Fréttir

Vöktun líffræðilegs fjölbreytileika með umhverfis DNA – Opið fyrir skráningu

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Ný aðferðafræði í verndunarlíffræði notast við umhverfis DNA (environmental eDNA) til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika í vistkerfum. Þessi tækni hjálpar við að komast fyrir ýmsa af þeim annmökum sem fylgir öðrum aðferðum og býður upp á fljótlega og ódýra leið til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu. 

Uppruni eDNA í hafinu er ýmiskonar en venjulega kemur DNA-ið frá lífverunum úr húðfrumum, slími, hrognum, hlandi eða saur. Sjó er safnað á misunandi dýpi á þeim svæðum sem eru til rannsókna og er sjórinn svo síaður. Í síunni verður eftir DNA úr lífverum sem hægt er að greina með raðgreiningartækni. Vöktun á líffræðilegum fjölbreytileika með umhverfis DNA hefur marga kosti umfram aðrar aðferðir og hefur aðferðin reynst vel við mat á líffræðilegum fjölbreytileika í mörgum vistkerfum.

Á ráðstefnunni munu íslenskir og erlendir sérfræðingar kynna rannsóknir sýnar og ræða um aðferðir til notkunar á umhverfis DNA til mælinga og vöktunar á líffræðilegum fjölbreytileika.

Opnuð hefur verið vefsíða um ráðstefnuna með upplýsingum um fyrirhugaða fyrirlestra og fyrirlesara.

Ráðstefnan verður haldin í fundarsal Hafrannsóknastofnunar 2. til 3. október 2019 og er opin. Skráning er forsenda þátttöku.

Ráðstefnan er styrkt af Ag-Fisk og skipulögð af Davíð Gíslasyni á Matís og Christopher Pampoulie á Hafrannsóknastofnun.

Fréttir

Hvernig bragðast matur í geimnum?

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Nemendur í Háskóla unga fólksins heimsóttu Matís þann 13. júní á þemadögum. Yfirskrift dagsins var „Matur í geimnum“ og um kennslu sáu Sævar Helgi Bragason, þáttagerðarmaður og margverðlaunaður vísindamiðlari, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur á sviði rannsókna og nýsköpunar hjá Matís. Alls tóku þátt 24 nemendur á aldrinum 12-15 ára. 

Námskeiðið var samsett af fræðslu um sögu geimferða, matar og hringrás matar í geimnum, skynfærin okkar og hvernig skynjun breytist í geimnum, næringu mannsins í geimnum og matarmenningu. Inn í fræðsluna voru tvinnaðar verklegar æfingar með skynjun og mat: lykt, bragð, útlit, hljóð og áferð, sem og samspil skynfæranna og hvernig skynjun í geimnum er ólík því sem við upplifum á jörðu niðri. Jafnframt fengu nemendur að kynnast rannsóknum á örplasti, örveru- og erfðarannsóknum sem gerðar eru á Matís, allt samtvinnað lífi í geimnum.

Aðkoma Matís að verkefninu var í gegnum verkefnið WeValueFood sem Matís tekur þátt í ásamt 13 öðrum háskólum og stofnunum í Evrópu næstu misserin. WeValueFood hefur það að markmiði að styðja við fæðuhagkerfi Evrópu með því að fræða og efla næstu kynslóð neytenda í þekkingu, áhuga og þátttöku í matartengdum málefnum. Hluti af því er að kynna og fræða ungt fólk um mat og vekja athygli þeirra á málinu með nýjum nálgunum og frá öðrum sjónarhornum. Matur í geimnum er mjög áhugaverð nálgun á matartengd málefni og nemendur voru mjög áhugasamir um tengingu matar, næringar og geims.

Nemendur fengu að smakka frostþurrkaðan fisk, epli og banana.

