Fréttir

Samnorrænt verkefni um fiskmjöl og lýsi

Nú fer senn að ljúka samnorrænu verkefni um fiskmjöl og lýsi. Meginmarkmið verkefnisins var að skilgreina stöðu þekkingar á fiskmjöli með það fyrir augum að varpa ljósi á það hvar frekari rannsókna er þörf. Niðurstöður verkefnisins geta nýst bæði iðnaðinum og rannsóknar-samfélaginu sem vegvísir til framfara. Verkefnið var unnið með samtökum fiskmjölsframleiðenda í Evrópu EU-fishmeal, DTU Food&Aqua í Danmörku, Nofima í Noregi og hlaut styrk frá Norrænu Ráðherranefndinni (AG-fisk).

Að verkefninu komu fyrirtæki á borð við FF Skagen í Danmörku, Havsbrún í Færeyjum og Triple Nine í Noregi. Marvin Ingi Einarsson, Iðnaðarverkfræðingur hjá Matís sá um verkefnastjórn.

Megin niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að gæði hráefnis, fiskmjöls og lýsis séu enn ekki nægilega vel skilgreind. Áherslan hefur hingað til verið mest á efnainnihald fiskmjöls með minni áherslu á jákvæð heilsufarsleg áhrif þess að notast við fiskmjöl og lýsi í fóður. Einnig er þörf á að tengja betur saman áhrif hráefnismeðhöndlunar og áhrif vinnsluferla á bæði næringarlega og eðlislega þætti.

Verkefnið stóð fyrir vinnustofu í Kaupmannahöfn þar sem komu saman fjölmargir úr fiskimjölsiðnaðinum í Evrópu og sérfræðingar á þessu sviði. Ein af niðurstöðum fundarins var sú að til að styrkja frekar markaðsstöðu og samkeppnishæfni framleiðenda þá þarf fiskmjölsiðnaðurinn að öðlast betri þekkingu á þörfum viðskiptavina sinna og hvað það sé sem kaupendur eru raunverulega að leitast eftir. Koma þarf á fót betri samskiptaleiðum milli aðila í virðiskeðjunni allt frá fiskmjölsframleiðendum til neytenda. Mikilvægt er að koma á fót áætlun um hvernig samskiptum milli aðila skuli háttað og í framhaldi móta skýra stefnu í rannsóknum.

Skýrslu verkefnisins má finna hér.

Fréttir

Uppökur af erindum ráðstefnu Matvælalandsins aðgengilegar

Ráðstefna Matvælalandsins, um sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu, fór fram miðvikudaginn 10. apríl sl. á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskriftin var “Hvað má bjóða þér að borða? – Sérstaða og samkeppnisforskot í matvælaframleiðslu”.

Á ráðstefnunni var fjallað um gildi sérstöðunnar og þær áskoranir sem margar þjóðir standa frammi fyrir í sinni matvælaframleiðslu. Kröfur um örugg matvæli, fá sótspor, virðingu fyrir umhverfinu og auðlindum, bætta lýðheilsu og heilbrigt búfé munu hafa mikil áhrif á matvælaframleiðslu um heim allan á komandi árum.

Að Matvælalandinu standa Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Matís, Íslandsstofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Matarauður Íslands og Háskóli Íslands.

Upptökur af erindum ráðstefnunnar eru nú aðgengilegar hér .

Fréttir

Doktorsvörn við HÍ – Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea

Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo.th.marteinsson@matis.is

Mánudaginn 27. maí 2019 fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Stephen Knobloch doktorsritgerð sína „Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea (e. Host-microbe symbiosis in the marine sponge Halichondria panicea).

Andmælendur verða Dr. Detmer Sipkema, dósent í vistfræði sjávarörvera við háskólann í Wageningen í Hollandi og Dr. Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor í erfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.Umsjónarkennari var Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent í örverufræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.


Leiðbeinandi og í doktorsnefnd var Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og faglegur leiðtogi hjá Matís. Í doktorsnefnd var einnig Dr. Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri í fiskeldi og fiskirækt hjá Hafrannsóknastofnun.

Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni, sem fer fram í stofu 132 í Öskju kl. 13-15.  

Ágrip
Svampar (phylum Porifera) eru taldir ein af elstu núlifandi fylkingum dýraríkisins. Náin tengsl þeirra við örverur gera þá áhugaverða og heppilega til rannsókna á fyrstu gerðum samlífis dýra og örvera og til að auka almennt skilning okkar á þessu varðveitta samspili og virkni þess. Að auki framleiða margir svampar og samlífisörverur þeirra lífvirk efnasambönd sem gera þá áhugaverða fyrir líftækni og lyfjaiðnaðinn.

