Skýrslur

Harðfiskur sem heilsufæði

Útgefið:

01/05/2007

Höfundar:

Ásbjörn Jónsson, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Guðjón Þorkelsson, Hannes Magnússon, Ólafur Reykdal

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Harðfiskur sem heilsufæði

Meginmarkmið verkefnisins var að afla grunnupplýsinga um eiginleika íslensks harðfisks og að upplýsingarnar yrðu opnar og þannig öllum harðfiskframleiðendum á Íslandi til hagsbóta. Helsta niðurstaða verkefnisins er sú að harðfiskur er mjög ríkulegur próteingjafi með 80-85% próteininnihald. Amínósýrurnar voru mældar og bornar saman við amínósýrur í eggjum. Harðfiskprótein reyndust vera af miklum gæðum. Þessar niðurstöður styðja við markaðssetningu á harðfiski, bæði sem heilsusamlegum og þjóðlegum mat. Mikilvægt er að skoða saltinnihald í harðfiski betur og reyna að minnka það til að auka hollustu harðfisks, sérstaklega í inni-heitþurrkuðum harðfiski þar sem það reyndist mun hærra en í öðrum harðfiski. Mælingar á snefilefnum leiddu í ljós að magn þeirra í harðfiski er vel innan marka miðað við ráðlagðan dagskammt (RDS) fyrir utan selen. Magn þess í 100 g er á við þrefaldan ráðlagðan dagskammt. Það er þó ekki talið skaðlegt á nokkurn hátt.

The main object of this project was to establish information of the quality of Icelandic dried fish, which could benefit producers in Iceland. The main results showed that dried fish is a very rich source of proteins, containing 80-85% protein. Amino acids were measured and compared with amino acids in eggs. The conclusion was that proteins in the dried fish were of high quality. This supports the marketing of dried fish in the health foods and traditional food markets. However, it is important to analyze better the salt content in dried fish and find ways to reduce it to improve balanced diet in dried fish, especially for indoor produced dried fish, where the salt content is rather high. The trace elements in dried fish were found to be minimal, except for selen, where the content was threefold the recommended daily allowance (RDA). This is not, however, hazardous for people in any way.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Blóðþrýstingslækkandi áhrif (ACE-hindravirkni) í íslensku sjávarfangi – uppsetning mæliaðferða

Útgefið:

01/05/2007

Höfundar:

Lárus Freyr Þórhallsson, Margrét Geirsdóttir, Guðmundur Óli Hreggviðsson, Sigurður Vilhelmsson, Guðjón Þorkelsson

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Blóðþrýstingslækkandi áhrif (ACE-hindravirkni) í íslensku sjávarfangi – uppsetning mæliaðferða

Meginmarkmið verkefnisins var að setja upp mælingar á ACE-hindra virkni á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Matís ohf). Það er ásetningur Matís ohf að nýta þessar mæliaðferðir til að auka verðmæti íslensks sjávarfangs með því að kanna í hvaða afurðum þessi virkni finnst og þar með verði mögulegt að þróa nýjar afurðir og afla nýrra markaða fyrir íslenskt sjávarfang. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskólinn í LaRochelle í Frakklandi og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands unnu saman að þessu verkefni. Ástæðan fyrir verkefninu var að á Rf er unnið að nokkrum verkefnum þar sem stefnan er að kanna svonefnda lífvirkni ( heilsusamleg/heilsubætandi) sjávarafurða. Lífvirkni er forsenda þess að mögulegt sé að markaðssetja vörur sem markfæði (functional food). Háskólinn í LaRochelle hefur sérhæft sig í mælingum á ACE-hindrandi áhrifum peptíða úr alls konar hráefni. Þessar mælingar hafa ekki verið gerðar á Íslandi. Stór hluti verkefnisins var unnin sem lokaverkefni í M.Sc. námi í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Byggir skýrsla þessi að mestu leyti að mastersritgerð Lárusar Freys Þórhallssonar vorið 2007. Sett var upp og þróuð mæliaðferð til að mæla ACE-hindrun sem virkar til ákvörðunar á IC50 gildum samkvæmt gildingu með enalapríl. Einnig gefa niðurstöður til kynna að einhverja ACE-hindrandi virkni er að finna í þorskhýdrólýsati og var mesta virknin í hýdrólýsati sem síað var með 1 kDa síu. Afrakstur verkefnisins er því mæliaðferð sem nýtt verður í fjölmörgum verkefnum um lífvirkni í íslensku sjávarfangi. Verkefnið hefur óbein áhrif á verðmæti íslensks sjávarfangs með því að stuðla að þróun á vörum til notkunar í sérfæði, fæðubótarefni og markfæði.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Einangrun og vinnsla lífvirkra peptíða úr vannýttum tegundum sjávarlífvera – undirbúningur og myndun tengslanets

