Fréttir

Hagnýting korns til matvælaframleiðslu

Eitt viðfangsefna sem Matís hefur umsjón með og byggir á gamalli arfleifð, er samstarf um hagnýtingu korns til matvælaframleiðslu. Landbúnaður í löndum við Norður-Atlandshaf býr við svalt loftslag og stuttan vaxtartíma plantna.

Þrátt fyrir það hafa bændur á Íslandi stundað kornrækt undanfarna áratugi og náð góðum tökum á ræktuninni. Ísland er á norðurmökum kornræktarbeltisins og öðru hverju koma slök kornræktarár. Landbúnaðarháskóli Íslands og forveri hans, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rala, hafa gert kornrækt á Íslandi mögulega með kornkynbótum og miðlun þekkingar til bænda. Kynbætur á korni hófust upp úr 1960 og vinnan hefur verið samfelld í meira en 50 ár. Kynbæturnar hafa borið árangur og yrki sem hæfa aðstæðum á Íslandi hafa litið dagsins ljós. Fæðudeild var starfrækt innan Rala frá 1977 og með samstarfi matvælafræðinga og jarðræktarfólks kviknaði áhugi á aukinni nýtingu innlenda kornsins til matvælaframleiðslu. Nokkra starfsemi innan Matís má enn rekja til fæðudeildar Rala og stöðugt verið að þróa þá þekkingu sem þar byggðist upp.

Árið 2005 var hafist handa við verkefni sem miðuðu að því að nýta innlent korn til matvalaframleiðslu og voru þau styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Þessi vinna þróaðist síðan í samstarf landa við Norður-Atlantshaf sem styrkt var af Norræna Atlantssamstarfinu og Norðurslóðaáætluninni.

Innlent korn er fyrst og fremst bygg en það hentar ágætlega í margskonar matvæli. Í brauð er það notað ásamt hveiti og leggur byggið til gott bragð og hollustuefni eins og beta-glúkana sem lækka blóðkólesteról og draga úr blóðsykursveiflum. Af öðrum matvörum með byggi má nefna kex, morgunkorn, grauta og tilbúna rétti. Loks má nefna að bygg er notað til að framleiða malt sem er eitt mikilvægasta hráefnið í bjórgerð.

Hlýnun jarðar breytir ræktunarskilyrðum og ræktun korns getur á sumum suðlægum svæðum orðið erfiðari en áður. Það skapar aukinn þrýsting á fóður- og matvælaframleiðslu á norðlægum slóðum. Nýting innlends korns eykur fæðuöryggi og eykur sjálfbærni í matvæla- og fóðurframleiðslu á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, matvælafræðingur hjá Matís.

Fréttir

Ársskýrsla Matís 2015

Ársskýrsla Matís er komin út. Að þessu sinni snýr megin efni skýrslunnar að þeim góða grunni sem byggst hefur upp hjá Matís og forverum Matís undanfarna áratugi. Vægi þeirra stofnanna og fyrirtækja sem runnu í eina sæng þegar Matís var stofnað árið 2007 er enn þann dag í dag mikið í starfsemi Matís.

Ársskýrsla Matís 2015

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Ársskýrsla Matís 2015 – enska útgáfan

Ársskýrsla Matís er komin út. Að þessu sinni snýr megin efni skýrslunnar að þeim góða grunni sem byggst hefur upp hjá Matís og forverum Matís undanfarna áratugi. Vægi þeirra stofnanna og fyrirtækja sem runnu í eina sæng þegar Matís var stofnað árið 2007 er enn þann dag í dag mikið í starfsemi Matís.

Útgáfan sem hér er vitnað til er á ensku en íslenska útgáfan verður birt á næstu dögum.

Ársskýrsla Matís 2015

Fréttir

Móttaka og skiptiborð Matís um jólahátíðina

Starfsfólk Matís óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Skiptiborð og móttaka Matís verður lokað 24. og 31. desember. Beinn sími á örverudeild er 858-5116.

Upplýsingar um önnur símanúmer starfsmanna er að finna á heimasíðu okkar, www.matis.is.

