Fréttir

Stórt skref í bættri heilsu þjóðarinnar?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Krónan og Matís eiga í samstarfi til að hjálpa Íslendingum að minnka óhóflega neyslu á sælgæti á svokölluðum nammibörum.

Fyrirtækin hafa í sameiningu látið útbúa veggspjald sem komið hefur verið upp í nokkrum Krónubúðum. Á veggspjaldinu er að finna upplýsingar um hóflegt magn af laugardagsnammi og byggir magnið á meðalgildum fyrir daglega orkuþörf nokkurra aldursskeiða. Meðalgildin úr efnagreiningunum má finna í íslenska gagnagrunninum um efnainnihald matvæla (ÍSGEM).

Eins og flestir vita borða Íslendingar of mikið af viðbættum sykri. Þetta er ekki hvað síst vegna mikillar neyslu á sælgæti frá svokölluðum nammibörum í verslunum, sem helst er sótt í á laugardögum. Þó ekki sé nauðsynlegt að neyta sælgætis, þá er hægt að láta nammidag „passa“ inn í heilbrigðan lífsstíl svo framarlega að ákveðins hófs sé gætt þegar kemur að magninu sem neytt er. Flestir borða of mikið nammi á laugardögum og eru leiðbeiningarnar sem finna má á veggspjaldinu settar fram til þess að aðstoða neytendur við að velja sér hóflegt magn.

Heilbrigður lífsstíll með fjölbreyttu mataræði og hóflegri hreyfingu er undirstaða andlegrar og líkamlegrar vellíðunar. Matís hefur hlutverki að gegna í lýðheilsu þjóðarinnar og heldur auk þess utan um ÍSGEM.

Krónan hefur beitt sér fyrir því að Íslendingar velji sér holla lífshætti og eru t.d. starfsræktir ávaxtabarir í Krónubúðum. Auk þess er Krónan iðulega með tilboð á hollum og góðum matvælum til þess að hvetja neytendur til að velja hollari vörur.

Samstarfið er tilraun sem sett er af stað í nokkrum búðum Krónunnar. Það eru svo viðbrögð viðskiptavina Krónunnar og annarra neytenda sem munu ráða hvort leiðbeiningar verði settar upp í fleiri búðum. Hægt verður að bera saman heildarþyngd sælgætis sem selt hefur verið áður en veggspjöldin voru sett upp og svo heildarþyngd eftir að veggspjöldin voru sett upp. Með þessum hætti verður hægt að sjá hvort veggspjaldið skipti máli þegar kemur að magninu sem selt er í hverri verslun á hverjum laugardegi.

Veggspjaldið má sjá hér.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís og Berglind Ósk Ólafsdóttir, markaðsstjóri Kaupás.