Hin viðurkennda verndandi arfgerð gegn riðuveiki í sauðfé, ARR, hefur nú fundist í fyrsta sinn í íslenskri kind. Þetta er stórmerkur fundur því hér er um að ræða arfgerð sem er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi og unnið hefur verið með víða í Evrópu við útrýmingu riðu með góðum árangri.
Arfgerðin hefur aldrei áður fundist í sauðfé hérlendis þrátt fyrir víðtæka leit. Matís hefur allt frá árinu 2004 boðið uppá greiningar á riðugeni. Matís hefur í gengum tíðina raðgreint riðugenið í um 3.500 kindum og aldrei áður fundið þennan breytileika. Sérfræðingar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hafa janframt stundað markvissa leit að þessari arfgerð um árabil.
Matís fékk sýni til greiningar úr umfangsmiklu rannsóknaverkefni á vegum RML, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð. Þær greiningar staðfestu fyrri niðurstöðu en jafnframt fundust fjórir skyldir gripir til viðbótar á bænum sem bera þessa arfgerð.
Matís vinnur nú í samstarfi við Stefaníu Þorgeirsdóttur, sérfræðing á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, að innleiðingu nýrra aðferða við greiningu á riðugeninu. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að bæta inn fleiri erfðasætum í reglubundnar greiningar, m.a. hinni ný uppgötvuðu verndandi arfgerð (sæti 171) og mögulega fleiri breytilegum sætum innan riðugensins. Í öðru lagi verður leitað leiða til að auka skilvirkni og afkastagetu riðugensgreininga, með það að markmiði að lækka kostnað við greiningar svo mögulegt verði að lækka verð á greiningum til bænda.
Stykkishólmsbær og Matís hafa gert með sér samkomulag um uppbyggingu samstarfs í sveitafélagi Stykkishólms með áherslu á fræðslu, nýsköpun, rannsóknir og atvinnuuppbyggingu innan sveitafélagsins. Báðir aðilar samkomulagsins munu nýta styrkleika sína og innviði viðkomandi aðila eins og kostur er.
Stykkishólmsbær stofnaði til hugarflugsfundar með Matís, KPMG og fulltrúum atvinnulífsins á svæðinu þann 26. nóvember síðastliðinn. Fulltrúar atvinnulífsins fjölmenntu og sköpuðust líflegar umræður um tækifærin til aukinnar verðmætasköpunar og eflingu atvinnulífsins er varðar sjálfbæra matvælaframleiðslu á svæðinu.
Gróska í atvinnu- og nýsköpunarmálum í Stykkishólmi
Bæjarstjóri heimsótti, ásamt formanni atvinnu- og nýsköpunarnefndar, fyrirtæki í Stykkishólmi í þeim tilgangi að kynnast betur starfsemi fyrirtækja og stofnana í bænum auk fyrirliggjandi áskorana og tækifæra og kanna með hvaða móti Stykkishólmsbær geti betur stutt við hagsmuni atvinnulífs í sinni stefnumótun og hagsmunagæslu.
„Atvinnulífið er grundvöllur byggðar á hverjum stað og lífæð allra samfélaga. Að vera í góðum tengslum við atvinnulífið og skilja þarfir þess er mikilvægt,“ að sögn Jakobs.
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar skipaði starfshóp um eflingu atvinnulífs í bænum sem vinnur nú að því að greina tækifæri til eflingar atvinnulífsins á grunni svæðisbundinna styrkleika sem mun nýtast við stefnumörkun bæjarins í atvinnumálum. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Byggðastofnun. Þar er m.a. horft til verðmætasköpunar í tengslum við sjálfbæra nýtingu auðlinda Breiðafjarðar. Er samkomulag Matís ohf. og Stykkishólmsbæjar liður í sömu vegferð.
„Með þessu vill Stykkishólmsbær tryggja fyrirtækjum hagstæð skilyrði, vera hreyfiafl góðra verka og styðja við rannsóknir og nýsköpun,“ undirstrikar Jakob.
Samningur undirritaður á hugarflugsfundi í Stykkishólmi
Nokkrir fulltrúar atvinnulífsins í Stykkishólmi áttu, ásamt bæjarstjóra og formanni atvinnu- og nýsköpunarnefndar, hugaflugsfund með fulltrúum frá Matís og KPMG þann 26. nóvember síðastliðinn.