Útgefið:

01/05/2007

Höfundar:

Sigurður Vilhelmsson, Guðmundur Gunnarsson, Guðjón Þorkelsson

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Einangrun og vinnsla lífvirkra peptíða úr vannýttum tegundum sjávarlífvera – undirbúningur og myndun tengslanets

Í þessu forverkefni var unnið að undirbúningi stofnun miðstöðvar í Vestmannaeyjum sem mun sérhæfa sig í rannsóknum, vinnslu og markaðsetningu afurða unnum úr aukaafurðum fiskvinnslu og vannýttum tegundum. Markmið til langs tíma er að hefja vinnslu á lífvirkum efnum úr sjávarfangi. Til að brúa bilið frá hráefnisöflun yfir í sérhæfða vinnslu á lífvirkum efnum var gert ráð fyrir að miðstöðin byrji á verkefnum sem auka verðmæti aukaafurða. Myndað var tengslanet sem ætlað er að tryggja uppbyggingu á færni og þekkingu varðandi vinnslu á líf- og lyfjavirkum efnaformum. Tengslanetið leiddi saman bæði erlenda og innlenda vísindamenn og hagsmunaaðila. Sendar voru umsóknir um samstarfsverkefni til Nordforsk og NORA-sjóðsins auk umsóknar til AVS-sjóðsins með fyrirtækjum á Íslandi um slógmeltu- vinnslu, virðisauka og vöruþróun. Einnig tókst að koma þessum áherslum inn tillögur að Vaxtarsamningi Suðurlands sem var undirritaður í október 2006. Samstarfið mun halda áfram og stefnt er að því að koma á stórum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum um lífvirkni í sjávarfangi. Þar er sérstaklega horft til 7. rammaáætlunar EB. Eins vinnur hópurinn að því að fara yfir stöðu þekkingar og færni hvers fyrir sig og í framhaldinu er stefnt á birtingu ritrýndar yfirlitsgreinar um lífvirk peptíð í sjávarfangi.

The foundation of a R&D center in Vestmannaeyjar for utilizing marine byproducts by turning them into commercial viable products was prepared. The aim of the center is to establish state of the art of the processing of bioactive compounds from marine by-products and underutilized species. A small Nordic knowledge network to build competence and skills regarding bio processing of bio- and pharmaceutically active compounds was also established. The network now consists of scientists and industry related stakeholders from Norway, Scotland, Finland and Iceland. The network partners have decided to work together on joint international grant applications for R&D projects in marine bioprocessing. The network is currently comparing resources of knowledge and subsequently the aim is to publish a peer reviewed state of the art review of marine bioactive peptides.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Geymsluþolstilraunir á þorskbitum: Áhrif ofurkælingar, pæklunar og gaspökkunar á gæðabreytingar og geymsluþol / Storage trials on cod loins: Effect of superchilling, brining and modified atmosphere packaging (MAP) on quality changes and sensory shelf-life

Útgefið:

01/05/2007

Höfundar:

Hannes Magnússon, Hélène L. Lauzon, Kolbrún Sveinsdóttir, Ása Þorkelsdóttir, Birna Guðbjörnsdóttir, Emilía Martinsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir, María Guðjónsdóttir, Sigurður Bogason, Sigurjón Arason