Fréttir

Matís sendir ekki út jólakort í pósti en styrkir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna (SKB)

Líkt og undanfarin ár þá sendir Matís ekki út hefðbundin jólakort heldur eingöngu kort á rafrænu formi. Þess í stað styrkir Matís SKB, styrktarfélag krabbameinssjúkra barna.

Er það ósk Matís að styrkurinn komi að góðum notum og styðji enn frekar við það frábæra starf sem nú þegar fer fram hjá SKB.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu SKB, www.skb.is.

Fréttir

Þróunarsamvinna í starfsemi Matís

Matís og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar á undan hefur verið samstarfsaðili um kennslu í Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, UNU-FTP, frá upphafi starfsemi skólans árið 1998.

„Í náminu er lögð áhersla á hagnýta þekkingu og reynslu og nemendur vinna náið með íslenskum leiðbeinendum í verkefnavinnu og starfskynningum sem taka rúman helming þeirra sex mánaða sem námið varir. Á hverju ári er boðið upp á sérnám á 3-4 brautum, en sérnámið tekur 4-5 mánuði. Matís sér um kennslu á gæðabraut og eru nemendur á þeirri braut á bilinu 5 til 10. Á hverju ári koma 15-20 sérfræðingar Matís að kennslu og verkefnaleiðbeiningum“, segir Heiða Pálmadóttir, fagstjóri hjá Matís.

Það getur verið heilmikið púsluspil að koma dagskránni fyrir sérnámið saman, „fyrst eru fyrirlestrar í 6 vikur og þar koma ýmsir að og ekki bara sérfræðingar hjá Matís, heldur fólk vítt og breitt úr íslenskum fiskiðnaði og tengdum greinum eins og flutningum og pakkningum. Það er farið í heimsóknir þar sem fyrirtæki taka á móti nemendum, þetta eru skemmtilegar og fræðandi heimsóknir fyrir nemendur og ekki síður fyrir fylgdarmenn. Skemmtilegar umræður skapast frekar í óformlegum heimsóknum en þegar setið er í fyrirlestri um efnið. Mér hefur sjálfri þótt gaman og fræðandi að fara með í þessar heimsóknir,“ segir Heiða Pálmadóttir sem um langt árabil hefur haft umsjón með kennslunni.

Hagur UNU-FTP skólans af samstarfinu:

  • Matís hefur á að skipa fjölhæfum sérfræðingum með langa reynslu af rannsóknum og þjónustu í fiskiðnaðinum
  • Sérfræðingar Matís hafa góð tengsl við íslenskan fiskiðnað vegna smæðar landsins, allt frá veiðum til útflutnings og neyslu
  • Sérfræðingar Matís eiga margháttað samstarf við íslenska háskóla og tengjast menntun bæði í grunnámi og framhaldsnámi og mynda brú milli iðnaðar og háskóla á Íslandi

Hagur Matís af samstarfinu:

  • Matís leggur sitt að mörkum til þróunarhjálpar
  • Sérfræðingar Matís viðhalda tengslum við sjávarútveg og fiskiðnað og varðveita grunnþekkingu sína á því sviði
  • Skapar ný tækifæri til aukinna verkefna á alþjólegum markaði

Nemendur vinna lokaverkefni sín hjá Matís og við það skapast tengsl við nemendur sem slitna ekki. Margir koma aftur til frekara náms hér á Íslandi, þó nokkrir hafa komið í doktorsnám og mastersnám á síðustu árum. Við það að dvelja svo lengi á Íslandi skapast mikil og varanleg tengsl milli manna. Þetta hefur getið af sér verkefni og vinskap sem lengi heldur.

UNU_FTP

„Ég hef verið í sambandi við nemenda frá SriLanka, hann er að koma upp gæðakerfi og leitaði ráðlegginga um framkvæmd á einstökum mælingum eins og gæðamælingum á fiski og frekari útskýringum á aðferðafræði – þetta er hægt að vinna í gegnum netið og tekur okkur lítinn tíma að afgreiða. Annað dæmi er um nemanda í Kenýa sem hefur verið í sambandi vegna fitusýrugreininga en henni er sérstaklega hugleikið að auka lýsisneyslu, sérstaklega hjá ungum börnum og mæðrum þeirra.  Óneitanlega verður manni hugsað til nemenda sinna þegar hörmungar dynja yfir þjóðir þeirra og maður veit aldrei hvað um þau verður sérstaklega ef tengslin eru ekki stöðug. Það var líka sterk reynsla að taka á móti nemendum frá Norður Kóreu og Kúbu meðan ástandið var þar sem verst,“ segir Heiða.

