Fréttir

Sigurjón Arason yfirverkfræðingur hjá Matís sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á nýársdag 2022 fór fram hátíðleg athöfn á Bessastöðum þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sæmdi 12 einstaklinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeirra á meðal var yfirverkfræðingur Matís, Sigurjón Arason, en hann hlaut orðuna fyrir rannsóknir og þróun á vinnslu sjávarafurða.

Sigurjón Arason hefur starfað hjá Matís frá upphafi en fyrir það starfaði hann sem sérfræðingur og yfirverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem rann saman við fleiri fyrirtæki og stofnanir þegar Matís var stofnað.  Sigurjón er einnig prófessor emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og hefur í gegnum tíðina kennt ótal námskeið og leiðbeint fjölda nemenda í grunn-, meistara- og doktorsnámi.

Sigurjón hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín og var meðal annars haldið málþing honum til heiðurs í Háskóla Íslands í haust.

Í viðtali sem tekið var við Sigurjón og birtist á vef Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Nýjungasmiðurinn frá Neskaupstað er eftirfarandi tekið fram:

„Sigurjón hefur komið að ótrúlegum fjölda verkefna sem hafa skilað sér í hreinum tekjum fyrir íslensk fyrirtæki og þjóðarbú. Hann hefur ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum úr atvinnulífinu og þekkingarsamfélaginu komið að því að þróa byltingarkenndar aðferðir til kælingar á fiski, m.a. á makríl, sem hefur stóraukið útflutningsverðmæti afurðanna. Þá hefur hann stuðlað að vinnslu og þurrkun á vannýttu aukahráefni og fisktegundum, endurhannað umbúðir og fiskkassa til að tryggja betur gæði hráefnis og afurða, þróað frystingu fisks og vinnslu saltfisks til að auka verðmæti, unnið að bættri meðhöndlun afla og bættu geymsluþoli fisks, bætt stýringu á veiðum og notkun veiðarfæra. Enn fremur hefur hann fundið leiðir til að nýta betur aukaafurðir úr hráefnum sem jafnvel var hent en undir þetta falla fiskinnyfli, lifur, svil, hausar, hryggir, sundmagi og roð sem breytt var í verðmætar afurðir. Hér er fátt eitt talið.“

Sigurjón er vel að þessum heiðri kominn og óskar starfsfólk Matís honum til hamingju með fálkaorðuna.

Sigurjón Arason og Guðni Th. Jóhannesson við orðuveitinguna á Bessastöðum