WeValueFood er hluti og styrkt af EIT Food, stóru Evrópsku þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi um matvæli sem ætlar að umbreyta umhverfi matvælaframleiðslu, vinnslu og neyslu með því að tengja neytendur við fyrirtæki, frumkvöðla, vísindafólk og nemendur alls staðar í Evrópu. EIT Food styður nýjar, sjálfbærar og hagkvæmar lausnir til að bæta heilsu neytenda og til að tryggja aðgang að öruggum hágæða mat sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið. 

Fréttir

Matís og framtíð starfsstöðvar í Vestmannaeyjum

Hvað vilja Eyjamenn?

Á morgun, föstudaginn 21. júní, mun Matís halda hádegisfund með fulltrúum fyrirtækja í veiðum og vinnslu sjávarafurða í Vestmannaeyjum. Markmið fundarins er að kanna hug heimamanna á framtíðarstarfsemi Matís í Eyjum.

Mikilvægt er að fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja og aðrir matvælaframleiðendur mæti á fundinn, fræðist um starfsemi Matís og taki þátt í að móta starfsemi starfsstöðvar í Eyjum og hvaða áherslur ættu að vera í starfseminni.

Starfsstöð Matís hefur verið ómönnuð frá síðustu mánaðarmótum, þegar sérfræðingur Matís skipti um starfsvettvang. Úr þessu vil Matís bæta hið snarasta.

Matís hefur hug á að efla tengsl við atvinnulífið og öðlast betri skilning á þörfum sjávarútvegsins og annarrar matvælaframleiðslu í Vestmannaeyjum. Til þess er fundurinn haldinn.

Fundurinn verður haldinn í Þekkingarsetri Vestmannaeyja og byrjar hann stundvíslega kl. 12:00 Húsið opnar kl. 11:45 og verður boðið upp á veitingar. Fundi verður lokið fyrir kl. 13:00.

Það þarf ekki að skrá sig á fundinn, nóg að mæta.

Fréttir

Mælingar á STEC í kjöti á innanlandsmarkaði m.t.t. matvælaöryggis

Tengiliður

Hrólfur Sigurðsson

Verkefnastjóri

hrolfur@matis.is

Nauðsynlegt er að tryggja að matvæli, óháð uppruna, ógni ekki heilsu neytenda eins og skýrt er sett fram í lögum um matvæli, hvort sem um er að ræða efna- eða örveruáhættur. Skipulögð sýnataka og faggildar mælingar hafa óyggjandi niðurstöður. 

Matvælastofnun birti á heimasíðu sinni skýrslu sem fjallar um skimun á sjúkdómsvaldandi bakteríum í kjöti á markaði 2018. Matís tók þátt í rannsókninni og framkvæmdi mælingar á Shiga-toxín myndandi E.coli (STEC) eins og kemur fram í skýrslunni, ásamt aðstoð við túlkun gagna og framsetningu.

Frá árinu 2015 hefur rannsóknastofa Matís verið tilvísunarrannsókastofa fyrir STEC og hefur unnið að uppbyggingu á sérfræðiþekkingu og mæligetu hérlendis. Í gegnum netverk tilvísunarrannsóknarstofa Evrópu tekur Matís þátt í alþjóðlegu samstarfi við að þróa aðferðir, meta útbreiðslu og efla þekkingu á STEC í matvælum.

Rannsókn Matvælastofnunar sem Matís tók þátt í er fyrst sinnar tegundar hérlendis og er hluti í að skoða algengi STEC í matvælum og dýrum og meta stöðu STEC á íslenskum markaði. Einnig er verkefnið mikilvægur þáttur í að undirbúa rannsóknastofuna í að takast á við faraldra af völdum STEC. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að þessi eiturmyndandi  E. coli tegund er til staðar í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum.

