Fréttir

Græn skref í rekstri Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ánægjulegt er að greina frá því að fyrsta Græna skrefinu hefur verið náð hjá Matís. Innleiðing Grænna skrefa í rekstri Matís hófst í ársbyrjun 2022 og var fyrsta skrefið samþykkt af Umhverfisstofnun fimmtudaginn 16. mars síðastliðinn.  

Grænu skrefin eru alls fimm skref. Skref 1-4 er flokkað upp í sjö flokka sem hver um sig hefur mismunandi margar aðgerðir sem þarf að uppfylla. Síðasta skrefið, skref 5, lýtur svo einvörðungu að umhverfisstjórnun vinnustaðarins, skipt upp í sex þætti og aðgerðir.  

Innleiðing Grænna Skrefa hjá Matís nær ekki bara til höfuðstöðvar okkar í Reykjavík heldur þurfa allar starfsstöðvar að taka þátt, í öllum flokkum og aðgerðum.

Í skrefi 1 er verið að hefja vegferð í átt að umhverfisvænni kostum, hugsun og aðgerðum er varða rekstur Matís. Sem dæmi þá þarf m.a. húseignarfélagið að vera upplýst um þessa vegferð en jafnframt er lykilatriði að kynna þarf fyrir innkaupaaðilum, byrgjum, hreingerningarfólki/ræstifyrirtækjum, eldhúsinu sem og öllum hinum starfsstöðvum og starfsfólki kröfur skrefanna.  

Kröfur skrefanna er m.a. að innkaupaaðilar versli ávallt vörur, þ.e. séu þess nokkur kostur, sem eru með umhverfisvottun. Þessu tengdu er mikilvægt að þekkja vel vottunarmerkin sem er viðurkennd og undir ströngum gæðastöðlum.  

Markmið Grænna Skrefa er að:  

  • Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í starfsemi Matís 
  • Efla umhverfisvitund starfsfólks 
  • Auka vellíðan starfsfólks og bæta starfsumhverfi  
  • Draga úr rekstrarkostnaði 
  • Innleiða áherslur í umhverfismálum 
  • Aðgerðir í umhverfismálum séu sýnilegar

Teymi Grænna Skrefa hjá Matís samanstendur af eftirfarandi eldhugum: Ásta Heiðrún Pétursdóttir, Anna Berg Samúelsdóttir, Birgir Örn Smárason, Eva Margrét Jónudóttir, Laura Malinauskaite og Justine Vanhalst.