Fréttir

Sumarhátíð Matís verður þann 5. júní

Verið öll hjartanlega velkomin á sumarhátíð Matís þann 5. júní næstkomandi kl 16:00 – 18:00 að Vínlandsleið 12.

Það verður sannkölluð skemmtun fyrir alla fjölskylduna, þar sem Stjörnu Sævar mun mæta á svæðið, andlitsmálning fyrir börnin ásamt spennandi vísindastöðvum fyrir unga sem aldna.

Hér er hægt að sjá viðburðinn á Facebook.

Fréttir

Doktorsvörn í efnafræði – Rebecca Sim

Mánudaginn 27. maí næstkomandi ver Rebecca Sim doktorsritgerð sína í efnafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Dreifing vatnssækinna og fitusækinna arsen efnasambanda meðal stórþörunga.

Doktorsvörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands klukkan 11:00 til 13:00. Andmælendur verða Dr. Barbro Kollander, yfirvísindamaður hjá Matvælastofnun Svíþjóðar og Dr. Kristmann Gíslason, fagstjóri efnagreiningarhóps hjá Hafrannsóknastofnun Íslands. Leiðbeinandi er Ásta Heiðrún Pétursdóttir, doktor í efnagreiningum og sérfræðingur hjá Matís.

Í doktorsnefnd eru einnig Dr. Guðmundur Haraldsson prófessor emeritus, dr. Jörg Feldmann, yfirmaður trace Element Speciation Laboratory (TESLA) við háskólann í Graz í Austurríki, og Dr. Karl Gunnarsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknnastofun Íslands.

Stjórnandi varnar er Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson, deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands.

Rebecca er frá Norðaustur-Skotlandi en flutti til Íslands árið 2020 til að stunda doktorsnám. Hún lauk BSc í efnafræði við háskólann í Glasgow og MSc í efnagreiningaefnafræði við háskólann í Aberdeen. Rebecca starfar nú sem sérfræðingur í efnagreiningarhópi Matís.

Eftirfarandi er ágrip af ritgerðinni:
Þörungar geta tekið upp mikið magn af frumefninu arsen úr sjónum á efnaforminu ólífrænt arsen sem er þekktur krabbameinsvaldur. Í þörungunum greinist arsen einnig á formi fjölbreyttra lífrænna efnasambanda arsens t.d. arsenósykrur og arsenólípíð, en lífrænar arsentegundir hafa verið taldar hættulausar. Nýlegar rannsóknir á arsenólípíðum hafa þó sýnt að þau geta verið jafn frumudrepandi og ólífræna arsenið og mögulegt er að arsenósykur hafi langvarandi neikvæð áhrif við reglubundna neyslu. Margt leikur á huldu um uppruna arsenólípíða en upphafspunktur framleiðslu þeirra er talinn eiga sér stað í þörungum. Þörungar njóta stöðugt meiri vinsælda á Vesturlöndum. Brýn þörf er á frekari upplýsingum um þessi efnasambönd til að meta til hlítar áhættuna sem fylgir neyslu þeirra og tryggja að settar séu viðeigandi reglur um hámarksmagn þeirra í matvælum. Sýnum af rauð-, græn- og brúnþörungum var safnað nálægt Grindavík og Kjalarnesi. Sýnin voru ítarlega rannsökuð m.t.t. þungmálma og framkvæmd var tegundagreining arsens til að afla upplýsinga um efnaform arsensins. Tegundargreining arsenólípíða er flókin og var framkvæmd í völdum sýnum með massagreinunum HPLC-ICP-M/ESI-MS/MS og HPLC-qToF-MS. Aukinheldur var brúnum stórþörungum skipt í líffræðilega hluta til að ákvarða hvort dreifing arsentegunda sé jöfn um þangið. Takmarkaðar upplýsingar eru til á heimsvísu um arsenólípíð í þangi, svo þessi umfangsmikla prófílgreining þeirra í mismunandi tegundum þörunga mun styðja við að skýra hvernig þessi dularfullu lífrænu efnasambönd arsens myndast og hvar þau eru geymd. Gögnin geta einnig nýst við áhættumat á arsentegundum í þangi til manneldis og geta því haft áhrif á framtíðarlöggjöf um matvælaöryggi.


