Fréttir

Tvær greinar frá Matís birtar í vísindaritum

Nýlega birtust tvær greinar eftir starfsfólk Matís í virtum erlendum vísindaritum. Annars vegar er um að ræða grein um undirkælingu á bleikju og hins vegar grein um geymsluþol og stöðugleika fiskdufts.

Í grein sem birtist í 3.tbl vísindaritsins International Journal of Food Engineering 2007, er fjallað um geymsluþol bleikju sem geymd er við mismunandi aðstæður og áhersla lögð á ofukælingu. Greinin ber titilinn Effects of Dry Ice and Superchilling on Quality and Shelf Life of Arctic Charr (Salvelinus alpinus) Fillets. Aðalhöfundur greinarinnar er Huynh Nguyen Duy Bao frá Vietnam, en meðhöfundar eru þau Sigurjón Arason og Kristín Anna Þórarinsdóttir frá Matís.

Girnilegir bleikjubitar

Bao var nemandi við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sþ veturinn 2004-5 og vann þá einmitt að verkefni um þetta viðfangsefni undir handleiðslu Sigurjóns og Kristínar Önnu. Að sögn Sigurjóns hafa rannsóknir á áhrifum undirkælingar hér á landi einkum beinst að sjávarfiskum s.s. þorski, en bleikja varð fyrir valinu í fyrrgreindu verkefni Bao þar sem sá fiskur líkist meira fisktegundum sem veiðast í Vietnam.  Lesa grein

Önnur grein, sem birtist nýlega birtist í tímaritinu Journal of Aquatic Food Product Technology, fjallar um rannsóknir sem gerðar voru á geymsluþoli og stöðugleika próteinríks fiskdufts sem unnið var úr ufsa og ætlað er til manneldis.  Greinin ber titilinn “Stability of Fish Powder Made from Saithe (Pollachius virens) as Measured by Lipid Oxidation and Functional Properties,” og er aðalhöfundur hennar Margrét Bragadóttir, sem lengi starfaði hjá Rf, en aðrir höfundar eru Eyjólfur Reynisson, Sigurjón Arason og Kristín Anna Þórarinsdóttir, sem öll starfa hjá Matís.  Lesa grein 

Eins og margir vita framleiða Íslendingar mikið af fiskmjöli, einkum úr uppsjávarfisktegundum eins og loðnu, kolmunna og síld, en einnig er talsvert framleitt úr aukahráefni sem til fellur í fiskvinnslu, s.s. afskurði og hryggjum.  Fiskmjöl hefur hingað til einkum verið nýtt í dýrafóður, en lengi hefur verið áhugi á að kanna hvort og hvernig mætti nýta stærri hluta þessa hráefnis til manneldis, enda er það hráefni sem kallað er aukahráefni auðugt af próteinum og fitu. 

Í þessu sambandi má nefna að dótturfyrirtæki Matís, Iceprótein ehf, sem starfrækt er á Sauðárkróki, rannsakar nú hvernig hægt er að nýta aukahráefni úr þorski til að framleiða hágæðaprótein.

Fréttir

Meira bragð: Lömb alin upp á hvönn

Hafnar eru tilraunir á því að ala íslensk lömb upp á hvönn. Markmiðið er að kanna hversu mikil bragðgæði felast í því að ala lömb upp á bragðsterkum gróðri í stað hefðbundinnar sumarbeitar. Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hyggst rannsaka hvaða áhrif hvannabeit hefur á bragð lambakjötsins.

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau hyggjast ala ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi með býr yfir hvönn. Til samanburðar verður öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð. Ef verkefnið skilar jákvæðum niðurstöðum er stefnt að því að hefja sölu á lambakjöti sem byggir á slíkri sérstöðu.

Kindur.

Hvönn talin góð kryddjurt

Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.

Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að lömb sem eru alin upp við ólíkar aðstæður fyrir slátrun gefa mismunandi bragð. Þá er það þekkt erlendis frá að hægt sé að ala lömb fyrir slátrun upp við mismunandi aðstæður og skapa þar með ákveðna sérstöðu með sölu og markaðssetningu á kjöti.

