Fimmtudaginn 19. maí síðastliðinn stóð Laurentic Forum fyrir vinnufundi um nýtingu stórþörunga (seaweed) á norðurslóðum. Fundurinn var í alla staði mjög áhugaverður og var sóttur af um 100 manns, víðsvegar að úr heiminum.
Upptökur af fundinum má nú nálgast á vefsíðu viðburðarins hér: Laurenticforum.com
Á fundinum var farið stuttlega yfir stöðu mála hvað varðar nýtingu þörunga á heimsvísu, sem og í Kanada (Nýfundnaland & Labrador), Íslandi, Færeyjum, Írlandi og Noregi.
Dagskrá fundarins var svo hljóðandi:
Keith Hutchings from Canadian Centre for Fisheries Innovation: Welcome
Paul Dobbins from WWF: Seaweed Farming as a Nature Based Solution- Opportunities and Challenges from WWF’s Perspective
Kate Burns from Islander Rathlin Kelp: Farmed Kelp, What Market?
Olavur Gregersen from Ocean Rainforest Faroe Islands: Scaling up Kelp Farming in the North Atlantic
Anne Marit Bjørnflaten from Oceanfood AS North Norway: Macroalgae: A New and Sustainable Aquaculture Industry with Huge Potential in the Arctic
Jónas R. Viðarsson from Matís Iceland: Seaweed Production on the Rise in Iceland
Cyr Courtourier from the Fisheries and Marine Institute of Memorial University in Newfoundland: Future Prospects for Seaweed Farming Across Canada in a Subarctic Environment
Q&A
Frekari upplýsingar um viðburðinn eða Laurentic Forum veitir jonas@matis.is
Í þessari viku hefur Nýsköpunarvikan eða Iceland Innovation Week verið haldin hátíðleg víða um borgina. Á morgun, föstudaginn 20. maí verða fjölmörg erindi á dagskrá sem snúa að nýsköpun í matvælageiranum og verður erindi Matís: Sjálfbær matvælaframleiðsla – Nýsköpun er lykillinn! þeirra á meðal.
Viðburðurinn fer fram í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni, í salnum Fenjamýri á fyrstu hæð og stendur frá kl. 13:30-15:00.
Þátttaka í viðburðinum er ókeypis. verið velkomin!
Viðburðurinn samanstendur af 5 stuttum og skemmtilegum erindum sem fjalla á einn eða annan hátt um nýsköpun og sjálfbærni í matvælaframleiðslu.
Dagskráin er eftirfarandi:
Er nýsköpun góð? Skynmat og neytendarannsóknir. – Aðalheiður Ólafsdóttir
Tækifæri til nýsköpunar í íslensku grænmeti – Eva Margrét Jónudóttir og Ólafur Reykdal
Hvernig líta próteingjafar framtíðarinnar út? -Margrét Geirsdóttir
Eins manns úrgangur, annars manns gull? Sjálfbær áburðarframleiðsla á Íslandi -Jónas Baldursson og Eva Margrét Jónudóttir
Hvernig skal tala við börn um sjálfbærni og loftslagsbreytingar? -Katrín Hulda Gunnarsdóttir
Nánar um erindin:
Aðalheiður Ólafsdóttir er algjör snillingur í öllu sem við kemur skynmati og neytendarannsóknum, enda ætlar hún að fræða gesti um hvað felst í þessum hlutum í erindi sínu í Nýsköpunarvikunni; Er nýsköpun góð? Áhugasöm geta auk þess fengið að láta reyna á skynmatshæfileika sína! „Það skiptir litlu máli þótt ný vara á markaði sé meinholl, laus við öll heimsins bragð- og litarefni, lífræn og sjálfbær. Ef hún bragðast eða lyktar mjög illa, þá mun henni ekki vegna vel“
Ólafur Reykdal er algjör reynslubolti þegar kemur að rannsóknum á íslensku grænmeti og korni og Eva Margrét hefur stundað matvælarannsóknir um árabil! Þau verða með mjög svo líflegt erindi í Nýsköpunarvikunni þar sem Kahoot kemur meðal annars við sögu og fjallar um þau óteljandi tækifæri sem liggja í nýsköpun í grænmetisgeiranum!
