Við hjá Matís leitum að þátttakendum í rannsókn á virkni lýsis með viðbættum fríum fitusýrum í baráttunni gegn kvefi og flensum.
Meira um lýsið sem er til rannsóknar
Lýsið sem algengast er á markaði í dag hefur verið hreinsað af svokölluðum fríum fitusýrum. Áður en farið var að hreinsa lýsi á þennan hátt innihélt það fríar fitusýrur í nokkru magni. Omega Cold lýsið, sem notað er í þessari rannsókn, er hreinsað lýsi líkt og algengast er á markaði í dag en líkist gamla lýsinu að því leyti að það inniheldur fríar fitusýrur (2%). Rannsóknir sem Lipid Pharmaceuticals ehf. lét gera í Bandaríkjunum sýndu að lítið magn þessara fitusýra í tilraunaglösum drap veirur sem valda COVID-19 og kvefi. Þessi rannsókn er fyrsta skrefið í því að kanna hvort lýsi með fríum fitusýrum geti hindrað framgang þessara veira í fólki. Rannsóknin gengur því út á það að bera saman tvo hópa fólks með tilliti til kvefs og annarra öndunarfærasýkinga, þeirra sem taka Omega Cold lýsið og hinna sem taka jurtaolíu í staðinn. Jurtaolían sem notuð verður í rannsókninni er hreinsuð sólblómaolía með háu hlutfalli af omega-9 fitusýrum. Bæði lýsið og jurtaolían verða með sítrónubragði.
Rannsóknaraðilar
Rannsóknin er á vegum Háskóla Íslands og Lipid Pharmaceuticals ehf. og styrkt af Tækniþróunarsjóði. Matís annast framkvæmd rannsóknarinnar.
Hvað felst í þátttöku?
Skilyrði fyrir þátttöku eru að geta tekið lýsi með sítrónubragði, vera á aldursbilinu 18-80 ára og almennt við góða heilsu
- Allir þátttakendur verða beðnir um að skrá upplýsingar um heilsufar með tilliti til kvef- og flensueinkenna vikulega í fjóra mánuði með stuttum spurningalistum.
- Þátttakendum verður skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn fær Omega cold lýsið til að taka tvisvar sinnum á dag í fjóra mánuði. Hinn hópurinn fær jurtaolíu til að taka á sama hátt.
- Þátttakendur verða ekki beðnir um að breyta neinu öðru í neyslu eða hegðun en að taka olíuna og skrá heilsufarsupplýsingar.
Nánar um framkvæmd rannsóknarinnar
Stefnt er að því að hefja rannsóknina í lok nóvember eða byrjun desember. Í upphafi rannsóknar verða allir þátttakendur beðnir um að svara spurningalista um almennt heilsufar og líðan, sjúkdómasögu, lyfjanotkun, neyslu á fæðubótarefnum, mataræði, munn- og tannheilsu, hreyfingu, tóbaks- og , áfengisnotkun, félagshegðun, almenna heilsu og smitvarnir, ásamt spurningum um kyn, aldur, fjölda og aldur barna, atvinnuþátttöku og menntun.
Þátttakendum verður skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn fær Omega Cold lýsi til að taka tvisvar sinnum á dag í fjóra mánuði, eina skeið (5 til 7 ml) í hvort sinn. Hinn hópurinn er viðmiðunarhópur og tekur jurtaolíu á sama hátt í stað lýsisins. Þátttakendur fá ekki upplýsingar um hvorum hópnum þeir tilheyra. Þátttakendur verða ekki beðnir um að breyta neinu öðru í neyslu eða hegðun en að taka olíuna og skrá heilsufarsupplýsingar. Séu þátttakendur vanir að taka hefðbundið lýsi eða önnur fæðubótarefni, eru þeir hvattir til að halda því áfram, auk þess að taka olíuna fyrir rannsóknina.
Meðan á rannsókninni stendur fá þátttakendur vikulega tengil á mjög stuttan spurningarlista til að skrá heilsufarsupplýsingar með tilliti til kvef- og flensueinkenna.
Í lok rannsóknarinnar fá þátttakendur sendan spurningalista um upplifun sína af notkun olíunnar ásamt nokkrum lokaspurningum (endurtekning frá upphafs-spurningalista). Forritið SurveyMonkey verður notað til að keyra kannanirnar og skrá gögnin.
Þeir þátttakendur sem ljúka rannsókninni fá 15.000 kr. gjafabréf sem þakklætisvott.
Vísindasiðanefnd hefur veitt leyfi fyrir rannsókninni. Hvorki nöfn þátttakenda né aðrar persónugreinanlegar upplýsingar munu koma fram í túlkun niðurstaðna, skýrslum, greinum eða öðru efni sem fjallar um rannsóknina. Vinnsla gagna verður í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.