Hvönn.

Matís rannsakar bragð kjötsins

Hjá Matís verður skoðað hvaða áhrif hvannabeit hefur á bragð kjötsins. Athugað verður hvort hægt sé að greina mun á bragði og áferð kjötsins eftir beit/fóðri. Sé um merkjanlegan mun að ræða verða allir þættir skynmats skoðaðir, svo sem bragð, lykt, útlit og og áferð. Þá kemur í ljós í hverju munurinn er fólginn, eins og til dæmis hvort um aukabragð sé að ræða. Hjá Matís er sérhönnuð aðstaða fyrir skynmat samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þá býr Matís yfir skynmatshóp sem er sérstaklega þjálfaður fyrir mismunandi skynmatspróf.

Lambaskrokkar.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Búnaðarsamtök Vesturlands.

Frétt Bændablaðsins um hvannalömbin.

Fréttir

Leitað að óþekktum bakteríum í Skaftárkötlum

Matís tekur þátt í rannsóknum á lífríki lónsins í Skaftárkötlum og hefur umsjón með sýnatöku á örveruflóru þess. Vonir standa til að hægt verði að finna óþekktar tegundir örvera (bakteríur) sem hægt er að rannsaka frekar og nota í líftækni. Íshellan yfir lóninu er um 300 metra þykk og lónið um 100 metra djúpt og þarf sérstakan bræðslubor til þess að komast í gegnum íshelluna.

Síðastliðin tvö sumur hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir í Skaftárkötlum á Vatnajökli. Um er að ræða samstarfsverkefni nokkurra innlendra og erlendra fyrirtækja og stofnana, þar á meðal Matís, Orkustofnunar, Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar HÍ, University of Hawaii og Montana State Univeristy, þar sem Þorsteinn Þorsteinsson hjá Orkustofnun hefur haft yfirumsjón með skipulagningu verkefnisins.

Á síðasta ári voru gerðar mælingar og borað í niður í vestari Skaftárketilinn og mikilvæg reynsla þeirrar ferðar nýtt í ár við borun í eystri katlinum. Rannsóknaleiðangurinn var farinn dagana 1. – 9 júní og mælingar gerðar á eystri Skaftárkatlinum og tók Árni Rafn Rúnarsson starfsmaður örverurannsókna Matís þátt í leiðangrinum og hafði umsjón með sýnatöku til rannsókna á örveruflóru lónsins. Leiðangurinn heppnaðist með eindæmum vel þar sem endurbættur bræðslubor Vatnamælinga (OS) var notaður og borað niður í ketilinn á tveimur stöðum, með góðum árangri.

300 metra þykk íshella

Íshellan reyndist vera um 300 metra þykk og lónið í katlinum undir íshellunni mældist um 100 metra djúpt. Að auki var nýr sýnataki notaður og sýni tekin á mismunandi dýpi úr katlinum fyrir örveru- og efnamælingar. Þar sem lónið er undir íshellu jökulsins er um er að ræða einstakar aðstæður þar sem slíkt vatn undir jökli er afar sjaldgæft og þar að finna mjög einangrað og vel varðveitt vistkerfi.

Ætlunin er að nýta að mestu sameindalíffræðilegar aðferðir til greiningar á örveruflóru ketilsins og má jafnvel vænta þess að finna þar áður óþekktar tegundir örvera sem hægt verður að rannsaka frekar og nota í líftækni.

Hvað eru örverur. Sjá nánar á Vísindavef Háskóla Íslands.

Skaftark07_040ThorsteinnBorar
Skaftark07_023BoradIByl
Skaftark07_069ArniOgAndriSotthreinsaSynataka
syni_ur_synatakal_123

Fréttir

ÍSGEM: efnainnihald í 900 fæðutegundum

Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hefur opnað gagnagrunn um efnainnihald matvæla. Grunnurinn, sem ber nafnið ÍSGEM, inniheldur upplýsingar um efni í um 900 fæðutegundir hér á landi.