„Allt er þetta vel menntað fólk í byrjun og ákaflega áhugasamt um að læra og kynna sér sem best það sem við höfum upp á að bjóða“ segir Heiða að lokum.

Fréttir

Rannsóknir tengdar húðvörum

Vegna umfjöllunar um húðvörur frá fyrirtækinu Villimey sem birtist í DV í gær, 16. desember 2016, vill Matís taka eftirfarandi fram:

Í frétt sem Matís birti á vef sínum þann 1. september sl. er um að ræða ónákvæmt orðalag en skilja má hluta fréttarinnar með þeim hætti að Matís hafi rannsakað virkni húðvaranna á líkamsstarfsemi.

Varðandi framkvæmd rannsókna þeirra er um ræðir er hið rétta að jurtir í vatnsupplausn (jurtaextrakt) með jurtum sem notaðar eru í húðvörur Villimeyjar voru prófaðar í margskonar húðfrumuprófum og bandvefsprófum.  Slík próf gefa m.a. vísbendingar um virkni ýmissa efna í húð -og bandvefsfrumum. Í viðkomandi frumuprófum var mælt magn kollagens og magn ensímanna elastasa, málmpróteinasa 1, málmpróteinasa 2 og málmpróteinasa 9.

Prófin sýndu að jurtirnar höfðu hamlandi áhrif á myndun ensímanna. Jafnframt gáfu prófin vísbendingu um aukið magn kollagens í húðfrumum. Þá kom fram virkni við að græða skrámur í frumuþekju með svokölluðu „Scratch wound healing“ prófi (skrámugræðipróf) sem og andoxunaráhrif.

Matís þykir miður að hafa sent frá sér texta sem innihélt ónákvæmt orðalag og biður alla viðeigandi afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Fréttir

Sjálfsagt að vísindamenn vinni með sjómönnum

„Við viljum að það teljist sjálfsagt að vísindamenn vinni með sjómönnum við fiskveiðirannsóknir og að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi líti á vísindamenn sem verðmæta samstarfsaðila í stefnumótunarvinnu,“ sagði Steve Mackinson frá Miðstöð umhverfis-, sjávarútvegs- og fiskeldisvísinda í Bretlandi í nýlegu viðtali í Horizon, EU Research & Innovation Magazine en tilefnið var m.a. WhiteFish verkefnið sem Matís og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) tóku þátt í fyrir Íslands hönd.

Matís, ásamt samstarfsaðilum frá Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Hollandi, var þátttakandi í ransóknaverkefninu WhiteFish sem var hluti af FP7, 7. rannsóknaráætlun Evrópu, en verkefninu er nýlokið. Markmið verkefnisins var að þróa og sannreyna aðferð til að reikna út, greina niður á einstakar lotur (t.d. kassa, bretti eða veiðiferð), umhverfisálag þorsk- og ýsuafurða. Verkefnið á sérstaklega að nýtast smáum og meðalstórum fyrirtækjum í virðiskeðju þorsk- og ýsuafurða, þannig að þau geti skráð sjálfbærni afurða og vinnsluleiða. Með því að geta sýnt fram á umhverfisálag einstakra framleiðslulota mun afurð verkefnisins nýtast til að skapa framleiðendum þorsk- og ýsuafurða samkeppnisforskot á markaði sem væntanlega munu skila bættum aðgangi að mörkuðum, hærra verði og aukinni velvild neytenda.

Greinin í heild er á heimasíðu Horizon.

Skylt efni

Fréttir

Handverkssláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti

Hjá handverkssláturhúsinu í Seglbúðum í Landbroti starfar fumkvöðull sem leitaði til Matís um úrlausn sinna mála. Erlendur  Björnsson bóndi hafði lengi haft áform um að koma sér upp kjötvinnslu, til að vinna afurðir úr eigin hráefni. Til þess hafði hann hugsað sér að nýta stóra skemmu við bæinn,  sem hann hafði komið sér upp fyrir nokkrum árum, en var fremur illa nýtt, mestmegnis sem geymsla fyrir tæki og tól.

