Fréttir

Útflutningur á lifandi humar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hafnar eru tilraunaveiðar á humri á Höfn í Hornafirði með það fyrir augum að flytja út lifandi humar frá humarhóteli Matís á markað erlendis um páskahátíðina, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Þá verður humarinn einnig veiddur til dvalar á svokölluðu humarhóteli sem starfrækt er á Höfn á vegum Matís. Til veiðanna hefur verið fenginn lítill humarbátur, Mundi Sæm SF-1, sem er 26 brúttótonn að stærð. Á þeim tíma sem tilraunaveiðar standa yfir er markmiðið að veiða um 750 kíló af humri sem fengin eru af rannsóknakvóta Hafrannsóknastofnunar.

,,Við fáum hæst verð fyrir lifandi humar fyrir stórhátíðir eins og jól og páska. Við erum í sambandi við markaðsmenn í Frakklandi og á Spáni og það verður spennandi að sjá hvernig prufusendingum með humrinum frá Íslandi fyrir páskana verður tekið,“ sagði Ari Þorsteinsson framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands ehf í samtali við Fiskifréttir.