Í dag hefur Matís rannsakað 369 STEC sýni. Aðallega er um að ræða sýni úr rannsóknaverkefnum en hluti af sýnunum koma vegna gruns um matarsýkingu og hluti frá einkaaðilum vegna reglubundins gæðaeftirlits. Eins og kemur fram í fréttatilkynningu Matvælastofnunar þá getur STEC valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur. Nýrnaskaði eða svokallað HUS (Hemolytic Urea Syndrome) er alvarlegasta sjúkdómseinkenni STEC smits. Smitleiðir eru með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við smituð dýr, eða umhverfi við mengaðan saur smitaðra dýra.

Fréttir

Endurhönnun blæðingar-búnaðar fyrir fiskiskip

Tengiliður

Sæmundur Elíasson

Verkefnastjóri

saemundur.eliasson@matis.is

Fjallað var um samstarfsverkefni Micro ryðfrí smíði ehf., Skinney-Þinganes og Matís um þróun á lóðréttum Dreka fyrir fiskiskip í Sjómannadagsútgáfu Sóknarfæri.

Blæðingar- og kælingarbúnaðinn Drekann er að finna í mörgum skipum hér á landi en endurbætt lóðrétt útfærsla hans verður algjör nýjung í fiskiskipum.

Í lok síðasta árs styrkti Tækniþróunarsjóður tveggja ára verkefni til endurhönnunar Drekans, sem er blæðingar- og kælingarbúnaður í skipum en að verkefninu standa fyrirtækið Micro ryðfrí smíði, sem framleiðir búnaðinn, sjávarútvegsfyrirtækið Skinney-Þinganes og Matís. Drekinn er vel þekktur búnaður og hefur verið notaður um borð í fjölda skipa í flotanum til blæðingar á fiski, sem er fyrsti áfangi vinnsluferils afla um borð. Micro hefur framleitt búnaðinn frá árinu 2012 en nú er komið að endurhönnun hans og um leið algjörlega nýrri hugsun í útfærslu því næsta kynslóð Drekans verður lóðrétt. Slík útfærsla hefur aldrei áður sést í skipum en ætlunin er að lóðréttur Dreki verði í fjórum nýjum togskipum sem nú eru í smíðum í Noregi en Skinney-Þinganes og Gjögur fá tvö skip hvort fyrirtæki.

Einsleitni í hráefnismeðhöndluninni
Matís kemur að rannsóknarþætti verkefnisins og þann verkhluta annast Sæmundur Elíasson hjá Matís á Akureyri. „Að okkur snýr til dæmis að bera saman mismunandi leiðir og útfærslur, bera saman gæði á fiski og leggja þannig mat á ávinninginn af búnaðinum. Drekabúnaðurinn er bæði blæðingar- og kælibúnaður fyrir fisk strax eftir blóðgun og markmiðið er að endurhanna búnaðinn frá grunni. Nýja útfærslan verður lóðrétt í skipunum í stað þess að vera lárétt á vinnsluþilfari, líkt og fram að þessu hefur tíðkast,“ segir Sæmundur en jafnframt breytingu á útfærslunni sjálfri er markmiðið að sjálfvirkni verði meiri en áður og skili auknum gæðum hráefnisins. Sæmundur segir að Drekabúnaðurinn sem nú er í skipum hafi reynst afar vel og hafi þann kost að rúmmálsnýting á vinnsludekkinu verði góð en þar skiptir miklu máli að fullnýta plássið. Í stuttu máli er um að ræða hólfaskipt færiband í lokuðu keri, fylltu af sjó eða kælimiðli. Nafnið Drekinn er einfaldlega sótt til samlíkingarinnar við hjólabelti skriðdreka.
„Hugsunin að baki búnaðinum er að allur fiskur fái nákvæmlega jafn langa meðhöndlun sem tryggir einsleitni í hráefnismeðhöndluninni. Fiskur sem kemur í Drekann fer í hólf sem myndast milli tveggja spyrna á bandinu og fer síðan heilan hring í skriðdrekabeltinu og er allan tímann á kafi í sjó eða kælimiðli. Með hraðanum á beltinu er hægt að stjórna hve lengi fiskurinn er í blæðingunni en eitt af markmiðum þessa nýja verkefnis er að auka sjálfvirknina í tímastýringunni og innmötun á fiski í Drekann,“ segir Sæmundur en lengd Drekans er mismunandi eftir stærð skipa og rými á vinnsluþilfari.

