Hvannabeit hefur áhrif á bragðgæði lambakjöts að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands). Samkvæmt mati sérþjálfaðs hóps á Matís reyndust hvannalömbin hafa meiri kryddlykt og –bragð, en lömb í hefðbundnu beitarlandi höfðu meira lambakjötsbragð.
Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra, fékk tækifæri á því að gæða sér á hvannakjötinu á veitingastaðnum Vox á Nordica Hótel og lýsti af því tilefni yfir ánægju með slíka nýsköpun í landbúnaði.
Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau ólu ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi sem var með hvönn. Til samanburðar var öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð.
Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.
Nú þegar búið er að gera rannsóknir á kjötinu kemur í ljós að það er greinanlegur munur á milli lamba sem alin voru upp á hvönn og lamba sem alin voru á hefðbundinni sumarbeit.
Þrátt fyrir góðar niðurstöður er einungis um að ræða fyrsta skrefið af mörgum. Meðal annars er stefnt að því að búa til hvannaakur svo hægt sé að þróa bragðið enn frekar.