Fréttir

Staða verkefnastjóra Matís í Vestmannaeyjum er laus

Matís ohf. auglýsir eftir verkefnastjóra í Vestmannaeyjum. Hlutverk verkefnistjórans er að stjórna og vinna að verkefnum á vegum Matís ohf. í Vestmannaeyjum. Æskilegt er að umsækjendur að hafi tækni- eða háskólapróf í raunvísindum eða verkfræði.

Helstu verkefni:

– umsjón með daglegum rekstri, öflun verkefna og áætlanagerð

– samstarf við fyrirtæki og einstaklinga um verkefni

– vinna við verkefni er tengjast rannsóknum og þróun á sviði matvæla

– kortlagning á tækifærum

– kynna verkefni og tækifæri í umhverfinu

Umsækjendur þurfa að hafa frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, gott vald á ensku og íslensku og lipurð í mannlegum samskiptum. Æskilegt er að umsækjendur að hafi tækni- eða háskólapróf í raunvísindum eða verkfræði.

Umsóknum með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla sendist til Matís ohf, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

Umsóknafrestur er til 2. maí 2007. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. júní 2007.

Nánari upplýsingar veita Guðjón Þorkelsson, gudjon.thorkelsson@matis.is, og Ragnar Jóhannsson, ragnar.johannsson@matis.is.

Matís ohf er nýtt hlutafélag í eigu ríkisins sem hefur tekið við starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA) og Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Tilgangur félagsins er að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

Fréttir

Fundið fé í bolfiskvinnslu

Mikill fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur felst í því að nýta fiskhold eða prótein sem tapast í bolfiskvinnslu. Verðmæti geta numið hundruð milljóna króna miðað við það 60 þúsund tonna ársframleiðslu af ferskum og frosnum bolfiskafurðum. Þá fer minna af lífrænum efnum út í umhverfið með því að nýta fiskhold eða prótein í vinnslunni, að því er fram kemur í rannsókn Matís (Matvælarannsóknir Íslands), Brims og Toppfisks.

Í rannsókninni, sem nefnist “Vannýtt prótein í frárennslisvatni frá fiskvinnslum” er lýst úttekt á vatnsnotkun og próteintapi við flökun og roðflettingu í bolfiskvinnslu. Þar segir að ef gert er ráð fyrir að um 1% af hráefnisþyngd tapist við flökun og roðflettingu samsvarar það um 1.200 tonnum af flakaafurðum miðað við 60 þús. tonna ársframleiðslu af ferskum og frosnum bolfiskafurðum. Verðmæti geta því numið um 120-500 milljónum króna á ári, eftir því hvort fiskmassinn er verðlagður sem marningur eða verðmætari afurðir til manneldis. Rétt er að benda á að ýmsir þættir geta haft áhrif á tap fiskholds við vinnslu, s.s. ástand hráefnis og vinnslubúnaðar en ekki var lagt mat á breytileika m.t.t. þess.

Í rannsókninni kom í ljós að vatnsnotkun var um 0,5 l/kg afurðar við flökun og sambærileg vatnsnotkun við roðdrátt ef miðað var við vinnslu á 2 kg af fiski og 50% vinnslunýtingu. Vatnið var síað með nokkrum sigtum af mismunandi grófleika (0,25-1mm). Með grófri síun (1mm) mátti skilja mestan hluta blóðtægja og beina frá en eftir því sem að síun var fínni því hvítari og einsleitari varð fiskmassinn. Með því að einangra þurrefni úr frárennslisvatni er hægt að auka verðmæti og bæta nýtingu sjávarfangs en jafnframt stuðla að umhverfisvænni framleiðsluháttum. Vissulega þarf að leggja í nokkurn kostnað til að einangra próteinin en með tiltölulega einföldum síunarbúnaði mætti ná umtalsverðu magni þeirra próteina sem nú fara forgörðum í frárennsli fiskvinnslustöðva.