Nýstárleg hugsun
Lóðrétt útfærsla nýja Drekans í skipum Skinneyjar-Þinganess og Gjögurs er athyglisverð þar sem mikið gólfrými sparast á vinnsluþilfarinu. Drekinn kemur til með að ná frá vinnsluþilfari og niður í lest skipsins og verður rýmið lokað.
„Þetta þýðir að fiskurinn kemur úr blóðguninni, fer inn í Drekann og ferðast svo í honum niður í lestina og kemur síðan upp aftur þaðan sem hann heldur svo áfram í kælingu og í kör. Hugmyndafræðilega er þetta mjög einfalt en í verkefninu er verið að leysa ýmsa tæknilega þætti á borð við þrif, viðhald búnaðarins og fleira. Grunnhugmyndin um að fiskurinn fái jafna meðferð í sjóbaði meðan honum blæðir er sú sama og áður en hugmyndin um lóðréttan búnað sem gengur niður í lestina er hins vegar ný af nálinni og mjög áhugaverð,“ segir Sæmundur en smíði togskipanna fjögurra er langt komin í Noregi og verður þessi búnaður settur um borð í þau síðar á árinu.

Blóðgun sérstaklega mikilvæg í saltfiskvinnslu
Mikið kastljós er og hefur verið á undanförnum árum á aflameðferð allt frá fyrsta stigi úti á sjó og sér í lagi hafa breytingar orðið hvað kælingu hráefnisins varðar. Lögð er áhersla á að kæla fiskinn sem allra fyrst eftir að hann kemur um borð. Sæmundur segir að innan Matís sé orðin til mikil þekking á þessum ferlum enda hefur fyrirtækið verið virkur þátttakandi í þessari þróun með sjávarútvegsfyrirtækjum og framleiðendum tæknibúnaðar fyrir fiskiskip og fiskvinnslur. Hann segir blæðingarþáttinn ekki síður mikilvægan en kælinguna, sér í lagi þegar um er að ræða fisk sem fer í söltun.
„Í upphafi þessa verkefnis förum við yfir árangurinn af notkun Drekabúnaðar í skipum Skinneyjar-Þinganess og þær niðurstöður voru mjög góðar, þ.e. að 10 til 15% hærra hlutfall fisks með þessari aðferð skilaði sér í verðhærri gæðaflokka afurða í saltfiskvinnslu. Blæðingin er sérstaklega mikilvæg hvað saltfiskvinnsluna varðar. Illa blóðgaður fiskur sem fer í salt verður lakari vara eftir verkunarferli og lendir því í verðminni afurðaflokka. Þess vegna skiptir blóðgunin ekki síður máli en kælingin sjálf,“ segir Sæmundur.

Fréttir

Smáframleiðsla á rjómaís úr hrámjólk frá Mývatnssveit

Á fimmtudaginn næstkomandi mun Auður Filippusdóttir flytja MS fyrirlestur sinn í matvælafræði. Verkefni hennar snýst um að hefja smáframleiðslu á rjómaís úr hrámjólk frá sveitabænum Skútustöðum í Mývatnssveit.

Markmið verkefnisins var að auka þekkingu um ísframleiðslu með því að lesa aðgengilegar upplýsingar, heimsækja ísbúðir víða um Ísland ásamt því að taka þátt í fræðilegu og verklegu námskeiði í ísgerð við Háskólann í Reading, Englandi.

  • Að útbúa gæðahandbók og viðskiptaáætlun fyrir „beint frá býli“ ísgerð.
  • Að skipuleggja og sækja um leyfi fyrir ísgerð á Skútustöðum
  • Að hefja þróun á einstökum ís með skyri.