Meðal annars er hægt að fá upplýsingar, um prótein, fitu, kolvetni, vatn, orku, vítamín, steinefni og ósækileg efni eins og kvikasilfur, blý, kadmín og arsen.

Salat2

Hægt er að skoða ÍSGEM gagangrunninn hér.

Fréttir

Harðfiskur er enn heilsusamlegri en talið var

Harðfiskur er afar heilsusamleg fæða, létt, næringarrík og rík af próteinum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Matís á harðfiski sem heilsufæði. Þar kemur í ljós að harðfiskur er ríkulegur próteingjafi með 80-85% próteininnihald.

Þá er harðfiskur ávallt unnin úr nýju og fersku hráefni og er nær eingöngu veiddur á línu og því tryggt að hann verði fyrir sem minnstu hnjaski á leið til lands. Slík veiðiaðferð uppfyllir bestu skilyrði um vistvænar veiðar.

Harðfiskur, sem er unnin úr steinbít, ýsu, þorski, kolmuna og lúðu, var lengi vel einn helsti matur Íslendinga. Þurrkunin varðveitti næringarefni vel og gerði það að verkum að hægt var að geyma hann og hafa á boðstólum allt árið um kring þegar matarframboð sveiflaðist eftir ársíma. Á seinni tímum hefur verið hefð fyrir því að borða harðfisk á þorranum. Þá hefur hans verið neytt sem nasls í heimahúsum og sem nesti í sumarfríum. Heildarframleiðsla og sala hefur verið um 200-250 tonn á ári.

IMG_3327

Sífellt hefur komið betur í ljós að fiskprótein skipta verulegu máli hvað hollustuáhrif varðar. Sem dæmi má nefna að fersk ýsa er með 17-19% próteininnihald en harðfiskur úr ýsu er með 75-80% próteininnihald. Gert er ráð fyrir því að fullorðinn heilbrigður einstaklingur þurfi 0,75 g af próteinum á hvert kg líkamans. Því þarf karlmaður sem er 70 kg að fá 53 g af próteinum á dag. Til að fá þetta magn úr harðfiski þarf hann að borða rúmlega 66 g. Kona sem er 55 kg þarf 41 g af próteinum á dag, eða 51 g af harðfiski.

Harðfiskur hentar þess vegna vel fyrir þá sem sækjast eftir að fá viðbótarprótein úr fæðu sinni, svo sem fyrir fólk sem stundar fjallgöngu eða íþróttir og heilsurækt. Ennfremur hefur komið í ljós að saltinnihald er nokkuð hærra í harðfiski sem er inniþurrkaður en fisks sem er útiþurrkaður. Hins vegar er hægt að stjórna saltinnihaldi í vörunni og því auðvelt að stilla slíkri notkun í hóf. Snefilefni (frumefni) eru vel innan við ráðlagðan dagskammt, nema selen. Magn selen í 100 g er á við þrefaldan ráðlagðan dagskammt en ekki talið skaðlegt á nokkurn hátt.

Því sýnir rannsókn Matís fram á að harðfiskur uppfyllir öll skilyrði sem góður próteingjafi.

Hægt er að skoða efnainnihald harðfisks í ÍSGEM (íslenskur gagnagrunnur um efnainnihald matvæla) hér.

Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóður í sjávarútvegi.

Skýrsla Matís um harðfisk (Niðurstöður rannsóknar).

Fréttir

Könnun um heilsufullyrðingar: Skilafrestur framlengdur

Íslendingar taka þátt í umfangsmikilli samnorrænni könnun á viðhorfum fólks í Evrópu til heilsufullyrðinga á matvælum. Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar í tengslum við nýja reglugerð um heilsufullyrðingar í matvælum sem nú er að taka gildi innan Evrópusambandsins. Matís (Matvælarannsóknir Íslands) annars framkvæmd könnunarinnar hér á landi.

Könnunin, sem er rafræn og er styrkt af svonefndum NICe sjóð, nær til um 2.500 manns hér á landi. Ákveðið hefur verið að framlengja frest sem fólk hefur til þess að skila svörum fram til miðjan júlí vegna álags sem hefur orðið vegna mikils áhuga fólks í Evrópu á þátttöku í könnuninni um Netið.