Flök af þorski metin

Verkefnið var unnið af sérfræðingum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins (nú Matís ohf) í samvinnu við Brim og Toppfisk styrkt af AVS sjóðnum.

Fréttir

Hamingjusamir eldisfiskar – Matís tekur þátt í alþjóðlegu verkefni um velferð fiska

Matvælarannsóknir Íslands (Matís) og Háskólinn á Hólum taka þátt í umfangsmiklu Evrópuverkefni sem felst í því að rannsaka velferð fiska í eldi.

Markmiðið er að skilgreina hvað veldur streitu og vanlíðan fiska. 60 rannsóknahópar frá yfir 20 löndum taka þátt í verkefninu sem stendur í 5 ár. Rannsóknarverkefnið er hluti COST áætlunar Evrópusambandsins en sú áætlun leggur til um 10 milljarða króna til rannsókna. Verkefnastjóri rannsóknaverkefnisins er prófessor Anders Kiessling við Háskólann í Ási í Noregi.

Dr. Þorleifur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Matís, og Dr. Helgi Thorarensen, hjá Háskólanum á Hólum, sitja í stjórn verkefnisins. Þorleifur segir að nýjar rannsóknir bendi til þess að fiskar upplifi sársauka líkt og fuglar og spendýr þó svo að ekki sé ljóst hvort að um sambærilega sársaukatilfinningu sé að ræða og hjá æðri hryggdýrum. Hann segir að til þess að rannsaka hvernig fiskar upplifi umhverfi sitt þurfi að kalla fram líffræðilega svörun með áreiti og rannsaka áhrifin.

“Þar sem fiskar hafa ekki möguleika á að gefa til kynna sársauka eða vanlíðan með hljóðum og/eða svipbrigðum þá hefur einkum verið stuðst við breytingar í atferli ásamt því að reyna að meta stressviðbrögð.”

Mengunarefni hafa áhrif á streitu

Þorleifur segir að áreiti sem veldur stressi sé miðlað um taugar sem tengjast sjón, heyrn, lyktarskyni og skynfærum sem skynja breytingar í vatnsþrýstingi. Umhverfi eða aðstæður sem fiskar þola illa, svo sem of mikill þéttleiki, of hátt/lágt súrefnisstig, óhagstætt seltustig, hár styrkur koltvíildis (áhrif á sýrustig í blóði) hafa einnig áhrif á taugaboð sem berast heilanum og valda streitu. Mengunarefni (náttúruleg eða af mannavöldum) hafa einnig mjög mikil streituáhrif á fiska.

Eldisþorskur

“Stress í fiskum er því ákaflega flókið fyrirbrigði en í stuttu máli má segja að lífeðlisfræðileg breyting eigi sér stað hjá stressuðum fiskum úr því að vera í örum vexti við góða heilsu yfir í að vera sjúkur fiskur með litlar lífslíkur,” segir Þorleifur.

Þorleifur segir að ljóst sé að í fiskeldi bíði mörg vandamál úrlausnar sem tengjast rannsóknum á velferð fiska. “Mjög mikilvægt er að efla slíkar rannsóknir, ekki síst á Íslandi þar sem þorskeldi er í örum vexti, því að aðstæður þær sem hér eru af náttúrunnar hendi eru gjörólíkar þeim er þekkjast í nágrannalöndunum – íslenskar aðstæður þurfa því íslenskar úrlausnir.”

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins: www.fishwelfare.com

Fréttir

Mælingar á mengunarefnum í matvælum til Akureyrar

Matís á Akureyri hefur tekið við mælingum á mengunarefnum í matvælum. Um er að ræða nýtt svið sem mun stórefla starfsemi Matís á Akureyri. Sviðið mun sinna rannsóknum og mælingum á mengunarefnum í matvælum, svo sem magni skordýraeiturs, plöntueiturs og annarra lífrænna mengunarefna sem safnast upp í umhverfinu.