Skimunartilraun var gerð á skyrís en niðurstöður sýndu að áhugaverðast væri að besta magn skyrsins í ísnum, ásamt því að nota mögulega skyrduft í staðinn fyrir hrært skyr. Höfundur komst einnig að því að annað bindi- og ýruefnin væri líklega hentugra. Tækjabúnaður spilar þó stórt hlutverk þegar kemur að ísgerð og mun höfundur því þróa uppskriftina áfram þegar hún verður komin með almennilega ísvél og aðstöðu.Leiðbeinendur verkefnisins eru Guðjón Þorkelsson og Þórarinn Egill Sveinsson. Prófdómari er Dr. Kolbrún Sveinsdóttir. Fyrirlesturinn fer fram í sal 311 í Esju í Matís, Vínlandsleið 14, Reykjavík og hefst klukkan 15:00.

Fréttir

Samnorrænt verkefni um fiskmjöl og lýsi

Nú fer senn að ljúka samnorrænu verkefni um fiskmjöl og lýsi. Meginmarkmið verkefnisins var að skilgreina stöðu þekkingar á fiskmjöli með það fyrir augum að varpa ljósi á það hvar frekari rannsókna er þörf. Niðurstöður verkefnisins geta nýst bæði iðnaðinum og rannsóknar-samfélaginu sem vegvísir til framfara. Verkefnið var unnið með samtökum fiskmjölsframleiðenda í Evrópu EU-fishmeal, DTU Food&Aqua í Danmörku, Nofima í Noregi og hlaut styrk frá Norrænu Ráðherranefndinni (AG-fisk).

Að verkefninu komu fyrirtæki á borð við FF Skagen í Danmörku, Havsbrún í Færeyjum og Triple Nine í Noregi. Marvin Ingi Einarsson, Iðnaðarverkfræðingur hjá Matís sá um verkefnastjórn.

Megin niðurstöður verkefnisins gefa til kynna að gæði hráefnis, fiskmjöls og lýsis séu enn ekki nægilega vel skilgreind. Áherslan hefur hingað til verið mest á efnainnihald fiskmjöls með minni áherslu á jákvæð heilsufarsleg áhrif þess að notast við fiskmjöl og lýsi í fóður. Einnig er þörf á að tengja betur saman áhrif hráefnismeðhöndlunar og áhrif vinnsluferla á bæði næringarlega og eðlislega þætti.

Verkefnið stóð fyrir vinnustofu í Kaupmannahöfn þar sem komu saman fjölmargir úr fiskimjölsiðnaðinum í Evrópu og sérfræðingar á þessu sviði. Ein af niðurstöðum fundarins var sú að til að styrkja frekar markaðsstöðu og samkeppnishæfni framleiðenda þá þarf fiskmjölsiðnaðurinn að öðlast betri þekkingu á þörfum viðskiptavina sinna og hvað það sé sem kaupendur eru raunverulega að leitast eftir. Koma þarf á fót betri samskiptaleiðum milli aðila í virðiskeðjunni allt frá fiskmjölsframleiðendum til neytenda. Mikilvægt er að koma á fót áætlun um hvernig samskiptum milli aðila skuli háttað og í framhaldi móta skýra stefnu í rannsóknum.

Skýrslu verkefnisins má finna hér.

Fréttir

Uppökur af erindum ráðstefnu Matvælalandsins aðgengilegar

Ráðstefna Matvælalandsins, um sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu, fór fram miðvikudaginn 10. apríl sl. á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskriftin var „Hvað má bjóða þér að borða? – Sérstaða og samkeppnisforskot í matvælaframleiðslu“.

Á ráðstefnunni var fjallað um gildi sérstöðunnar og þær áskoranir sem margar þjóðir standa frammi fyrir í sinni matvælaframleiðslu. Kröfur um örugg matvæli, fá sótspor, virðingu fyrir umhverfinu og auðlindum, bætta lýðheilsu og heilbrigt búfé munu hafa mikil áhrif á matvælaframleiðslu um heim allan á komandi árum.

