Fréttir

Matís hlýtur styrk úr viðbragðssjóði EIT-Food vegna COVID-19

Sérstakur viðbragðssjóður á vegum EIT Food vegna COVID-19, Covid-19 Rapid Response Call for Innovation Projects, var settur á laggirnar í maí síðastliðnum til að flýta fyrir nýsköpun og þróun á vörum og þjónustu sem gæti nýst til að styðja við matvælaframleiðslu og neytendur í Evrópu meðan á faraldrinum stendur. 

Matís og Algaennovation fengu úthlutað 615,9 þúsund evrur fyrir verkefnið CovidX þar sem ætlunin er að setja á markað fæðubótarefni sem er unnið úr spirulina þörungum. Fæðubótarefnið er sérstaklega hugsað fyrir áhættuhópa COVID-19.

Alls hlutu 13 verkefni styrk úr sjóðnum sem samanstanda af 52 stofnunum og fyrirtækjum. Sjóðurinn er hluti af viðbragðsáætlun Evrópusambandsins vegna COVID-19 faraldursins.

Nánari upplýsingar um verkefnin má finna hér.

Fréttir

Hvaða áhrif hefur COVID-19 faraldurinn haft á matarvenjur þínar?

Nú er Matís með netkönnun, sem er hluti af norænni-baltneskri rannsókn, þar sem ætlunin er að skoða breytingar á matarvenjum og neysluhegðun Íslendinga vegna COVID-19 faraldursins. Markmið rannsóknarinnar er að skilja betur breytingar á neysluvenjum og viðhorfi til matar á meðan neyðarstig almannavarna var í gildi 6.mars til 25. maí 2020.

Með því að safna þessum gögnum og bera saman niðurstöður mun könnunin varpa ljósi á ýmis vandamál neytenda og áhyggjur í tengslum við matvælaöryggi, fæðuframboð og fæðuaðgengi.

Gögnin verða á engan hátt persónugreinanleg. Niðurstöður könnunarinnar verða bornar saman við kannanir sem gerðar hafa verið í nágrannalöndum okkar. Þær geta svo nýst til að skoða ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda og matvælaframleiðanda á tímum faraldursins.

Faraldurinn hefur haft áhrif á okkur öll og með mismunandi hætti. Hann hefur haft áhrif á mataræði okkar og heilsu. Hann hefur haft áhrif á okkur andlega og fjárhagslega. Með betri skilningi á öllum þessu þáttum verðum við betur í stakk búin til að takast á við svipaðar aðstæður í framtíðinni.

Þátttaka þín er mikils virði. Þú getur tekið könnunina hér. Hún tekur aðeins 15 mínútur.

Greining á niðurstöðum og samantekt verður svo aðgengileg á vefsíðunni okkar þegar niðurstöður verða klárar.

Fréttir

FAO gefur út rafrænt námskeið um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg í samstarfi við Matís

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) býður nú upp á rafrænt námskeið um áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og sjávarútveg og viðbrögð við þeim, bæði í formi aðlögunar- og mótvægisaðgerða. Námskeiðið, sem er nú öllum opið í gegnum vefsíðu FAO, var unnið í tengslum við rannsóknarverkefnið ClimeFish sem lauk nú á dögunum. Matís hafði þar yfirumsjón yfir þeim hluta verkefnisins sem sneri að aðlögun gegn áhrifum loftslagsbreytinga og gerð aðlögunaráætlana fyrir fiskeldi og fiskveiðar, og átti því stóran þátt í gerð námsefnisins.

Umrætt námskeið byggir á umfangsmikilli vinnu FAO á sviði loftslagsmála innan sjávarútvegsins, auk þess sem helstu niðurstöður ClimeFish verkefnisins eru nýttar. FAO hefur verið leiðandi á þessu sviði og birt fjölmargar skýrslur og samantektir um áhrif loftslagbreytinga á sjávarútveg á heimsvísu og þær áskoranir sem því fylgja. Má þar nefna stóra úttekt frá árinu 2018, sem Matís fjallaði einnig um á vefsíðu sinni. Námskeiðið veitir innsýn inn í áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og fiskveiðar, aðlögunar- og mótvægisaðgerðir, sem og þær aðferðir sem þróaðar hafa verið til að setja upp aðlögunaraðgerðir til að bregðast við. Allir þeir sem hafa áhuga á að auka skilning sinn á umræddu viðfangsefni geta einfaldlega búið sér til notendaaðgang í gegnum vefsíðu FAO og í framhaldinu tekið námskeiðið, sem tekur um 2 klukkustundir. Námskeiðið er því aðgengilegt öllum en var þó hannað með ákveðna hópa í huga, þ.e. stjórnmálaleiðtoga og aðila innan stjórnsýslunnar, námsmenn, sérfræðinga, verkefnastjóra og fræðslufulltrúa innan sjávarútvegsins.

