Örverudeild Matís ohf biðlar til viðskiptavina sinna að takmarka sýnatöku þessa vikuna vegna mikils álags á deildinni vegna rannsókna á upptökum hópsýkingar af völdum Shiga-toxin myndandi E.coli (STEC) sbr. fréttatilkynningu landlæknis. Tekið er að sjálfsögðu á móti öllum forgangssýnum og nauðsynlegum sýnum til að viðhalda eðlilegri vinnslu og virkni fyrirtækja.
Frá árinu 2015 hefur rannsóknastofa Matís verið tilvísunarrannsóknastofa fyrir STEC og hefur unnið að uppbyggingu á sérfræðiþekkingu og mæligetu hérlendis. Í gegnum netverk tilvísunarrannsóknarstofa Evrópu tekur Matís þátt í alþjóðlegu samstarfi við að þróa aðferðir, meta útbreiðslu og efla þekkingu á STEC í matvælum, umhverfi og sjúklingum. Matís býður upp á greiningar á STEC, bæði grunngreiningar ásamt heilraðgreiningu jákvæðra sýna til að rekja uppruna sýkingar.
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir samning um að hefja samstarf í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi, sem er ein stærsta ógn við lýðheilsu í heiminum í dag.
Undirskriftin fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands í gær en Matís hefur unnið að undirbúningi samstarfsverkefnisins með Matvælastofnun, Keldum, Sýklafræðideild Landspítalans, EFSA og DTU Fødevareinstituttet í Danmörku.
Verkefnið felur í sér rannsóknir á sýklalyfjaónæmi í bakteríum (E. coli) á Íslandi með heilraðgreiningu á erfðaefni þeirra. Vonast er til að niðurstöðurnar varpi ljósi á uppruna baktería með getu til að mynda sýklalyfjaónæmi (ESBL/AmpC myndandi E. coli) og greina þátt matvæla, dýra, manna og umhverfis í útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Niðurstöðurnar munu nýtast til að útbúa viðbragðsáætlanir til að viðhalda lágu hlutfalli sýklalyfjaónæmis eða að hægja á þróun/aukningu ónæmis eins og hægt er.Verkefnið er unnið undir formerkjum “One Health”, sem er alþjóðleg stefna ætluð auknu þverfaglegu samstarfi og samskiptum á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu fyrir menn, dýr og fyrir umhverfið.
Þann 4. júlí síðastliðinn var greint frá því, að fjögur börn hafi greinst með alvarlega sýkingu af völdum E. coli bakteríu. Nú hafa sex börn á aldrinum 20 mánaða–12 ára greinst til viðbótar og eru tilfellin því alls tíu. Þessi sex börn eru ekki alvarlega veik en verða undir eftirliti á Barnaspítala Hringsins næstu daga. Börnin sem greindust í síðustu viku eru á batavegi.
Nú virðist ljóst að níu af börnunum smituðust á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í Bláskógabyggð fyrir 10 dögum til þremur vikum síðan en eitt barn smitaðist að öllum líkindum af systkini sínu. Rannsóknir hafa sýnt að E. coli bakterían sem sýkti börnin finnst einnig í hægðasýni frá kálfum á staðnum. Ekki er vitað með vissu hvernig smitið barst í börnin en frekari rannsóknir á hugsanlegum smitleiðum á staðnum standa enn yfir. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun gripu til viðeigandi ráðstafana þann 4. júlí síðastliðinn í góðri samvinnu við staðarhaldara til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu bakteríunnar.
Rétt er að árétta að ekki er talið að smit hafi átt sér stað með vatni í Bláskógabyggð og ekkert bendir til að smitið eigi uppruna sinn annars staðar í sveitinni.
Einstaklingar sem heimsóttu ferðaþjónustuna á síðastliðnum tveimur vikum og fengu niðurgang innan 10 daga frá heimsókninni eru hvattir til að leita til síns læknis varðandi nánari greiningu. Einkennalausir einstaklingar sem heimsótt hafa Efstadal 2 þurfa ekki að leita læknis né heldur einstaklingar sem fengið hafa niðurgang sem nú er genginn yfir.
Allir aðilar sem að þessu máli hafa komið vilja ítreka að litið er á þessa sýkingahrinu af völdum E. coli mjög alvarlegum augum og hafa allir lagt sig fram um að upplýsa þetta mál og gripið til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara smit. Þessi atburður gefur einnig tilefni til að árétta mikilvægi almenns hreinlætis og handþvottar við meðhöndlun matvæla og eftir umgengni við dýr, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.
Sóttvarnalæknir Matvælastofnun Heilbrigðiseftirlit Suðurlands Matís Sýkla- og veirufræðideild Landspítala
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skipað Hrönn Ólínu Jörundsdóttur, sviðsstjóra hjá Matís, sem formann áhættumatsnefndar.
Hlutverk nefndarinnar er að veita og hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats vegna matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru.
