Fréttir

Kælibót – Samanburður ísmiðla – kælihraði og kæligeta

Eitt af þeim verkefnum sem unnið er að á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís kallast Kælibót. Markmið þess er að stuðla að innleiðingu bestu þekkingar og verklags fyrir kælingu og ferlastýringar fyrir fiskafurðir til að tryggja gæðaeiginleika, rekjanleika og öryggi hráefnis og afurða, og stuðla að hagnýtingu þessara upplýsinga fyrir íslenska framleiðendur á mörkuðum sínum.

Vitað er að hröð og örugg kæling sjávarafla viðheldur betur gæðum, lengir geymsluþol og eykur þar með verðmæti sjávarafurða. Á síðastliðnum áratugum hefur aukin athygli beinst að fljótandi og dælanlegum ísmiðlum, sem í daglegu tali eru oftast kallaðir krapa- eða vökvaís. Um er að ræða blöndu vökva (vatns, saltvatns eða sjávar) og ískristalla af kornastærð u.þ.b. 0,005 – 1 mm. Vegna saltinnihaldsins er frostmark krapa- og vökvaíss lægra en 0 °C, sem stuðlar að hraðari kælingu en með hefðbundnum flöguís eins og oft hefur verið sýnt fram á með tilraunum.

Í verkefninu voru gerðar samanburðartilraunir á kælihraða og kæligetu (hversu vel kælimiðillinn viðheldur kælingu) mismunandi tegunda dælanlegra ísmiðla og flöguíss. Þeir mismunandi kælimiðlar, sem voru notaðir í tilraununum, voru eftirtaldir: ómulinn flöguís, mulinn flöguís, vökvaís frá Optimar (“Optim-Ice”), krapaís frá Skaganum (“Flow-Ice”), vökvaís frá Crytec (“Bubble Slurry Ice”) og saltvatn.  Fylgst var nákvæmlega með umhverfishitastigi og því stýrt í tilraununum til að lágmarka möguleg áhrif þess.  Bæði var fylgst með þróun hitastigs í ufsa í kælingu og geymslu auk þess sem sívalningur úr agar næringaræti var kældur í mismunandi ísmiðlum. 

Megin niðurstöður tilraunanna er að hitastig kælimiðilsins skiptir mestu máli fyrir kælihraða. Mikilvægi jafnrar dreifingar kælimiðilsins kom berlega í ljós en kornastærð vökva/krapaíss er ekki jafn mikilvægur eiginleiki.  Miðað við hitastigsmælingar, sem voru gerðar í verkefninu, þá virðist flöguís vera hentugri en fljótandi ís til geymslu á fiski að því gefnu að geymslan sé lengri en u.þ.b. 3 dagar. 

Línurit sem sýnir mismunandi kælihraða (pdf-skjal)

Verkefnið var styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís og AVS.

Skýrslur

Plöntuhráefni í bleikjufóðri í stað fiskimjöls og lýsis

Útgefið:

01/05/2008

Höfundar:

Jón Árnason, Ólafur Ingi Sigurgeirsson, Bjarni Jónasson, Helgi Thorarensen, Rannveig Björnsdóttir

Styrkt af:

AVS

Plöntuhráefni í bleikjufóðri í stað fiskimjöls og lýsis

Markmið verkefnisins var að framleiða ódýrt fóður fyrir bleikju svo lækka megi framleiðslukostnað og auka arðsemi í bleikjueldi. Verkefnið gekk út á að prófa mismunandi hráefni (einkum plöntuhráefni) í stað fiskimjöls og lýsis og finna hve mikil hlutdeild þeirra geti verið í fóðrinu. Skilyrði árangurs var að fóðrið væri heilsusamlegt, nýtist fiskinum vel og leiddi til sambærilegs vaxtar og núverandi eldisfóður gefur og að fóðrið hefði ekki neikvæð áhrif á gæði afurðarinnar, m.t.t. efnainnihalds (fitusýrusams., litar) og eðliseiginleika (bragð, litur, þéttleiki holds). Mismunandi fóðurgerðir voru prófaðar sem startfóður fyrir bleikjuseiði, sem er ný nálgun, til þess að fá yfirlit yfir mögulegt magn mismunandi hráefna. Áhugaverðustu fóðurgerðirnar úr þeim tilraunum voru síðan prófaðar í tilraunum á stærri bleikju til þess að staðfesta árangur og til þess að skoða áhrif á gæði afurðanna. Niðurstöður tilraunanna með mismunandi próteinhráefni staðfestu að hágæða fiskimjöl (Superior) er mjög góður próteingjafi í fóður fyrir bleikju. Möguleikar bleikju á að nýta sojamjöl virðast takmarkaðir líkt og hjá laxi, þ.e. ≤ 15% innblöndun í fóðrið. Möguleg notkun maisglútenmjöls virðist vera ≤ 18% í startfóðrun en ekki tókst að prófa það á stærri fiski. Viðbrögð bleikju við repjumjöli sem próteingjafa voru hins vegar jákvæð og í raun betri en búist var við miðað við það að ekki hefur farið gott orð af þessu hráefni í fóðri fyrir aðra laxfiska. Varðandi fitugjafa í bleikjufóður sýna niðurstöður verkefnisins að hægt er að nota mismunandi fitugjafa með ásættanlegum árangri. Smáseiði virðast hins vegar gera nokkru strangari kröfur til fitugjafa en stærri fiskur. Sérstaklega kemur þetta fram í áhrifum á vaxtarhraða. Niðurstöður tilraunanna með fitugjafa sýna einnig að samsetning fitugjafans hefur afgerandi áhrif á fitusamsetningu fisksins svo og ýmsa skynmatsþætti í afurðinni. Meginniðurstaðan er þó að hægt er, innan vissra marka, að nota mismunandi fitugjafa í bleikjufóður. Einkum er áhugavert að hægt virðist vera að nota pálmaolíu í verulegum mæli.

The objective of the project was to produce economical feed for Arctic charr to decrease production cost and increase profitability in Arctic charr farming. The project investigated the possibilities of replacing fishmeal and fish oil with raw materials of plant origin, and to find out the limits for their use as feed ingredients. The criteria was that the feed should ensure maximum health, optimize utilization of feed and growth should be comparable to growth obtained by feed currently used. Neither should the feed have adverse effects on product quality, especially regarding fatty acids composition and physical properties (taste, flesh-colour, texture). Effect of different raw materials was screened in start feeding trails using Arctic charr larvae. The most interesting raw material combinations were thereafter tested in trials with bigger fish in order to confirm the results of the start feeding trials and investigate the effect of the combinations on slaughter quality of the Arctic charr. The results of the trials with different protein raw materials confirmed that high quality fishmeal (Superior) is a very good protein source for Arctic charr. Arctic charr seems to have limited ability to utilize soybean meal and the inclusion should be limited to ≤ 15% in the diet, similar to the limits that are common for Atlantic salmon diets. The limits for use of Corn gluten meal in starter diets seem to be ≤ 18% but this raw material was not tested in bigger fish. The response of Arctic charr to the use of rapeseed meal as protein source was positive and even as high inclusion as 30% in the diet did not have negative effect on growth. The main findings of the project regarding use of lipid sources is that it is possible to use different sources with reasonable effect in feed for Arctic charr. Of particular interest is the effect of palm oil. Arctic charr larvae seem to be more demanding, regarding use of lipid sources, than bigger fish. The results clearly demonstrate the effect of fatty acid (FA) composition of the lipid sources on the FA composition of the fish and it is possible to change the FA profile with different lipid sources. Different lipid sources also have marked effects on different sensory traits in the farmed Arctic charr.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Fiskprótein sem fæðubótarefni

Útgefið:

01/05/2008

Höfundar:

Guðjón Þorkelsson, Margrét Geirsdóttir, Ragnar Jóhannsson, Sigurður Hauksson, Sjöfn Sigurgísladóttir, Arnljótur Bjarki Bergsson

Styrkt af:

AVS

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Fiskprótein sem fæðubótarefni

Markaður fyrir fæðubótarefni og heilsuvörur fer vaxandi og slíkar vörur eru nú stærri hluti af næringu fólks en áður. Fæðubótarefni eru matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði. Prótein í fæðubótaefnum og heilsuvörum eru aðallega unnin úr mjólkur- og jurtapróteinum. Næringarsamsetning fiskpróteina er ákjósanleg sem fæðubótarefni en þróun og rannsóknum til að framleiða þau með þeim eiginleikum sem þykja hvað ákjósanlegastir fyrir fæðubótarefni hefur verið ábótavant. Með því að vinna fæðubótarefni úr fiski væri hægt að auka verðmæti hráefnisins. Markmið verkefnisins var að þróa fiskprótein sem nýttust sem fæðubótarefni. Byggt hefur verið upp verkefnanet hjá Matís með áherslu á prótein og próteinafurðir.

