Fréttir

Hvönn hefur áhrif á lambakjötsbragðið

Hvannabeit hefur áhrif á bragðgæði lambakjöts að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands). Samkvæmt mati sérþjálfaðs hóps á Matís reyndust hvannalömbin hafa meiri kryddlykt og –bragð, en lömb í hefðbundnu beitarlandi höfðu meira lambakjötsbragð.

Ráðherra gæðir sér á hvannalambi.

Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra, fékk tækifæri á því að gæða sér á hvannakjötinu á veitingastaðnum Vox á Nordica Hótel og lýsti af því tilefni yfir ánægju með slíka nýsköpun í landbúnaði.

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau ólu ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi sem var með hvönn. Til samanburðar var öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð.

Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.

Nú þegar búið er að gera rannsóknir á kjötinu kemur í ljós að það er greinanlegur munur á milli lamba sem alin voru upp á hvönn og lamba sem alin voru á hefðbundinni sumarbeit.

Þrátt fyrir góðar niðurstöður er einungis um að ræða fyrsta skrefið af mörgum. Meðal annars er stefnt að því að búa til hvannaakur svo hægt sé að þróa bragðið enn frekar.

Fréttir

Lítil mengun þungmálma í hafinu kringum landið

Mengun þungmálma í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið. Þungmálmar eru frumefni sem eru upprunnir í náttúrunni en styrkur þeirra getur aukist vegna aðgerða manna (t.d. námuvinnslu).

Fram kemur í skýrslunni (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2005 – 2006) að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig mælist t.d. kadmínstyrkur í kræklingi hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík.

Í skýrslu Matís eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis á vegum Umhverfisráðuneytisins fyrir árin 2005 og 2006. Markmiðið með vöktun umhverfis landið er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á að veiðar fari fram í ómenguðu umhverfi.

Mæld voru ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski veiddum í árlegu vorralli Hafrannsóknastofnunarinnar í mars 2006 og í kræklingi sem safnað var á 11 stöðum í kringum landið í ágúst/september 2005.

Rannsóknir á breytingum á lífríki sjávar við Íslands hefur staðið yfir frá 1989.

Skýrsluna er að finna hér.

Fréttir

Bakteríu eytt með háþrýstimeðhöndlun

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hefur tekist að þróa aðferð sem eyðir á skömmum tíma bakteríu í sýktum laxi. Aðferðin, sem felst í háþrýstimeðhöndlun, tryggir öruggari neyslu á laxi og lengra geymsluþol án þess að hafa neikvæð áhrif á lit og áferð. Um er að ræða nýja nálgun á háþrýstingsmeðferð, sem var þróuð í Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Með nýrri tækni er hægt að ná tilskyldum árangri á innan við 10 sekúndum í stað 15 mínútna áður.

Með nýju aðferðinni er hægt að eyða bakteríunni Listeríu í reyktum laxi. Listería er afar sjaldgæf í laxi en getur valdið sýkingum hjá neytendum sem borða lax sem inniheldur bakteríuna.

Niðurstöður rannsóknar Matís leiða í ljós að háþrýstingur þurfi að vera 700-900 MPa til að eyða bakteríunni. Háþrýstingur hefur lítilsháttar áhrif á myndbyggingu, lit og áferð afurðar. Með aðferðinni er hægt að tryggja neytendum reyktan lax sem hefur lengra geymsluþol og er laus við Listeríu og jafnvel snauður af öðrum bakteríum. Þekkingarlegur ávinningur mun leiða til frekari framþróunar og nýrra nýtingarmöguleika á þessari nýju tækni.

Hefðbundin kaldreyking á laxi nægir ekki til að drepa Listeríu og getur hún því verið vandamál hjá bæði framleiðendum og neytendum. Með auknu hreinlæti og bættri gæðastýringu hefur þó tekist að ná góðum árangri, en til að tryggja að reyktur lax innihaldi ekki bakteríuna er nauðsynlegt að þróa nýja tækni eins og háþrýsting. Þátttakendur í verkefninu voru frá Matís (áður Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Matvælarannsóknir Keldnaholti).