Margrét Geirsdóttir lífefnasjení og almennur lífskúnstner vinnur nú hörðum höndum að verkefninu NextGen Proteins um próteingjafa framtíðarinnar ásamt Birgi Erni Smárasyni verkefnastjóra. Hún ætlar að fjalla um hvað er að frétta af rannsóknum á skordýrapróteini og spirulina og leyfa gestum jafnvel að smakka óhefðbundin prótein!
Jónas Baldurssson og Eva Margrét hafa síðustu misseri bókstaflega unnið að því að rannsaka kúk og skít! Fallegra væri þó auðvitað að tala um lífrænan úrgang og það gera þau almennt. Þau ætla að sýna myndband í Tik-Tok stíl um verkefnið sitt um Sjálfbæra áburðarframleiðslu í nýsköpunarvikunni. Erindið er sérstaklega viðeigandi um þessar mundir þar sem aðstæður í heiminum eru að gera öllum erfitt fyrir að flytja áburð á milli landa.
Katrín Hulda og Justine Vanhalst vita allt um það hvernig best og sniðugast er að fræða börn og ungt fólk um þung málefni eins og loftslagsbreytingar og sjálfbærni. Í vetur hafa þær unnið að tveimur mismunandi verkefnum með börnum um allt land og meira að segja út fyrir landssteinana þar sem þær hafa virkjað þau til þess að setja á sig frumkvöðla-gleraugun og takast á við raunverulegar áskoranir – og finna raunverulegar lausnir! Erindið þeirra í nýsköpunarvikunni snýr að afrakstri þessara verkefna.
Frá 2005 hefur North Atlantic Seafood forum (NASF) verið árviss viðburður þar sem stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi hittast í Bergen til að kynna sér helstu nýjungar og bera saman bækur. Reyndar féll viðburðurinn niður árið 2020 sökum Covid, og á síðasta ári var NASF keyrt sem netviðburður.
Að þessu sinni verður NASF haldið dagana 21. – 23. Júní og verður um svokallaðan „hybrid“ viðburð að ræða, þar sem búist er við að um 800 manns mæti í persónu til Bergen og að allt að 1.500 manns taki þátt í gegnum netið. Dagskráin er sérlega spennandi að þessu sinni þar sem alls verða fluttir yfir 160 fyrirlestrar í 27 málstofum.
Láttu ekki þennan viðburð fram hjá þér fara!
Frá 2005 hafa stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi flykkst árlega til Bergen til að sitja ráðstefnu NASF. Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu hefur jafnan verið stjórnendur í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, flutningsaðilar, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv. Þrátt fyrir að kostnaður við þátttöku hafi verið umtalsverður hafa á milli 800 og 1.000 manns sótt viðburðinn ár hvert, sem sýnir hversu mikilvæg þessi ráðstefna er fyrir markhópinn. Á síðasta ári var NASF fært yfir á netið, sökum COVID, og þótti það takast mjög vel. Því verður NASF þetta árið haldið sem „hybrid“ viðburður. Dagskráin þetta árið er sérlega spennandi og hefur verið birt á https://nor-seafood.com/
Ef stiklað er á stóru yfir dagskrána, þá vekja eftirfarandi málstofur sérstaka athygli:
Global aquaculture summit
The post covid consumer by McKinsey
Aquaculture feed summit
Aquaculture & salmon market and production
Global whitefish summit
Global seafood transport summit
International shrimp summit
Land based fish farming
Pelagic industry summit
Eins og oft áður skipa Íslensk fyrirtæki og einstaklingar stóran sess í dagskránni. Þar er fyrst að nefna að Marel og Benchmark Genetics/Stofnfiskur eru meðal helstu styrktaraðila ráðstefnunnar. Þá verða eftirtaldir Íslendingar eða aðilar tengdir Íslandi á mælendaskrá:
Mikael Tal Grétarsson – Iclandair Cargo
Björn Hembre – Icelandic Salmon/Arnarlax
Guðmundur Gíslason – Ice Fish Farm / Fiskeldi Austfjarða
Kjartan Ólafsson – Icelandic Salmon/Arnarlax
Þátttaka á NASF síðustu ára hefur ekki verið á allra færi þar sem skráningargjaldið eitt og sér hefur verið nálægt 200 þús. kr. auk þess sem ferðir og uppihald í Bergen kostar sitt. Engu að síður hafa færri komist að en vilja, þar sem hér er um einstakt tækifæri til að hitta á einum stað alla helstu stjórnendur í sjávarútvegi og fiskeldi.