The market for nutritional supplements and health beneficial products is increasing as such products play bigger role in people’s nutrition. Nutritional supplements are food products intended as addition to normal diet. Currently proteins in the aforementioned products are mainly processed Soya proteins. Fish proteins contain many promising nutritional qualities, but development and research on producing them with the most favourable attributes have not been completed yet. If it were possible to produce nutritional supplements from fish, the catch value could be increased. The aim of this project was to develop fish proteins that could be used as food supplements. On the base of the project a network of various projects with emphasis on protein and protein products of fish origin has been established at Matís.

Skoða skýrslu

Fréttir

Nýr búnaður til neðansjávarmyndatöku hjá Matís á Ísafirði

Unnið hefur verið að því að bæta tækjabúnað hjá Matís á Ísafirði. Á Vestfjörðum er mikil áhersla lögð á fiskeldi, einkum þorskeldi í sjó og þar stundar Matís öflugt rannsóknar- og þróunarstaf í góðu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.

Matís stefnir að því að verða leiðandi á sviði umhverfisrannsókna í tengslum við fiskeldi, enda er nauðsynlegt að fylgjast með álagi á umhverfið af völdum fiskeldis. Nú er verið að taka í notkun búnað hjá Matís á Ísafirði, til að taka kvikmyndir neðansjávar.

Vitað er að eldisfiskur nýtir ekki allt það fóður sem honum er gefið og safnast það þá fyrir á sjávarbotni og getur valdið mengun. Einnig er vitað að þorskur hrygnir í sjókvíunum og því er líklegt að frjóvguð hrogn berist út í umhverfið, þótt ekki hafi ennþá verið sýnt fram á neikvæða blöndun erfðaefnis. Að hindra hrygningu í sjóeldiskvíum væri því mjög mikilvægt skref í þá átt að gera eldi að umhverfisvænum iðnaði með bættri nýtingu fóðurs sem leiðir til þess að minna fóður fellur til botns undir kvíum

Búnaðurinn gerir það kleift að fylgjast nákvæmlega með samspili, atferli fiska og umhverfi í fiskeldistilraunum Matís í Álftafirði. Hægt verður að skoða myndirnar í tölvu úr fjarlægð. Búnaðurinn opnar einnig nýja möguleika svo sem að fylgjast með hliðarbúgreinum eins og kræklingarækt í nágrenni fiskeldiskvíanna.

Búnaðurinn var keyptur í samstarfi við Hafrannsóknastofnun annars vegar og hins vegar Álfsfell ehf sem er fyrirtæki í þorskeldi. Rannís veitti styrk til kaupanna.

Á myndinni má sjá Dr. Þorleif Ágústsson, verkefnastjóra hjá Matís á Ísafirði, með neðansjávarmyndavélina.

Fréttir

Ráðstefnan Matur, öryggi og heilsa: Erindin komin á vefinn

Eins og sagt var frá hér í síðustu viku héldu Matís og Matvælastofnun (MAST) sameiginlega á Hótel Hilton Nordica þ. 16. apríl.
Margir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir og nú eru glærurnar frá þeim öllum aðgengilegar hér á vef Matís.

DAGSKRÁ:

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís. – Ávarp

Jón Gíslason, forstjóri MAST. – Ávarp

Alisdair Wotherspoon, Food Standards Agency (FSA), UK. Food Safety – Global trade and new challanges in Food Safety.

Franklín Georgsson, Matís. Matarsjúkdómar á Íslandi – þróun á Íslandi, helstu hættur og samanburður við aðrar þjóðir.


Jón Gíslason, MAST. Innleiðing á heildarlöggjöf EU á sviði matvæla – þýðing fyrir Ísland og matvælaöryggi.

Rúnar Gíslason, Kokkarnir ehf. – Stóreldhús – öryggi við matreiðslu og þjónustu í stórveislum.

Friðrik Valur Karlsson, Friðrik V. – Uppruni hráefnis á veitingastöðum.

Guðmundur Heiðar Gunnarsson, Matís. – Staðbundin matvælaframleiðsla – tækifæri og ógnir.

Reynir Eiríksson, Norðlenska. – Mikilvægi rekjanleika fyrir öryggi matvæla.

Davíð Gíslason, ofnæmislæknir. – Fæðuofnæmi og fæðuóþol.