Í tilefni af uppbyggingu Matís á Akureyri og formlegri opnun á aðstöðu fyrir slíkar rannsóknir kynnti Sigrún Björk Jakbosdóttir bæjarstjóri á Akureyri sér starfsemi Matís í bænum í dag. Á hinu nýja sviði fara fram mælingar á magni mengunarefna í innfluttu grænmeti, ávöxtum, fiski, kjöti og öðrum matvælum.

Matís á Akureyri mun því gegna lykilhlutverki í neytendavernd hér á landi. Auk þess er sviðnu ætlað að safna gögnum sem sýna fram á hreinleika íslenskra matvæla. Þessi gögn eru ætluð í gagnagrunn sem mun nýtast framleiðendum og útflytjendum íslenskra matvæla auk kaupendum og neytendum erlendis. Krafa um heilnæmi matvæla hefur stóraukist og því munu rannsóknir Matís á Akureyri styðja við íslenskan matvælaiðnað og tryggja öryggi framleiðslunnar.

Heimsokn_bajarstjora_Akureyrar

Mynd:Ásta Ásmundsdóttir, efnafræðingur hjá Matís, Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri Matís á Akureyri, og Sigrún Jakobsdóttir, bæjarstjóri, í húsakynnum Matís á Akureyri.

Fréttir

Matís auglýsir eftir viðskiptafræðingi

Matís ohf. (Matvælarannsóknir Íslands) óskar eftir að ráða drífandi og metnaðarfullan einstakling í starf viðskiptafræðings hjá fyrirtækinu.

Starfssvið:

  • Vinna að uppgjöri með fjármálastjóra
  • Áætlanagerð
  • Bókhaldsvinna
  • Greiningavinna
  • Upplýsingar fyrir stjórnendur
  • Verkefnastjórnun
  • Ýmis sérverkefni

Hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun í viðskiptafræði, helst af endurskoðunar- eða bókhaldasviði
  • Góð þekking og reynsla á bókhaldi og uppgjörsmálum
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Metnaður til að ná árangri í starfi

Umsóknum með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla, sendist til Matís ohf., Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

Umsóknafrestur er til 10. apríl 2007. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. maí 2007.

Nánari upplýsingar á matis@matis.is

Fréttir

Útflutningur á lifandi humar

Hafnar eru tilraunaveiðar á humri á Höfn í Hornafirði með það fyrir augum að flytja út lifandi humar frá humarhóteli Matís á markað erlendis um páskahátíðina, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Þá verður humarinn einnig veiddur til dvalar á svokölluðu humarhóteli sem starfrækt er á Höfn á vegum Matís. Til veiðanna hefur verið fenginn lítill humarbátur, Mundi Sæm SF-1, sem er 26 brúttótonn að stærð. Á þeim tíma sem tilraunaveiðar standa yfir er markmiðið að veiða um 750 kíló af humri sem fengin eru af rannsóknakvóta Hafrannsóknastofnunar.

,,Við fáum hæst verð fyrir lifandi humar fyrir stórhátíðir eins og jól og páska. Við erum í sambandi við markaðsmenn í Frakklandi og á Spáni og það verður spennandi að sjá hvernig prufusendingum með humrinum frá Íslandi fyrir páskana verður tekið,“ sagði Ari Þorsteinsson framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands ehf í samtali við Fiskifréttir.

Fréttir

Þorskeldi: mögulegt að stórlækka fóðurkostnað

Mögulegt er að lækka fóðurkostnað í þorskeldi allverulega með nýrri samsetningu af fóðri, að því er fram kemur í rannsóknum Matís og samstarfsaðila. Niðurstöður rannsókna sýna að lækka má kostnað á fóðri fyrir eldisþorsk um amk. 25%, sem þýðir 12-15% lækkun framleiðslukostnaðar í þorskeldi. Niðurstöður rannsóknanna hafa þegar verið nýttar að hluta við fóðurframleiðslu hjá Laxá hf og eru þær mikilvægt skref í þá átt að gera eldi á þorski enn arðbærara.