Styrkt af:

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóður (Rannís)

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Geymsluþolstilraunir á þorskbitum: Áhrif ofurkælingar, pæklunar og gaspökkunar á gæðabreytingar og geymsluþol / Storage trials on cod loins: Effect of superchilling, brining and modified atmosphere packaging (MAP) on quality changes and sensory shelf-life

Markmið þessara tilrauna var að meta áhrif ofurkælingar, lofskiptra umbúða (MAP) og pæklunar á gæðabreytingar og geymsluþol þorskbita. Þá voru könnuð áhrif gaspökkunar og mismunandi geymsluhita á vöxt nokkurra sýkla og bendiörvera. Tilraunin var framkvæmd í október 2006 hjá Samherja á Dalvík. Eftir lageringu (0,6 og 2% salt) var fiskurinn snyrtur og hnakkastykkjum pakkað annars vegar í hefðbundnar 3 kg frauðplastpakkningar (loftpökkun) og hins vegar í loftskiptar umbúðir. Gasblandan var stillt á 50% CO2, 5% O2 og 45% N2. Þrír bitar (350- 550g) voru settir í hvern bakka með þerrimottu. Eftir pökkun var sýnunum komið fyrir í frystihermum Matís sem stilltir voru á 0°C, -2°C og -4°C. Sýnin voru rannsökuð yfir fjögurra vikna geymslutímabil. Skynmat, örverutalningar og efnamælingar voru notaðar til að meta gæðabreytingar og geymsluþol. Pæklaður (2% salt) fiskur geymdist skemur en ópæklaðir (0,6% salt). Samanburður á örverufjölda daginn eftir pökkun sýndi að pæklaði fiskurinn innihélt tífalt meira af kuldaþolnum örverum en ópæklaður. Samkvæmt skynmati var geymsluþol pæklaða fisksins við -2°C 12-15 dagar í bæði loft- og gaspökkuðum bitum. Í ópæklaða fiskinum voru áhrif gaspökkunar og ofurkælingar greinileg. Geymsluþol loftpakkaðra bita var um 11 dagar við 0°C en 14-15 dagar við -2°C. Geymsluþol gaspakkaðra bita var hins vegar um 15 dagar við 0°C en um 21 dagur við -2°C. Ofurkæling ferskra ópæklaðra fiskafurða í loftskiptum umbúðum getur því aukið geymsluþol verulega. Gaspökkun dró verulega úr vaxtarhraða sýkla og bendiörvera við lágt hitastig. Mest voru áhrifin á vöxt Salmonella, þá á Escherichia coli en minnst á Listeria monocytogenes. Við loftskilyrði óx L. monocytogenes við -2°C, en E. coli byrjaði að fjölga sér við 5°C og Salmonella við 10°C.

The aim of these experiments was to evaluate the effect of superchilling, modified atmosphere packaging (MAP) and brining on the quality changes and sensory shelf-life of cod loins. The effect of MAP and different storage temperatures on some pathogenic and indicator bacteria was also tested. These experiments were initiated in October 2006 at Samherji, Dalvík. After brining (0,6 og 2% salt) the fish fillets were trimmed, and loins packed on one hand in 3 kg styrofoam boxes (air) and on the other in MA. The gas mixture used was 50% CO2, 5% O2 and 45% N2. Three pieces (350-550 g) were placed in each tray with an absorbing mat. After packaging the samples were placed in 3 coolers at Matís which were adjusted to 0°C, -2°C and -4°C. Samples were examined over a four-week period. Sensory analysis, microbial counts and chemical measurements were used to determine the quality changes and shelf-life. Brined loins had a shorter shelf-life than unbrined (0,6% salt). Comparison on numbers of microorganisms the day after packaging revealed that the brined pieces contained ten times more microbes than the unbrined ones. According to sensory analysis the shelf-life of the brined loins at -2°C was 12-15 days for both air- and MA-packed fish. In the unbrined loins the effects of superchilling and MAP were obvious. The shelf-life of air-packed loins was about 11 days at 0°C and 14-15 days at -2°C. The shelf-life of MA-packed loins was about 15 days at 0°C but 21 days at -2°C. Superchilling of unbrined fish under MA can therefore increase the keeping quality considerably. MA-packaging clearly decreased the growth rate of pathogenic and indicator bacteria at low storage temperatures. Most effects were seen with Salmonella, then Escherichia coli but least with Listeria monocytogenes. In fact, L. monocytogenes could grow at -2°C under aerobic conditions, while proliferation of E. coli was first observed at 5°C but 10°C for Salmonella.