Uppbygging námskeiðsins er á þá leið að eftir ítarlegun inngang er námsefninu skipt upp í þrjár einingar, þar sem þeirri fyrstu er ætlað að auka almennan skilning á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra innan fiskeldis og fiskveiða, önnur einingin fjallar aðlögun, aðlögunaraðgerðir og gerð aðlögunaráætlana og sú þriðja ræðir mótvægisaðgerðir og hvernig þær geta dregið úr útblæstri innan geirans.

Hægt er að nálgast námskeiðið í rafrænni útgáfu í gegnum heimasíðu FAO, þar sem einnig er hægt að hlaða því niður, endurgjaldslaust. Að námskeiðinu loknu er hægt að nálgast sérstakt viðurkenningarskjal, gegn því að standast stutt lokapróf.

Aðkoma Matís að mati á áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg og fiskeldi, þróun aðgerðaáætlana, sem og þróun leiðbeininga og kennsluefnis á þeim sviðum, er gott dæmi um hvernig alþjóðlegt samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar byggir upp þekkingu og innviði sem nýtist íslensku samfélagi.

Nálgast má námskeiðið hér.

Fréttir

Vilt þú efla matvælarannsóknir á Íslandi?

Hjá Matís eru stundaðar ýmsar rannsóknir sem flestar snúast um matvæli á einhvern hátt. Okkur vantar fólk til að leggja okkur lið í þessum rannsóknum. 

Þátttaka getur t.d. falist í:

  • Rýnihópavinnu þar sem rætt er um matartengd málefni eða vörur sem eru í þróun.
  • Könnunum þar sem þátttakendur meta vörur heima.
  • Viðhorfskönnunum um matartengd málefni á netinu.
  • Könnunum eða mati á vöru í húsnæði Matís að Vínlandsleið 12.

Fyrir hverja rannsókn verða þátttakendur valdir af póstlistanum og þeim boðið að taka þátt. Þátttakendur í stærri verkefnum fá umbun í formi smárra gjafa, gjafabréfs, eða þátttöku í happdrætti.

Þátttakandi á póstlista getur hvenær sem er óskað eftir því að upplýsingar um viðkomandi verði fjarlægðar af listanum.

Eftirfarandi þættir eiga við um allar rannsóknir Matís:

  • Þátttakendur njóta fyllsta trúnaðar.
  • Nöfn þátttakenda koma hvergi fram birtingum niðurstaða.
  • Þátttakendum er alltaf í sjálfsvald sett hvort þeir taka þátt í viðkomandi rannsókn.
  • Unnið verður með öll gögn í samræmi við persónuverndarlög.

Skráning á neytendalista Matís fer fram hér.

Fréttir

Matvælaöryggi á Íslandi

Í gær var alþjóðadegi matvælaöryggis fagnað í annað sinn. Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum á matvælum á Íslandi. Styrkur fyrirtækisins liggur í breiðum grunni getu, þekkingar og innviða ásamt tengslum við iðnaðinn og landsbyggðina. 

Rannsóknir Matís hafa verið yfirgripsmiklar þar sem nýjustu og bestu tækni sem völ er á hverju sinni hefur verið beitt í mismunandi og fjölbreyttum verkefnum. Til dæmis hefur áhersla verið lögð á rannsóknir á óæskilegum örverum í matvælum og vinnsluumhverfi og greiningaraðferðir þróaðar. Aukinn skilningur á eðli, uppruna og smitleiðum sjúkdómsvaldandi örvera er mikilvægur til að tryggja öryggi matvæla og koma í veg fyrir faraldra og efla öryggi neytenda. Miðlun þekkingar til almennings og vísindasamfélagsins með útgáfu kynningarefnis og skrifum í tímarit er mikilvægur liður í þeirri vinnu.

Það er grundvallaratriði fyrir íslenska neytendur að geta treyst því að þau matvæli sem seld eru hér á landi ógni ekki heilsu almennings. Það er mikilvægt að geta brugðist hratt við þegar matvælaöryggi er ógnað. Vegna legu landsins þarf að tryggja að nauðsynleg rannsókna- og öryggisþjónusta sé ávallt til staðar. Þetta á sérstaklega við um örverugreiningar þar sem ekki er hægt að greina sjúkdómsvaldandi örverur nema í takmarkaðan tíma. Ef um er að ræða alþjóðlega ógn sem herjar á samtímis í mörgum löndum, þá er ekki hægt að tryggja að erlendar rannsóknastofur setji íslensk sýni í forgang.