Á fundinum voru til umræðu rannsóknir, nýsköpun, sprotastarfsemi, matvælaframleiðsla og ábyrg nýting auðlinda Breiðafjarðar með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda og aukinni verðmætasköpun á svæðinu. Að loknum fundi rituðu Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, og Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, undir samkomulag um samstarf Stykkishólmsbæjar og Matís.
Mikil gróska og uppbygging á sér stað á sviði sjálfbærrar afurða- og matvælaframleiðslu í Stykkishólmsbæ og er það markmið Stykkishólmsbæjar og Matís að styðja eftir megni við einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu til verðmæta- og nýsköpunar í matvælaiðnaði og frekari vinnslu svæðisbundinna afurða, og þannig stuðla að aukinni hagsæld, fæðuöryggi, matvælaöryggi og bættri lýðheilsu fyrir íslenskt samfélag.
Á dögunum birtist skýrsla um niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni fyrir árið 2021. Matís hefur um árabil séð um verkefni sem snýr að því að safna gögnum og gefa út skýrslu vegna þessarar kerfisbundnu vöktunar.
Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggis og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu.
Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum, það er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynleg.
Niðurstöðurnar sýndu að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxín, PCB og varnarefni. Jafnframt voru öll sýni af sjávarafurðum til manneldis vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Einnig reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs, miðað við hámarksgildi ESB.
Frekari útlistun á niðurstöðum auk skýrslunnar í heild má finna hér:
Í gærkvöldi hóf þáttaröðin Nærumst og njótum göngu sína á RÚV en í þáttunum verður fylgst með fjölbreyttum hópi fólks taka næringar- og matarvenjur sínar til gagngerrar endurskoðunar í þeim tilgangi að skoða hvernig mögulegt er að sameina þessi tvö atriði, þ.e. að nærast og njóta.
þættirnir Nærumst og njótum eru hugmyndasmíð og í umsjón Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, prófessors í næringafræði og eru mikilvægt innlegg í lýðheilsumál á Íslandi. Í þessum fyrsta þætti fengu áhorfendur að kynnast viðfangsefninu, þátttakendum og álitsgjöfum en í næstu þáttum verður fylgst með matarlífi sjö heimila á Íslandi. Heimilin eru fjölbreytt, allt frá fólki sem býr eitt upp í samsettar stórfjölskyldur og þátttakendur eru á aldursbilinu 10 vikna til sjötugs.
„Matur er rauður þráður í gegnum líf okkar en fæst borðum við þó bara til þess að halda lífi. Matur er nefnilega órjúfanlegur þáttur líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu. Við erum tilfinningalega tengd mat og hann er stór hluti menningar okkar.“
Kolbrún Sveinsdóttir, matvælafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís er einn þeirra sérfræðinga sem fengnir voru til að gefa álit og fjalla um ýmis málefni tengd mat og matarvenjum. Hún tók sérstaklega fyrir unnin matvæli, muninn á þeim og ferskum matvælum og hinar ýmsu vinnsluaðferðir sem geta bæði verið af hinu góða og slæma.
Þættirnir verða á dagskrá RÚV næstu vikurnar en fyrsti þátturinn er þegar orðinn aðgengilegur í spilaranum hér: Nærumst og njótum, fyrsti þáttur.
Á nýársdag 2022 fór fram hátíðleg athöfn á Bessastöðum þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sæmdi 12 einstaklinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeirra á meðal var yfirverkfræðingur Matís, Sigurjón Arason, en hann hlaut orðuna fyrir rannsóknir og þróun á vinnslu sjávarafurða.
Sigurjón Arason hefur starfað hjá Matís frá upphafi en fyrir það starfaði hann sem sérfræðingur og yfirverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem rann saman við fleiri fyrirtæki og stofnanir þegar Matís var stofnað. Sigurjón er einnig prófessor emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og hefur í gegnum tíðina kennt ótal námskeið og leiðbeint fjölda nemenda í grunn-, meistara- og doktorsnámi.
Sigurjón hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og var meðal annars haldið málþing honum til heiðurs í Háskóla Íslands í haust.
Ýmsir samstarfsaðilar og velunnarar Sigurjóns sóttu og tóku til máls á heiðursmálþinginu sem haldið var í Veröld, húsi Vigdísar í október.