Skoða skýrslu

Fréttir

Fengu sér humar við opnun starfsstöðvar á Höfn

Árni Mathiesen fjármálaráðherra opnaði með formlegum hætti starfsstöð Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og Humarhótel á Höfn í Hornafirði í dag. Við opnunina fengu ráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís að gæða sér á ferskum leturhumri frá Humarhótelinu.

Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís sagði við opnunina að markmiðið með starfsstöð á Höfn væri að efla rannsóknastarf, skapa aðstöðu og vettvang til aukins samstarfs við atvinnulíf og stuðla að verðmætasköpun í samvinnu við matvælafyrirtæki á svæðinu.

Starfsstod_Matis_a_Hofn_1

Þá sagði Hjalti Vignisson bæjarstjóri á Höfn það mikilvægt fyrir svæðið að fá matvælarannsóknafyrirtæki eins og Matís til þess að efla þróunarstarf og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi.

Hofn

Á Humarhótelinu, sem er samvinnuverkefni Matís, Frumkvöðlaseturs Austurlands, Sæplasts, Hafrannsóknarstofnunar og Skinney Þinganess, er hægt að geyma lifandi leturhumar sem er veiddur úti á Hornafjarðardýpi. Humarinn er fluttur lifandi á hótelið þar sem hann er geymdur við kældar aðstæður. Hann er svo fluttur lifandi á markað erlendis. Tilraunaverkefni um útflutning á lifandi leturhumri hefur staðið yfir undanfarin misseri og hefur humarinn nú þegar verið fluttur til Belgíu.

Hofn2

Verkefnið hefur því gengið afar vel en tekist hefur að fá allt að því þriðjung hærra verð fyrir lifandi humar frá Höfn heldur en frystan humar.

Mynd 1: Árni Mathiesen fjármálaráðherra og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís smakka á ferskum humri frá Humarhótelinu við opnun starfsstöðvar Matís á Höfn.

Mynd 2: Friðrik Friðriksson stjórnarformaður Matís og Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

Mynd 3: Hjalti Vignisson bæjarstjóri á Höfn og Ari Þorsteinsson framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands.

Fréttir

Leiðbeiningar um skynmat á matvælaumbúðum

Norræn nefnd um aðferðafræði sem tengist matvælum (NMKL) hefur gefið út leiðbeiningar um skynmat á matvælaumbúðum. Þær eru á sænsku og kallast Riktlinjer för sensorisk bedömning av livsmedelsförpackningar og meðal höfunda er Emilía Martinsdóttir, verkefnastjóri á Matís.

Norræn nefnd um aðferðafræði sem tengist matvælum (NMKL) er nefnd sem heyrir undir Norðurlandaráð og í henni sitja fulltrúar frá öllum Norðurlandanna. Fulltrúar Íslands í NMKL eru sex frá fjórum stofnunum eða fyrirtækjum og þar af eru þrír frá Matís. Það eru þau Franklín Georgsson, sviðsstjóri, Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri og Heiða Pálmadóttir, deildarstjóri. Nefndin er ein af nokkrum nefndum sem starfar á vettvangi er kallast Norrænn vettvangur um matvæli.

Eins og segir á vefsíðu Norðurlandaráðs þá er “markmiðið með samstarfi Norðurlanda í matvælamálum að vernda heilbrigði neytenda, koma í veg fyrir villandi merkingar og að hvetja til neyslu hollari matvæla.”