Með því að innleiða evrópsku matvælalöggjöfina hefur Ísland skuldbundið sig til að afnema bann á innflutningi á ferskum afurðum. Til að gæta öryggis neytenda er nauðsynlegt að þekkja gæði matvæla á markaði, bæði þau sem framleidd eru innanlands sem og þau sem flutt eru til landsins, meðal annars með tilliti til sjúkdómsvaldandi örvera.

Matvælaöryggi hefur fengið aukið vægi í fjölmiðlaumræðu um allan heim á undanförnum árum. En töluvert er um misvísandi upplýsingar þegar fjallað er um öryggi matvæla, t.d. sjávarafurða, eins og villtan fisk en líka landbúnaðarafurða, s.s. mjólk og egg. Neikvæð umfjöllun um íslensk matvæli getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd sem tekið hefur áratugi að byggja upp og bitnað harkalega á útflutningstekjum Íslendinga og dregið úr framleiðslu og sölu á innanlandsmarkaði. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að stjórnvöld geti strax brugðist við með því að hafa tiltæk vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni og örverur í íslenskum matvælum til að sýna fram á öryggi og heilnæmi. Útflutningur sjávarafurða og annarra matvæla er auðvitað einnig háður því að unnt sé að sýna fram á heilnæmi með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum kaupenda.

Haldgóð gögn eru nauðsynleg á hverjum tíma og því þarf stöðuga vöktun á ástandi íslenskra matvæla og samanburð við sambærileg erlend matvæli sem seld eru hérlendis. Íslenskt sjávarfang hefur t.d. lengi verið markaðssett með áherslu á hreinleika og heilnæmi þess. Fullyrðingar um það duga hins vegar skammt, nauðsynlegt er að styðja þær með áreiðanlegum gögnum frá óháðum aðila. Slík gögn geta liðkað til fyrir markaðssetningu og sölu íslenskra afurða á krefjandi erlendum mörkuðum þar sem kröfur um gæði og öryggi endurspeglast í afurðaverðinu.

Fréttir

Matís ohf. leitar að háskólanemum í ýmis sumarstörf

Nánari lýsing á verkefnum má finna á heimasíðu VMST

Matís leitar eftir háskólanemum í eftirfarandi störf á vefsíðu VMST:

  • Vinna a rannsóknarstofu í líftækni
  • Vinna við rannsóknir á sjávarafurðum
  • Vinna á rannsóknarstofu í efna- og örverumælingum
  • Vinna á rannsóknarstofu í efnamælingum
  • Vinna við rannsóknir í hringrásarhagkerfi
  • Vinna við rannsóknir í efnamælingum
  • Vinna á rannsóknarstofu
  • Matur í ferðamennsku
  • Vinna á rannsóknarstofu og í fiskþurrkun
  • Vinna við fiskeldisrannsóknir
  • Vinna á rannsóknarstofu í örverufræði
  • Rannsóknir í erfðafræði
  • Aðstoðarmaður í rannsóknarverkefni á sviði vinnslutækni
  • Miðlun frétta og uppsetning vefsíðu

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Umsækjandi þarf að vera á milli anna í námi
  • Menntun nánar tiltekin í hverri umsókn fyrir sig
  • Færni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku

Umsóknarfrestur er til og með 7. júní n.k.

Frekari upplýsingar veitir ábyrgðaraðili fyrir hverri umsókn.

Sækja um starf á ráðningarsíðu VMST

Fréttir

Afrakstursskýrsla Matís komin út

Matís hefur skilað skýrslu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem lýsir afrakstri þeirrar starfsemi sem fellur undir þjónustusamning við ráðuneytið 2019.

Skýrsluna má nálgast hér.

Fréttir

Matvælaframleiðsla á tímum COVID-19 faraldursins – ný tækifæri?

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft margvísleg áhrif á framleiðslu, sölu, dreifingu og neyslu matvæla. Undir merkjum EIT Food og í samstarfi við Matís bjóðast nú styrkir í verkefni til að bregðast við áhrifum faraldursins á matvælaframleiðslu og neysluhegðun neytenda.

Verkefnin verða að skila árangri í formi markaðshæfra afurða eða þjónustu á þessu ári eða snemma á næsta ári og tengjast nýjum birgðakeðjum innan matvælageirans, breyttri neytendahegðun, auknu matvælaöryggi eða bættri næringu.

Matís er að leita að íslenskum fyrirtækjum sem gætu nýtt sér þetta tækifæri og hafa framúrskarandi hugmynd(ir) að markaðshæfum afurðum eða þjónustu til að bregðast við áhrifum COVID-19 faraldursins. Hefur þú áhuga eða ertu með hugmynd að slíkum vörum eða þjónustu?