Skipan nefndarinnar er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda sem miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Skipanin er í samræmi við matvælalög og lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
Áhættumatsnefndina skipa:
Hrönn Ólína Jörundsdóttir formaður, tilnefnd af Matís
Jóhannes Sveinbjörnsson, tilnefndur af Landbúnaðarháskóla Íslands
Charlotta Oddsdóttir, tilnefnd af Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum
Þórhallur Ingi Halldórsson, tilnefndur af Háskóla Íslands, næringarfræðideild
Kamilla S. Jósefsdóttir, tilnefnd af Landlæknisembættinu, sóttvarnalækni
Rafn Benediktsson, tilnefndur af Háskóla Íslands, heilbrigðisvísindasviði.
Í síðustu viku birtist viðtal við Hörð G. Kristinsson, rannsóknar- og nýsköpunarstjóra hjá Matís, í 200 mílum á mbl.is. Þar talar hann um rannsóknir í sjávarútvegi og mikilvægi þeirra. Hann segir að Íslendingar séu enn að mörgu leyti í fararbroddi þegar kemur að slíkum rannsóknum en hætta sé á að Ísland dragist aftur úr ef ekki verði aukið við fjármagn í rannsóknir og þróun.
„Við höfum áhyggjur af því að ef við fáum ekki meiri innspýtingu í rannsóknir og þróun eigum við eftir að missa það forskot sem við höfum á aðrar þjóðir, sem margar hafa sett aukið fjármagn í slíkar rannsóknir á meðan það er ákveðin stöðnun í gangi hér núna,“ segir Hörður.
Ný aðferðafræði í verndunarlíffræði notast við umhverfis DNA (environmental eDNA) til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika í vistkerfum. Þessi tækni hjálpar við að komast fyrir ýmsa af þeim annmökum sem fylgir öðrum aðferðum og býður upp á fljótlega og ódýra leið til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu.
Uppruni eDNA í hafinu er ýmiskonar en venjulega kemur DNA-ið frá lífverunum úr húðfrumum, slími, hrognum, hlandi eða saur. Sjó er safnað á misunandi dýpi á þeim svæðum sem eru til rannsókna og er sjórinn svo síaður. Í síunni verður eftir DNA úr lífverum sem hægt er að greina með raðgreiningartækni. Vöktun á líffræðilegum fjölbreytileika með umhverfis DNA hefur marga kosti umfram aðrar aðferðir og hefur aðferðin reynst vel við mat á líffræðilegum fjölbreytileika í mörgum vistkerfum.
Á ráðstefnunni munu íslenskir og erlendir sérfræðingar kynna rannsóknir sýnar og ræða um aðferðir til notkunar á umhverfis DNA til mælinga og vöktunar á líffræðilegum fjölbreytileika.
Opnuð hefur verið vefsíða um ráðstefnuna með upplýsingum um fyrirhugaða fyrirlestra og fyrirlesara.
Ráðstefnan verður haldin í fundarsal Hafrannsóknastofnunar 2. til 3. október 2019 og er opin. Skráning er forsenda þátttöku.
Ráðstefnan er styrkt af Ag-Fisk og skipulögð af Davíð Gíslasyni á Matís og Christopher Pampoulie á Hafrannsóknastofnun.
Nemendur í Háskóla unga fólksins heimsóttu Matís þann 13. júní á þemadögum. Yfirskrift dagsins var „Matur í geimnum“ og um kennslu sáu Sævar Helgi Bragason, þáttagerðarmaður og margverðlaunaður vísindamiðlari, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur á sviði rannsókna og nýsköpunar hjá Matís. Alls tóku þátt 24 nemendur á aldrinum 12-15 ára.
Námskeiðið var samsett af fræðslu um sögu geimferða, matar og hringrás matar í geimnum, skynfærin okkar og hvernig skynjun breytist í geimnum, næringu mannsins í geimnum og matarmenningu. Inn í fræðsluna voru tvinnaðar verklegar æfingar með skynjun og mat: lykt, bragð, útlit, hljóð og áferð, sem og samspil skynfæranna og hvernig skynjun í geimnum er ólík því sem við upplifum á jörðu niðri. Jafnframt fengu nemendur að kynnast rannsóknum á örplasti, örveru- og erfðarannsóknum sem gerðar eru á Matís, allt samtvinnað lífi í geimnum.
Aðkoma Matís að verkefninu var í gegnum verkefnið WeValueFood sem Matís tekur þátt í ásamt 13 öðrum háskólum og stofnunum í Evrópu næstu misserin. WeValueFood hefur það að markmiði að styðja við fæðuhagkerfi Evrópu með því að fræða og efla næstu kynslóð neytenda í þekkingu, áhuga og þátttöku í matartengdum málefnum. Hluti af því er að kynna og fræða ungt fólk um mat og vekja athygli þeirra á málinu með nýjum nálgunum og frá öðrum sjónarhornum. Matur í geimnum er mjög áhugaverð nálgun á matartengd málefni og nemendur voru mjög áhugasamir um tengingu matar, næringar og geims.