Hlutverk NMKL er m.a. að samræma aðferðir við prófun og mat á matvælum á Norðurlöndum, sem og að útbúa leiðbeiningabæklinga fyrir gæðaeftirlit á rannsóknarstofum sem tengjast matvælarannsóknum og í matvælaiðnaði.

Leiðbeiningarnar fjalla um skynmat á matvælaumbúðum, hvernig eigi að þjálfa dómara og hvernig eigi að framkvæma skynmatið. Við skynmat á umbúðum þarf að velja matvæli í skynmatsprófin og taka þarf tillit til eiginleika matvælanna, t.d. hvort um drykki, fitumikil eða fitulítil matvæli með lágt vatnsinnihald, mjölkurvöru o.s.fv. er að ræða Oft er gerð geymluþolsprófun þar sem matvælin eru geymd í viðkomandi umbúðum í ákveðinn tíma. Leiðbeiningarnar eru greinargóðar og ættu að nýtast bæði þeim sem framleiða umbúðir utan um matvæli og matvælaframleiðendum. Leiðbeiningarnar eru á sænsku en unnið er að því að þýða þær á ensku.

Sem fyrr segir er Emilía Martinsdóttir, verkefnastjóri á Matís, einn höfunda leiðbeininganna, en annar íslenskur höfundur er Ása Þorkelsdóttir, en hún starfaði um árabil á Rf.  Nánari upplýsingar veitir Emilía í síma 422 5032, en hún hefur um árabil verið í fararbroddi í notkun skynmats í matvælaiðnaði hér á landi.

Fréttir

Matís auglýsir eftir starfsfólki á Vestfjörðum og í Reykjavík

Matís auglýsir eftir nokkrum starfsmönnum á Vestfjörðum og í Reykjavík. Á Vestfjörðum er auglýst eftir verkefnastjóra Aflakaupabanka, sérfræðingi við sértækar mælingar og verkefnastjóra á sviði vinnslutækni.

Þá er einnig auglýst eftir tveimur aðstoðarmönnum á örverurannsóknarstofu og efnarannsóknarstofu.

Nánari upplýsingar um störfin er að finna hér.

Fréttir

Lifandi humrar frá Íslandi vekja athygli á sjávarútvegssýningunni í Brussel

Nokkur hundruð lifandi leturhumrar frá Íslandi, sem fluttir voru á sjávarútvegssýninguna European Seafood Exposition í Brussel í Belgíu, vöktu mikla athygli sýningargesta.

Humrarnir, sem voru veiddir á Hornarfjarðardjúpi, voru fluttir fyrst á humarhótelið, sem er rekið á vegum Matís (Matvælarannsókna Íslands) og Frumkvöðlaseturs Austurlands. Þar voru þeir kældir áður en þeir voru fluttir út með Icelandair Cargo til Brussel. Humrarnir voru svo fluttir á bás fyrirtækisins OOJEE. Humranir þykja vænir að stærð en þeir eru um 100 gr. að þyngd að meðaltali.

Veiðar og flutningur á lifandi humri frá Hornafirði er hluti af tilraunaverkefni Matís, Frumkvöðlasetus Austurlands og Skinney Þinganess. Það er styrkt af AVS rannsóknasjóðnum.

European Seafood Exposition sýningin í Brussel hófst sl. þriðjudag og lýkur í dag, 26. apríl. Í raun er um að ræða tvær sýningar á sama stað: European Seafood Exposition, þar sem sýndar eru sjávarafurðir og Seafood Processing Europe með vélum, tækjum, þjónustu og öðrum búnaði fyrir sjávarútveg.

Á myndinni eru f.v.: Guðmundur Gunnarsson, Matís, Ari Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Austurlands, og Karl Jóhannesson, OOJEE.

Fréttir

Verið Vísindagarðar á Sauðárkróki tekur til starfa

Í gær var fyrirtækið Verið Vísindagarðar ehf. kynnt á opnum fundi á Sauðárkróki. Eitt af meginmarkmiðum Versins er að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs, efla rannsóknir og námsframboð og auka verðmætasköpun í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu.