Eldisdeild Matís hefur undanfarin ár unnið með Fóðurverksmiðjunni Laxá, Hólaskóla og fleiri samstarfsaðilum að rannsóknum á fóðri fyrir þorsk með það að markmiði að lækka fóðurkostnað. Hefur fyrirtækið meðal annars fengið styrki til verkefnanna frá AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi. Norðmenn hafa verið leiðandi í frameiðslu á fóðri fyrir fiskeldi en á nýafstaðinni þorskeldisráðstefnu sem haldin var í Noregi kom fram að takmörkuð þróun á fóðri fyrir þorsk virðist eiga sér stað þar í landi og þar af leiðandi hafa ekki skapast forsendur til að lækka verð á þorskfóðri.

13% lækkun fóðurkostnaðar í þorskeldi

Niðurstöður tilraunanna hér á landi sýna m.a. að hægt er að nota lægra hlutfall af próteini í fóðrið en áður var talið, án þess að það komi niður á vexti fiskanna. Mest af próteinum í fóðrinu kemur úr hágæða fiskimjöli og hefur hátt verð á fiskimjöli orðið til þess að verð á fiskafóðri hefur hækkað og afkoma fiskeldisfyrirtækja versnað. Tilraunirnar sýna að hægt er að skipta út hluta af fiskimjölinu í fóðrinu með ódýrari próteinum úr jurtaríkinu og lækka þannig fóðurverðið enn frekar.

Sjóeldiskvíar Rf á Vestfjörðum

Áður var talið að fituinnihald í þorskfóðri mætti ekki vera hærra en 10-15% en niðurstöður tilrauna á 500-1000 gr. þorski, þar sem prófuð var fita í fóðri á bilinu 10 – 26%, sýndu að hægt er að auka fituhlutfallið í 26% án þess að það kæmi niður á vexti og gæðum fisksins. Ótti um að aukin fita í fóðri gæfi óeðlilega stóra lifur reyndist jafnframt ástæðulaus þar sem lifur var á bilinu 8,8 til 10,8% af fiskþunga sem er sambærilegt við það sem gerist í velhöldnum villtum þorski. Tilraunir á minni þorski (um 50 gr. seiði) eru að hefjast og er gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir í júní á þessu ári.

Ef gengið er út frá núverandi hráefnisverðum og með hliðsjón af niðurstöðum má lækka hráefniskostnað í þorskfóðri um 21% (þorskseiði) og 32% (stærri þorskur). Að meðaltali er því hægt að lækka hráefniskostnað um amk. 25% sem þýðir um 13% lækkun fóðurkostnaðar í þorskeldi.

Fréttir

Nýstarlegt fiskiker dregur úr rýrnun fisks

Promens Dalvík, áður þekkt sem Sæplast, hefur hafið framleiðslu á nýstárlegu fiskikeri sem er léttara en önnur ker og með meira inntaksrúmmál en áður hefur þekkst. Hönnun keranna gerir það að verkum að þau draga úr rýrnun og mari á fiski og bæta gæði hráefnis. Fiskikerið er þróað í samvinnu við Matís ohf. (Matvælarannsóknir Íslands) og FISK Seafood á Sauðárkróki og til verkefnisins fékkst styrkur hjá AVS.

Hönnun kersins er með þeim hætti að við stöflun lokar efra kerið því neðra. Í fjögurra kera stæðu þarf því ekki nema eitt lok. Þá er búið að færa göt fyrir lyftaragafla utar á kerið svo að ekki sé hætta á að óhreinindi berist með botni í neðri ker þegar þeim er staflað. Með þessum hætti er hægt að minnka farg á fiski í neðstu lögum keranna og þar með draga úr rýrnum og mari á fiski.

Álagsprófanir á nýju kerunum hafa gefið góða raun hjá Promens. Þá er gert ráð fyrir að FISK Seafood á Sauðárkróki prófi nokkur ker í nokkrar vikur áður en varan fer endanlega í fjöldaframleiðslu.