Nú verður öll dagskráin hins vegar einnig aðgengileg á netinu, þar sem meðal annars verður mögulegt að skipulega netfundi með öðrum þátttakendum. Ráðstefnugjaldið fyrir þá sem vilja taka þátt í persónu í Bergen er 1.490 EUR og fyrir þá sem láta netþátttöku duga er gjaldið 490 EUR. Skráning fer fram á https://nor-seafood.com/registration/ en einnig er hægt að hafa samband við Jónas R. Viðarsson hjá Matís til að semja um afslátt ef fyrirtæki vilja skrá marga þátttakendur. Þá er einnig hægt að hafa samband við Jónas til að fá frekari upplýsingar um NASF22.
Enn er möguleiki á að gerast styrktaraðilar NASF22, auk þess sem að enn er tækifæri fyrir nýsköpunar- og tæknifyrirtæki að komast að á „New horizon & technology“ hluta ráðstefnunnar. Frekari upplýsingar um styrktaraðild og NH&T má finna hér.
Sendiherra Bretlands á Íslandi Dr. Bryony Mathew, ásamt fríðum hóp heimsótti Matís 10. maí sl. Með henni í för voru fulltrúar Grimsby seafood cluster, Humber institute, Grimsby Fish Mecharnt Association og University of Lincoln’s – National Centre for Food Manufacturing. Þá var fulltrúum Landbúnaðarháskólans og Bændasamtakanna einnig boðið til fundarins.
Markmið heimsóknarinnar var að ræða mögulegt samstarf milli fyrirtækja og stofnanna beggja landa á sviði matvælaframleiðslu og tengdra greina. Grimsby og Humber svæðið er vagga sjávarútvegs í Bretlandi og Háskólinn í Lincoln er hvað fremstur stofnanna þar í landi á sviði rannsókna og nýsköpunar í landbúnaði og matvælavinnslu.
Bretland, og þá sér í lagi Grimsby svæðið, hefur um aldir verið háð innflutningi á fiski frá Íslandsmiðum, og að sama skapi hefur svæðið skipað stóran sess í útflutningi sjávarafurða frá Íslandi. Hið langa og farsæla samstarf þjóðanna skiptir yfirvöld landanna miklu máli og sjá þau tækifæri í að hlúa enn frekar að samvinnu á breiðum grundvelli. Því hafa stjórnvöld landanna undirritað viljayfirlýsingu um aukið samstarf á sviði sjávarútvegs. Meðal þess sem rætt var á fundinum voru tækifæri og áskoranir við að fylgja viljayfirlýsingunni eftir.
Innan Háskólans í Lincoln er starfræktur einskonar „tæknigarður“ fyrir rannsóknir og þróun matvæla. Tæknigarðurinn hefur á að skipa gífurlega sterkum innviðum og sérfræðiþekkingu á flestum sviðum matvælaframleiðslu. Má í því sambandi t.d. nefna sjálfvirkni (e. autimisation & robotics) í landbúnaði og annarri matvælavinnslu. Sköpuðust á fundinum gífurlega góðar umræður milli þátttakenda sem verður án efa fylgt eftir á komandi mánuðum.
Þökkum við Dr. Bryony Mathew og fylgdarliði kærlega fyrir komuna.
Meira er framleitt af kartöflum en öðru grænmeti á Íslandi. Uppskeran síðastliðin fimm ár hefur verið á bilinu 6 til 9 þúsund tonn. Hægt væri að auka kartöfluframleiðsluna á Íslandi umtalsvert og væri það gott framlag til aukins fæðuöryggis þar sem hægt er að geyma kartöflur í langan tíma.
