Fréttir

Nærumst og njótum – mikilvægt innleg í umræðu um lýðheilsu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í gærkvöldi hóf þáttaröðin Nærumst og njótum göngu sína á RÚV en í þáttunum verður fylgst með fjölbreyttum hópi fólks taka næringar- og matarvenjur sínar til gagngerrar endurskoðunar í þeim tilgangi að skoða hvernig mögulegt er að sameina þessi tvö atriði, þ.e. að nærast og njóta.

þættirnir Nærumst og njótum eru hugmyndasmíð og í umsjón Önnu Sigríðar Ólafsdóttur, prófessors í næringafræði og eru mikilvægt innlegg í lýðheilsumál á Íslandi. Í þessum fyrsta þætti fengu áhorfendur að kynnast viðfangsefninu, þátttakendum og álitsgjöfum en í næstu þáttum verður fylgst með matarlífi sjö heimila á Íslandi. Heimilin eru fjölbreytt, allt frá fólki sem býr eitt upp í samsettar stórfjölskyldur og þátttakendur eru á aldursbilinu 10 vikna til sjötugs.

„Matur er rauður þráður í gegnum líf okkar en fæst borðum við þó bara til þess að halda lífi. Matur er nefnilega órjúfanlegur þáttur líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu. Við erum tilfinningalega tengd mat og hann er stór hluti menningar okkar.”

Kolbrún Sveinsdóttir, matvælafræðingur og verkefnastjóri hjá Matís er einn þeirra sérfræðinga sem fengnir voru til að gefa álit og fjalla um ýmis málefni tengd mat og matarvenjum. Hún tók sérstaklega fyrir unnin matvæli, muninn á þeim og ferskum matvælum og hinar ýmsu vinnsluaðferðir sem geta bæði verið af hinu góða og slæma.

Þættirnir verða á dagskrá RÚV næstu vikurnar en fyrsti þátturinn er þegar orðinn aðgengilegur í spilaranum hér: Nærumst og njótum, fyrsti þáttur.