Fréttir

Myndbandakeppni um plastmengun

Samnorræna verkefnið, NordMar Plastic , miðar að því að samræma aðferðir við vöktun og mælingar á plasti í umhverfinu, stuðla að fræðslu til almennings og útgáfu á kennsluefni fyrir börn og unglinga. Verkefnið auglýsir eftir myndböndum í myndbandakeppni þar sem umfjöllunarefnið er plastvandamál heimsins.

Myndböndin eiga að skoða eftirfarandi: Hvernig sé ég plastvandamálið í heiminum? – Hvaða skref eða lausnir sé ég fyrir mér að hægt sé að taka/þróa til að leysa plastvandamálið eða hluta þess? Keppnin er ætluð 13 – 19 ára, en skilafrestur er 1. desember.

Vegleg verðlaun í boði, m.a. þyrluflug og þátttaka á Arctic Plastics þar sem efstu 10 myndböndin verða sýnd. Vinsamlegast sendið myndböndin á nordmarplastic@matis.is.

Nánari upplýsingar má finna á nordmarplastic.com.

Fréttir

Bíll keyrður á eldsneyti framleiddu úr sjávarþangi

Matís er þáttakandi í verkefninu Macrofuels (H2020 #654010) sem nú er að renna sitt fjögurra ára skeið á enda. Verkefninu var ætlað að kanna fýsileika á nýtingu sjávarþangs til framleiðslu eldsneytis fyrir ökutæki og náði til allra þátta slíkrar framleiðslu: ræktunar þangs; geymslu; forvinnslu til losunar gerjanlegra sykra; gerjunar til framleiðslu líf-eldsneytis; og prófunar eldsneytis í bílvél.

Nú í nóvember var mikilvægum áfanga verkefnisins náð þegar fólksbíl var ekið á eldsneytis-blöndu sem framleidd var með gerjun sjávarþangs. Tíu lítrar af líf-etanóli, sem framleiddir voru á vegum Macrofuels, voru blandaðir 90 lítrum af bensíni og ökutæki keyrt á blöndunni um 80 km leið. Efnainnihald útblásturs var mælt og fylgst með hugsanlegum áhrifum á gang vélarinnar. Allar mælingar sýndu að eiginleikar eldsneytisins eru sambærilegir hefðbundnu eldsneyti.

Hitakærar örverur, einangraðar úr íslenskum hverum, hafa um langt skeið verið rannsakaðar hjá Matís. Fjöldi, nálægð og fjölbreytileiki íslenskra hvera er einstakur, og örverurnar sem þar finnast og ensímin sem þær framleiða eru oft aðlagaðar háu hitastigi og mjög lágu sýrustigi. Þetta eru sömu aðstæður og ríkja oft á tíðum í iðnaðar vinnslu á lífmassa og henta þær (og ensím þeirra) því mjög vel fyrir slíka nýtingu. Þáttaka Matís innan Macrofuels fólst í að þróa þessar örverur og ensím þeirra með það að markmiði að hámarka framleiðslu eldsneytis úr sjávarþangi. Sjávarþang sem nýtt var til eldsneytis framleiðslu í Macrofuels inniheldur þrennskonar sykrur (alginat, laminarin og mannitol). Gersveppur, sem alla jafna er notaður til líf-etanól framleiðslu, er einungis fær um að nýta eina þessara þriggja sykra. Matís þróaði hitakæran bakteríu-stofn sem nýtir allar þrjár sykrur þangsins, með það fyrir augum að auka heimtur við framleiðsluna til muna. Ensímin sem Matís þróaði kljúfa fjölsykrur þangs í fá- og einsykrur. Slík forvinnsla er nauðsynleg til að gerja megi sykrurnar og framleiða líf-eldsneyti.

Samanborið við aðrar tegundir lífmassa er sjávarþang mjög hentugt til framleiðslu eldsneytis. Þang vex hraðast allra plantna við norðlægar slóðir, ræktun þess keppir ekki við matarframleiðslu um ræktarland, og það inniheldur hátt hlutfall gerjanlegra sykra. Sífellt aukin áhersla er á notkun líf-eldsneytis og annarra sjálfbærra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis um allan heim. Niðurstöður Macrofuels verkefnisins benda til að hægt sé að framleiða líf-etanól úr sjávarþangi sem hefur sömu eiginleika og hefðbundið eldsneyti.