Skýrslan í heild sinni.

Fréttir

Reykjagarður velur Matís

Reykjagarður, framleiðandi Holta kjúklings, hefur gert eins árs samning við Matís (Matvælarannsóknir Íslands) um mælingar á sýnum vegna öryggis- og gæðaeftirlits fyrirtækisins. Um er að ræða lögbundnar mælingar á Salmonella og Campylobacter í saursýnum frá kjúklingaeldishópum. Einnig verður safnað sýnum frá öðrum búum sem láta slátra alifuglum hjá Reykjagarði.

Reykjagarður selur Holta vörur sínar til verslunarkeðja, veitingahúsa, skyndibitastaða og mötuneyta.

Sýni frá Reykjagarði verða rannsökuð á Matvælaöryggissviði Matís. Helstu rannsóknaverkefni Matvælaöryggissviðs eru á sviði örveru- og efnarannsókna á matvælum, fóðri og umhverfi. Örverurannsóknir taka til flestra mikilvægustu sýkla sem fundist geta í matvælum. Á Matvælaöryggissviði er markvisst unnið að því að auka samvinnu við erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni.

“Rannsóknastofur Matís eru faggiltar og geta veitt þjónustu á breiðu sviði örveru- og efnamælinga. Fyrirtækið leggur áherslu á skilvirka og áreiðanlega þjónustu og veitir viðskiptavinum hagstæða þjónustusamninga þar sem sérstaklega er tekið tillit til umfangs verkefna sem samið er um,” segir Franklín Georgsson sviðsstjóri Matvælasviðs Matís.

Fréttir

Sjávarútvegsráðherra Líberíu heimsækir Matís

Dr. Chris Toe sjávarútvegsráðherra Líberíu heimsótti Matís (Matvælarannsóknir Íslands) í ferð sinni hingað til lands. Starfsfólk Matís kynnti ráðherranum fyrir starfseminni og rannsóknarstofum fyrirtæksins á Skúlagötu. Þá var ráðherra fræddur um líftæknirannsóknir Prokaria, sem er hluti af Matís.

Toe ræddi einnig við Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, heimsótti Hafrannsóknastofnun og fræddist um Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, sem er með aðsetur við Skúlagötu. Ennfremur mun Toe og fylgdarlið heimsækja fjölmörg önnur fyrirtæki hér á landi.

Franklín Georgsson sviðsstjóri á Matvælaöryggi Matís ræðir við sendinefndina frá Líberíu.

MYND: Chris Toe, lengst til vinstri, hlýðir á Franklín Georgsson sviðsstjóra hjá Matís.

Nánar um Líberíu á Wikipediu.

Fréttir

Svínakjöt: Nákvæmari niðurstöður með rafrænu mati

Nú hafa skapast forsendur til þess að innleiða rafrænt mat á svínaskrokkum í sláturhúsum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um niðurstöður mælinga á kjöthlutfalli svínakjöts. Með rafrænu mati, sem mælir hlutfall kjöts á svínaskrokkum, fást nákvæmari niðurstöður en hægt hefur verið að birta hingað til. Það auðveldar öll samskipti á milli sláturhúsa og bænda sem og sláturhúsa og kjötvinnslna þar sem verðlagning og kjöthlutfall verður látið haldast í hendur.

Þá kemur fram í skýrslunni að breytileiki íslenska svínastofnsins er það lítill að ekki er um veruleg frávik að ræða þótt sama reikniformúla sé notuð, eftir mælitækjum, á öll svín.

Ástæða þess að nú sé mögulegt að taka upp rafænt mat er sú að ræktun svínabænda hér á landi er orðin markviss og að notast er við sama svínastofn á öllum búum. Búið er að gera úttekt á þykkt fitu og vöðva á tilteknum mælistöðum með rafrænum mælitækjum og bera þær niðurstöður saman við upplýsingar frá norska yfirkjötmati. Slíkt var nauðsynlegt til að kanna breytileika íslenskra svína innan stofnsins sem og á milli búa. Svínastofnar hér á landi eru sambærilegir og í Noregi.