Færst hefur í vöxt að matvæli sé merkt með svonefndum heilsufullyrðingum. Það geta verið fullyrðingar um næringarinnihaldi matvæla, t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt og um áhrif neyslu einstakra matvæla á heilsu neytenda. Markmiðið með könnuninni er að kanna hug fólks til heilsufullyrðinga og hvernig það skilur mismunandi heilsufullyrðingar á matvælum.

Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar í öllum löndunum, sem og matvælafyrirtækjum, neytendasamtökum og yfirvöldum. Ekki er ljóst hvenær könnunin tekur gildi á Íslandi en ennþá er verið að safna saman fullyrðingum sem fara á svonefndan á jákvæðan lista reglugerðarinnar þ.e. lista yfir leyfilegar fullyrðingar.

Skýrslur

Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks. Áhrif mismunandi söltunaraðferða á verkun þorskflaka

Útgefið:

01/07/2007

Höfundar:

María Guðjónsdóttir, Þóra Valsdóttir, Ása Þorkelsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Hannes Magnússon, Sigurjón Arason, Kristín A. Þórarinsdóttir

Styrkt af:

AVS, Tækniþróunarsjóður Rannís

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks. Áhrif mismunandi söltunaraðferða á verkun þorskflaka

Gerður var samanburður á áhrifum mismunandi söltunaraðferða á nýtingu, gæði og aðra eiginleika saltaðra þorskflaka. Einn hópur var eingöngu stæðusaltaður en aðrir hópar voru forsaltaðir á mismunandi hátt, þ.e. með pækilsöltun, sprautun og/eða pæklun. Sprautaður fiskur var með hærri nýtingu og kom betur út í gæðamati en ósprautaður fiskur. Hins vegar bentu niðurstöður til þess að verkunarlykt og -bragð væru meiri í ósprautuðum fiski. Kannað var hver áhrif af notkun fosfats og sprautunar á þurrkeiginleika væru vegna hærra vatns- og saltmagns í afurðum. Í ljós kom að sprautaður fiskur léttist minna við þurrkun. Af fyrrgreindum ástæðum reyndist því vatnsinnihald hærra eftir þurrkun heldur en í ósprautuðum fiski. Misjafnt var í hvaða flokk þurrkaðra afurða flökin féllu eftir því hvort miðað var við efnainnihald eftir þurrkun eða þyngdartap við þurrkun. Því þarf að endurskoða viðmið út frá nýjum söltunarferlum og aðlaga þurrkferla að breyttum eiginleikum saltaðra afurða.

The effects of different salting processes on yield, quality and other characteristics of salted and cured products were evaluated. Various combinations of salting steps were tested, one group was only dry salted but other groups were first pickle salted, brine injected and/or brine salted. The injected products had higher yield and higher quality than other products. The results indicated that the curing-odour and flavor were stronger in products that were not injected. The water and salt content was higher in injected fillets which is important with regard to continuing processes, like drying and rehydration. Measurements during and after drying showed that injection resulted in lower drying rate and higher water content of the fillets. Dried products have been rated in different classes with regard to water content and weight changes during drying. Due to changes in the salting process and drying properties of the salted fish, these reference values have to be reconsidered.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks. Áhrif kælingar eftir veiði á nýtingu og gæði (2)

Útgefið:

01/07/2007

Höfundar:

Þóra Valsdóttir, Karl Rúnar Róbertsson, Egill Þorbergsson, Sigurjón Arason, Kristín Anna Þórarinsdóttir

Styrkt af:

AVS, Tækniþróunarsjóður Rannís

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks. Áhrif kælingar eftir veiði á nýtingu og gæði (2)

Tilgangur tilraunarinnar var að rannsaka áhrif mismunandi kæliaðferða um borð í veiðiskipi á gæði og nýtingu saltfisks m.t.t. þess hvort fiskur var flakaður eða flattur fyrir verkun. Mismunandi reynsla hefur verið af notkun vökvaís, en kenningar hafa verið um að neikvæð áhrif á gæði og nýting. Notkun vökvaís í lest kom síst verr út hvað gæði og nýtingu varðar samanborið við flöguís, hvort sem um var að ræða verkuð flök eða flattan fisk. Los var meira áberandi í flökum en í flöttum fiski en ekki var hægt að tengja það kæliaðferðum um borð.