Í viðtali sem tekið var við Sigurjón og birtist á vef Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Nýjungasmiðurinn frá Neskaupstað er eftirfarandi tekið fram:
„Sigurjón hefur komið að ótrúlegum fjölda verkefna sem hafa skilað sér í hreinum tekjum fyrir íslensk fyrirtæki og þjóðarbú. Hann hefur ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum úr atvinnulífinu og þekkingarsamfélaginu komið að því að þróa byltingarkenndar aðferðir til kælingar á fiski, m.a. á makríl, sem hefur stóraukið útflutningsverðmæti afurðanna. Þá hefur hann stuðlað að vinnslu og þurrkun á vannýttu aukahráefni og fisktegundum, endurhannað umbúðir og fiskkassa til að tryggja betur gæði hráefnis og afurða, þróað frystingu fisks og vinnslu saltfisks til að auka verðmæti, unnið að bættri meðhöndlun afla og bættu geymsluþoli fisks, bætt stýringu á veiðum og notkun veiðarfæra. Enn fremur hefur hann fundið leiðir til að nýta betur aukaafurðir úr hráefnum sem jafnvel var hent en undir þetta falla fiskinnyfli, lifur, svil, hausar, hryggir, sundmagi og roð sem breytt var í verðmætar afurðir. Hér er fátt eitt talið.“
Sigurjón er vel að þessum heiðri kominn og óskar starfsfólk Matís honum til hamingju með fálkaorðuna.
Sigurjón Arason og Guðni Th. Jóhannesson við orðuveitinguna á Bessastöðum
Þang er sjávargróður og er í raun vannýtt auðlind lífmassa sem finnst í miklu magni um allan heim, meðal annars við Íslands strendur. Þang er orðið mun algengara en þaðvar áður í daglegum neysluvörum fólks til dæmis í fæðubótarefnum, snyrtivörum , lyfjum og matvælum. Undanfarin ár hafa allnokkur fjölbreytt verkefni sem snúa að þangi, eiginleikum þess og nýtingu, verið unnin hjá Matís. Meðal þeirra eru verkefnin Súrþang og SeaFeed sem þau Elísabet Eik Guðmundsdóttir og Ólafur H. Friðjónsson hafa stýrt. Við ræddum við Elísabetu Eik um þá möguleika sem felast í rannsóknum af þessu tagi.
Þang inniheldur mikið af lífvirkum efnum og hefur heilsubætandi áhrifum verið lýst fyrir mörg þeirra, þar á meðal bætibakteríuörvandi áhrifum (prebiotic). Rannsóknir á þangi eru í miklum vexti í heiminum enda er það aðgengilegt í miklu magni víðsvegar um heiminn. Víða er hægt að uppskera þang með sjálfbærum hætti og ræktun þess þarfnast hvorki lands né ferskvatns. Hjá Matís hefur áhersla verið lögð á að rannsaka flókin kolvetni og lífvirk efni í þanginu, með það að markmiði að skapa verðmæti í gegnum nýjar afurðir eða aðferðir. Efni í þangi hafa alls kyns lífvirkni, t.d. geta þau verið andoxandi, haft áhrif á bólgusvörun, unnið gegn bakteríusmitum og fleira. Lífvirkni er þegar eitthvað hefur áhrif á lifandi ferla og við erum að reyna að skoða og finna hvaða góðu áhrif þau geta haft.
Ýmsar gerðir þörunga við Íslands strendur
Í verkefnunum Súrþang og SeaFeed hefur helst verið unnið að þróun á gerjunaraðferð fyrir þang með það að markmiði að nýta gerjað þang, svokallað súrþang, til íblöndunar í fiskeldisfóður. Þessi rannsóknar- og þróunarverkefni hafa verið unnin í samvinnu við Laxá fiskafóður, Háskólann í Helsinki, Quadram Institute í Bretlandi og Þangverksmiðjuna Thorverk, með styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís, EIT Food, AVS og Matvælasjóði.
Hver voru helstu markmiðin með rannsóknunum?
Meginmarkmið verkefnanna voru að þróa afurð með jákvæða heilsufarslega eiginleika úr þangi til notkunar í fiskeldisfóðri og koma þannig vannýttum lífmassa inn í fæðukeðjuna. Slíkar rannsóknir sáum við fyrir okkur að myndu nýtast hinum ört vaxandi þangiðnaði vel og stuðla að aukinni verðmætasköpun úr þangi. Fóðurframleiðendur gætu þá einnig þróað nýjar fóðurblöndur og fiskeldisfyrirtæki gætu nýtt fóður úr íslenskum efnivið
Gerjun, góðgerlar og bætt þarmaflóra
Vinnsla súrþangs hefst með þurrkuðu og möluðu þangi sem er forunnið fyrir gerjun með aðferð sem felur í sér að þangið er bleytt upp í vatni og hitað í 70°C. Við það losna kolvetni úr þanginu og út í lausnina og á sama tíma drepst stór hluti af náttúrulegri örveruflóru þangsins.