Að Matvælalandinu standa Samtök iðnaðarins, Bændasamtök Íslands, Matís, Íslandsstofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Matarauður Íslands og Háskóli Íslands.

Upptökur af erindum ráðstefnunnar eru nú aðgengilegar hér .

Fréttir

Doktorsvörn við HÍ – Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea

Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo@matis.is

Mánudaginn 27. maí 2019 fer fram doktorsvörn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Stephen Knobloch doktorsritgerð sína „Samlífsörverur í sjávarsvampinum Halichondria panicea (e. Host-microbe symbiosis in the marine sponge Halichondria panicea).

Andmælendur verða Dr. Detmer Sipkema, dósent í vistfræði sjávarörvera við háskólann í Wageningen í Hollandi og Dr. Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor í erfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.Umsjónarkennari var Dr. Eva Benediktsdóttir, dósent í örverufræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.


Leiðbeinandi og í doktorsnefnd var Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og faglegur leiðtogi hjá Matís. Í doktorsnefnd var einnig Dr. Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri í fiskeldi og fiskirækt hjá Hafrannsóknastofnun.

Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni, sem fer fram í stofu 132 í Öskju kl. 13-15.  

Ágrip
Svampar (phylum Porifera) eru taldir ein af elstu núlifandi fylkingum dýraríkisins. Náin tengsl þeirra við örverur gera þá áhugaverða og heppilega til rannsókna á fyrstu gerðum samlífis dýra og örvera og til að auka almennt skilning okkar á þessu varðveitta samspili og virkni þess. Að auki framleiða margir svampar og samlífisörverur þeirra lífvirk efnasambönd sem gera þá áhugaverða fyrir líftækni og lyfjaiðnaðinn.

Í þessari rannsókn var fjölbreytileiki samlífisörvera H. panicea svamps, sem tekin var úr íslensku sjávarumhverfi, skoðaður með merkigenaraðgreiningu, auk raðgreiningar genamengja (metagenome) og erfðamengja (genome) ræktaðra baktería. Sýnt er fram á að H. Panicea, úr íslensku umhverfi, hýsir eina ríkjandi bakteríutegund. Tegundin sem fékk heitið “Candidatus Halicondribacter symbioticus”, er einnig til staðar í öðrum H. panicea svömpum sem rannsakaðir hafa verið frá mismunandi stöðum og óháð árstíðum. Hins vegar eru aðrar sambýlisörverur óskilyrtar og meira bundnar við stað og tíma. Greining á genamengi ríkjandi skilyrtu bakteríunnar sýnir fram á að algeng stýrigen vantar í erfðamengi hennar. Það er í samræmi við hið skilyrta samlífisform en skortur á stýrigenum er algengur í ákveðnum genafjölskyldum tengdum samlífisforminu og vörnum þess. Jafnvel þó að genaklasi fyrir smíði á lífvirka efninu bacteriocin sé til staðar í “Candidatus Halichondribacter symbioticus” virðist sem það komi ekki við sögu við framleiðslu lífvirkra efna eða „secondary metabolites”.
Samlífisörveran „Ca. H. symbioticus“ í sjávarsvampinum H. panicea er heppilegt módel til rannsókna á samspili samlífisörvera og dýra. Niðurstöðurnar úr þessari rannsókn leggja því grunninn að framtíðarrannsóknum á slíku samspili.