Vinsældir kartaflna hafa minnkað nokkuð á síðustu árum, ekki síst hjá yngstu kynslóðinni. Hollustuímynd kartaflna hefur kannski ekki verið eins sterk og fyrir litsterka grænmetið. Vel er þekkt að tómatar, spergilkál, rauð paprika og fleiri grænmetistegundir innihalda vítamín og önnur hollefni eins og andoxunarefni. Hjá Matís hafa verið gerðar mælingar á andoxunarefnum og andoxunarvirkni í grænmeti þar á meðal kartöflum.
Á óvart kom að meira mældist af andoxunarefnum í kartöflum en ýmsum litsterkum grænmetistegundum.
Verkefnið Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis var unnið á Matís á árinu 2021 fyrir styrk frá Matvælasjóði. Við efnamælingar á kartöflum kom í ljós að kolvetnainnihald þeirra var oft lægra en fyrir erlendar kartöflur. Í Bændablaðinu 12. maí 2022 er fjallað um kartöflur frá bændum á Þórustöðum í Eyjafirði en kartöflur frá þeim voru til rannsóknar í verkefninu. Sum kartöfluyrkin höfðu til muna lægra kolvetnainnihald en algengt er erlendis. Lágt kolvetnainnihald þýðir jafnframt að hitaeiningarnar eru færri en í kolvetnaríkari kartöflum.
Flest kartöfluyrkin veita færri hitaeiningar en soðið pasta og kartöflurnar hafa andoxunarefnin og vítamín umfram pastað.
Fimmtudaginn 19. maí stendur Laurentic Forum fyrir tveggja klst. vinnufundi um nýtingu þörunga (seaweed) á norðurslóðum, en fundurinn hefst kl 12:00 að íslenskum tíma.
Farið verður stuttlega yfir stöðu mála hvað varðar nýtingu þörunga á heimsvísu, sem og í Kanada (Nýfundnaland & Labrador), Íslandi, Færeyjum, Írlandi og Noregi. Þá verða kynnt tækifæri í samstarfi og mögulegar fjármögnunarleiðir í rannsóknarsjóðum er tengjast þessari grein, og að lokum fara svo fram umræður.
Anne Marit Bjørnflaten, Co-owner, Oceanfood AS North Norway
Cyr Courtourier, Aquaculture Scientist, Fisheries and Marine Institute of Memorial University
Stein Arne Ranes, Senior Advisor, Department of Industry and Economic Development, Troms and Finnmark County Council
Moderator – keith Hutchings, Executive Director of the Canadian Centre for Fisheries Innovation
Laurentic Forum er netverk fyrirtækja og stofnanna í norður Atlantshafi sem hefur það að markmiði að auka samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar í bláa hagkerfinu innan svæðisins, með sérstaka áherslu á „brotnar byggðir“.
Fyrir hönd Íslands eiga Matís, Sjávarklasinn, Byggðastofnun og Þekkingarsetur Vestmannaeyja sæti í stýrinefnd Laurentic Forum.
Frekari upplýsingar um viðburðinn eða Laurentic Forum veitir jonas@matis.is
Utanríkisráðuneytið undirbýr nú aukningu á tvíhliða þróunarsamstarfi við stjórnvöld í Síerra Leóne. Helsta markmið samstarfsins er að vinna að nýjum verkefnum á sviði fiskimála og bláa hagkerfisins.
Sendinefnd skipuð fulltrúum fjögurra stofnanna er tengjast fiskimálum á Íslandi auk fulltrúum Utanríkisráðuneytisins fór til Síerra Leóne í lok mars síðast liðinn til að kanna aðkomu íslenskra sérfræðinga að verkefnum sem styrkt geta jákvæða þróun fiskimála og bláa hagkerfisins þar í land.