Fréttir

Verkefnið BioProtect vekur athygli á fundi Matís með sendiherra ESB

Matís fékk á dögunum boð um að heimsækja húsakynni sendinefndar Evrópusambandsins og kynna verkefni Matís sem hlotið hafa styrk frá ESB, með sérstakri áherslu á verkefnið BioProtect sem nýlega hlaut styrk úr Horizon Europe áætluninni.

Sendiherra ESB, Lucie Samcová-Hall Allen, og starfsfólk sendinefndarinnar tók á móti hópnum sem skipaður var verkefnastjórum og sviðsstjóra Matís ásamt Julian Burgos, sjávarvistfræðingi hjá Hafrannsóknastofnun en hann er vísindalegur leiðtogi BioProtect verkefnisins.

Í heimsókninni gafst kostur á að ræða þau fjölbreyttu rannsóknar- og nýsköpuarverkefni sem styrkt hafa verið af Evrópusambandinu og Matís hefur unnið að í gegnum árin. Einnig sagði Lucie frá helstu verkefum sendinefndarinnar og þróun þeirra starfa hér á landi undanfarin ár.

Megin áhersla heimsóknarinnar var þó kynning á rannsóknarverkefninu BioProtect sem hófst formlega í gær, þann 1. maí 2024. Sophie Jensen, verkefnastjóri hjá Matís leiðir verkefnið og Julian Burgos er vísindalegur leiðtogi þess og kynntu þau áætlanir sínar um vinnu næstu fjögurra ára.

Verkefnið snýst um að þróa aðferðafræði og tæknilegar lausnir til að auðvelda ákvarðanatöku um auðlindanýtingu eða verndun hafsvæða. Áhersla er lögð á gott samstarf við hagaðila en þeir eru til dæmis útgerðaraðilar og sjávarútvegssamtök, sveitarfélög og þá sérstaklega sjávarbyggðir, innlend og alþjóðleg stjórnvöld, náttúruverndarsamtök, rannsóknaraðilar, stefnumótandi aðilar og sérfræðingar.

Líffræðilegur fjölbreytileiki sjávar verður vaktaður svo hægt verði að gera grein fyrir stöðu hans og spá fyrir um mögulegar breytingar. Einnig verður farið í víðtæka kortlagningu á nýtingu og áhrifum manna á einstök hafsvæði og tegundir í hafinu. Þá verður gerð aðgerðaáætlun fyrir forgangsröðun verndunar- og endurheimtunaraðgerða, sem og mat á vistfræðilegum, félagslegum og hagfræðilegum áhrifum þessara verndaraðgerða á fimm hafsvæðum þ.e. við Ísland, Noreg, Írland, Portúgal og Azor eyjar.

Ísey Dísa Hávarsdóttir, sérfræðingur í miðlun hjá Matís, Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi, Sophie Jensen, verkefnastjóri BioProtect, Jónas R. Viðarsson, fagsviðsstjóri hjá Matís, Julian Burgos, vísindalegur leiðtogi BioProtect og Samuel Ulfgard, varasendiherra ESB á Íslandi.

Við þökkum kærlega fyrir frábærar móttökur og vonumst eftir áframhaldandi góðum tengslum við sendinefnd ESB á Íslandi.

Fréttir

Stutt könnun um staðbundin matvælakerfi

Þér er boðið að taka þátt í rannsóknarverkefni um staðbundin matvælakerfi sem unnið er innan Evrópuverkefnisins Cities2030. Cities2030 er styrkt af Horizon2020 áætlun Evrópusambandsins. Í því eru 41 þátttakandi sem deila svipaðri sýn á það hvernig hægt er að bæta matvælakerfi. Könnunin er þróuð af Cities2030 verkefninu og samræmd af Ca’ Foscari háskólanum í Feneyjum (frekari upplýsingar má finna á: www.cities2030.eu).