Um doktorsefnið
Stephen Knobloch fæddist árið 1987 í Toronto í Kanada. Hann lauk námi í „Applied Sciences “ frá Háskólanum í Bremerhaven í Þýskalandi og hlaut BSc gráðu í sjávartækni (Maritime Technologies), með áherslu í sjávarlíftækni. Hann stundaði framhaldsnám við Háskólann í Rostock í Þýskalandi og útskrifaðist þaðan með meistaragráðu (MSc) í fiskeldi árið 2013.
Árið 2014 hóf hann doktorsnám við Háskóla Íslands sem styrkþegi í Evrópuverkefninu „BluePharmTrain“ á vegum Marie Curie ITN (Innovative Training Networks). Stephen hefur kennt í haustnámskeiðum í meistaranámi við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ frá 2016 til 2018 og er verkefnastjóri AVS-verkefnisins „FishGutHealth“ frá árinu 2017.

Stephen býr í Reykjavík með konu sinni Rebeccu og tveimur börnum, sem eru Sascha fæddur 2014 og Nora fædd 2017, bæði á Íslandi.

Sjá einnig á vef Háskóla Íslands.

Fréttir

Hagnýt meistaraverkefni við Matvælafræðideild Háskóla Íslands

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Hagnýt nemendaverkefni um þróun sjávarútvegs verða til umfjöllunar þegar Meistaranemendur í Matvælafræðideild Háskóla Íslands flytja MS fyrirlestra sína þriðjudaginn 28. maí 2019 í Matís, Vínlandsleið 12, í fundarsal 312. Allir eru velkomnir!

Kl. 15:00 flytur Snæfríður Arnardóttir ritgerð sína:
Hringormar í ferskum flökum úr Atlantshafsþorski. Mögulegar leiðir til að fjarlægja eða drepa hringorma í ferskum fiski eða minnka hreyfanleika þeirra.“ (Nematodes in fresh Atlantic cod fillets. Possible methods to remove or kill nematodes from fresh fish or decrease their mobility.)

Markmið verkefnisins var að kanna leiðir til að fjarlægja eða drepa hringorm í ferskum fiski án þess að hafa áhrif á gæði flaksins. Það var kannað með því að nota rafstuð við mismunandi spennu, hljóðbylgjur í mismunandi tíðni og óson. Einnig var hreyfanleiki hringorma kannaður í loftskiptum umbúðum (MAP) við annarsvegar 4°C og hinsvegar -0,5°C.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor, María Guðjónsdóttir prófessor og Hildur Inga Sveinsdóttir doktorsnemi.

Prófdómari: Sveinn Víkingur Árnason verkfræðingur.
__________________________________________________________________________________________________Kl. 15:45 flytur Aníta Elíasdóttir ritgerð sína:
„Áhrif mismunandi hráefnismeðhöndlunar og frystigeymslu á efnaeiginleika þorskhauss.“ (Effect of different processing method and frozen storage on chemical properties of the various parts of the cod head.)

Markmið verkefnisins
 var fyrst og fremst að skoða möguleikann á því að nýta hina ýmsu parta af þorskhausnum, auk þess að kanna áhrif mismunandi vinnsluaðferða um borð í fiskiskipum og frystigeymslu á efnafræðilega eiginleika mismunandi parta frá þorskhausnum þ.e. tálkn, kinnar, gellur, augu og heila.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor, María Guðjónsdóttir prófessor og Hildur Inga Sveinsdóttir doktorsnemi.

Prófdómari: Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir
__________________________________________________________________________________________________

Kl. 16:30
 flytur Britney Sharline Kasmiran ritgerð sína:
“Physicochemical properties and potential utilization of side raw materials of yellowfin and albacore tuna.” (Efnasamsetning og nýting hliðarafurða yellowfin og albacore túnfisks.)

Leiðbeinendur/Supervisors: María Guðjónsdóttir prófessor, Sigurjón Arason prófessor, Dr. Magnea Karlsdóttir

Í MS nefnd voru/MSc thesis committee: María Guðjónsdóttir, Sigurjón Arason, Magnea Karlsdóttir, Tumi Tómasson, Hildur Inga Sveinsdóttir

Prófdómari/Examiner: Dr. Kristín Anna Þórarinsdóttir

IS