Fréttir

Vaxtarhraði þorsks í sjókvíaeldi aukinn með ljósum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hægt er að auka vaxtahraða þorsks í sjókvíaeldi með náttúrulegri aðferð, að því er fram kemur í niðurstöðum úr Evrópuverkefninu CODLIGHT-TECH sem stýrt er af vísindamönnum hjá Matvælarannsóknum Íslands (Matís). Niðurstöður benda til að hægt sé að hvetja vöxt og hægja á kynþroska hjá þorski í sjókvíaeldi. Þessar niðurstöður eru nýnæmi og mikilvægar í þeirri þróun sem á sér stað í þorskeldi í heiminum en þær geta stuðlað að því að eldistími styttist, fóðurnýting batni og þorskeldi geti orðið hagkvæmara.

Ennfremur má segja að niðurstöðurnar séu áhugaverðar fyrir þær sakir að orkuverð er lágt á Íslandi og því er hér um raunverulegan valkost að ræða fyrir íslenska eldisaðila.

Tekin blóðsýni úr þorski

Rannsóknin er samtarfsverkefni Matís, Hraðfrystihússins Gunnvarar og Álfsfells á Ísafirði, Háskólans í Stirling og Johnsons Seafarms í Skotlandi, Intravision Group, Hafrannsóknastofnunarinnar í Bergen og Fjord Marin í Noregi og Landbúnaðarháskólans í Lundi í Svíþjóð. Auk þess tekur Vaki DNG þátt í verkefninu.

Dr. Þorleifur Ágústsson, verkefnastjóri hjá Matís, segir að mjög mikilvægt sé að geta komið í veg fyrir kynþroska hjá þorski í eldi. Þegar þorskur verði kynþroska hætti hann að vaxa svo að eldistími lengist með tilheyrandi kostnaði fyrir eldisaðila.

Þá sé vitað að þorskur hrygnir í sjókvíunum og því megi telja að frjóvguð hrogn berist út í umhverfið en þó beri að taka fram að ekki hafi verið sýnt fram á neikvæða blöndun erfðaefnis og slíkar rannsóknir séu ennþá á byrjunarreit. Þá sé hér stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að gera eldi að umhverfisvænum iðnaði með bættri nýtingu fóðurs sem leiðir til þess að minna fóður fellur til botns undir kvíum. “Samhliða þessum rannsóknum vinnur Matís ásamt samstarfsaðilum að víðtækum rannsóknum á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis með það að markmiði að auka sjálfbærni þorskeldis, sem þýðir að ekki sé gengið á auðlindina,” segir Dr. Þorleifur Ágústsson.

“Þegar fylgst er með umræðu í Evrópu um fiskeldi kemur í ljós að almennt er talið að þorskeldi komi til með að verða næsta stóra eldisgreinin á eftir laxeldi. Því er spáð að árið 2010 verði framleiðsla Evrópuþjóða á eldisþorski komin í um 175.000 tonn sem eru að markaðsvirði á um 880 milljónir evra. Því leggja framleiðendur mikla áherslu á að skilgreina og leysa þau vandamál sem geta haft áhrif á þróun iðnaðarins, en eitt af þeim vandamálum er kynþroski hjá eldisþorski,” segir Þorleifur.