Fréttir

Streita laxfiska við dælingu

Streita laxfiska í eldi getur skipt miklu máli varðandi velferð, vöxt og viðgang þeirra, og getur einnig haft áhrif á gæði og geymsluþol afurða. Helsta ástæða laxadauða í sjóeldi er meðhöndlun gegn laxalús, sem getur dregið úr viðnámsþrótti fiska gegn sýkingum og kulda, ásamt því að draga úr vexti. Laxalúsin kostar norrænt laxeldi um 140 milljarða króna á ári og er því risavaxið vandamál fyrir atvinnugreinina.

Helsta ástæða neikvæðra áhrifa á meðhöndlun gegn lús er slæm meðferð við dælingu á laxinum. Mest er notast við vakúmdælur, sem valda fiskinum streitu og nokkrum áföllum; en við dælinguna er loftrými loftæmt sem dregur fiskinn upp í tank, sem síðan er skotið á þrýstilofti til að ýta honum á þann stað sem honum er ætlað að fara á. Þetta er gert bæði við lúsameðhöndlun og eins þegar fiski er dælt til slátrunar. Það getur tekið fisk langan tíma að jafna sig eftir meðhöndlunina og byrja að taka fóður aftur, og eins geta áföll fyrir slátrun valdið streitu sem rýrir gæði afurða.

Í ljósi þessa hafa framleiðendur dælubúnaða verið að leita nýrra leiða við dælingu laxfiska og hefur íslenska fyrirtækið Skaginn 3X verið að þróa svokallaða spíraldælu (Archimedesar dælu) sem lausn á þessu vandamáli. Dælan hefur hlotið nafnið ValuePump. Á haustmánuðum 2020 veitti Matvælasjóður fyrirtækinu Skaginn 3X, ásamt samstarfsaðilum, styrk til að þróa, smíða og prófa frumgerð af ValuePump. Frumgerðin var tilbúin til prófana snemma árs 2022 og voru þá gerðar samanburðarmælingar á virkni ValuePump og hefðbundinnar vakúmdælu, sem í dag er notuð við dælingu á lifandi laxi til slátrunar og við meðhöndlun við og í kvíum. Við samanburðarmælingarnar var notast við DST nema frá Stjörnu-Odda sem skrá hitastig og hjartslátt í fiski, auk þess sem streituhormónið Kortisól var mælt í blóði. Samanburðartilraunirnar fóru fram í aðstöðu Hafrannsóknarstofnunnar á Reykjanesi undir stjórn sérfræðinga stofnunarinnar, Stjörnu-Odda og Matís.

Frumgerð ValuePump við hlið vakúmdælunnar sem notuð var við samanburðarrannsóknirnar
Starfsmenn Hafrannsóknarstofnunnar við dælingartilraunirnar

Niðurstöður samanburðartilrauna sýndu marktækan mun á milli hópa í kjölfar dælingar. Hjartsláttur hækkaði mikið við dælingu en ValuePump hópurinn var fljótari að jafna sig og ná aftur grunngildi. Dæling með vakúmdælu hafði mun meiri langvarandi streituáhrif en tilraun með hámarksáreiti þar sem fiskurinn spriklaði á þurru.  Mikill sjónrænn munur var einnig á hópunum eftir dælutegundum, þar sem fiskar sem dælt var með vakúmdælu komu oft slasaðir eða jafnvel dauðir úr dælunni, syntu á hlið eða á hvolfi klukkutímum eftir dælingu.  Fiskur sem dælt var með ValuePump varð hins vegar ekki fyrir neinu sjáanlegu hnjaski við dælinguna og virtist vel á sig komin að henni lokinni.

Niðurstöður samanburðartilraunanna verða að teljast mjög jákvæðar, þar sem þær benda til þess að ValuePump geti dregið verulega úr streitu laxfiska við meðhöndlun. Gæti því þessi íslenska nýsköpun haft viðverandi áhrif á velferð og arðsemi í laxeldi.

Þátttakendur verkefnisins vilja þakka Matvælasjóð fyrir að styrkja verkefnið.

Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér

Frekari upplýsingar veitir Gunnar Þórðarson gunnar@matis.is

Fréttir

Tryggja veirufrítt íslenskt kartöfluútsæði

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Í desember 2021 gerðu Matís og Bændasamtök Íslands með sér samkomulag um vefjaræktun á stofnútsæði kartaflna og er vinna við verkefnið hafin hjá Matís. Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtist umfjöllun um verkefnið þar sem fjallað er um samkomulagið og helstu verkþætti.

