Fréttir

Hvernig bragðast lax sem étur skordýr?

Í dag fer fram formleg smökkun á eldislaxi í húsakynnum Matís ohf. Það sem gerir þennan lax sérstaklega áhugaverðan er að hann var alinn á fóðurblöndu sem inniheldur skordýr.

Í verkefninu Metamorphosis, sem er leitt af Birgi Erni Smárasyni hjá Matís, er unnið að því að breyta lífrænum úrgangi í verðmætt hráefni til að nýta í fiskeldisfóður. Skortur á próteinríku fóðri hefur kallað eftir nýjum lausnum til að mæta vaxandi eftirspurn iðnaðarins. Yfir helmingur allra fisktegunda er nú ræktaður með fiskeldi og er líklegt að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu 15 árum.

Rannsóknir hafa sýnt að skordýr henta mjög vel í fóðurframleiðslu fyrir fisk, en margar skordýrategundir hafa þann eiginleika að geta breytt lífrænum úrgangi í fæðu sem er rík af fitum og próteinum. Verkefnið skoðar sérstaklega þróun á nýju fóðurhráefni sem unnið er úr skordýrum sem hægt væri að nýta til að bregðast við auknum próteinskorti í Evrópu með sjálfbærum hætti.

Nú fer þessu rannsóknarverkefni senn að ljúka og það eina sem er í raun eftir er athuga hvernig eldislax sem hefur verið fóðraður með þessari nýstárlegu fóðurblöndu smakkast.

Verkefnið er styrkt af EIT Food .

Fréttir

Kortlagning hitastigs í ferskfisksvinnslu við mismunandi forkæliaðferðir

Styrmir Svavarsson mun flytja meistarafyrirlestur sinn í vélaverkfræði í Matís í dag klukkan 14:30.

Markmið verkefnisins var að skoða áhrif krapaíss og tímabundinnar kæli- og frostgeymslu á hitastig í þorski í fersk fiskvinnslu.

Ófullnægjandi hitastýring í fersks fisks kælikeðju hefur mikil áhrif á gæði afurðar. Það skiptir því miklu máli að kælikeðjan sé óslitin frá veiði til neytenda til að viðhalda gæðum. Því þarf að forkæla afurðina hratt og örugglega niður að geymsluhitastigi og viðhalda því. Hitastig afurðar, kælimiðils og vinnslusalar voru kortlögð og tvær forkælitilraunir framkvæmdar. Fyrri tilraunin gekk út á að setja þorskhnakka í ker með krapaís og sú síðari gekk út á að geyma fullunna afurð í pakkningu inn í kæli og frysti.

Niðurstöður sýndu að hitastigið í afurðinni þegar henni er pakkað var of hátt miðað við ráðlagt geymsluhitastig fersks þorsks. Forkælitilraunirnar mynduðu hitaprófíla sem sýndu áhrif kæliaðferðarinnar sem hægt væri að nota til viðmiðunar við að ná réttu hitastigi afurðarinnar. Lokaniðurstöður eru þær að með því að forkæla afurðina stöðugt niður að skilgreindu geymsluhitastigi er hægt að bæta kælikeðjuna og auka gæði afurðarinnar.

Deild: Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild.

Umsjónarkennari: Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild.

Leiðbeinendur: Björn Margeirsson, dósent við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild og rannsóknarstjóri Sæplasts / Tempra.
Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís.

Prófdómari: Gísli Kristjánssonframleiðslustjóri hjá Brim.

Hvenær: 20. janúar 2020, 14:30 til 15:30

Hvar: Matís, Vínlandsleið 12

Fréttir

Þrjú verkefni leidd af Matís hljóta styrk frá Rannsóknasjóði

Stjórn Rannsóknasjóðs hefur lokið við úthlutun styrkja til nýrra rannsókna­verkefna fyrir árið 2020.

Þrjú verkefni leidd af Matís hlutu styrki fyrir árið 2020 frá Rannsóknasjóði; tveir verkefnastyrkir og einn doktorsnemastyrkur.