Ef svo er hafðu þá samband við Guðmund Stefánsson (gst@matis.is) eða Sæmund Sveinsson (saemundurs@matis.is) til að fá frekari upplýsingar fyrir miðvikudaginn 20. maí.

Fréttir

Vegna greinar Félags atvinnurekenda um hækkaðan eftirlitskostnað á matvælafyrirtæki

Matís er opinbert fyrirtæki og rekur opinbera rannsóknarstofu, m.a. í varnarefnamælingum, sem þjónustar meðal annars eftirlitsaðila, þ.e. Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitafélaganna, sem taka sýni hjá matvælafyrirtækjum fyrir opinbert eftirlit. 

Matís er með takmarkað framlag frá ríkinu ásamt því að vera á samkeppnismarkaði, því er Matís óheimilt að greiða niður mæliþjónustu með opinberu fé. Félag atvinnurekenda (FA) birtir bréf á heimasíðu sinni þann 28. apríl síðastliðinn þar sem FA mótmælir gjaldskráhækkunum fyrir eftirlitsheimsóknir Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlita til matvælafyrirtækja. Í svari sínu til FA bendir Matvælastofnun á að gjaldskrá Matís hafi hækkað ásamt því að afslættir til opinberra aðila hafi verið felldir niður. Réttara er að segja að afsláttarkjör hafa verið samræmd milli allra viðskiptavina Matís og opinberir aðilar fá sömu kjör og fyrirtæki og einstaklingar á almennum markaði.

FA tekur mælingar varnarefna sem dæmi um verðhækkun og bendir á að einingarverð fyrir greiningar varnarefna hafi hækkað úr 81.760 krónum árið 2016 í 105.578 krónur fyrr á þessu ári eða um 29,1% á þessum fjórum árum. Verðskrá Matís hefur hækkað árlega í takt við hækkanir á aðföngum og launavísitölum. Síðasta verðskrárhækkun og samræming á kjörum var kynnt Matvælastofnun og öðrum opinberum eftirlitsaðilum í janúar 2020, en Matís hefur ávallt reynt að halda verðskráhækkunum í lágmarki til að gæta að þess að ekki sé verið að auka álögur á íslensk fyrirtæki. Það má hins vegar benda á að þessi hækkun sem FA tekur sem dæmi, er lægri en því sem nemur hækkun launavísitölu opinberra aðila á þessum fjórum árum. Allt frá árinu 2014 hefur Matís unnið ötullega að því að bæta við fjölda varnarefna sem skimað er fyrir til þess að gera Matvælastofnun og Heilbrigðiseftirlitum sveitafélaganna kleift að uppfylla skyldur sínar og framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Fjöldi varnarefna sem skimað er fyrir í hverju sýni er í dag töluvert meiri en árið 2016. Matís skimar fyrir 201 varnarefni í ávöxtum, grænmeti og korni, þar af 192 efni faggild, m.v. 135 varnarefni árið 2016, þar af 96 faggild.

Varðandi breytinga á afsláttum til opinberra aðila, þá bendir Matís á að þetta séu aðgerðir sem Matís hefur verið að vinna að síðan 2016, þ.e. að jafna afsláttakjör til allra sinna viðskiptavina. Í dag eru allir afslættir til viðskiptavina veltutengdir.

Fréttir

Brýnt að efla styrkja- og rann­sókn­ar­um­hverfið

„Fáir hafa lagt meira af mörk­um til rann­sókna og ný­sköp­un­ar í sjáv­ar­út­vegi en Sig­ur­jón Ara­son, yf­ir­verk­fræðing­ur Matís og pró­fess­or við Há­skóla Íslands,“ segir greinarhöfundur Morgunblaðsins í viðtali við Sigurjón í tilefni af sjötugsafmæli hans síðustu helgi.

„Styrk­leiki grein­ar­inn­ar bygg­ist á nokkr­um þátt­um, s.s. þeirri þekk­ing­ar­upp­bygg­ingu sem hef­ur átt sér stað, hve mikið er af vel menntuðu fólki í sjáv­ar­út­veg­in­um, og hvað fyr­ir­tæk­in og vís­inda­sam­fé­lagið hafa verið dug­leg að vinna sam­an. Það viðhorf er ríkj­andi inn­an grein­ar­inn­ar að það sé sam­eig­in­legt mark­mið okk­ar allra, fyr­ir hönd ís­lensks sjáv­ar­út­vegs, að slá öll­um keppi­naut­um við,“ segir Sigurjón meðal annars í greininni.

Viðtalið við Sigurjón má lesa í heild sinni hér.

IS