Fulltrúi Matís í þessari ferð var Oddur Már Gunnarsson en að auki voru fulltrúar frá Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofu og Sjávarútvegsskóla GRÓ. Sendinefndin átti fund með fiskimálaráðherra landsins auk annara fulltrúa ráðuneytisins, annara stofnanna og fyrirtækja og fulltrúum samstarfsríkja er koma að fiskimálum í Sierra Leóne.
Þá heimsótti hópurinn löndunarstaði fyrir strandveiðibáta og fékk innsýn inn í líf fiskisamfélaga, þar sem fiskur er meðhöndlaður, unninn og markaðssettur. Um 70% af lönduðum afla í Síerra Leóne kemur frá strandveiðum.
Í framhaldi af þessari ferð verður unnið með Utanríkisráðuneytinu að frekari útfærslu verkefna þar sem íslenskt hugvit og þekking getur nýst við þróun fiskmála og bláa hagkerfisins í Sierra Leóne.
Séu heimamenn stoltir af menningararfinum, leggi áherslu á hefðir og siði matarmenningar ásamt því að hafa sérstöðu matvæla á mismunandi svæðum að leiðarljósi, hefur matartengd ferðaþjónusta á Norðurlöndunum góð skilyrði til að aukast í framtíðinni.
Matarhefð er stór hluti af ímynd lands og þjóðar enda endurspeglar hún menningu og sögu og markast af tíðarfari og náttúru hvers lands fyrir sig. Matarupplifun er órjúfanlegur hluti af upplifun ferðamanna hvar sem þeir koma.
Á Norðurlöndum hefur orðið mikil vitundarvakning á þeim verðmætum sem liggja í svæðisbundinni matargerð bæði hvað varðar nýsköpun, þróun og neyslu fyrir heimamenn sem og erlenda gesti. Að sama skapi er sí aukin áhersla lögð á sjálfbærni í matvælaframleiðslu sem og ferðaþjónustu þannig að jafnvægi milli vaxtar og verndar sé gætt.
Verkefninu Nordic Food in Tourism er nýlokið. Markmið þess var að kanna hvernig ferðamenn og aðrir gestir tala um eða skynja norrænan mat, varpa ljósi á mikilvægi staðbundinna matvæla í sjálfbærri ferðaþjónustu og öðlast innsýn í hvernig loftslags-, neyslubreytingar og aðrar breytur geta mótað framtíð matar í ferðaþjónustu. Tilgangurinn var að vekja athygli á framtíðaráskorunum og tækifærum tengdum mat í ferðaþjónustu og veita stefnumótandi leiðbeiningar sem styðja við framtíðaraðgerðir og stefnumótun á Norðurlöndunum sem samræmast einnig markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Matur er öflugt markaðsafl í ferðaþjónustu. Náttúra, menning, hrein orka og iðandi mannlíf eru auðlindir sem hafa aðdráttarafl og hefur Ísland allt til að bera til að samþætta þetta fernt í markaðssetningu á mat í ferðaþjónustu. Þörf er á markvissri kynningarstefnu sem hefur það að markmiði að skapa áhuga og eftirspurn eftir matartengdri afþreyingu og nærsamfélagsneyslu en ekki síður að bregðast við þeim áhuga og þeirri eftirspurn sem þegar er til staðar. Efla þarf samfélagsvitund um þá sérstöðu til matvælaframleiðslu sem við búum við, þekkingu á matararfleifð okkar og tækifæri til framtíðar.
Að byggja upp áfangastað sem ætlar að skipa sér sess sem eftirsóttur mataráfangastaður innan Evrópu krefst öflugrar samvinnu og samtakamáttar til að slagkraftur skilaboðanna verði sterkur. Þjónusta og gæði þurfa að fylgjast að við markaðssetningu og innviðir þurfa að vera tilbúnir til að standa undir fyrirheitum og væntingum.
Mikilvægt er að horfa á virðiskeðju matvæla þar sem gæði hráefnisins eru undirstaðan en ánægja og upplifun neytenda ráða eftirspurn.