Raunvísindi og Stærðfræði:

Heiti verkefnis: Dreifing arsentegunda eftir þanghlutum, sér í lagi arsenlípíða

Verkefnastjóri: Ásta Heiðrún Elísabet PétursdóttirStyrkur (þús.): 19.745 ISK

Verkfræði og tæknivísindi:

Heiti verkefnis: ThermoExplore – Lífverkfræðileg könnun á möguleikum loftháðra hitakærra örvera til framleiðslu verðmætra efna úr endurnýjanlegum lífmassa

Verkefnastjóri: Guðmundur Óli Hreggviðsson, Steinn Guðmundsson

Styrkur (þús.): 18.624 ISK

Doktorsnemastyrkur:

Heiti verkefnis: Könnun á neðanjarðarlífríki eldfjallaeyjunnar Surtseyjar

Verkefnastjóri: Pauline Anna Charlotte Bergsten

Styrkur (þús.): 6.630 ISK

Fréttir

Breyttur opnunartími á föstudögum

Frá og með 1. janúar 2020 verður opið til 15:00 á föstudögum hjá Matís.

Opnunartími mánudaga til fimmtudaga verður áfram frá 8:30 til 16:00.

Fréttir

Kynning frá laxeldisfundi aðgengileg

Í gær var fór fram vel heppnaður fyrirlestur í Matís um fyrirkomulag og áhrif laxeldis í norður-Noregi.

Kynning fundarins er aðgengileg hér.

Einnig má finna upptöku af fundinum hér.

Fréttir

Fiskolíur sem hluti af viðarvörn

Niðurstöður verkefnis sem unnið var að í Matís leiddu í ljós að fiskolíur og olíur úr uppsjávarfiski henta vel sem viðarvörn.

Árlega fellur til verulegt magn af lýsi sem aukahráefni. Við framleiðslu á fiskimjöli verður hluti framleiðslunnar að aukahráefni vegna hás sýrustigs af völdum frírra fitusýra eða ofhitunar. Við fullvinnslu á þorskalýsi falla til hundruð tonna af ónothæfu lýsi vegna framleiðslu á ómega 3 þykkni. Að auki falla til hundruð tonna af steríni vegna kaldhreinsunar á lýsi. Þessu lýsi hefur verið brennt sem eldsneyti og einnig notað til blöndunar við tjöru í malbiksgerð.

Árið 1941 byggði Tryggvi Ólafsson stofnandi Lýsis hf. sumarbústað með trépanel sem ytra byrði við Þingvelli. Notaði hann blöndu sem að meginhluta innihélt lýsi til að verja bústaðinn. Núna 75 árum síðar er ytra byrði hússins enn sem nýtt.

Markmið verkefnisins var að þróa afurð úr fiskolíum til notkunar sem hluta af hráefni í viðarvörn. Þróaðir voru vinnsluferlar til að vinna óhreint hrálýsi og uppsjávarfisk í verðmæta viðarolíu.

Niðurstöður leiddu í ljós að fiskolíur og olíur úr uppsjávarfiski henta vel sem viðarvörn. Sterín var ekki hægt að nota þar sem það fellur út við herbergishita og blandast ekki öðrum hráefnum.

Tréborð með viðarvörn.

Fréttir

Hlutverk staðbundinna matvæla í ferðaþjónustu framtíðarinnar

Matarupplifun er órjúfanlegur þáttur í lífi ferðamanna hvar sem þeir koma, hvort sem hún er megin tilgangur ferðalagsins eða ekki.

Á Norðurlöndum hefur orðið mikil vakning á þeim verðmætum sem liggja í staðbundinni matvælaframleiðslu og matargerð bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti. Að sama skapi er aukin áhersla lögð á sjálfbærni í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu þannig að jafnvægi milli vaxtar og verndar sé gætt. Í því samhengi vakna spurningar um hvernig hreyfiöfl eins og loftslagsbreytingar og neysluhegðun móta ákvarðanir sem stuðla að meiri sjálfbærni og nýsköpun í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu framtíðarinnar. Þeim spurningum mun norrænn starfshópur sem starfar undir formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni reyna að svara.

Matarauður Íslands á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins leiðir verkefnið í samvinnu við Íslenska ferðaklasann og Matís og nýtur liðsinnis íslenskra sérfræðinga. Norrænir þátttakendur í verkefninu koma frá Noregi, Danmörku, Grænlandi, Færeyjum, Finnlandi, Álandseyjum og Svíþjóð.

Nú er Kairos future fyrirtæki sem sérhæfir sig í framtíðargreiningu að safna gögnum fyrir okkur sem munu nýtast í vinnustofum sem verða haldnar bæði erlendis og hérlendis á næsta ári.