Þang vex í miklu magni á Íslandi en það er ekki hagnýtt nema að litlu leiti. Til að efla þangvinnslu á Íslandi er mikilvægt að þróa afleiddar vörur sem skapa má úr þanginu. Það kynni að leiða til aukinnar verðmætasköpunar og eflingar atvinnulífs, einkum á landsbyggð Íslands. Þróunarverkefni eins og Macrofuels og þátttaka Matís er skref í þessa átt.

Fréttir

Nýtt Matís myndband – Stuðla íslenskir þörungar að minni mengun frá kúm?

Matís er að rannsaka hvort íslenskir þörungar geti dregið úr metanlosun frá kúm í verkefninu SeaCH4NGE sem styrkt er af EIT Food. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að notkun þörunga sem hluta fóðurs getur minnkað myndun metangass frá jórturdýrum. SeaCH4NGE rannsakar fjölbreytt úrval íslenskra þörunga og hvort þeir geti minnkað metan frá kúm. Þörungarnir eru bæði rannsakaðir á rannsóknastofum m.t.t. efnainnihalds og einnig til getu þeirra til að draga úr metangas myndun. Þeir þörungar sem koma best út á rannsóknarstofum verða síðan rannsakaðir áfram í fóðurtilraun með kúm.

Ljóst er að áhrif hamfarahlýnunar eru víðtæk og alvarleg. Nýleg skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) benti á alvarlegar afleiðingar hlýnunar jarðar um 1.5°C frá iðnbyltingu samanborið við hlýnun um 2°C. Nú þegar stefnum við að lágmarki 3-4°C hlýnunar jarðar árið 2100 – en meðaltals hitamunur í dag og á tímum ísaldar er einmitt u.þ.b. 4°C. Í því samhengi er ljóst að slík hækkun á hitastigi jarðar myndi kollvarpa vistkerfum.

Tíðrætt er um kjöt og mjólkurvörur í þessu samhengi. Ástæðan er sú að kýr losa metangas við jórtrun en metan er mjög sterk gróðurhúsalofttegund og er 28x áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Vegna gríðarlegs fjölda af kúm á heimsvísu spilar þessi metanlosun stóran þátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði sem er tæpur fjórðungur losunar af mannavöldum.

Nauðsynlegt er að bregðast við. Breytingar á matarvenjum, landbúnaðarkerfum, stefnum og löggjöfum auk minnkunar á matarsóun eru m.a. mikilvægar aðgerðir til að bregðast við. Engin töfralausn er á vandamálinu og alltaf þarf að hafa í huga heildræna nálgun. SeaCH4NGE stefnir að því vera einn hlekkur í átt að jákvæðum breytingum í landbúnaði m.t.t. umhverfismála.

Hér fyrir neðan er myndband á ensku sem er stutt samantekt um verkefnið og ávinning þess.

Fréttir

Korn fyrir framtíðina

Í Landanum á RÚV var nýlega fjallað um kornrækt í Skagafirði. Upplýsingar frá Matís um möguleika kornsins til matvæla- og fóðurframleiðslu komu þar við sögu. Kornrækt á Íslandi gæti orðið mjög mikilvæg í framtíðinni ef fram fer sem horfir að loftslagsbreytingar geri kornframleiðslu erfiða á suðlægum slóðum og verðið á korni hækki. Þá mun þurfa að auka sjálfbærni með því að framleiða meira af matvælum og fóðri innanlands.

Starfsemi Matís felst m.a. í því að horfa til framtíðarþarfa atvinnulífs og almennings á matvælasviðinu. Þegar litið er til korns hefur Matís unnið náið með bændum og fyrirtækjum í íslenskum, norrænum og Norðurslóðaverkefnum. Árangurinn er aukin þekking í atvinnulífinu, leiðbeiningar og verklýsingar sem eru tilbúnar þegar þörf verður á því að auka innlenda framleiðslu. Leiðbeiningarnar hafa verið gerðar aðgengilegar hér.

Í fræðigrein hefur verið fjallað um áhrifhlýnunar á möguleika byggræktar.

Umfjöllun landans um kornrækt í Skagafirði ognýtingu til innlendrar matvælaframleiðslu (hefst á 1:30).

Fréttir

Framleiðsla nýrra próteina úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum

NextGenProteins er verkefni til 4ja ára og standa að því 21 samstarfsaðilar frá 10 Evrópulöndum, þar af fjórir þátttakendur frá Íslandi.

Matís ohf. leiðir nýtt evrópskt rannsóknaverkefni, NextGenProteins, þar sem þróa á næstu kynslóðir af matvæla- og fóðurpróteinum með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Verkefnið er liður í þeirri umbyltingu sem þarf að eiga sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum á komandi árum til að fullnægja aukinni próteinþörf heimsins á sem umhverfisvænstan máta. Verkefnið hlaut yfir milljarð íslenskra króna í styrk úr evrópsku rannsóknaáætluninni Horizon 2020 fyrr á þessu ári og er nú að hefjast.

Aðgengi að hágæða, sjálfbært framleiddum próteinum verður sífellt takmarkaðra vegna fólksfjölgunar, aukins þrýstings á náttúruauðlindir og loftslagsbreytinga. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir próteini á heimsvísu aldrei verið meiri. Til að mæta aukinni eftirspurn verður núverandi próteinframleiðsla að tvöfaldast fyrir árið 2050. Evrópa er ekki sjálfbær þegar kemur að próteinframleiðslu, en 70-80% af fóðurpróteinum álfunnar er innflutt, að mestu frá Suður-Ameríku. Þessi staðreynd hefur beint sjónum að fæðuöryggi og almennri samkeppnishæfni Evrópu.

Mikil þörf á sjálfbærum próteingjöfum

Neikvæð áhrif próteinframleiðslu nútímans eru að mestu leyti tengd verksmiðjubúskap sem orsakar víðtæka losun gróðurhúsalofttegunda, óhóflegri notkun lands og vatns, sem og tap á líffræðilegum fjölbreytileika. Til þess að mæta áætlaðri framtíðareftirspurn eftir próteini munu núverandi framleiðsluaðferðir setja aukinn þrýsting á auðlindir heimsins og leiða til frekari losunar gróðurhúsalofttegunda. Það er því afar mikilvægt að finna og þróa sjálfbæra próteingjafa sem hægt er að framleiða í magni sem mætir vaxandi eftirspurn matvæla- og fóðuriðnaðarins.

NextGenProteins mun þróa framleiðslu þriggja nýrra próteina úr örþörungum, skordýrum og einfrumungum og sannreyna notagildi þeirra í ýmsum matvælum og dýrafóðri. Mikilvægur þáttur við prófanir er að mæta þörfum viðskiptavina og efla traust þeirra á nýjum próteinum. Með því að sýna fram á notagildi næstu kynslóðar próteina – sem framleidd eru með minna álagi á náttúruauðlindir og minni umhverfisáhrifum – í matvæli og fóður og efnahagslega hagkvæmni þeirra, mun verkefnið verða liður í að styrkja matvælaöryggi og sjálfbærni próteinframleiðslu í Evrópu.

Fréttir

Skráning á Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki lýkur í dag

Askurinn 2019

Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki, Askurinn 2019, fer fram í nóvember. Skráningu líkur í dag, 4. nóvember, og keppendur skila keppnisvörum til Matís 19. nóvember. Dómarastörf og fagleg úttekt á keppnisvörunum fer fram hjá Matís dagana 20.-21. nóvember. Úrslit keppninnar og verðlaunaafhending verður tilkynnt á Matarhátíð á Hvanneyri 23. nóvember kl 14:00. Að keppninni standa Matís ohf í samstarfi við Matarauð Íslands. Samstarfsaðilar við verðlaunaafhendingu eru Sóknaráætlun Vesturlands, Markaðsstofu Vesturlands, Landbúnaðarháskóla Íslands.

Keppni í matarhandverki er fyrir framleiðendur matarhandverks að sænskri fyrirmynd, Svenska Mästerskapen i Mathantverk. einnig kölluð Særimner, hefur verið haldin árlega, við góðan orðstír frá 1998 af Eldrimner sem er sænska landsmiðstöðin fyrir matarhandverk. Keppnin felur í sér að framleiðendur fá faglegt mat á gæði vörunnar og eru verðlaun, Askurinn, veitt fyrir þær vörur er þykja skara fram úr. Vinningshafar fá viðurkenningarskjal og leyfi til að merkja vinningsvörurnar með viðeigandi límmiða, gull-, silfur eða brons askur, þar sem á er merki keppninnar ásamt ártali. Heimilt er að nota þær merkingar á verðlaunavörur fram að næstu keppni. Gullverðlaunahafi er jafnframt Íslandsmeistari í viðkomandi flokki.