Í þessari rannsókn var fjölbreytileiki samlífisörvera H. panicea svamps, sem tekin var úr íslensku sjávarumhverfi, skoðaður með merkigenaraðgreiningu, auk raðgreiningar genamengja (metagenome) og erfðamengja (genome) ræktaðra baktería. Sýnt er fram á að H. Panicea, úr íslensku umhverfi, hýsir eina ríkjandi bakteríutegund. Tegundin sem fékk heitið “Candidatus Halicondribacter symbioticus”, er einnig til staðar í öðrum H. panicea svömpum sem rannsakaðir hafa verið frá mismunandi stöðum og óháð árstíðum. Hins vegar eru aðrar sambýlisörverur óskilyrtar og meira bundnar við stað og tíma. Greining á genamengi ríkjandi skilyrtu bakteríunnar sýnir fram á að algeng stýrigen vantar í erfðamengi hennar. Það er í samræmi við hið skilyrta samlífisform en skortur á stýrigenum er algengur í ákveðnum genafjölskyldum tengdum samlífisforminu og vörnum þess. Jafnvel þó að genaklasi fyrir smíði á lífvirka efninu bacteriocin sé til staðar í “Candidatus Halichondribacter symbioticus” virðist sem það komi ekki við sögu við framleiðslu lífvirkra efna eða „secondary metabolites”.
Samlífisörveran “Ca. H. symbioticus” í sjávarsvampinum H. panicea er heppilegt módel til rannsókna á samspili samlífisörvera og dýra. Niðurstöðurnar úr þessari rannsókn leggja því grunninn að framtíðarrannsóknum á slíku samspili.

Um doktorsefnið
Stephen Knobloch fæddist árið 1987 í Toronto í Kanada. Hann lauk námi í „Applied Sciences “ frá Háskólanum í Bremerhaven í Þýskalandi og hlaut BSc gráðu í sjávartækni (Maritime Technologies), með áherslu í sjávarlíftækni. Hann stundaði framhaldsnám við Háskólann í Rostock í Þýskalandi og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu (MSc) í fiskeldi árið 2013.
Árið 2014 hóf hann doktorsnám við Háskóla Íslands sem styrkþegi í Evrópuverkefninu „BluePharmTrain“ á vegum Marie Curie ITN (Innovative Training Networks). Stephen hefur kennt í haustnámskeiðum í meistaranámi við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ frá 2016 til 2018 og er verkefnastjóri AVS-verkefnisins „FishGutHealth“ frá árinu 2017.

Stephen býr í Reykjavík með konu sinni Rebeccu og tveimur börnum, sem eru Sascha fæddur 2014 og Nora fædd 2017, bæði á Íslandi.

Sjá einnig á vef Háskóla Íslands.

Fréttir

Hagnýt meistaraverkefni við Matvælafræðideild Háskóla Íslands

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Hagnýt nemendaverkefni um þróun sjávarútvegs verða til umfjöllunar þegar Meistaranemendur í Matvælafræðideild Háskóla Íslands flytja MS fyrirlestra sína þriðjudaginn 28. maí 2019 í Matís, Vínlandsleið 12, í fundarsal 312. Allir eru velkomnir!

Kl. 15:00 flytur Snæfríður Arnardóttir ritgerð sína:
Hringormar í ferskum flökum úr Atlantshafsþorski. Mögulegar leiðir til að fjarlægja eða drepa hringorma í ferskum fiski eða minnka hreyfanleika þeirra.“ (Nematodes in fresh Atlantic cod fillets. Possible methods to remove or kill nematodes from fresh fish or decrease their mobility.)

Markmið verkefnisins var að kanna leiðir til að fjarlægja eða drepa hringorm í ferskum fiski án þess að hafa áhrif á gæði flaksins. Það var kannað með því að nota rafstuð við mismunandi spennu, hljóðbylgjur í mismunandi tíðni og óson. Einnig var hreyfanleiki hringorma kannaður í loftskiptum umbúðum (MAP) við annarsvegar 4°C og hinsvegar -0,5°C.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor, María Guðjónsdóttir prófessor og Hildur Inga Sveinsdóttir doktorsnemi.

Prófdómari: Sveinn Víkingur Árnason verkfræðingur.
__________________________________________________________________________________________________Kl. 15:45 flytur Aníta Elíasdóttir ritgerð sína:
„Áhrif mismunandi hráefnismeðhöndlunar og frystigeymslu á efnaeiginleika þorskhauss.“ (Effect of different processing method and frozen storage on chemical properties of the various parts of the cod head.)

Markmið verkefnisins
 var fyrst og fremst að skoða möguleikann á því að nýta hina ýmsu parta af þorskhausnum, auk þess að kanna áhrif mismunandi vinnsluaðferða um borð í fiskiskipum og frystigeymslu á efnafræðilega eiginleika mismunandi parta frá þorskhausnum þ.e. tálkn, kinnar, gellur, augu og heila.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor, María Guðjónsdóttir prófessor og Hildur Inga Sveinsdóttir doktorsnemi.

Prófdómari: Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir
__________________________________________________________________________________________________

Kl. 16:30
 flytur Britney Sharline Kasmiran ritgerð sína:
“Physicochemical properties and potential utilization of side raw materials of yellowfin and albacore tuna.” (Efnasamsetning og nýting hliðarafurða yellowfin og albacore túnfisks.)

Leiðbeinendur/Supervisors: María Guðjónsdóttir prófessor, Sigurjón Arason prófessor, Dr. Magnea Karlsdóttir

Í MS nefnd voru/MSc thesis committee: María Guðjónsdóttir, Sigurjón Arason, Magnea Karlsdóttir, Tumi Tómasson, Hildur Inga Sveinsdóttir

Prófdómari/Examiner: Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir