefinu hefur verið náð hjá Matís. Innleiðing Grænna skrefa í rekstri Matís hófst í ársbyrjun 2022 og var fyrsta skrefið samþykkt af Umhverfisstofnun fimmtudaginn 16. mars síðastliðinn.  

Grænu skrefin eru alls fimm skref. Skref 1-4 er flokkað upp í sjö flokka sem hver um sig hefur mismunandi margar aðgerðir sem þarf að uppfylla. Síðasta skrefið, skref 5, lýtur svo einvörðungu að umhverfisstjórnun vinnustaðarins, skipt upp í sex þætti og aðgerðir.  

Innleiðing Grænna Skrefa hjá Matís nær ekki bara til höfuðstöðvar okkar í Reykjavík heldur þurfa allar starfsstöðvar að taka þátt, í öllum flokkum og aðgerðum.

Í skrefi 1 er verið að hefja vegferð í átt að umhverfisvænni kostum, hugsun og aðgerðum er varða rekstur Matís. Sem dæmi þá þarf m.a. húseignarfélagið að vera upplýst um þessa vegferð en jafnframt er lykilatriði að kynna þarf fyrir innkaupaaðilum, byrgjum, hreingerningarfólki/ræstifyrirtækjum, eldhúsinu sem og öllum hinum starfsstöðvum og starfsfólki kröfur skrefanna.  

Kröfur skrefanna er m.a. að innkaupaaðilar versli ávallt vörur, þ.e. séu þess nokkur kostur, sem eru með umhverfisvottun. Þessu tengdu er mikilvægt að þekkja vel vottunarmerkin sem er viðurkennd og undir ströngum gæðastöðlum.  

Markmið Grænna Skrefa er að:  

  • Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í starfsemi Matís 
  • Efla umhverfisvitund starfsfólks 
  • Auka vellíðan starfsfólks og bæta starfsumhverfi  
  • Draga úr rekstrarkostnaði 
  • Innleiða áherslur í umhverfismálum 
  • Aðgerðir í umhverfismálum séu sýnilegar

Teymi Grænna Skrefa hjá Matís samanstendur af eftirfarandi eldhugum: Ásta Heiðrún Pétursdóttir, Anna Berg Samúelsdóttir, Birgir Örn Smárason, Eva Margrét Jónudóttir, Laura Malinauskaite og Justine Vanhalst.

Fréttir

Landnám örvera á eldstöðvunum Surtsey og Fimmvörðuháls

Samanburður á örverusamfélögum úr andrúmslofti og í hrauni frá tveimur ólíkum virkum eldfjallasvæðum á Íslandi, Surtsey og Fimmvörðuhálsi.

Aurelien Daussin doktorsnemi hjá Matís hefur fengið útgefna vísindagrein í tímaritinu Microorganisms (MDPI). Greinin ber titilinn „Comparison of Atmospheric and Lithospheric Culturable Bacterial Communities from Two Dissimilar Active Volcanic Sites, Surtsey Island and Fimmvörðuháls Mountain in Iceland“. Pauline Vannier og Viggó Þór Marteinsson leiðbeinendur og starfsmenn Matís eru einnig meðhöfundar greinarinnar.

Markmið rannsóknarinnar var að meta og bera saman fjölbreytileika ræktanlegra örverusamfélaga í hrauni á tveimur ólíkum íslenskum eldstöðvum, á eyjunni Surtsey og á Fimmvörðuhálsi og rannsaka uppruna þeirra.  Loft- og hraunsýnum var safnað á árunum 2018-2019 frá báðum eldfjallasvæðunum. Helstu niðurstöður sýndu að uppruni flestra ræktanlegara örvera í hraunmolunum kom úr nærumhverfinu (85%) en aðrar hafa borist langt að.

Greinina í heild sinni er hægt að lesa hér.

Fréttir

Matís í samstarf við Cawthron Institute í Nýja Sjálandi

Nýja Sjáland og Ísland eru eyjur þar sem íbúar eru sterkmótaðir af nálægð sinni við hafið. Báðar þjóðir eru mjög háðar hafinu og er sjálfbær nýting sjávarauðlinda því mikilvæg fyrir afkomu og efnahag þjóðanna.

Í síðustu viku heimsóttu þrír starfsmenn Matís Nýja Sjáland, þau Oddur Már Gunnarsson forstjóri, Rósa Jónsdóttir fagstjóri og Sophie Jensen verkefnastjóri, til að taka þátt í vinnustofunni „Algal research and opportunities“. Vinnustofan var skipulögð af Cawthron Institute sem er ein stærsta vísindastofnun Nýja Sjálands með sérstaka áherslu á umhverfismál. Þátttakendur voru fulltrúar frá nýsjálenskum hagsmunaaðilum svo sem NewFish, AgriSea, Plant & Food Research og Scion Research. Alþjóðlegir gestir sem sóttu vinnustofuna voru frá the Kelp Forest Foundation, RISE, SAMS, Nordic Seafarm, Ghent University, UiT, Blu3, Nofima og Universidad de Los Lagos.
Markmið vinnustofunnar var að koma á fót sameiginlegum rannsóknar- og viðskiptaverkefnum með áherslu á framleiðslu og nýtingu þörunga.

Þann 28. febrúar 2023 skrifuðu þeir Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís og Volker Kuntzsch, forstjóri Cawthron Instituite undir samstarfsamning. Markmið samningsins er að koma á samstarfsvettvangi milli Íslands og Nýja Sjálands á sviði rannsókna tengdum sjávarauðlindum. Samstarfið mun styðja við uppbyggingu þekkingar og eflingu rannsókna, allt frá hugmynd til markaðar. Aukið samstarf og gagnkvæmur stuðningur munu efla Matís og Cawthron Instituite til að styrkja bláa lífhagkerfið.

Vinnustofa í Nelson (Feirfield house) – Algal research and opportunities Downunder- Dagur 2
Oddur ásamt fleiri ánægðum þátttakendum í heimsókn hjá Sanford Bioactives í Blenheim – Dagur 3
Oddur Már Gunnarsson forstjóri Matís og Volker Kuntzsch forstjóri Cawthron Instituite skrifa hér undir samstarfssamning.

Fréttir

Mikilvægi nýrra próteingjafa fyrir laxeldi á heimsvísu

Jónas Rúnar Viðarsson sviðstjóri verðmætasköpunar hjá Matís er um þessar mundir staddur á North Atlantic Seafood forum (NASF), í Bergen Noregi.

Líkt og 200 mílur á mbl.is greina frá í dag þá fjallar Jónas um það í erindi sínu hversu mikilvægir nýir próteingjafar eru fyrir vaxandi fóðurframleiðslu fyrir laxeldi.

Á ráðstefnunni kynnti Jónas SYLFEED verkefnið sem unnið er að hjá Matís og er markmið verkefnisins að þróa og hanna virðiskeðju til framleiðslu á próteini úr skógarafurðum. Innflutningur á próteini til notkunar í fóður nemur um 70% í Evrópu og verður afurðin af SYLFEED verkefninu notuð sem hágæða prótein í fiskafóður til þess að stemma stigum við þessum vaxandi innflutning.

Jónas fór einnig í erindi sínu yfir ný prótein úr örþörungum, einfrumungum og skordýrum.

Lestu fréttina á mbl.is hér.

Kynntu þér SYLFEED verkefnið nánar hér:

Fréttir

Greining á næringargildi og nýtingarhlutfalli lambakjöts

Líkt og Bændablaðið greindi frá í nýjasta tölublaði sínu þá er nú unnið að því hjá Matís að greina nákvæmlega næringargildi og nýtingarhlutfall lambakjöts og aukaafurða lambaskrokka.

Mælingar á næringarefnum fara fram á kjöti, innmat og líffærum. Áhersla er á mælingar á próteini og fitu sem ákvarða orkugildið en einnig fara fram mælingar á vatni, heildarmagni steinefna og völdum vítamínum og steinefnum.

Verkefnið er umfangsmikið og gefur ómetanlegar upplýsingar um næringargildi hvers kjötparts fyrir sig. Með nýjum gögnum verður hægt að bæta kostnaðar- og framlegðarútreikninga við úrvinnslu og mat á afurðarverði.

Lestu greinana í heild sinni, hér.

Kynntu þér verkefnið nánar hér:

Fréttir

Fiskur og kaffi

Páll Gunnar Pálsson, matvælafræðingur og fyrrum starfsmaður hjá Matís, setti í loftið nú á dögunum vefsíðuna Fiskur og kaffi. Þar verður stefnan sett á að halda úti fræðandi greinaskrifum um veiðar, vinnslu og verkun sjávarafurða.

Páll Gunnar hefur í gegnum tíðina sett saman fjölda handbóka um matvælavinnslu ýmiss konar og er hafsjór af fróðleik um þessi efni. Vefsíðan er aðgengileg á fiskurogkaffi.is.

IS