Fréttir

Ný tækni til umhverfisvöktunar fiskeldis í sjókvíum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís og RORUM sameina einstaka sérþekkingu fyrirtækjanna til að þróa saman nýja tækni til umhverfisvöktunar fiskeldis í sjókvíum. Í verkefninu verður notast við tegundaauðgi (Species richness), sem er góður mælikvarði fyrir ástand botns við eldiskvíar.

Markmið verkefnisins er að þróa örugga, ódýra og hraðvirka aðferð til að meta ástand botndýrasamfélaga á eldissvæðum með erfðafræðilegri aðferð. Aðferðin mun einfalda og flýta ákvarðanatöku um lengd hvíldartíma eldissvæða og byggja þannig lengd hvíldartíma á raunverulegum gögnum um ástand lífríkis á hverjum tíma. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að eftirlitsstofnanir þurfa að vera vel upplýstar um ástand á eldissvæðum og miklir hagsmunir eru fyrir eldisfyrirtækin að nýta eldissvæði á sjálfbæran hátt.

Rannsóknir RORUM sýna að ákveðnar tegundir, eða hópar tegunda, einkenna mismunandi ástand undir og nærri fiskeldiskvíar. Í verkefninu eru valdar 30 tegundir hryggleysingja valdar sem eru einkennandi fyrir mismunandi ástand sjávarbotns og DNA raðir í hvatbergenum þeirra raðgreindar, en hvatberagen eru einstök fyrir hverja tegund.

DNA raðirnar eru vistaðar í gagnagrunni til tegundagreiningar á óþekktum botnsýnum og þjónar því gagnagrunnurinn mikilvægu hlutverki fyrir vöktun og rannsóknir.

Þekking, reynsla og gagnagrunnur um botndýr í íslenskum fjörðum, er grunnurinn að samstarf Matís og RORUM í verkefninu og sem mun skila af sér þessari nýju tækni. Niðurstöður munu nýtast beint við vöktun fiskeldis og rannsóknum almennt á lífríki íslenskra fjarða.

Verkefnið er styrkt af Umhverfissjóði Sjókvíaeldis.