Verkefnið var unnið fyrir Svínaræktunarfélag Íslands.

Fréttir

Mikilvægt að landa afla tímanlega

Mikilvægt er að afla sé landað tímanlega svo hægt sé að nýta hann betur því um leið og fiskur er veiddur rýrnar hann og tapar ferskleika. Þetta er umfjöllunarefni Guðbjargar Heiðu Guðmundsdóttur í meistaraverkefni sínu, sem nefnist Áætlanagerð fyrir hámarkshagnað í íslenska þorskiðnaðinum, í véla- og iðnaðarverkfræðiskor. Guðbjörg mun halda opinn fyrirlestur um verkefni sitt þann 24. september.

Eftir að fiskur hefur verið veiddur rýrnar hann um borð í fiskiskipum og tapar ferskleika. Þessi rýrnun minnkar vinnslumögleika og nýtingu á flökum fisksins. Það er því mikilvægt að aflanum sé landað tímanlega til að hægt sé að nýta hann betur. Ennfremur að tekið sé tillit til vinnslunnar við skipulagningu útgerðar þannig að vinnslan geti unnið fiskinn jafnóðum og komið honum ferskum á markað. Stærðfræðilíkan sem skipuleggur veiðiferðir fiskiskipa og framleiðslu í fiskvinnslu er sett fram. Rekstrarhagnaður vinnslunnar og útgerðarinnar er hámarkaður með tilliti til rýrnunar á aflanum. Aðrir þættir í bestunarlíkaninu eru birgðastaða og flæði í vinnslu.

IMG_0393

Markmið verkefnisins er að hanna hugbúnað sem sjávarútvegsfyrirtæki geta nýtt til aðstoðar við ákvarðanatöku. Möguleikinn á að nýta líkanið er sýndur með því að beita líkaninu á íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki. Áhrif lengdar veiðiferða á rýrnun er kannað auk annarra áhrifaþátta.

Samstarf við Matís

Verkefni Guðbjargar Heiðu er unnið í samstarfi við Matís og hefur verkefnið verið hluti af stærra verkefni, Vinnsluspá þorskafla, sem styrkt er af Rannís og AVS.

Verkefnið er unnið undir leiðsögn Páls Jenssonar, prófessors við Véla- og iðnaðarverkfræðiskor HÍ og Sveins Margeirssonar doktorsnema í Véla- og iðnaðarverkfræði og deildarstjóra á Matís ohf. Prófdómari er Snjólfur Ólafsson, prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Staður og stund: Guðbjörg mun halda opinn fyrirlestur um verkefni sitt þann 24. september næstkomandi klukkan 12 í stofu 157 í VR-II í húsi Verkfræði- og raunvísindadeilda við Hjarðarhaga 4.

Fréttir

Erindi um nýja norræna matargerð

Matvæli á Norðurlöndum eru talin búa yfir sérstökum eiginleikum sem bæta heilsu fólks. Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta. Mads Holm, yfirmatreiðslumaður Norræna hússins, verður með erindi þann 25. ágúst um hvernig það hyggst vinna með hugmyndir og lögmál hinnar nýju norrænu matagerðar.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda. Einnig er markmiðið að efla samstarf landanna á sviði matvælaframleiðslu og tengja hana verkefnum á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, byggðaþróunar og viðskipta.

Mads Holm mun flytja erindi sitt í Norræna húsinu þann 25. ágúst klukkan 15.

Fréttir

Heilsufullyrðingar: Dregið úr innsendum svörum

Nú er búið að draga úr innsendum svörum vegna könnunar um heilsufullyrðingar á matvælum. Hægt er að skoða vinningsnúmerin hér.

