Fréttir

Verið Vísindagarðar á Sauðárkróki tekur til starfa

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í gær var fyrirtækið Verið Vísindagarðar ehf. kynnt á opnum fundi á Sauðárkróki. Eitt af meginmarkmiðum Versins er að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs, efla rannsóknir og námsframboð og auka verðmætasköpun í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu.

Á kynningarfundinum sagði sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, að Verið Vísindagarðar væri farsæl leið til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu, einkum í matvælaiðnaði. Hann sagði að ráðuneytið hafði lagt sig fram um að fjölga sérfræðistörfum hjá stofnunum ráðuneytisins á landsbyggðinni, en þeim hefði fjölgað um 25 síðustu misseri og álíka fjöldi hið minnsta væri fyrirsjáanlegur. Í ræðu sinni lagði ráðherrann áherslu á mikilvægi þess að fjölga atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað fólk á landsbyggðinni og sömuleiðis námsmöguleikum og sagði að stofnun Versins Vísindagarða væri liður í því.

Fyrirtækið Verið Vísindagarðar ehf var stofnað fyrr á þessu ári og mun annast rekstur kennslu og rannsóknaraðstöðu í formi vísindagarða í tengslum við Háskólann á Hólum, Matís (Matvælarannsóknir Íslands), FISK Seafood og fleiri aðila. Félagið stefnir að enn frekari uppbyggingu á því sviði með því að skapa aðstöðu og vettvang til aukins samstarfs atvinnulífs, innlendra og erlendra háskóla og rannsóknaraðila.

Verið Vísindagarðar eru í dag reknir í um 1.500 fermetra húsnæði að Háeyri 1, en þar er Háskólinn á Hólum með aðstöðu fyrir kennslu og rannsóknir í fiskeldi, fiskalíffræði, sjávar- og vatnalíffræði. Þá er Matís með starfsemi þar fyrir fyrirtækið Iceprotein, sem framleiðir prótein úr fiskafskurði. Sjávarútvegsráðherra sagði á kynningarfundinum að þátttaka Matís í rannsóknar- og þróunarstarfi í Verinu hefði það m.a. að markmiði að búa í haginn fyrir atvinnulífið og stuðla að frekari fjárfestingu og atvinnusköpun. Það sama ætti einnig við um starfsemi rannsóknastofnana sem heyrðu undir sjávarútvegsráðuneytið víða um landið.

Vísindagarðar, eins og þeir sem hafa verið teknir í notkun á Sauðárkróki, hafa verið stofnaðir við fjölmarga háskóla erlendis því reynslan sýnir að slík starfssemi sé öflug leið til að efla byggðir og samfélög með víðtæku háskólastarfi í nánu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög.

Vegna mikils áhuga þeirra sem koma að Verinu og fleiri þá eru þegar uppi áform um bæta verulega við núverandi húsnæði; svo sem rannsóknaraðstöðu og frekari vinnuaðstöðu fyrir kennara, nemendur og rannsóknarfólk.

Gísli Svan Einarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Versins, en hann starfaði áður sem útgerðarstjóri hjá FISK Seafood á Sauðárkróki. Gísli veitir allar nánari upplýsingar í síma: 825 4409.