Á kynningarfundinum sagði sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson, að Verið Vísindagarðar væri farsæl leið til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu, einkum í matvælaiðnaði. Hann sagði að ráðuneytið hafði lagt sig fram um að fjölga sérfræðistörfum hjá stofnunum ráðuneytisins á landsbyggðinni, en þeim hefði fjölgað um 25 síðustu misseri og álíka fjöldi hið minnsta væri fyrirsjáanlegur. Í ræðu sinni lagði ráðherrann áherslu á mikilvægi þess að fjölga atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað fólk á landsbyggðinni og sömuleiðis námsmöguleikum og sagði að stofnun Versins Vísindagarða væri liður í því.

Fyrirtækið Verið Vísindagarðar ehf var stofnað fyrr á þessu ári og mun annast rekstur kennslu og rannsóknaraðstöðu í formi vísindagarða í tengslum við Háskólann á Hólum, Matís (Matvælarannsóknir Íslands), FISK Seafood og fleiri aðila. Félagið stefnir að enn frekari uppbyggingu á því sviði með því að skapa aðstöðu og vettvang til aukins samstarfs atvinnulífs, innlendra og erlendra háskóla og rannsóknaraðila.

Verið Vísindagarðar eru í dag reknir í um 1.500 fermetra húsnæði að Háeyri 1, en þar er Háskólinn á Hólum með aðstöðu fyrir kennslu og rannsóknir í fiskeldi, fiskalíffræði, sjávar- og vatnalíffræði. Þá er Matís með starfsemi þar fyrir fyrirtækið Iceprotein, sem framleiðir prótein úr fiskafskurði. Sjávarútvegsráðherra sagði á kynningarfundinum að þátttaka Matís í rannsóknar- og þróunarstarfi í Verinu hefði það m.a. að markmiði að búa í haginn fyrir atvinnulífið og stuðla að frekari fjárfestingu og atvinnusköpun. Það sama ætti einnig við um starfsemi rannsóknastofnana sem heyrðu undir sjávarútvegsráðuneytið víða um landið.

Vísindagarðar, eins og þeir sem hafa verið teknir í notkun á Sauðárkróki, hafa verið stofnaðir við fjölmarga háskóla erlendis því reynslan sýnir að slík starfssemi sé öflug leið til að efla byggðir og samfélög með víðtæku háskólastarfi í nánu samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög.

Vegna mikils áhuga þeirra sem koma að Verinu og fleiri þá eru þegar uppi áform um bæta verulega við núverandi húsnæði; svo sem rannsóknaraðstöðu og frekari vinnuaðstöðu fyrir kennara, nemendur og rannsóknarfólk.

Gísli Svan Einarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Versins, en hann starfaði áður sem útgerðarstjóri hjá FISK Seafood á Sauðárkróki. Gísli veitir allar nánari upplýsingar í síma: 825 4409.

Fréttir

Kynningarfundur um tækni og vísindi í Skagafirði

Miðvikudaginn 25. apríl milli kl. 16-18 verður opið hús í Verinu-Þróunarsetrinu v/höfnina á Sauðárkróki þar sem ýmis nýsköpunarverkefni, sem unnið er að á svæðinu verða kynnt. Tilefnið er stofnun nýs fyrirtækis sem nefnist Verið Vísindagarðar ehf.

Verið var formlega opnað þ. 7. mars í fyrra í húsnæði FISK Seafood við höfnina á Sauðárkróki. Þróunarsetrið er samstarfsverkefni Matís, Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, FISK Seafood og Hólaskóla og lögðu iðnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin sameiginlega tæpl. 10 milljónir króna til verkefnisins við opnun þróunarsetursins.

Nú hefur verið stofnað sérstakt fyrirtæki Verið Vísindagarðar ehf til þess að annast kennslu- og rannsóknaraðstöðu í þróunarsetrinu.

Auglýsing frá Verinu
IS