Eftir forvinnslu þangsins er það gerjað með mjólkursýrugerli af ættkvíslinni Lactobacillus en stofninn sem er notaður getur nýtt sér mannítól, sykrualkóhól sem finnst í þörungum í miklu magni, til vaxtar og efnaskipta.
Tilraunir með þangvinnslu
Gerjunarferlið gerir þangið auðmeltanlegra og fásykrur (oligosaccharides) í því verða aðgengilegri. Við greiningu á kolvetnainnihaldi súrþangsins eftir gerjun kom í ljós að greinóttar fásykrur eru ennþá til staðar í afurðinni en ekki étnar af gerjunarbakteríunum.
Það er mikilvægt vegna þess að sykrurnar gegna bætibakteríuörvandi hlutverki. Með öðrum orðum örva þær vöxt góðgerla í þörmum eldisdýra. Lactobacillus stofninn sjálfur telst til góðgerla og þessi blanda góðgerla og bætibakteríuörvandi fásykra gerir súrþang að afurð með fjölþætta virkni.
Staðan í dag gefur góða von fyrir framtíðina
Afurðir verkefnanna hafa verið prófaðar með fiskeldistilraunum þar sem lax var fóðraður á hefðbundnu fiskimjölsfóðri með gerjuðu þangi af tveimur tegundum og án þangs til samanburðar. Fylgst var með vexti fiskanna og áhrifa fóðurbætisins á þarmaflóru þeirra auk þess sem gerðar voru efnagreiningar og skynmat á laxaafurðinni.
Við skynmat voru sýni af laxi úr öllum fóðurhópum metin í þrísýni af 8 þjálfuðum skynmatsdómurum með tilliti til 17 þátta sem lýsa bragði, lykt, áferð og útliti lax og fannst enginn marktækur munur á bragði, lykt eða áferð milli fóðurhópanna þriggja. Til samræmis við skynmatið fannst enginn marktækur munur á bragði eða áferð á laxi úr mismunandi fóðurhópum í neytendakönnun hjá almenningi.
Mælingar voru einnig gerðar á lit, próteininnihaldi, fitu og vatni í laxinum en enginn marktækur munur reyndist vera á hópunum þegar litið var til þessara þátta. Einnig hafa verið mældir þungmálmar í laxinum en vitað er að þang inniheldur gjarnan mikið af þungmálmum og þá sérstaklega joði. Greinilegt var að hátt joðinnihald ákveðinna þangtegunda berst yfir í laxinn. Hátt joðinnihald getur hér haft jákvæð áhrif þar sem joðskortur er útbreiddur víða um heim og telst til alvarlegra heilsufarsvandamála. Hins vegar er joð sá þáttur sem takmarkar hversu mikið þang má hafa í fóðri svo að það hafi ekki slæm eða óheilsusamleg áhrif, samkvæmt gildandi reglugerðum um hámarks gildi þungmálma í fóðri. Aðrir helstu þungmálmar á borð við arsen, blý, kadmín og kvikasilfur, voru allir langt undir viðmiðunarmörkum í fóðri og var lítill sem enginn munur á þessum efnum í laxi sem fóðraður hafði verið á þangi miðað við lax fóðraðan á hefðbundnu fóðri
Sýnt var fram á að þarmaflóra laxa sem fengu súrþang í fóður innihélt marktækt minna af bakteríum af ættkvíslum sem innihalda þekkta sjúkdómsvalda í fiskum í samanburði við þarmaflóru viðmiðunarhóps sem fóðraður var á hefðbundnu fóðri án súrþangs. Þessar niðurstöður gefa góða von um að íbæting súrþangs í fóður hafi í raun haft jákvæð áhrif á þarmaflóru eldislax.
Eins og staðan er í dag hefur gerjunaraðferðin verið þróuð og afurðin prófuð í fiskeldi. Frekari rannsóknir standa yfir til að svara nokkrum útistandandi spurningum og bæta gæði og öryggi fóðurbætisins frekar. Verið er að vinna að frekari þróun afurðarinnar og áætlað er að endurtaka fiskeldistilraun til staðfestingar á árinu 2022.
Hvað er mest spennandi við rannsóknir á þangi að þínu mati?