Tilgangurinn með vefjaræktun á kartöflum er að tryggja að íslenskir bændur eigi áfram aðgengi að heilbrigðu útsæði af íslensku yrkjunum fjórum: Premier, Gullauga, Rauðum íslenskum og Helgu. Tilgangur stofnræktunar er að stuðla að framleiðslu á stofnútsæði sem er laust við veirusjúkdóma. Veirur komast auðveldlega milli móðurkartafla og afkvæma og því er vefjaræktun eina leiðin til að viðhalda veirufríu útsæði. Veirur eru mjög skaðlegar fyrir bændur en veirusmitað útsæði gefur allt að þriðjungi minni uppskeru. Sigurgeir Ólafsson, fyrrum sérfræðingur á RALA, kom upp veirufríum stofnum af íslensku afbrigðunum. Markmið þessa verkefnis er viðhalda þessum stofnum. Í samstarfsverkefni Bændasamtakanna og Matís kemur Matís til með að sjá um framkvæmd á verkþáttum sem snúa að vefjaræktuninni sjálfri.

Í Bændablaðinu er haft eftir Axel Snæland, formanni deildar garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands:

„Deild garðyrkjubænda innan Bændasamtakanna stóð fyrir gerð samningsins við Matís, sem felur í sér vefjaræktunarhluta stofnræktunar útsæðiskartaflna. Verkefni Matís felur í sér að skila af sér vefjaræktuðum útsæðiskartöflum, Premier, Gullauga, Helgu og Rauðum íslenskum, sem eru lausar við veirur og sjúkdóma, eins og til dæmis kláða og hringrot. Auk þess sem kartöflurnar eru valdar með tilliti til útlits. […] Því miður er það svo að víða um heim eru sjúkdómar í kartöflum landlægir og margir þeirra sjúkdóma geta borist hingað til lands og valdið miklum skaða ef við gætum þess ekki að hafa vaðið fyrir neðan okkur.“

Verkefninu miðar vel og um þessar mundir eru kartöfluplöntur, ræktaðar af spírum, í glerflöskum við sérstakar stýrðar aðstæður í vefjaræktunarklefa í húsakynnum Matís eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Eftir frekari rannsóknavinnu verður svo hægt að skila litlum plöntum í ræktunarhlaupi í áframræktun til stofnkartöfluræktenda til gróðurhúsaræktunar í mold næsta vor ef allt gengur eftir.

Greinina má lesa í heild sinni í Bændablaðinu hér: Stofnræktun á útsæðiskartöflum

Fréttir

Starf sérfræðings á sviði efnamælinga (Neskaupstað)

Hjá Matís er laust til umsóknar starf sérfræðings. Við leitum að sjálfstæðum og metnaðarfullum einstaklingi til að starfa í öflugu teymi.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Efnamælingar og viðhald tækja
  • Viðhald mæliaðferða og verkefna í faggiltu umhverfi fyrir iðnað og rannsóknaverkefni
  • Upplýsingamiðlun og samskipti við viðskiptavini
  • Innkaup og samskipti við birgja

Menntunar- og hæfniskröfur

  • BSc gráða í efnafræði, efnaverkfræði, lífefnafræði eða sambærilegu námi
  • Góð samstarfshæfni og sveigjanleiki í samskiptum
  • Æskilegt er að viðkomandi hafi unnið við efnamælingar og hafi reynslu af viðhaldi tækja.
  • Frumkvæði, áreiðanleiki og metnaður

Starfshlutfall er 100% og er starfið staðsett í Neskaupstað

Með vísan í jafnréttisstefnu Matís eru öll kyn hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir hæfni umsækjanda í viðkomandi starf. Einnig þarf að fylgja nafn og símanúmer eða tölvupóstfang hjá tveimur meðmælendum sem geta staðfest hæfni umsækjanda.

Umsóknarfrestur er til 07.07.22

Nánari upplýsingar um starfið veitir Natasa Desnica, natasa@matis.is

Fréttir

Grunnskóli Bolungarvíkur bar sigur úr býtum í landskeppni Grænna Frumkvöðla Framtíðar 2022

Tengiliður

Justine Vanhalst

Verkefnastjóri

justine@matis.is

Í lok maí fór fram Landskeppni MAKEathons, nýsköpunarkeppni Grænna Frumkvöðla Framtíðar. Þar kepptu skólarnir þrír, Nesskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur og Árskóli, til úrslita.

Hver skóli sendi inn myndband þar sem þeir útskýrðu sínar lausnir á umhverfisáskorunum í  sinni heimabyggð. Keppnin var hnífjöfn en á endanum var það Grunnskóli Bolungarvíkur sem bar sigur úr býtum. Þeim innan handar voru Hildur Ágústsdóttir kennari og Gunnar Ólafsson frá Djúpinu frumkvöðlasetri.

Grunnskóli Bolungarvíkur glímdi við áskorunina:

„Hvernig er hægt að nýta úrgang frá fiskeldi betur “

og lausnin sem vann bar yfirskriftina: “Að nýta úrgang frá fiskeldi á sjálfbæran hátt”

Hér er fyrir neðan má lesa  endurgjöfina sem sigurliðið fékk frá dómnefndinni:

“Þið eruð hugvitssöm og lausnamiðuð. Þið komuð auga á umhverfisvandamál sem skapast vegna fiskeldis í sjó og leituðuð lausna. Það var frábært að fá að sjá skítinn sem safnast hefur fyrir, en það sjónarhorn fær almenningur yfirleitt ekki. Ykkar verkefni gengur út á að breyta úrgangi og botnfalli í auðlind sem nýtist, og gæti því komið bæði náttúru og sjávarútvegsfyrirtækjum að gagni. Við hvetjum ykkur til að vinna lausnina áfram og hafa í huga mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika í vistkerfum í sjónum, en eldi í sjó getur skaðað hann sé ekki að gætt.“

Í dómnefnd sátu:

  • Lenya Rún Taha Karim varaþingmaður Pírata og lögfræðinemi
  • Margrét Hugadóttir vefstjóri og verkefnastjóri hjá Landvernd
  • Þóra Valsdóttir verkefnastjóri hjá Matís

Fyrir frekari upplýsingar er bent á að hafa samband við verkefnastjóra Grænna frumkvöðla framtíðar: Justine@matis.is. Skólar sem vilja taka þátt eru sérstaklega hvattir til að hafa samband (fréttamenn geta  haft samband í síma: 762 0266).

Hér er hægt að fylgjast með gangi verkefnisins:

Fréttir

Endurnýjanleg hagkerfi á heimskautasvæðum

Út er komin bókin „Renewable Economies in the Arctic“ sem fjallar um endurnýjanleg hagkerfi á heimskautasvæðum. Starfsfólk Matís, þau Ólafur Reykdal, Rakel Halldórsdóttir, Óli Þór Hilmarsson, Gunnar Þórðarson og Þóra Valsdóttir eiga þátt í einum kafla bókarinnar sem fjallar um matvælaframleiðslu á heimskautasvæðum.

Í bókinni eru dregin fram sjónarhorn sérfræðinga á fjölbreyttum sviðum, svo sem hagfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og matvælafræði, þegar kemur að endurnýjanlegum hagkerfum. Sjónarmiðin varpa ljósi á þær sérstöku áskoranir sem heimskautasvæði standa frammi fyrir en jafnframt á tækifærin sem eru fyrir hendi til þess að nýta sjálfbærar auðlindir og blása þannig lífi í hagkerfi svæðanna.

Starfsfólk Matís var meðal höfunda að kaflanum „the Arctic as a food-producing region” sem snýr að matvælaframleiðslu á heimskautasvæðum en þar er fjallað í stuttu máli um Ísland, Norður-Noreg og Norður-Kanada. Vert er að geta sérstaklega um kafla þar sem fjallað er um það hvernig hægt væri að ná auknu virði matvæla frá heimskautasvæðum Noregs með markvissri markaðssetningu. Byggt er á ítarlegri rannsókn sem hafa mætti til hliðsjónar á Íslandi.

Hægt er að nálgast bókina og einstaka kafla hennar í opnum aðgangi hér: Renewable Economies in the Arctic

Fréttir

Langt og náið samstarf milli vísinda og iðnaðar

Í apríl útgáfu evrópska tímaritsins Eurofish Magazine  birtist viðtal við Jónas Rúnar Viðarsson, sviðstjóra verðmætasköpunar hjá Matís.

Í greininni deilir Jónas með lesendum hans sýn á framtíð sjávarútvegs á Íslandi og hvert hlutverk Matís er við að tryggja gæði aflans.