Helga Gunnlaugsdóttir, Matís. – Íslenskt umhverfi og aðskotaefni.

Fréttir

Ísafjörður – Málþing um matartengda ferðaþjónustu

Laugardaginn 19. apríl var haldið á Ísafirði málþing um matartengda ferðaþjónustu. Markmiðið með málþinginu var að ræða leiðir til að þróa matarferðamennsku á Vestfjörðum sem skilar sér í auknum fjölda ferðamanna til svæðisins og notkun á staðbundnu hráefni.

Einnig var markmið málþingsins að ná saman áhugafólki um þetta málefni úr fjórðungnum og fá það til að hefja samvinnu. Jón Gunnar Schram hjá Matís á Ísafirði átti frumkvæðið að málþinginu en auk hans vann Ásgerður Þorleifsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða að undirbúningi, ásamt Jónu Símoníu Bjarnadóttur, Heimi Hanssyni og Finnboga Bernódussyni í undirbúningsnefndinni.

Þátttakendur komu víða að af Vestfjörðum. Flutt voru fróðleg erindi um reynsluna frá öðrum landshlutum og um stöðuna á Vestfjörum. Starfsmenn Matís fluttu þrjú erindi: Þóra Valsdóttir fjallaði um þróun vara úr staðbundnu hráefni og matarhönnun og Ólafur Reykdal gerði grein fyrir efnainnihaldi og sérstöðu vestfirsks matar.

Þingið var haldið í Edinborgarhúsinu, sem er stærsta timburhús landsins, en það hefur verið gert upp á skemmtilegan hátt.

Á myndinni er Soffía Gústafsdóttir sem hélt erindi um Vestfirskar sælkeraslóðir.

Fréttir

Fjölsótt ráðstefna Matís og Matvælastofnunar

Fjölmenni var á ráðstefnunni Matur, öryggi og heilsa, sameiginlegri ráðstefnu Matís og Matvælastofnunar (MAST), sem fram fór á Hótel Hilton Nordica í dag, 16. apríl. Talið er að hátt í 200 hafi verið á ráðstefnunni þegar mest var.

Svo margir sóttu ráðstefnuna að margir urðu að standa fram að kaffipásu, en þá var hægt bæta við sætum. Margir góðir fyrirlesarar fluttu erindi á ráðstefnunni, og verður vonandi hægt að skoða glærur frá þeim hér á næstunni. Á meðan verður látið nægja að birta nokkrar myndir af ráðstefnugestum. 

Vorfundur Matís og MAST 16.. apríl 2008
Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís
Jón Gíslason, forstjóri MAST
Vorfundur Matís og MAST 16. apríl 2008
Margir þurftu að standa á fundinum

Fréttir

Fiskprótein gegn offitu?

Mjólkur- og sojaprótein hafa lengi verið notuð með góðum árangri í matvælaiðnaði. Vaxandi markaður er fyrir prótein, og veltir hann milljörðum Bandaríkjadala árlega á heimsvísu. Algengustu prótein sem notuð eru í matvælaiðnaði eru bæði unnin úr dýra- og jurtaríkinu. Lengi hefur verið vitað að í fiski er að finna gæðaprótein, en af ýmsum ástæðum hefur reynst erfiðara að nýta þau sem íblöndunarefni í matvæli heldur en fyrrgreindu próteinin. Nýjar rannsóknir Matís kunna e.t.v. að breyta því.

Sojaprótein eru algengastu jurtapróteinin í dag og mysuprótein algengustu dýrapróteinin. Kasein, gelatín og þurrkaðar eggjahvítur koma þar á eftir. Þrátt fyrir vísbendingar um ýmsa ágæta vinnslueiginleika fiskpróteina þá eru aðferðir við einangrun og hreinsun skemmra á veg komnar en fyrir jurta- og mjólkurprótein. Fiskpróteinin geta því ekki enn keppt við fyrrgreindu próteinin sem hjálparefni í tilbúin matvæli.

Rannsóknir Matís
Ný tækni, sem Matís hefur þróað, hefur gert það mögulegt að einangra og hreinsa fiskprótein úr afskurði sem fellur til við hefðbundna flakavinnslu. Próteinin er síðan hægt að nota til að bæta nýtingu í flakavinnslu og einnig í tilbúnar vörur eins og fiskibollur og djúpsteiktan fisk. Vaxandi markaður er einnig fyrir vörur sem unnar eru með ensímum, örsíun og annari tækni. Þessi markaður byggir á ýmsum heilsusamlegum eiginleikum fiskpróteinanna og afurða unnum úr þeim.