Upplýsingar á keri frá veiðum til vinnslu

Stefnt er að því að nýju kerin komi til með að búa yfir RFID flögu sem geymir upplýsingar um fisk frá veiðum til vinnslu og tryggir rekjanleika í gegnum vinnsluna. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir sölu á markaði því þær stuðla að auknu upplýsingaflæði og auka öryggi. Upplýsingakerfið er unnið í samstarfi FISK Seafood, Maritech og Matís, en AVS studdi einnig þennan þátt verkefnisins.

Bjarki Magnússon hjá Promens á Dalvík segir að mikill áhugi sé fyrir þessari framleiðslu, það hafi berlega komið í ljós þegar kerið var kynnt opinberlega á Sjávarútvegssýningunni í Brussel í Belgíu á síðasta ári.

Fréttir

Átta Rf skýrslur opnaðar

Nýlega voru átta Rf skýrslur, sem höfðu verið lokaðar tímabundið eftir að vinnu í viðkomandi verkefnum lauk, opnaðar. Skýrslurnar eru frá árunum 2003 og 2005.

Skýrslurnar frá árinu 2003 eru allar úr verkefni sem hófst árið 2000 og lauk árið 2003. Vinnuheiti verkefnisins var  Léttsöltun, stöðugleiki og nýting frosinna afurða og markmiðið í því var að skoða hvernig hægt væri að stýra vatnsheldni, efnasamsetningu og áferð fiskholdsins með léttsöltun. 

Rannsakað var hvort hægt væri að framleiða safaríkari afurðir heldur en hægt var með hefðbundinni vinnslu fyrir frystingu. Áhrif af notkun salts, fosfata og unnina próteina við pæklun á fyrrnefnda þætti voru metin og  upplýsingum um reglugerðir og markaðsviðhorf sem tengjast stjórnun á efnasamsetningu fiskafurða var safnað.  Skýrslurnar sem nú birtast úr þessu verkefni eru númer 07-03; 10-03; 12-03 og 13-03.  Ein skýrsla úr áðurnefndu verkefni birtist þegar árið 2003, skýrsla nr. 09-03.

Af þeim skýrslum frá árinu 2005 sem nú er búið að opna, eru þrjár úr sama verkefni sem hófst árið 2004 og lauk á síðasta ári.  Vinnuheiti þess var Framleiðsla á formuðum fiskbitum og gelblokk úr afskurði og marningi, og hafði það að markmiði að þróa vinnsluferli til að framleiða formaða fiskbita með fisklími. Hugmyndin var að nýta verðminni aukaafurðir og fisktegundir í fisklímsgerðina, s.s. afskurð, marning og kolmunna.

Framleiðsla á formuðum fiskflökum hófst hérlendis upp úr 1980 og í fyrstu var einkum um að ræða hráefni sem hafði verið skorið smátt og síðan mótað í kökur eða önnur form með stimplum. Með því móti var afskurður úr flakavinnslu nýttur beint í afurðir til brauðunar þar sem líkja mátti eftir náttúrulegu útliti fiskbita. Hærra verð hefur fengist fyrir slíkarafurðir en þegar hráefnið hefur verið sett í blokk. Blokkir, sem framleiddar eru úr beinlausum og roðflettum flökum úr hvítfiski, hafa hins vegar verið framleiddar í meira en 50 ár og eru enn í dag mikilvægt hráefni í framhaldvinnslu á fiskafurðum í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.

Við endurmótun í fiskiðnaði er notaður þrýstingur sem raskar eðlilegri vöðvabyggingu og maukar fiskinn. Í áðurnefndu verkefni var eitt aðalmarkmiðið að nýta fisklímið til að geta dregið úr þrýstingi við mótun og viðhalda/skapa eðlilega vöðvabyggingu í vörunni, sem er nýjung.  Skýrslurnar þrjár sem nú hafa verið opnaðar eru númer 19 til 21 árið 2005.

