Fréttir

Þorskeldi: mögulegt að stórlækka fóðurkostnað

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Mögulegt er að lækka fóðurkostnað í þorskeldi allverulega með nýrri samsetningu af fóðri, að því er fram kemur í rannsóknum Matís og samstarfsaðila. Niðurstöður rannsókna sýna að lækka má kostnað á fóðri fyrir eldisþorsk um amk. 25%, sem þýðir 12-15% lækkun framleiðslukostnaðar í þorskeldi. Niðurstöður rannsóknanna hafa þegar verið nýttar að hluta við fóðurframleiðslu hjá Laxá hf og eru þær mikilvægt skref í þá átt að gera eldi á þorski enn arðbærara.

Eldisdeild Matís hefur undanfarin ár unnið með Fóðurverksmiðjunni Laxá, Hólaskóla og fleiri samstarfsaðilum að rannsóknum á fóðri fyrir þorsk með það að markmiði að lækka fóðurkostnað. Hefur fyrirtækið meðal annars fengið styrki til verkefnanna frá AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi. Norðmenn hafa verið leiðandi í frameiðslu á fóðri fyrir fiskeldi en á nýafstaðinni þorskeldisráðstefnu sem haldin var í Noregi kom fram að takmörkuð þróun á fóðri fyrir þorsk virðist eiga sér stað þar í landi og þar af leiðandi hafa ekki skapast forsendur til að lækka verð á þorskfóðri.

13% lækkun fóðurkostnaðar í þorskeldi

Niðurstöður tilraunanna hér á landi sýna m.a. að hægt er að nota lægra hlutfall af próteini í fóðrið en áður var talið, án þess að það komi niður á vexti fiskanna. Mest af próteinum í fóðrinu kemur úr hágæða fiskimjöli og hefur hátt verð á fiskimjöli orðið til þess að verð á fiskafóðri hefur hækkað og afkoma fiskeldisfyrirtækja versnað. Tilraunirnar sýna að hægt er að skipta út hluta af fiskimjölinu í fóðrinu með ódýrari próteinum úr jurtaríkinu og lækka þannig fóðurverðið enn frekar.

Sjóeldiskvíar Rf á Vestfjörðum

Áður var talið að fituinnihald í þorskfóðri mætti ekki vera hærra en 10-15% en niðurstöður tilrauna á 500-1000 gr. þorski, þar sem prófuð var fita í fóðri á bilinu 10 – 26%, sýndu að hægt er að auka fituhlutfallið í 26% án þess að það kæmi niður á vexti og gæðum fisksins. Ótti um að aukin fita í fóðri gæfi óeðlilega stóra lifur reyndist jafnframt ástæðulaus þar sem lifur var á bilinu 8,8 til 10,8% af fiskþunga sem er sambærilegt við það sem gerist í velhöldnum villtum þorski. Tilraunir á minni þorski (um 50 gr. seiði) eru að hefjast og er gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir í júní á þessu ári.

Ef gengið er út frá núverandi hráefnisverðum og með hliðsjón af niðurstöðum má lækka hráefniskostnað í þorskfóðri um 21% (þorskseiði) og 32% (stærri þorskur). Að meðaltali er því hægt að lækka hráefniskostnað um amk. 25% sem þýðir um 13% lækkun fóðurkostnaðar í þorskeldi.