Árið 2005 stofnaði Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) fyrirtækið Iceprótein ehf til að framleiða og selja vörur úr fiskpróteinum til notkunar bæði í hefðbundna fiskvinnslu og í heilsuvörur. Verkefnið ‘Markaðir fyrir fiskprótein’  sem hófst það ár var samstarfsverkefni Rf (nú Matís) og Iceprótein ehf.  Það gekk út á að kortleggja markaði og kanna vörur með fiskpróteinum og efnum unnum úr þeim til að leggja grunn að stefnu, uppbyggingu og markaðstengslum fyrirtækisins. 

Nýlega kom út lokaskýrsla Matís í verkefninu (Skýrsla Matís 07-08), en hún hefst á almennri úttekt á próteinum á matvælamarkaði, þ.e. mismunandi gerðum próteina og markaðshlutdeild þeirra. Síðan er gerð grein fyrir helstu vörum með fiskpróteinum, þ.e. fiskmjöli, fiskpróteinþykkni, surimi, isolati, fiskmeltu, fisksósu, bragðefnum, gelatíni, fæðubótarefnum og heilsutengdum eiginleikum þeirra.

Skýrsluhöfundar segja að þrátt fyrir vísbendingar um ýmsa ágæta vinnslueiginleika fiskpróteina þá séu aðferðir við einangrun og hreinsun skemmra á veg komnar en fyrir jurta- og mjólkurprótein.  Fiskpróteinin geta því ekki ennþá keppt við þau sem hjálparefni í tilbúin matvæli.

Fiskprótein gegn offitu?
Hins vegar eru góðar líkur á að þróa megi fleiri fæðubótarefni úr vatnsrofnum fiskpróteinum (VFP), t.d. til að draga úr blóðþrýstingi eða til að auka varnir líkamans gegn álagi. Talið er að jafnvel megi nota ákveðnar próteinvörur til að stýra matarlyst í baráttunni gegn offitu.  Auk þessa þá eru vörur á markaðnum til að lækka blóðsykurstuðull (e. glycemic index).

Markaður fyrir slíkar vörur úr fiskpróteinum er ekki stór en mun væntanlega vaxa á næstu árum, auk þess sem tækifæri felast í að nota hefðbundnar framleiðsluaðferðir, s.s. gerjun, til að auka lífvirknieiginleika VFP og nota þau í vörur sem neytendur þekkja nú þegar.  Þannig eru miklar líkur á að saltlitlar fisksósur og fiskbragðefni með sérhannaða lífvirka eiginleika verði á boðstólunum í framtíðinni.  Þetta byggist þó að hluta á því að heilsufullyrðingarnar fáist viðurkenndar. Til þess þarf viðamiklar og kostnaðarsamar rannsóknir sem bæði opinberir aðilar og fyrirtæki þurfa að fjármagna.

Fréttir

Ráðstefnan Matur, öryggi og heilsa 16. apríl

Matur, öryggi og heilsa, er yfirskrift sameiginlegrar ráðstefnu á vegum Matís og Matvælastofnunar (MAST), sem fram fer á Hótel Hilton Nordica þann 16. apríl n.k. Á ráðstefnunni, sem mun standa frá 12:30 til 16:30, verður m.a. leitast við að svara spurningum á borð við hvers vegna rekjanleiki matvæla verður sífellt mikilvægari, hvað felst í staðbundinni matvælaframleiðslu, hverjar eru helstu hætturnar tengdar matarsjúkdómum og hvað ný matvælalöggjöf Evrópusambandsins þýðir fyrir Ísland.

DAGSKRÁ:

13:00 Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur ráðstefnuna

13:15 Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís. – Ávarp

13:25 Jón Gíslason, forstjóri MAST. – Ávarp

Fyrri hluti:

13:35 Alisdair Wotherspoon, Food Standards Agency (FSA), UK. Food Safety – Global trade and new challanges in Food Safety.

14:05 Franklín Georgsson, Matís. Matarsjúkdómar á Íslandi – þróun á Íslandi, helstu hættur og samanburður við aðrar þjóðir.

14:20 Jón Gíslason, MAST. Innleiðing á heildarlöggjöf EU á sviði matvæla – þýðing fyrir Ísland og matvælaöryggi.