Tilgangur

Könnunin miðar að því að bera kennsl á hindranir og veikleika staðbundinna matvælakerfa með borgar-matvælakerfanálgun (e. city-region food system approach). Sem hluti af þessari rannsókn erum við að safna skoðunum fólks í fjölmörgum Evrópulöndum og reynslu þeirra af staðbundnum matvælakerfum. Gögnin verða notuð af Cities2030 verkefninu til að þróa framtíðarráðleggingar með ítarlegum rannsóknum.

Þátttaka

Könnunin er rafræn og algjörlega nafnlaus. Þátttaka þín í könnuninni er valfrjáls og ætti að taka um 10 mínútur að svara henni. Þú getur neitað að taka þátt í könnuninni eða hætt í henni hvenær sem er (án refsingar). Að svara hverri spurningu er skilyrði.

Smelltu hér til að taka þátt.

Fréttir

Ársskýrsla Matís fyrir 2023 er komin út

Ársskýrsla Matís fyrir árið 2023 er nú aðgengileg hér á vefnum.

Rannsóknir Matís hafa alla tíð gegnt lykilhlutverki í framþróun íslenskrar matvælaframleiðslu og líftækni og hafa þær myndað mikilvæga brú á milli vísinda og atvinnulífs sem tengir rannsóknir og nýsköpun við þarfir atvinnuveganna.

Rannsóknir Matís eru jafnframt til þess að mæta bæði tækifærum og áskorunum, bæði í nútíð og framtíð. Þá sérstaklega þegar litið er til aukinnar sjálfbærni, verðmætasköpunar og fæðuöryggis. Ef við viljum halda áfram að framleiða matvæli til eigin neyslu og taka þátt í að efla matvælaframleiðslu alþjóðlega þurfum við að viðhalda þeim tengslum á milli rannsókna og iðnaðar sem Matís hefur byggt upp. Þessi tengsl eru því ekki aðeins mikilvæg fyrir núverandi framleiðslu, heldur leggja þau grunninn að því hvernig við munum framleiða og neyta matvæla í framtíðinni

Ársskýrsluna má nálgast hér.

Fréttir

Heimsókn fiskeldisteymis Matís til Stolt Sea farm

Fiskeldisteymi Matís heimsótti Stolt Sea Farm í apríl og þökkum við fyrir góðar móttökur. Meginþorri Íslendinga er sennilega ekki vel upplýstur um þetta flotta fyrirtæki sem staðsett er yst úti á Reykjanesi.

Um er að ræða alþjóðlegt fyrirtæki, með höfuðstöðvar á Spáni, sem framleiðir sandhverfu (turbot) og Senegal flúru (Senegal sole), en á síðasta ári var framleiðsla fyrirtækisins um 6.900 tonn af sandhverfu og 1.700 tonn af Senegal flúru. Stolt er með framleiðslu á 16 stöðum á heimsvísu, en hér á Íslandi er einungis framleidd Senegal flúra og var framleiðslan á síðasta ári um 250 tonn. Flúran er hlýsjávarfiskur og nýtir fyrirtækið sér kælivatn frá virkjun HS Orku, sem staðsett er við hlið fiskeldisins, til að halda á fiskunum kjörhitastigi, sem er um 23°C.

Stolt hyggur á framleiðsluaukningu á komandi árum. Sú aukning mun að líkindum ekki fara fram hér á landi en fyrirtækið hefur verið að auka við innviði sína á Spáni og í Portúgal á síðustu misserum. Eins og sjá má á grafinu hér að neðan er fyrirtækið með markmið um að þrefalda framleiðslu sína á næstu 10 árum.