Vinningsnúmer

  • 1531 – 30.000 kr. frá Mjólkursamsölunni
  • 516 – 15.000 kr. frá Mjólkursamsölunni
  • 551 – Ostakarfa frá Mjólkursamsölunni
  • 1183 – Ostakarfa frá Mjólkursamsölunni
  • 2193 – Ostakarfa frá Mjólkursamsölunni
  • 419 – Kristall frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson
  • 2205 – Kristall frá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson
  • 2475 – Heilsukarfa frá Lýsi
  • 90 – Gjafabréf frá Myllunni

Gunnþórunn Einarsdóttir og Emilía Martinsdóttir veita frekari upplýsingar um vinningana í síma 422 5000.

Nánar um heilsufullyrðingar.


Matís vill þakka föllum yrir þátttökuna.

Fréttir

Nýr norrænn matur: hvað er það?

Aukin eftirspurn er eftir matvælum sem búa yfir sérstökum hreinleika og eiginleikum sem taldir eru bæta heilsu fólks. Norðurlönd hafa sterka stöðu hvað þetta varðar í alþjóðlegu samhengi og þá sérstöðu má nýta til að skapa viðskiptatækifæri. Einkum er talið er að byggðalög sem eiga undir högg að sækja efnahagslega geti nýtt þennan styrkleika sér til framdráttar.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda. Einnig er markmiðið að efla samstarf landanna á sviði matvælaframleiðslu og tengja hana verkefnum á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, byggðaþróunar og viðskipta.

Helstu einkenni norrænna hráefna: Hreinleiki, bragðgæði og hollusta

Samstarfsáætlun um ,,nýjan norrænan mat og matargerðarlist” á rætur að rekja til þess að innan Evrópu er sívaxandi áhersla á staðbundin sérkenni matvæla og því fólki fjölgar sem hefur áhuga á að kynnast og upplifa mat sem tengist tilteknum svæðum. Þó Norðurlöndin hafi á ýmsan hátt ólíkar forsendur til matvælaframleiðslu hafa matreiðslumenn á Norðurlöndum í vaxandi mæli dregið fram atriði sem einkenna löndin sem heild. Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta.

Skapa jákvæðara viðhorf til eigin matarmenningu

Sérstakur stýrihópur var stofnaður til að vinna að áætluninni. Í honum sitja fyrir hönd Íslands Emilía Martinsdóttir frá Matís og Laufey Haraldsdóttir frá Ferðamáladeild Hólaskóla, Háskólans á Hólum. Í hverju landi hafa einnig verið tilnefndir “sendiherrar” sem hafa það verkefni að miðla þekkingu og vekja athygli á norrænni matargerð. Sendiherrarnir vinna að kynningum á norrænni matargerð og menningu. Íslensku sendiherrarnir eru Sigurður Hall og Baldvin Jónsson.

Meðal verkefna stýrihópsins er að skilgreina merkingu hugtaksins ”Nýr norrænn matur og matargerðarlist”. Taka þarf tillit til ólíkra matvælahefða innan Norðurlandanna og skapa jákvæðara viðhorf meðal Norðurlandabúa til eigin matarmenningar. Hvatt verður til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og stutt við staðbundna hráefnanotkun og matvælaframleiðslu.

NÝR NORRÆNN MATUR Í HNOTSKURN

  • Aukin eftirspurn er eftir matvælum sem búa yfir sérstökum hreinleika og eiginleikum sem taldir eru bæta heilsu fólks. Norðurlönd hafa sérstöðu í þessum efnum.
  • “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda.
  • Sívaxandi áhersla er á staðbundin sérkenni matvæla í Evrópu.
  • Fólki fjölgar sem hefur áhuga á að kynnast og upplifa mat sem tengist tilteknum svæðum.
  • Norrænir matreiðslumenn hafa í vaxandi mæli dregið fram atriði í matargerð sem einkenna Norðurlönd sem heild.
  • Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta.
  • Sérstakur stýrihópur hvetur til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og styður við staðbundna hráefnanotkun og matvælaframleiðslu.
IS