Fréttir

Hvers virði eru skynmats- og neytendafræði?

Skynmat, t.d. mat á gæðum, og neytendamál eru mikilvægur hlekkur í þeirri vinnu sem fer fram i fyrirtækjum sem framleiða og selja neytendavöru. Nordic Sensory Workshop er norræn ráðstefna sem haldin er um það bil annað hvert ár. 

Að ráðstefnunni standa sérfræðingar á sviði skynmats- og neytendarannsókna á Norðurlöndum og skiptast jafnframt á að halda ráðstefnuna. Hún verður núna haldin í Gautaborg dagana 13. og 14. maí 2020, og er það RISE (The Swedish Research Institute) sem sér um utanumhald með aðstoð frá norrænum samstarfsaðilum á Íslandi (Matís), Noregi (NOFIMA), Danmörku (Teknologisk Institut) og Finnlandi (VTT-Technical Research Centre of Finland).

Yfirskrift Nordic Sensory Workshop 2020 sem haldin verður í Gautaborg 2020, er „What is the Added Value of Sensory and Consumer Science“. Þar verður m.a. fjallað um miðlun upplýsinga sem fást úr skynmati og neytendarannsóknum. Áherslan verður á vísindalegar niðurstöður og notagildi og miðlun þeirra til iðnaðar sem og samfélagsins. Skoðuð verða dæmi um hvernig skynmat og neytendarannsóknir hafa skipt máli í rannsóknum, í vöruþróun, í sjálfbæru samfélagi, menntun o.fl.. Fagfólk og vísindafólk sem vinnur við skynmat, gæðamál og neytendamál á sviði matvæla og annarrar neytendavöru, fá þarna tækifæri til að hittast og bera saman bækur sínar. Ráðstefnan er einnig kjörin til að efla tengsl og tækifæri á norrænum slóðum.

Tveir fyrirlesarar verða frá Íslandi, en Kolbrún Sveinsdóttir, Matís, mun halda fyrirlestur á ráðstefnunni um matarvitund ungs fólks og Snorri Hreggviðsson, Margildi, mun fjalla um virði skynmats í vöruþróun.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á skráningarsíðu viðburðarins sem nálgast má hér. Frekari upplýsingar veitir Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís (kolbrun@matis.is).

Fréttir

Tvær nýjar greinar í Icelandic Agricultural Sciences

Tvær nýjar greinar voru að birtast í hefti 32/2019 alþjóðlega vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences (www.ias.is).

Fyrri greinina má nálgast hér: https://ias.is/wp-content/uploads/2019/12/IAS-2019-6-Bjorn_Gudmundur_Arngrimur_Thorsteinn_61-74.pdf

Greinin, Úrkoma, afrennsli og tap af næringarefnum af mýrartúnum á Hvanneyri, er eftir þá Björn Þorsteinsson, Guðmund Hrafn Jóhannesson, Arngrím Thorlacius og Þorstein Guðmundsson.

Greinin fjallar um magn efna í afrennslisvatni frá túnum á Hvanneyri. Helstu næringar- og áburðarefnin, köfnunarefni (N), fosfór (P), kalí (K), kalsíum (Ca), magnesíum (Mg), natríum (Na) og brennisteinn (S), voru mæld í afrennslisvatninu, auk úrkomu og rennsli. Auðleyst ammóníum, nítrat, og fosfat voru einnig mæld.

Niðurstöðurnar sýndu að mikill munur var bæði á magni og styrk efna í frárennslinu milli árstíða, þar sem mun meira afrennsli var yfir vetrarmánuðina og styrkur efna var þá einnig hærri en yfir vaxtartímann. Heildarútskolun Ca, Mg, K og Na reyndist frekar mikil en útskolun köfnunarefnisþátta og fosfórs var minni en búast mátti við með tilvísun til þess að um er að ræða áborið ræktarland á framræstri mýri.

Þetta er fyrsta rannsóknin á tapi næringarefna af ræktunarlandi á vel skilgreindu vatnasviði þar sem hægt er að gera almennilega grein fyrir afdrifum næringarefna í frárennsli skurða. Þetta er því afar mikilvægt innlegg í umræðu um tap efna í landbúnaði og hugsanlega ofauðgun í afrennsli af túnum.