Ný þekking, tækni og nýsköpun hefur rutt veginn að bættum gæðum sjávarafurða og er sú þróun stöðugt í gangi. Orkunýtni og sjálfbærni eru lykilatriði í hátækni sjávariðnaði í dag, bæði til að mæta þörfum viðskiptavina og til að draga úr kostnaði.

Matís hefur unnið náið með sjávarútveginum áratugum saman við þróun nýrra lausna og verkferla. Matís hefur einnig gegnt mikilvægu hlutverki í menntun framtíðar starfsfólks í iðnaðinum, bæði með kennslu í háskólum og vinnu með nemum. Tenging milli iðnaðar, vísinda, menntunar og stjórnvalda er lykillinn að farsælu samstarfi. 

Greinina í heild sinni er hægt að nálgast í Eurofish Magazine bls 63-64, og á eftirfarandi slóð:  Current issue – Eurofish Magazine.

Fréttir

NordMar verkefnin – lokaráðstefna um hafið

Í júní mun þremur verkefnum, svokölluðum NordMar verkefnum sem hafa verið í gangi frá árinu 2019, ljúka með glæsilegri lokaráðstefnu sem fram fer á Grand Hotel Reykjavík.

Verkefnin NordMar Plastic, NordMar Biorefine og NordMar Ports hófust út frá áherslumálum Norrænu Ráðherranefndarinnar þegar Ísland gegndi formennsku á árunum 2019-2021.

Fyrir frekari upplýsingar um ráðstefnuna, sendið póst á netfangið: nordmarplastic@matis.is

NordMar Plastic sem stýrt er af Sophie Jensen, verkefnastjóra hjá Matís, miðar að því að vekja athygli á og fræða almenning um plastmengun í umhverfinu auk þess að þróa og gefa út námsefni og halda viðburði sem stuðla að aukinni nýsköpun í tengslum við viðfangsefnið.

NordMar Biorefine er stýrt af Val Norðra Gunnlaugssyni, fagstjóra hjá Matís og gengur út á að meta hagkvæmni og möguleika lífmassavera fyrir bláa lífhagkerfið á Norðurlöndunum og myndun tengslanets sérfræðinga á þessu sviði auk fræðslu um tengd málefni fyrir yngri kynslóðir.

Í verkefninu NordMar Ports er áhersla lögð á að efla hafnir sem miðstöðvar nýsköpunar og orkuskipta en því verkefni er stýrt af samstarfsaðilum í Færeyjum.

Fréttir

Laurentic Forum vinnufundurinn vel heppnaður

Fimmtudaginn 19. maí síðastliðinn stóð Laurentic Forum fyrir vinnufundi um nýtingu stórþörunga (seaweed) á norðurslóðum. Fundurinn var í alla staði mjög áhugaverður og var sóttur af um 100 manns, víðsvegar að úr heiminum.

Upptökur af fundinum má nú nálgast á vefsíðu viðburðarins hér: Laurenticforum.com

Á fundinum var farið stuttlega yfir stöðu mála hvað varðar nýtingu þörunga á heimsvísu, sem og í Kanada (Nýfundnaland & Labrador), Íslandi, Færeyjum, Írlandi og Noregi.

Dagskrá fundarins var svo hljóðandi:

  • Keith Hutchings from Canadian Centre for Fisheries Innovation: Welcome
  • Paul Dobbins from WWF: Seaweed Farming as a Nature Based Solution- Opportunities and Challenges from WWF’s Perspective
  • Kate Burns from Islander Rathlin Kelp: Farmed Kelp, What Market?
  • Olavur Gregersen from Ocean Rainforest Faroe Islands: Scaling up Kelp Farming in the North Atlantic
  • Anne Marit Bjørnflaten from Oceanfood AS North Norway: Macroalgae: A New and Sustainable Aquaculture Industry with Huge Potential in the Arctic
  • Jónas R. Viðarsson from Matís Iceland: Seaweed Production on the Rise in Iceland
  • Cyr Courtourier from the Fisheries and Marine Institute of Memorial University in Newfoundland: Future Prospects for Seaweed Farming Across Canada in a Subarctic Environment
  • Q&A

Frekari upplýsingar um viðburðinn eða Laurentic Forum veitir jonas@matis.is

Fréttir

Ársskýrsla Matís 2021 er aðgengileg á vefnum

Ársskýrsla Matís fyrir árið 2021 er aðgengileg á vefnum.