The aim of the trial was to investigate the effects of different cooling methods onboard a fishing vessel on curing characteristics during heavy salting of cod. The fish was either splitted or filleted before salting. It has been claimed the use of liquid ice for cooling of raw material, may lead to lower yield and quality of the products. The results showed that products from fish stored in liquid ice from catch to processing were similar or better than from fish stored in flake ice. Gaping appeared to be more related to fillets than splitted fish, but this factor could not be linked to chilling methods used onboard.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks. Áhrif mismunandi söltunaraðferða við verkun á flöttum fiski

Útgefið:

01/07/2007

Höfundar:

Kristín Anna Þórarinsdóttir, Þóra Valsdóttir, María Guðjónsdóttir, Sigurjón Arason

Styrkt af:

AVS, Tækniþróunarsjóður Rannís

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Ferlastýring við veiði, vinnslu og verkun saltfisks. Áhrif mismunandi söltunaraðferða við verkun á flöttum fiski

Flattur þorskur var verkaður eftir mismunandi söltunarferlum í þeim tilgangi að meta áhrif forsöltunar (sprautunar, pæklunar og pækilsöltunar) og samsetningar sprautupækils (salt, fosfat, fiskprótein) á verkunareiginleika. Forsöltun bætti verkunarnýtingu og heildarnýtingu á öllum stigum, eftir verkun, útvötnun og þurrkun. Pæklun var kom betur út en pækilsöltun en mest áhrif hafði sprautun (fylgt eftir með pæklun). Allir hópar voru stæðusaltaðir eftir forsöltun. Afurðir með viðbættum próteinum komu best út í gæðamati, þ.e. hærra hlutfall fór í SPIG I en í öðrum hópum. Áhrif á örveruvöxt og myndun niðurbrotsefna (TVN, TMA, TBA) voru ekki afgerandi. Verkunareinkenni metin með skynmati voru að sama skapi svipuð fyrir alla hópa, óháð söltunaraðferð.

Different pre-salting methods (injection, brine salting, pickle salting) were used as the initial step in heavy salting of cod. The effects of brine composition (salt, phosphate, fish proteins) were evaluated. Pre-salting increased yield and quality, brine salting was more effective than pickle salting, but the best results were obtained by injection (followed by brine salting. Dry salted was used as the main salting step for all groups. Higher ratio of products with added proteins were graded as the best class (SPIG I). Effects on microbial growth or formation of degradation compounds (TVN, TMA, TBA) were not significant. Sensory analysis showed that curing characteristics (taste, odor, appearance, texture) were not affected by the salting procedure.

Skoða skýrslu

Fréttir

Heilsufullyrðingar á matvælum: Skilafrestur framlengdur

Ákveðið hefur verið að framlengja frest til þess að skila svörum í könnun á viðhorfum til heilsufullyrðinga á matvælum til næstu mánaðamóta. Bilun varð í hugbúnaði sem gerði hluta af þátttakendum erfitt um vik að svara spurningunum. Nú er hugbúnaðurinn kominn í lag og því geta þátttakendur skilað inn svörum.

Um er að ræða samnorræna könnun, en markmiðið er að kanna hug neytenda til heilsufullyrðinga og hvernig þeir skilja mismunandi heilsufullyrðingar á matvælum. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar í öllum löndunum, sem og matvælafyrirtækjum, neytendasamtökum og yfirvöldum.

Evrópureglugerð um heilsufullyrðingar í matvælum er í burðarliðnum og verða niðurstöður könnunarinnar nýttar til að hafa áhrif á innihald hennar. Færst hefur í vöxt að matvæli sé merkt með svonefndum heilsufullyrðingum. Það geta verið fullyrðingar um næringarinnihaldi matvæla, t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt og um áhrif neyslu einstakra matvæla á heilsu neytenda.

matur
IS