Nemendur fengu að smakka frostþurrkaðan fisk, epli og banana.
WeValueFood er hluti og styrkt af EIT Food, stóru Evrópsku þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi um matvæli sem ætlar að umbreyta umhverfi matvælaframleiðslu, vinnslu og neyslu með því að tengja neytendur við fyrirtæki, frumkvöðla, vísindafólk og nemendur alls staðar í Evrópu. EIT Food styður nýjar, sjálfbærar og hagkvæmar lausnir til að bæta heilsu neytenda og til að tryggja aðgang að öruggum hágæða mat sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið.
Á morgun, föstudaginn 21. júní, mun Matís halda hádegisfund með fulltrúum fyrirtækja í veiðum og vinnslu sjávarafurða í Vestmannaeyjum. Markmið fundarins er að kanna hug heimamanna á framtíðarstarfsemi Matís í Eyjum.
Mikilvægt er að fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja og aðrir matvælaframleiðendur mæti á fundinn, fræðist um starfsemi Matís og taki þátt í að móta starfsemi starfsstöðvar í Eyjum og hvaða áherslur ættu að vera í starfseminni.
Starfsstöð Matís hefur verið ómönnuð frá síðustu mánaðarmótum, þegar sérfræðingur Matís skipti um starfsvettvang. Úr þessu vil Matís bæta hið snarasta.
Matís hefur hug á að efla tengsl við atvinnulífið og öðlast betri skilning á þörfum sjávarútvegsins og annarrar matvælaframleiðslu í Vestmannaeyjum. Til þess er fundurinn haldinn.
Fundurinn verður haldinn í Þekkingarsetri Vestmannaeyja og byrjar hann stundvíslega kl. 12:00 Húsið opnar kl. 11:45 og verður boðið upp á veitingar. Fundi verður lokið fyrir kl. 13:00.
Nauðsynlegt er að tryggja að matvæli, óháð uppruna, ógni ekki heilsu neytenda eins og skýrt er sett fram í lögum um matvæli, hvort sem um er að ræða efna- eða örveruáhættur. Skipulögð sýnataka og faggildar mælingar hafa óyggjandi niðurstöður.
Matvælastofnun birti á heimasíðu sinni skýrslu sem fjallar um skimun á sjúkdómsvaldandi bakteríum í kjöti á markaði 2018. Matís tók þátt í rannsókninni og framkvæmdi mælingar á Shiga-toxín myndandi E.coli (STEC) eins og kemur fram í skýrslunni, ásamt aðstoð við túlkun gagna og framsetningu.
Frá árinu 2015 hefur rannsóknastofa Matís verið tilvísunarrannsókastofa fyrir STEC og hefur unnið að uppbyggingu á sérfræðiþekkingu og mæligetu hérlendis. Í gegnum netverk tilvísunarrannsóknarstofa Evrópu tekur Matís þátt í alþjóðlegu samstarfi við að þróa aðferðir, meta útbreiðslu og efla þekkingu á STEC í matvælum.
Rannsókn Matvælastofnunar sem Matís tók þátt í er fyrst sinnar tegundar hérlendis og er hluti í að skoða algengi STEC í matvælum og dýrum og meta stöðu STEC á íslenskum markaði. Einnig er verkefnið mikilvægur þáttur í að undirbúa rannsóknastofuna í að takast á við faraldra af völdum STEC. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að þessi eiturmyndandi E. coli tegund er til staðar í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum.
Í dag hefur Matís rannsakað 369 STEC sýni. Aðallega er um að ræða sýni úr rannsóknaverkefnum en hluti af sýnunum koma vegna gruns um matarsýkingu og hluti frá einkaaðilum vegna reglubundins gæðaeftirlits. Eins og kemur fram í fréttatilkynningu Matvælastofnunar þá getur STEC valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur. Nýrnaskaði eða svokallað HUS (Hemolytic Urea Syndrome) er alvarlegasta sjúkdómseinkenni STEC smits. Smitleiðir eru með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við smituð dýr, eða umhverfi við mengaðan saur smitaðra dýra.
Við notum vafrakökur til að tryggja almenna virkni, mæla umferð og tryggja bestu mögulegu upplifun notenda á matis.is.
Functional
Alltaf virkur
The technical storage or access is strictly necessary for the legitimate purpose of enabling the use of a specific service explicitly requested by the subscriber or user, or for the sole purpose of carrying out the transmission of a communication over an electronic communications network.
Preferences
The technical storage or access is necessary for the legitimate purpose of storing preferences that are not requested by the subscriber or user.
Statistics
The technical storage or access that is used exclusively for statistical purposes.The technical storage or access that is used exclusively for anonymous statistical purposes. Without a subpoena, voluntary compliance on the part of your Internet Service Provider, or additional records from a third party, information stored or retrieved for this purpose alone cannot usually be used to identify you.
Marketing
The technical storage or access is required to create user profiles to send advertising, or to track the user on a website or across several websites for similar marketing purposes.