14:35 Hlé – kynning á básum.

Seinni hluti:

15:05 Rúnar Gíslason, Kokkarnir ehf. – Stóreldhús – öryggi við matreiðslu og þjónustu í stórveislum.

15:20 Friðrik Valur Karlsson, Friðrik V. – Uppruni hráefnis á veitingastöðum.

15:35 Guðmundur Heiðar Gunnarsson, Matís. – Staðbundin matvælaframleiðsla – tækifæri og ógnir.

15:50 Reynir Eiríksson, Norðlenska. – Mikilvægi rekjanleika fyrir öryggi matvæla.

16:05 Davíð Gíslason, ofnæmislæknir. – Fæðuofnæmi og fæðuóþol.

16:20 Helga Gunnlaugsdóttir, Matís. – Íslenskt umhverfi og aðskotaefni.

16:35 Samantekt og ráðstefnuslit.

16:45 Móttaka og kynning í básum:

  • Bás 1 Matfugl ehf. Kynning – gæðastýring við kjúklingaframleiðslu sérstaklega er varðar öryggi framleiðslunnar. Kynning á kjúklingaréttum.
  • Bás 2 MS. Kynning – innri eftirlitskerfi í mjólkuriðnaði og öryggi mjólkurvara. Kynning á framleiðsluvörum.
  • Bás 3 Sölufélag garðyrkjumanna. Kynning – gæða- og öryggiskröfur sem gerðar eru til grænmetis.
  • Bás 4 Matís. Hraðvirkar mælingar hjá Matís
  • Bás 5 Matís. Þjónustu- og öryggismælingar Matís
  • Bás 6 Matvælastofnun. Almenn kynning á starfsemi MAST

Fréttir

Matísskýrsla um nýtingu kolmunna í markfæði

1.4.2008

Komin er út skýrsla Matís sem hefur að geyma niðurstöður úr verkefninu Kolmunni sem markfæði sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (nú Matís) vann að í samstarfi við Háskóla Íslands og Flórídaháskóla. Í verkefninu, sem var styrkt af Rannís, var rannsakað hvort vinna megi gæðaprótein úr fiski, sem nýta má á sama hátt í matvælaiðnaði og mjólkur- og sojaprótein.

Mjólkur- og sojaprótein hafa víðtæka notkunarmöguleika í matvælaiðnaði og hafa lengi verið notuð með góðum árangri. Vitað er að í fiski er að finna gæðaprótein og því forvitnilegt að rannsaka hvort fiskprótein búi yfir sambærilegum eiginleikum og áðurnefnd prótein. Í verkefninu var athyglinni beint að vinnslu próteina úr kolmunna, sem hingað til hefur einkum verið bræddur í fiskimjöl. Tilgangurinn er að margfalda verðmæti hinna vannýttu afurða.

Markmið verkefnisins var að svara rannsóknaspurningunni: Hvaða lífvirkni er hægt að fá fram hjá peptíðum unnum úr kolmunna með ensímum? Lífvirkni er forsenda þess að unnt sé að nota kolmunna sem markfæði. Sem hráefni voru notuð einangruð kolmunnaprótein. Rannsóknin sýndi að niðurbrotin kolmunnaprótein hafa lífvirkni. Hins vegar reyndust skynmatseiginleikar afurða ekki nægjanlega góðir og heimtur lágar. Var það sérstaklega sökum þess hversu erfiðlega gekk að afla fersks kolmunna sem hráefnis.

Margrétar Geirsdóttir, sérfræðingur á Líftæknisviði Matís, og annar höfundur skýrslunnar segir að í verkefninu hafi verið aflað mikillar þekkingar á sviði ensímniðurbrots og lífvirknieiginleika próteinafurða og að sú þekking muni nýtast íslenskum iðnaði og vísindamönnum við framtíðarrannsóknir á sviði próteina, ensíma og lífvirkni og þar með auka verðmæti íslenskra afurða. Hún bendir m.a. á að um alþjóðlegt nýnæmi sé að ræða þ.e. að í verkefninu hafi samspil vatnsrofs með ensímum og vinnslueiginleikar og lífvirkni verið kannað og samspil vatnsrofs fiskpróteina einangruð með nýrri aðferð og lífvirkni þeirra könnuð. Þetta, hafi ekki verið gert áður, og því sé hér um nýmæli að ræða, að sögn Margrétar.

Skýrsla Matís Kolmunni sem markfæði

IS