Keppni í matarhandverki var haldin í fyrsta sinn haustið 2014 í samstarfi Matís og Ný norræn matvæli (Ny Nordis Mad). Keppnin tókst mjög vel, 110 vörur tóku þátt í 8 matvöruflokkum frá öllum Norðurlöndunum. Vinningshafar fengu góða fjölmiðlaumfjöllun og eru sumir hverjir ennþá að nýta sér þessa viðurkenningu í markaðsstarfi sínu.

Hvað er matarhandverk?

Matarhandverk snýst um að skapa vörur þar sem lögð er áhersla á einstakt bragð, gæði og ekki síst ímynd, sem iðnaður getur ekki búið til. Áherslan er á að nota staðbundin hráefni, framleiðslu í litlu magni sem er oft svæðisbundin. Matarhandverksvörur eru heilnæmar, án óþarfra aukaefna og vörur sem hægt er að rekja til upprunans. Aðalsmerki matarhandverks er að nota það hráefni, mannafla og verkkunnáttu sem fyrirfinnst á staðnum, í gegnum alla framleiðslukeðjuna. Í matarhandverki er lögð áhersla á að þróa hefðbundnar vörur fyrir neytendur dagsins í dag.

Fréttir

Saltfiskmáltíð á Selfossi varð að ferð til Barcelona

Fjölmargir Íslendingar, um allt land, nýttu tækifærið í Saltfiskvikunni, sem blásið var til fyrr í haust, og smökkuðu þessa einstöku afurða sem á sér svo marga aðdáendur víðsvegar um heim. Viðskiptavinir sem pöntuðu sér saltfiskrétt á einhverjum þeirra veitingastaða sem þátt tóku í átakinu voru sérstaklega hvattir til að birta mynd á Instagram, merkta myllumerkinu #saltfiskvika, en með því komust þeir í verðlaunapott sem dregið yrði úr.

Einn heppinn þátttakandi var dreginn út að vikunni aflokinni en í verðlaun var ferð fyrir tvo til Barcelona. Sú heppna varð Jóna Dóra Jónsdóttir á Selfossi en hún hafði snætt saltfisk á veitingastaðnum Riverside á Hótel Selfossi. Auk ferðar til Barcelona fyrir tvo fær hún einnig saltfiskveislu fyrir tvo á veitingastaðnum La Gourmanda þar í borg en það er einmitt veitingastaður Carlotu Claver sem var ein erlendu gestakokkanna á Saltfiskvikunni.

Meistarakokkurinn Carlota Claver

Heilt yfir tókst Saltfiskvikan afar vel og nú þegar eru upp áform um að endurtaka leikinn næsta haust. Þegar spurt var sögðust langflestir forsvarsmanna þeirra ríflega 20 veitingastaða og mötuneyta sem þátt tóku í ár ánægðir með framtakið, sögðu m.a. að það skemmtileg tilbreyting auk þess að hafa góð áhrif á fjölbreytni og sköpunargleði á vinnustaðnum. Þá var einnig nefnt hve mikilvægt væri að kynna hráefnið ekta saltfisk fyrir bæði Íslendingum sem og erlendum ferðamönnum.

Ljóst er að saltfiskurinn á enn mikinn hljómgrunn hjá landanum sem og gestum hans – þótt mögulega hafi þessi dýrmæta útflutningsvara látið helst til of lítið fyrir sér fara á heimaslóð undanfarin ár. Verður að teljast fullt tilefni til að blása aftur til Saltfiskviku honum til heiðurs að ári.

Að Saltfiskvikunni stóðu Matís, Íslandsstofa, Kokkalandsliðið og Félag íslenskra saltfiskframleiðenda.

Fréttir

Aukum matarvitund næstu kynslóðar

Matís tekur þátt í Evrópsku samstarfsverkefninu „WeValueFood“ sem hefur það markmið að styðja við fæðuhagkerfi Evrópu með því að fræða og efla næstu kynslóð neytenda með aukinni þekkingu, áhuga og þátttöku í matartengdum málefnum. 

Nú í byrjun Desember verður haldin ráðstefna á vegum „WeValueFood“ í Warsaw í Póllandi. Þar verður fjallað um hvernig hægt er að efla þátttöku, áhuga og þekkingu næstu kynslóðar í matarvitund, þar sem áhersla verður meðal annars lögð á nýjustu rannsóknir á þessu sviði, hlutverk samfélagsmiðla og bætt samskipti matvælaiðnaðar við næstu kynslóð neytenda.
Nánari upplýsingar smá sjá í meðfylgjandi auglýsingu og skráning á ráðstefnuna fer fram hér fyrir 7 nóvember 2019.