Eftir nokkra yfirlegu, voru menn ásáttir að húsnæðið mætti eins nýta sem sláturhús af minni gerðinni, auk hefðbundinnar kjötvinnslu. Má segja að ekki sé hægt að komast nær hugmyndafræðinni „Beint frá býli“.

Í hönd fór mikill undirbúningur, sem byggðist m.a. á hönnun og skipulagningu sláturhússins og þeirra verkferla sem þar er krafist og einnig fór mikill tími í samskipti við opinbera eftirlitsaðila þar sem þetta var fyrsta sláturhús sinnar tegundar á landinu. Þá þurfti að sannfæra leyfisveitendur og eftirlitsaðila að jafnvel lítil sláturhús, með takmarkaðan mannafla, þar sem verkferlar byggja meira á handverki en sjálfvirkni, geti uppfyllt allar kröfur sem gerðar eru til sláturhúsa. Nú eru liðnar tvær sláturtíðir frá opnun sláturhússins á þeim tíma hefur verið staðfest að afurðir hússins eru orðnar mjög eftirsóknaverðar enda annáluð gæði hvort heldur litið sé til hollustuhátta eða bragðs og áferðar.

Næstu skref þeirra Erlends Björnssonar og Þórunnar Júlíusdóttur, frumkvöðlana í Seglbúðum í samstarfi við Matís, eru að auka starfssemi hússins og er undirbúningur stórgripasláturhúss, þ.e. nauta og hrossaslátrun, þegar kominn af stað. Sú starfssemi mun styrkja starfssemina og skapa nokkur störf í sveitinni til viðbótar þeim sem urðu til við opnun sauðfjársláturhússins.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

Fréttir

Matís auglýsir eftir handverksfyrirtækjum

Í sumar fór af stað verkefnið „Craft Reach“ sem hefur það markmið að styðja við sprotafyrirtæki og núverandi smáframleiðendur á afskekktum og strjálbýlum svæðum. Matís er einn af sjö samstarfsaðilum verkefnisins sem styrkt er til þriggja ára af Northern Pheryphery and Arctic programme. Verkefnið mun byggja á velgengni og reynslu verkefnisins „Économusée Craft International“ sem lagði grunninn að þessu verkefni.

Megináhersla verkefnisins er að aðstoða við að byggja upp og markaðssetja handverksfyrirtæki á afskekktum og strjálbýlum svæðum og í leiðinni hvetja unga fólkið og veita því innblástur. Samstarfsaðilar í verkefninu eru frá Noregi, Kanada, Færeyjum, Norður-Írlandi, Írlandi, Íslandi og Grænlandi.

Matís er að nú að leita að handverksfyrirtækjum sem hafa áhuga á því að gerast ÉCONOMUSÉE og tengjast „Craft Reach“ netverkinu. Til að fá meiri upplýsingar er hægt að fara inn á heimasíðuna, www.economusee.eu.

Á Íslandi eru nú þegar til þrjú ÉCONOMUSÉE, þau eru Leir 7 í Stykkishólmi, Arfleifð á Djúpavogi og Gestastofa Sútarans á Sauðárkróki.  

Þau handverksfyrirtæki sem hafa áhuga á því að taka þátt verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

ÉCONOMUSÉE er fyrirtæki sem:

  • Nota hefðbundnar handverksaðferðir
  • Framleiða hefðbundnar og/eða nýjar vörur með ákveðin menningartengsl
  • Opna dyr sínar fyrir almenningi til að kynna handverkið og fólkið þar á bak við
  • Er með húsnæði sem hannað er þannig að hægt er að sýna gestum vinnsluna og vörurnar
  • Miðar að því að verða fjárhagslega sjálfstætt

Nánari upplýsingar um verkefnið eða núverandi handverksfyrirtæki má finna á www.economusee.eu.

Ef þú telur að þú uppfyllir ofangreind skilyrði og hefur áhuga á því að vera hluti af þessu spennandi netverki getur þú haft samband við Gunnþórunni Einarsdóttur ( gunna@matis.is).

Frestur til að sækja um er 21. desember.

IS