Mest spennandi við sviðið í heild er að við erum að taka lífmassa sem við eigum og liggur þarna á lausu sem við erum ekki að nýta og við erum að búa eitthvað til úr honum. Við erum að skapa verðmæti með því að búa til afurð á endanum en við erum líka bara að nýta hann. Eins og staðan er í dag hér á Íslandi erum við alls ekki að ofnýta þangið okkar, við erum að nýta mjög lítinn hluta af því sem við gætum nýtt. Þangið er uppskorið á vistvænan hátt og það vex einungis villt hérlendis þar sem engir innlendir aðilar stunda þangræktun eins og staðan er í dag. Það er heilmikill efniviður þarna sem í liggja allir þessir möguleikar og allar þessar afurðir. Það er það sem er mest spennandi og drífur þetta áfram. Við erum öll að reyna að vinna í átt að grænni framtíð. Og nýta það sem jörðin gefur okkur, ekki ofnýta heldur nýta það vel.
Elísabet fór í skemmtilegt viðtal um rannsóknir sínar á þangi í Samfélaginu á Rás 1 fyrr á árinu. Hægt er að hlusta á viðtalið hér: Samfélagið
Fróðleiksmola og lifandi myndefni frá verkefnavinnu og rannsóknum á þangi, þara og þörungum má finna á Instagram síðu Matís hér: Instagram.com/matis.
Verkefni á borð við umrædd þangverkefni eru unnin á ýmsum sviðum hjá Matís en falla undir þjónustuflokkinn Líftækni og lífefni. Ef þú hefur áhuga á að kynna þér betur rannsóknir og nýsköpun þegar kemur að líftækni og lífefnum má horfa á kynningu á efninu hér: Líftækni og lífefni á Íslandi – framtíðaráherslur og samstarfsmöguleikar
Matís er metnaðarfullur og lifandi vinnustaður þar sem unnið er að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði og rík áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu. Um þessar mundir eru lausar þrjár stöður hjá fyrirtækinu og við leitum að drífandi einstaklingum til að sinna þeim.
Með vísan í jafnréttisstefnu Matís eru öll kyn hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir hæfni umsækjanda í viðkomandi starf.
Umsóknarfrestur er til og með 27. desember. 2021
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.
Svandís Svavarsdóttir, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsótti Matís í upphafi vikunnar ásamt Iðunni Garðarsdóttur aðstoðarmanni ráðherra, Benedikt Árnasyni ráðuneytisstjóra og fleira starfsfólki ráðuneytisins.
Hópurinn hitti Odd Má Gunnarsson, forstjóra Matís, auk fleira starfsfólks og fékk kynningu á starfseminni. Sérstaklega var rætt um landbúnað, sjávarútveg, menntamál og umhverfismál en ljóst er að ýmis tækifæri eru fyrir hendi í starfi fyrirtækisins sem kallast vel á við nýkynntar áherslur ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fjögur árin. Að lokum gekk hópurinn svo um húsakynni Matís þar sem fagstjórar og starfsfólk faghópa kynnti starfsemina, verkefnin sem unnin eru og aðstöðuna sem er til staðar.
Ólafur H. Friðjónsson, fagstjóri á líftæknisviði, Viggó Marteinsson, fagstjóri á örverusviði og Oddur Már Gunnarsson forstjóri voru meðal þeirra sem sýndu Svandísi húsnæðið.
Heimsóknin var hin ánægjulegasta og hlakkar starfsfólk Matís til áframhaldandi farsæls samstarfs við ráðuneytið með Svandísi Svavarsdóttur í broddi fylkingar.
Við notum vafrakökur til að tryggja almenna virkni, mæla umferð og tryggja bestu mögulegu upplifun notenda á matis.is.
Functional
Alltaf virkur
The technical storage or access is strictly necessary for the legitimate purpose of enabling the use of a specific service explicitly requested by the subscriber or user, or for the sole purpose of carrying out the transmission of a communication over an electronic communications network.
Preferences
The technical storage or access is necessary for the legitimate purpose of storing preferences that are not requested by the subscriber or user.
Statistics
The technical storage or access that is used exclusively for statistical purposes.The technical storage or access that is used exclusively for anonymous statistical purposes. Without a subpoena, voluntary compliance on the part of your Internet Service Provider, or additional records from a third party, information stored or retrieved for this purpose alone cannot usually be used to identify you.
Marketing
The technical storage or access is required to create user profiles to send advertising, or to track the user on a website or across several websites for similar marketing purposes.