Fréttir

Þróun sértæks bóluefnis fyrir bleikju

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís, í samstarfi við Íslandsbleikju, Háskólann á Akureyri, Keldur og spænska bóluefnisframleiðandann Hipra vinna að þróun sértæks bóluefnis fyrir bleikju.

Ísland er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með um fjögur þúsund tonna framleiðslu á ári. Engin lyf, önnur en fyrirbyggjandi bóluefni, hafa verið notuð í bleikjueldinu í meira en áratug og allri efnanotkun er haldið í lágmarki.  Sá sjúkdómur sem valdið hefur mestum afföllum í bleikjueldi undanfarin ár er kýlaveikibróðir. Bólusetning gegn sjúkdómnum, sem byggir á bóluefni þróað til notkunar í laxi, hefur ekki reynst nógu öflug til að verja bleikju þar til hún nær sláturstærð. Sjúkdómurinn veldur því umfangsmiklum afföllum og tekjutapi í greininni. 

Nú hafa þátttakendur verkefnisins, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóðnum, hafið þróun á sértæku bóluefni gegn kýlaveikibróður fyrir bleikju með það að markmiði að koma á markað öflugu bóluefni sem nýtist í bleikjueldi. Verkefninu er stýrt af Íslandsbleikju og munu niðurstöður verkefnisins liggja fyrir seinni hluta árs 2019.