Hér skiptir máli að neytendur og frumframleiðendur hlusti á hvorn annan til að ýta undir þá þróun sem markaðurinn kallar eftir, með sjálfbærni að leiðarljósi. Mikilvægt er að stuðla að þróun og nýsköpun með hliðsjón af vannýttum auðlindum og matvælastefnu sem miðar að lágmörkun sóunar. Nauðsynlegt er að huga að framtíðar-sviðsmyndum, skipulagi og samvinnu.
Verkefnið Nordic food in Tourism var eitt af þremur formennskuverkefnum norrænu ráðherranefndarinnar undir hatti sjálfbærrar ferðamennsku í norðri. Menningar- og viðskiptaráðuneytið (áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið) leiddi verkefnið í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og Matís. Norrænir samstarfsaðilar komu frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Grænlandi, Færeyjum, Álandseyjum og Finnlandi auk þess sem sérfræði hópur frá háskólum og atvinnulífi kom að verkefninu. Niðurstöður verkefnisins byggja á greiningum gagna, aðferðum framtíðarfræða, viðtölum við sérfræðinga og niðurstöðum vinnustofa með hagaðilum.
Niðurstöðurnar eru birtar í tveimur skýrslum, annars vegar þar sem áherslan er á framtíðarsýn og stefnumótandi leiðbeiningar í tengslum við mat í ferðamennsku á Norðurlöndunum og hins vegar á Íslandi:
Við hvetjum fólk til að nýta þessar niðurstöður enda veita þær innblástur til frekara samstarfs, uppbyggingar, fjárfestingar og nýsköpunar í mat í ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi. Skýrslurnar og frekari upplýsingar má finna á vefsíðu verkefnisins; Nordicfoodintourism.is
Dagana 26. og 27. apríl fer fram þriðja og síðasta MAKEathon verkefnisins Grænir Frumkvöðlar Framtíðar, í Nesskóla í Neskaupstað. MAKEathon Árskóla og Grunnskóla Bolungarvíkur hafa þegar farið fram með glæsilegum árangri. MAKEathon verkefnisins er nýsköpunarkeppni sem stendur yfir tvo daga.
Í þessu MAKEathoni taka, 24 nemendur í 8.bekk Viktoríu Gilsdóttur þátt. Þeir vinna saman í teymum sem keppast við að leysa áskorun sem fundin verður á heimsóknum þeirra í sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu. Áskorunin mun snúa að umhverfis- og loftslagsmálum. Þeir reyna að búa til einhverskonar frumgerð (e. prototype), m.a. í samstarfi við FabLab Austurland undir handleiðslu Móses Helga Halldórssonar.
Frá því í haust hafa nemendur fengið fræðslu m.a. um loftslagsbreytingar, sjálfbærni og nýsköpun. Allt efni GFF verður gert aðgengilegt eftir að verkefninu lýkur.
Verkefnið Grænir Frumkvöðlar Framtíðar hófst í skólunum í september 2021 og MAKEathonin eru lokahluti þeirra. Landskeppni á milli skólanna þriggja fer fram í maí og verða úrslit hennar kynnt í Nýsköpunarvikunni (á erindi Matís þann 20. maí).
Sjónvarpsstöðin N4 hefur í allan vetur verið að taka upp þátt um verkefnið og verða því kvikmyndatökumenn frá þeim á staðnum. Þátturinn verður sýndur á sjónvarpsstöðinni í haust og þar verður verkefnið kynnt.
Grænir Frumkvöðlar Framtíðar er fræðsluverkefni ætlað fyrir elstu bekki grunnskóla. Markmiðið er að fræða nemendur um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess, sjálfbærni og nýsköpun á nýstárlegan og skemmtilegan hátt. Verkefnið er styrkt af Loftslagssjóði og er verkefnastjórn í höndum Matís. Aðrir þátttakendur eru skólarnir þrír, FabLab smiðjur á hverujm stað, Cambridge University, Climate-KIC og Djúpið Frumkvöðlasetur.
Fyrir frekari upplýsingar er bent á að hafa samband við verkefnastjóra verkefnisins: Justine@matis.is. Þá eru skólar sem vilja taka þátt sérstaklega hvattir til að hafa samband.
(fjölmiðlafólk getur haft samband í síma: 762 0266).