Eitt megin markmið Redvile var að þróa nýstárleg tæki og aðferðir fyrir kennslu og námsupplifun. Hlutverk Matis í verkefninu var að framkvæma íhlutunarrannsókn með það að markmiði að meta hvort sýndarveruleikamiðað fræðsluefni muni hafa meiri áhrif á nám og viðhorf barna en hefðbundnari leiðir til að kynna efnið.
Íhlutunarrannsóknin fór fram haustið 2021 í samvinnu Matís, Menntavísindasviðs Háskóli Íslands og sex grunnskóla í Reykjavík og Kópavogi.
Íhlutunin fól í sér fyrirlögn á nýju kennsluefni þar sem lögð var áhersla á heilsusamlegt matarræði fyir eigin vellíðan og jarðarinnar. Kennsluefnið innihélt glærupakka, sýndarveruleikamyndband og verklegar æfingar. Íhlutunin gekk undir vinnuheitinu „Tómataverkefnið” þar sem þemað var tómatar. Lögð var áhersla á sjálfbærni, uppruna matvæla, matvælatækni, matvælaframleiðslu, matarsóun ofl. í tengslum við tómata. Kennarar í skólunum lögðu námsefnið fyrir nemendur sína, 12-13 ára, og svöruðu nemendur spurningum sem voru lagðar í upphafi og lok íhlutunarinnar, ásamt því að viðtöl voru tekin við kennarana eftir lok fyrirlagnar. Skólunum var skipt upp í þrjá hópa eftir gerð kennsluefnis: þá sem fengu einungis glærur (1) með kennsluáætluninni, glærur og myndband sýnt á skjá (2) og glærur og myndband sýnt í sýndarveruleikagleraugum (3).
Niðurstöður íhlutunarinnar benda til þess að notkun sýndarveruleika í kennslu geti aukið áhuga á matvælum og stuðlað að breytingum á viðhorfi barna til hollara og heilbrigðara matarræðis. Á heildina litið var ánægja með kennsluefnið meðal kennara, þeir kennarar sem höfðu notað sýndarveruleikagleraugun voru áhugasamastir. Íhlutunin sýndi einnig fram á að hægt er að nota sýndarveruleika sem verkfæri samþætt annarri starfsemi í grunnskólunum.
Jákvæð námsupplifun og aukinn áhugi á hollu mataræði þ.m.t. á að borða tómata, kom fram í öllum tilvikum, óháð gerð kennsluefnis. Einnig voru kennarar ánægðir með kennsluefni sem innihélt svo fjölbreytt úrval hugtaka sem hægt var að sameina í þemanu og hvernig hægt væri að samþætta fræðilegt og hagnýtt nám. Reynsla kennara var sú að hægt væri að fara yfir mikið efni á tiltölulega stuttum tíma.
Hér má sá kynningu Svövu Sigríðar Svavarsdóttur á niðurstöðum verkefnisins.
Kennsluefnið sem var þróað sem hluti af verkefninu er öllum opið og gjaldfrjást. Vinsamlegast getið höfunda við notkun námsefnisins.
Matvæli, sjálfbærni og heilsusamlegt matarræði (kennsluáætlun)
Auðlindir, ræktun, sjálfbærni og nærumhverfisneysla (glærur)
Tómatar: auðlindir, hollusta, ræktun, sjálbærni, nýsköpun, nærumhverfisneysla (VR myndband)