Loks má nefna skýrslu nr. 24-05 sem ber titilinn Prótein í frárennslisvatni Forathugun á magni og eiginleikum og markmið þess var að afla grunnupplýsinga um magn oggerð próteina í frárennslisvatni í því skyni að athuga hvort hugsanlega mætti nýta þau á einhvern hátt til manneldis.

Þessar skýrslur og fjöldi annarra er að finna á vef Matís undir Útgáfa/Rf/Skýrslur

Fréttir

Minnkandi fiskneysla sögð áhyggjuefni

Fiskneysla ungs fólks fer minnkandi og ef ekkert verður að gert mun hún halda áfram að minnka á komandi árum. Þar kom fram að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á neyslu síðar meir. Einnig kemur fram munur á fiskneyslu eftir landshlutum og þá virðast ungar konur hrifnar af fiski og grænmeti en ungir karlar eru hrifnari af skyndibita og kjöti. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, sem tók þátt í fundinum, sagði niðurstöðu þessarar rannsóknar vera áhyggjuefni.

Hann sagði að rannsóknin ætti að vera fólki hvatning til þess að gera betur í þessum málum.

Rannsókn Matís náði til ungs fólks á aldrinum 17 til 26 ára og niðurstöðurnar benda til að Íslendingar muni borða enn minna af fiski í framtíðinni en þeir gera í dag ef ekkert verður að gert. Ungt fólk borðar fisk sem aðalrétt að meðaltali rúmlega einu sinni í viku sem er töluvert undir þeirri fiskneyslu sem Lýðheilsustöð ráðleggur. Fiskneysla þessa aldurshóps hefur dregist verulega saman á undanförnum árum.Rannsóknin er samvinnuverkefni Matís ohf., Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Rannsóknarstofu í næringarfræði á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og fyrirtækisins Icelandic Services. Í verkefninu voru kannaðar neysluvenjur ungs fólks (17-26) ára á Íslandi. Könnunin tók meðal annars til viðhorfa til heilsu, fiskneyslu, neyslu annarra matvæla, innkaupa á fiski og einnig smekk á mismunandi fiskréttum. Spurt var um þætti sem hafa áhrif á fiskneyslu, kannað hvaðan neytendur fá upplýsingar um fisk og það traust sem þeir bera til slíkra upplýsinga.


Greining á afstöðu ungs fólks til matar og heilsu leiddi í ljós þrjá aðskilda neysluhópa. Minnsti hópurinn er 18% af heildinni og mótast neysla hans af heilsu og áhuga á eldamennsku. Þessi hópur neytir fisks. Í næsta hóp (39%) eru yfirleitt karlmenn sem borða þann mat sem settur eru fyrir þá en kjósa helst kjöt og skyndibita. Stærsti hópurinn (43%) eru mestan part konur sem njóta þess að borða fisk en eru óöruggar um hvernig skal matreiða hann.Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur á fiskneyslu en í ljós kom að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins og einnig búseta þeirra í æsku. Einnig kom fram að sá hluti fólks sem er fluttur úr foreldrahúsum borðar minnst af fiski. Þá virðist munur á fiskneyslu eftir landshlutum en fólk á landsbyggðinni hefur ekki jafn greiðan aðgang að fiskbúðum eða ferskfiskborði í matvörubúðunum og fólk á höfuðborgarsvæðinu. Fólk á landsbyggðinni hefur þar af leiðandi ekki úr jafn mörgum fiskréttum að velja í verslunum og borðar frekar hefðbundnar fisktegundir og -rétti.


Úrtak rannsóknarinnar var 1.735 manns og svarhlutfall 86,7%.Rannsóknaverkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi.

Sjávarútvegsráðherra á blaðamannafundi um niðurstöður rannsóknarinnar í Sjóminjasafninu.

Mynd: Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, á blaðamannafundi í Sjóminjasafninu um niðurstöður rannsóknarinnar.

Viðhorf og fiskneysla ungs fólks á aldrinum 18 til 25 ára – Lýsandi tölfræðiúrvinnsla

IS