WeValueFood er hluti af og styrkt af EIT Food, stóru Evrópsku þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi um matvæli sem ætlar að umbreyta umhverfi matvælaframleiðslu, vinnslu og neyslu með því að tengja neytendur við fyrirtæki, frumkvöðla, vísindafólk og nemendur alls staðar í Evrópu. EIT Food styður nýjar, sjálfbærar og hagkvæmar lausnir til að bæta heilsu neytenda og til að tryggja aðgang að öruggum hágæða mat sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið.

Auglýsingin í PDF

Fréttir

Ráðstefna um neyslubreytingar og matvælaframleiðslu

þriðjudaginn 5. nóvember kl. 13.00-16.00 á Hótel Sögu.

Matvælalandið Ísland og Landbúnaðarklasinn standa fyrir ráðstefnu á Hótel Sögu um neyslubreytingar og áhrif þeirra á matvælaframleiðslu þriðjudaginn 5. nóvember næstkomandi. Fyrirlesarar koma úr ýmsum áttum en munu allir fjalla um það hvernig breytingar á neysluhegðun almennings og tæknibreytingar munu snerta matvælageirann í nánustu framtíð.

Dagskrá kl. 13.00:

  • Hvað segja kannanir um neysluhegðun Íslendinga?
    Friðrik Björnsson, viðskiptastjóri hjá Gallup
  • Sjálfbærnivæðing matvælakerfisins og tækifæri Íslands
    Sigurður H. Markússon, Landsvirkjun/University of Cambridge
  • Challenges and Opportunities in the AgriFood Sector
    Marit Sommerfelt Valseth, ráðgjafi hjá frá Innovasjon Norge
  • Hvað er handan við hornið?
    Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands

Hlé

  • Hvað vilja viðskiptavinir á morgun?
    Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar
  • Matarvitund og þekking: hinn upplýsti neytandi eða áhrifavaldar sem ráða för?
    Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands
  • Matarsporið – kolefnisreiknir fyrir máltíðir
    Helga Jóhanna Bjarnadóttir, sviðsstjóri hjá Eflu verkfræðistofu
  • Landnýting og breytt framtíð
    Árni Bragason, forstjóri Landgræðslunnar
  • Má bjóða þér kakkalakkamjólk?
    Elín M. Stefánsdóttir, stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar

Fundarstjóri: Finnbogi Magnússon, formaður Landbúnaðarklasans

Staður: Katla, Hótel Sögu, þriðjudagur 5. nóv. kl. 13.00-16.00

Landbúnaðarklasinn er samstarfsnet þeirra sem starfa í landbúnaði og tengdum greinum.

Matvælalandið Ísland er samstarfsvettvangur aðila sem starfa í matvælageiranum. Innan þess eru Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Íslandsstofa, Matís, Samtök ferðaþjónustunnar, Háskóli Íslands og Matarauður Íslands.

Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis og skráning fer fram hér.

Fréttir

Viggó Þór Marteinsson hefur hlotið framgang í stöðu prófessors við Matvæla- og næringarfræðideild

Af því tilefni bjóðum við til viðburðar þar sem fjallað verður um feril Viggós Þórs en rannsóknir hans hafa einkum beinst að mismunandi búsvæðum örvera; hvaða örverur eru til staðar, hvaðan þær koma, hvað þær eru að gera og hvernig.

Þessi búsvæði spanna allt frá umhverfi í tengslum við matvæli eins og t.d. við eldi fiska og dýra, vinnsluumhverfi þeirra, áhrif örvera á matvæli og matvælaöryggi, til jaðarumhverfis (extreme environment), þar sem ekkert líf þrífst nema örverur. Dæmi um slík jaðarbúsvæði eru til dæmis sjávar- og landhverir, neðanjarðarlífríki og vötn undir íshellum jökla. Rannsóknir Viggós hafa snúist um bæði grunn- og hagnýtar rannsóknir.

Prófessorsfyrirlesturinn verður haldinn miðvikudaginn 6. nóvember kl. 15 í Læknagarði í stofu 201. Eftir fyrirlesturinn verður boðið upp á veitingar á 4. hæð Læknagarðs. Allir velkomnir. 

IS