Skýrslunni er skipt upp í eftirfarandi kafla og hana má skoða í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Sjálfbær matvælaframleiðsla – Nýsköpun er lykillinn!

Í þessari viku hefur Nýsköpunarvikan eða Iceland Innovation Week verið haldin hátíðleg víða um borgina. Á morgun, föstudaginn 20. maí verða fjölmörg erindi á dagskrá sem snúa að nýsköpun í matvælageiranum og verður erindi Matís: Sjálfbær matvælaframleiðsla – Nýsköpun er lykillinn! þeirra á meðal.

Viðburðurinn fer fram í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni, í salnum Fenjamýri á fyrstu hæð og stendur frá kl. 13:30-15:00.

Þátttaka í viðburðinum er ókeypis. verið velkomin!

Viðburðurinn samanstendur af 5 stuttum og skemmtilegum erindum sem fjalla á einn eða annan hátt um nýsköpun og sjálfbærni í matvælaframleiðslu.

Dagskráin er eftirfarandi:

  • Er nýsköpun góð? Skynmat og neytendarannsóknir. – Aðalheiður Ólafsdóttir
  • Tækifæri til nýsköpunar í íslensku grænmeti – Eva Margrét Jónudóttir og Ólafur Reykdal
  • Hvernig líta próteingjafar framtíðarinnar út? -Margrét Geirsdóttir
  • Eins manns úrgangur, annars manns gull? Sjálfbær áburðarframleiðsla á Íslandi -Jónas Baldursson og Eva Margrét Jónudóttir
  • Hvernig skal tala við börn um sjálfbærni og loftslagsbreytingar? -Katrín Hulda Gunnarsdóttir

Nánar um erindin:

Aðalheiður Ólafsdóttir er algjör snillingur í öllu sem við kemur skynmati og neytendarannsóknum, enda ætlar hún að fræða gesti um hvað felst í þessum hlutum í erindi sínu í Nýsköpunarvikunni; Er nýsköpun góð?
Áhugasöm geta auk þess fengið að láta reyna á skynmatshæfileika sína!
„Það skiptir litlu máli þótt ný vara á markaði sé meinholl, laus við öll heimsins bragð- og litarefni, lífræn og sjálfbær. Ef hún bragðast eða lyktar mjög illa, þá mun henni ekki vegna vel“

Ólafur Reykdal er algjör reynslubolti þegar kemur að rannsóknum á íslensku grænmeti og korni og Eva Margrét hefur stundað matvælarannsóknir um árabil!
Þau verða með mjög svo líflegt erindi í Nýsköpunarvikunni þar sem Kahoot kemur meðal annars við sögu og fjallar um þau óteljandi tækifæri sem liggja í nýsköpun í grænmetisgeiranum!

Margrét Geirsdóttir lífefnasjení og almennur lífskúnstner vinnur nú hörðum höndum að verkefninu NextGen Proteins um próteingjafa framtíðarinnar ásamt Birgi Erni Smárasyni verkefnastjóra. Hún ætlar að fjalla um hvað er að frétta af rannsóknum á skordýrapróteini og spirulina og leyfa gestum jafnvel að smakka óhefðbundin prótein!

Jónas Baldurssson og Eva Margrét hafa síðustu misseri bókstaflega unnið að því að rannsaka kúk og skít! Fallegra væri þó auðvitað að tala um lífrænan úrgang og það gera þau almennt.
Þau ætla að sýna myndband í Tik-Tok stíl um verkefnið sitt um Sjálfbæra áburðarframleiðslu í nýsköpunarvikunni. Erindið er sérstaklega viðeigandi um þessar mundir þar sem aðstæður í heiminum eru að gera öllum erfitt fyrir að flytja áburð á milli landa.

Katrín Hulda og Justine Vanhalst vita allt um það hvernig best og sniðugast er að fræða börn og ungt fólk um þung málefni eins og loftslagsbreytingar og sjálfbærni. Í vetur hafa þær unnið að tveimur mismunandi verkefnum með börnum um allt land og meira að segja út fyrir landssteinana þar sem þær hafa virkjað þau til þess að setja á sig frumkvöðla-gleraugun og takast á við raunverulegar áskoranir – og finna raunverulegar lausnir!
Erindið þeirra í nýsköpunarvikunni snýr að afrakstri þessara verkefna.

Fylgstu með á viðburðarsíðunni á facebook hér: Innovation Week: Sjálfbær matvælaframleiðsla – Nýsköpun er lykillinn!

IS