Fréttir

Fundur á Ísafirði í Codlight-verkefninu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nokkuð hefur verið fjallað að undanförnu um verkefni sem Matís vinnur m.a. að og kallast Codlight, en það miðar m.a. að því að seinka kynþroska eldisþorsks með notkun sérstakra ljósa. Í dag og á morgun eru fundarhöld á Ísafirði í verkefninu.

Í frétt á vef BB á Ísafirði kemur fram að Matís ohf, ásamt samstarfsaðilum í Evrópuverkefninu Codlight-tech haldi verkefnisfund á Ísafirði dagana 2. og 3. maí. Verkefnið, sem unnið hefur verið að í Álftafirði auk Noregs og Skotlands, snýst um að nota hátækniljósabúnað til að koma í veg fyrir kynþroska hjá þorski í eldi. Í tilefni af fundinum mun samstarfsaðili Matís í verkefninu, Johnsons Seafarms kynna fyrirtæki sitt og framleiðslu.

Johnson Seafarms er eitt elsta eldisfyrirtæki Bretlandseyja og stærsta einstaka þorskeldisfyrirtæki í heiminum. Framleiðsla Johnson er um 2000 tonn af þorski á ári og spár fyrirtækisins gera ráð fyrir að árið 2010 verði framleiðsla á eldisþorski verði komin í um 15 þúsund tonn. Johnson Seafarms er þekkt á Bretlandseyjum fyrir vörumerkið “No Catch” – og í fyrirlestrinum mun Alan Bourhill, rannsókastjóri og velferðarfulltrúi fyrirtækisins fjalla um tilurð þessa vörumerkis og mikilvægi þess á markaðssetningu.

Samstarfsaðilar í Codlight-tech verkefninu eru auk Matís ohf sem sér um verkefnisstjórn: Hraðfrystihúsið Gunnvör, Álfsfell, Havsforsknings institutet í Bergen og Fjord Marin í Noregi, Stirling háskóli og Johnson Seafarms í Skotlandi, Landbúnaðarháskólinn í Uppsala í Svíþjóð ásamt Intravision Group í Noregi sem er framleiðandi ljósabúnaðarins.

Fyrirlesturinn hefst kl. 13 í dag, 2. maí í Þróunarsetrinu á Ísafirði og er öllum opinn.  Fyrirlesturinn er á ensku.