Hvað framleiðslu á Senegal flúru varðar þá stefnir Stolt á að auka framleiðslu sína úr 1.700 tonnum í 4.700 tonn til ársins 2028, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Solt Sea Farm er framsækið fyrirtæki sem fjárfesti 10,7% af tekjum sínum í Rannsóknum og Þróun, sem er hlutfall sem við hjá Matís kunnum að meta. Matís óskar þessu flotta fyrirtæki gæfu á komandi árum og væntir þess að samstarf fyrirtækjanna muni vaxa og dafna.

Fréttir

Mikið framfaraskref í tegundagreiningum á lifandi bakteríum

Tengiliður

Halla Halldórsdóttir

Gæðastjóri rannsóknastofa

halla.halldorsdottir@matis.is

Örverurannsóknarstofa Matís í Reykjavík hefur um langt skeið notað MALDI-TOF biotyper tækni (e. matrix assisted laser desorption ionization-time of flight mass spectrometry) við rannsóknir og til að styðja tegundagreiningar á örverum.

Nýverið var faggilding rannsóknarstofunnar útvíkkuð til að innlima MALDI-TOF tæknina við þessar tegundagreiningar á Campylobacter, Pseudomonas aeruginosa og Clostridium perfringens. Áður var rannsóknastofan búin að fá sambærilega faggildingu fyrir Listeria monocytogenes tegundagreiningarMALDI-TOF tæknin gerir rannsóknarstofunni kleift að hraða mjög mikið tegundagreiningum á áðurnefndum örverum og er því hér um umtalsvert framfaraskref í hraða við tegundagreiningar á lifandi bakteríum að ræða. Stefnt er á að útvíkka faggildingu rannsóknarstofunnar til að nýta þessa hraðvirku tækni við tegundagreiningu á enn fleiri sjúkdómsvaldandi bakteríum.

Frekari upplýsingar:

Basic Principles of Matrix-assisted laser desorption-ionization time-of-flight mass spectrometry

Fréttir

Heilraðgreiningar á Listeríu og öðrum sjúkdómsvaldandi örverum í matvælum

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Í nýjasta fréttabréfi sóttvarnarlæknis kemur fram að tíðni sýkinga af völdum Listeríu fari ört vaxandi í Evrópu. Merki eru um sömu þróun hér á landi þar sem fimm tilfelli greindust á fyrstu þremur mánuðum ársins. Listería getur valdið alvarlegum sýkingum í viðkvæmum hópum, s.s. barnshafandi konum, ungbörnum og eldri einstaklingum. Mikilvægur þáttur í baráttunni gegn Listeríu í matvælum eru svokallaðar heilraðgreiningar á erfðamengjum baktería (WGS – whole genome sequencing). Þessi aðferð hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarinn áratug og Matís var brautryðjandi í innleiðingu hennar hér á landi. Þessari aðferð hefur verið beitt á Matís síðastliðin 10 ár, fyrst í rannsóknaskyni en síðar til að rekja uppruna sýkinga af völdum matarborinna sjúkdóma.

Matís hefur komið að smitrakningu í nokkrum alvarleglegum tilfellum af Listeríu sýkingum í samstarfi við Landspítalann, MAST og Sóttvarnarlækni. Matís rekur ennfremur tilvísunarrannsóknastofu í sjúkdómsvaldandi E. coli og Salmonella, sem geta borist í fólk í gegnum matvæli og valdið alvarlegum sýkingum. Matís framkvæmdi heilraðgreiningar í tengslum við hópsýkingu af völdum E. coli STEC árið 2019.

Rannsóknastofa Matís í örverumælingum er svokölluð tilvísunarrannsóknastofa (NRL) í Listeríu. Rekstur tilvísunarrannsóknastofa felur í sér ráðgjöf og leiðbeiningar um mæliaðferðir, þátttöku í þróun og sannprófun mæliaðferða, miðlun þekkingar og upplýsinga frá erlendum tilvísunarrannsóknastofum til rannsóknastofa hér á landi, vísindalegri og tæknilegri aðstoð við lögbær yfirvöld og viðhaldi faggildingar.