Seinni greinina má nálgast hér: http://ias.is/wp-content/uploads/2019/12/IAS-2019-7-TMulloy_ICBarrio_KBjornsdottir_ISJonsdottir_DSHik_-75-85.pdf

Greinin, Áburður jafnar skammtímaáhrif sauðfjárbeitar á hálendi Íslands, er eftir þau Tara A. Mulloy, Isabel C. Barrio, Katrínu Björnsdóttur, Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur og David S. Hik.

Í greininni segir frá tilraunum á Þeistareykjum og á Auðkúluheiði þar sem áhrif sauðfjárbeitar á gróðurþekju og lífmassa gróðurs á lítt gróinu yfirborði, með því að bera saman beitta og óbeitta reiti sem ýmist voru meðhöndlaðir með áburði eða ekki. Rannsóknin var endurtekin í tveimur mismunandi búsvæðum (fjalldrapamóa og mel) á tveimur landssvæðum, innan og utan eldgosabeltisins. Sauðfjárbeit hafði ekki áhrif á gróðurþekju lítt gróins yfirborðs, en í ábornum reitum á slíku landi minnkaði beitin lífmassa plantna (aðallega grasa). Beitarálag getur aukist verulega á ábornum svæðum og vinnur það gegn uppsöfnun lífmassa. Við notkun áburðar til að stemma stigu við jarðvegseyðingu á afréttum þarf því að taka tillit til þess lífmassa sem fjarlægður er með aukinni beit.

Umræða um áhrif sauðfjárbeitar og beitarstjórnun á afréttum og á jarðvegseyðingu er mikil en þekkingu um áhrif beitar og beitarstjórnar er ábótavant. Þessi rannsókn er því mikilvægt framlag sem bæði eykur þekkingu okkar og er málefnalegt innlegg í umræðu um beitarmálin.

Ritstjórn

IAS

Fréttir

Fyrirlestur um laxeldi í Matís

Fimmtudaginn 19. desember verður fyrirlestur í húsnæði Matís að Vínlandsleið 12 Reykjavík, um fyrirkomulag og áhrif laxeldis í norður-Noregi. Fyrirlesari verður Gunnar Davíðsson sem starfar sem deildarstjóri hjá fylkisstjórn Troms fylkis í Noregi.

Troms fylki er um helmingur af stærð Íslands með um helming af íbúafjölda hérlendis. Laxeldi er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein í fylkinu, með framleiðslu upp á 190 þúsund tonn á ári.

Alls eru 10 seiðaeldisstöðvar starfræktar í Troms og 16 eldisfyrirtæki sem reka níu sláturhús og eldi á rúmlega 100 eldissvæðum. Eldisfyrirtækin kaupa vörur og þjónustu í fylkinu fyrir um 40 milljarða ISK á ári. Störf í fiskeldi í fylkinu dreifast vel um strjálbýl sveitarfélög fylkisins, sem eru 24 í dag. Um 70% vöru og þjónustu eru keypt frá fyrirtækjum í Troms og nágrannafylkinu Nordland. Eldið og þjónustan í kringum atvinnugreinina kallar á bæði verkmenntun og sérfræðiþekkingu og laðar að ungt fólk enda launin góð og starfsemin arðvæn. Fiskeldið hefur aukið aðsókn í verkmenntun og háskólanám tengt greininni og jafnframt haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustu í fylkinu.

Á fundinum verður farið yfir áhrif fiskeldis á efnahag og þróun í Troms og reynt að svara þeirri spurningu hvaða lærdóm íslendingar geta dregið af reynslu íbúa Troms fylkis. Hver er reynsla Norðmanna af laxeldi í norður-Noregi, þar sem aðstæðum svipar oft til aðstæðna á Vestfjörðum og Austfjörðum? Getur reynsla Norðmanna hjálpað til að meta áhrif laxeldis á efnahag og mannlíf fjarðarbyggða á Íslandi?

Allir sem áhuga hafa á laxeldi sem atvinnugrein og eiga heimangengt eru hvattir til að koma og hluta á upplýsandi fyrirlestur.

Fundurinn verður haldin í salarkynnum Matís á þriðju hæð kl. 15:00 til 16:30. Fundargestum verður boðið upp á hressingu meðan á fundi stendur.

Fundarstjórn verður í höndum Gunnars Þórðarsonar.

IS