Matís rekur öfluga rannsóknastofu í örverufræði þar sem hægt er greina örverur í öllum gerðum matvæla- og umhverfissýna. Matís býður ennfremur upp á ráðgjöf til matvælaframleiðenda um hvernig er best að fyrirbyggja örverusmit við vinnslu á matvælum.

Fréttir

Ráðstefna um samlífi fólks og örvera í Þjóðminjasafninu

Hvað er það sem sameinar skyr, súrdeigsmæður, bokashi-tunnur og þurrklósett? Hvaða áhrif hafa umhverfismál á þarmana í okkur?

Til þess að svara þessum spurningum þurfum við að móta nýtt sjónarhorn þvert á rannsóknarsvið og samþætta ólíkar rannsóknaraðferðir. Örveruheimurinn sem umlykur okkur, að innan og utan, bæði hýsir okkur og nærir. Þótt hann sé að mestu leyti hulinn mennskum augum, þá er hann lykillinn að framtíð mannkyns í síkvikum heimi.

Fimmtudaginn 11. og föstudaginn 12. apríl verður haldin ráðstefna í Þjóðminjasafni Íslands þar sem fjallað verður um örverur og menningu með fjölbreyttri þverfræðilegri nálgun.

Fyrirlesarar koma frá ólíkum þekkingarsviðum, eins og örverufræði, matvælafræði, þjóðfræði, mannfræði, næringarfræði, félagsfræði, heilsuhugvísindum, hönnun og sviðslistum; en eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á mikilvægi samlífis fólks og örvera fyrir umhverfi, heilsu, félagsleg tengsl og menningu.

Á meðal mælenda eru þau Agnes Þóra Árnadóttir og Snorri Páll Ólason doktorsnemar hjá Matís sem munu fjalla um verkefni sín. Agnes mun fjalla um áhrif mataræðis mæðra á þarmaflóru ungra barna þeirra og Snorri um örveruflóruna í kæsingu hákarls.

Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur frjáls. Hægt er að mæta á einstakar málstofur.

Dagskrá ráðstefnunnar.

Fréttir

Möguleikar fullnýtingar ræddir á ráðstefnu í Kóreu

Í Febrúar síðastliðnum fékk Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, spennandi boð frá KIMST (Korea Institute of Marine Science & Technology Promotion) og KIOST (Korea Institute of Ocean Science) um að ræða fullnýtingu á ráðstefnu í Seúl í Kóreu.  

Um þessar mundir er betri nýting hliðarafurða í fiskvinnslu Kóreumönnum hugleikin og mikill áhugi hefur verið á því að kynnast því sem vel hefur verið gert annarsstaðar í heiminum. Margréti var boðið til þess að flytja erindi um ýmis verkefni sem hún hefur unnið að hjá Matís og hafa snúið að fullnýtingu, þá einna helst á fiski. Alexandra Leeper frá Sjávarklasanum fékk einnig boð í sömu ferð og sagði hún frá því sem helst er að gerast á Íslandi í þessum efnum í dag og hvað hefur verið gert í gegnum árin til þess að komast á þann stað sem Ísland er á.   

Ráðstefnan bar yfirskriftina 2024 International Zero Waste Fisheries Forum og var sótt af um 200 manns og voru þar mörg frá kóreskum iðnaði, háskólum og rannsóknarstofnunum mætt til þess að fræðast og bera saman bækur sínar. 

Í ferðinni fengu íslensku gestirnir einnig að heimsækja glæsilegan fiskmarkað en það sem helst vakti athygli þeirra var að þar var mögulegt að kaupa og gæða sér á kæstri skötu sem var borin fram með chili sósu og þótti hið mesta lostæti.

IS