Fréttir

250 plokkarar

Tengiliður

Sophie Jensen

Verkefnastjóri

sophie.jensen@matis.is

Starfsmenn í einni af stærri byggingum Grafarholts munu ekki láta sitt (og annarra) eftir liggja á mánudaginn milli kl. 11 og 13 en þá ætla allir starfsmenn Vínlandsleiðar 12-16 að plokka í sínu nánasta umhverfi en gróflega áætlað má reikna með vel á þriðja hundrað manns þegar mest verður. Tómas hjá Bláa hernum ætlar svo að koma ruslinu á sinn stað hjá Sorpu! 😉

Með þessu vilja fyrirtækin vekja athygli á þeirri samfélagslegu ábyrgð sem á okkur öllum hvílir, einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum, að minnka rusl í umhverfinu.

Til viðbótar skora starfsmenn Matís á aðra að gera slíkt hið sama og nefnum við sérstaklega Nýsköpunarmiðstöð, Keldur og Matvælastofnun að drífa sig í plokkið!

Fréttir

Matís og Pure Natura vinna saman með hliðarafurðir sauðfjárafurða

Tengiliður

Rósa Jónsdóttir

Fagstjóri

rosa.jonsdottir@matis.is

Mjög spennandi verkefni hefur fengið 20 milljón króna fjárstyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís en í verkefninu verður haldið áfram með þróun fæðuunninna bætiefna úr hliðarafurðum sauðfjárafurða. 

Styrkurinn er til tveggja ára og er ætlunin að finna a.m.k. fjögur ný hráefni úr íslenskum lömbum sem nýta má í fæðubótarframleiðslu og þróa úr þeim hágæða vörur. 

Vertu viss um að fylgjast með á heimasíðu Matís og Pure Natura hvernig þessu verkefni framvindur. Hægt er að skrá sig á póstlista Matís hér neðar, vinstra megin á síðunni. 

Fréttir

Eru kjúklingafjaðrir vannýtt auðlind?

Á Íslandi hafa kjúklingafjaðrir hingað til verið urðaðar en nauðsynlegt er að koma á nýtingu þessa hráefnis sem landsáætlun um meðhöndlun úrgangs gerir ráð fyrir að urðun á lífrænum úrgangi verði komin niður í 35% af heildarmagni þann 1. júlí 2020.

Það er þekkt erlendis að endurvinna kjúklingafjaðrir í próteinmjöl með ýmsum aðferðum en þekkingin hefur ekki verið yfirfærð í innlenda framleiðslu svo nú er ætlunin að vinna próteinríkt mjöl sem hentar til fóðurgerðar úr íslenskum kjúklingafjöðrum. Gerðar verða tilraunir til vinnslu á kjúklingafjöðrum, í samstarfi við Reykjagarð, þar sem próteinið verður brotið niður í smærri einingar. Hægt er að nota fjaðurmjöl í fóður fyrir svín, loðdýr, gæludýr og fisk.

Markmiðið með verkefninu er að breyta vannýttri afurð (hráefni sem kostnaður hlýst af við að urða) í verðmætt, próteinríkt mjöl sem nýtist í fóðurgerð, að minnka umhverfisáhrif íslensks iðnaðar og auka nýtingu í kjúklingaframleiðslu. Verkefnið er einnig viðleitni í að verða við markmiðum landsáætlunar sem miða að því að urðun lífræns úrgangs verði umtalsvert minni árið 2020. Ætla má að um og yfir 2000 tonn af kjúklingafjöðrum sé urðuð árlega hér á landi. Ekki hafa verið þróaðar hagkvæmar vinnslurásir fyrir fjaðrir fram til þessa en með verkefninu verður lagður grunnur að hagkvæmri nýtingu staðbundinna hráefna á Íslandi til að minnka umhverfisáhrif íslenskrar matvælaframleiðslu.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi styrkja verkefnið.

Fréttir

Stuðningur við smáframleiðendur hefur sjaldan verið mikilvægari

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni var á árunum 2014-2016 og fékk áætlunin nafnið The Nordic Bioeconomy Initiative, eða NordBio. Í kjölfarið var farið í verkefni, „Nýsköpun smáframleiðendur – Nordbio“ þar sem megin áherslan var lögð á að fylgja eftir og styðja enn frekar við smáframleiðendur í kjölfar nýsköpunarverkefna sem unnin voru undir NordBio formennskuáætluninni. Skýrslu úr því verkefni má finna á heimasíðu Matís . 

Meginmarkmið nýsköpunarverkefnanna í þágu smáframleiðenda var að hafa bein efnahagsleg áhrif í gegnum nýsköpun og verðmætasköpun í Norræna lífhagkerfinu (e. Bioeconomy) og styrkja þannig svæðisbundinn hagvöxt.  Unnið var við 17 nýsköpunarverkefni.

Reynslan af verkefnunum var sú að þekking og þjálfun er nauðsynleg til að hugmyndir raungerist og til að gera framleiðendum kleyft að fullnægja öllum kröfum um matvælaöryggi.

Nordbio nýsköpunarverkefnin hafa sýnt að notkun nokkurs konar „nýsköpunarinneignar” getur verið áhrifarík leið til að hvetja til nýsköpunar, yfirfærslu þekkingar og tækni til að auka virði lífauðlinda. Sýnt þykir að full þörf sé á að bjóða styrkveitingu af þessu tagi fyrir smáframleiðendur og frumkvöðla til að örva nýsköpun og leysa krafta hugmyndaflugs úr læðingi. 

Mikill akkur yrði af því að koma á fót sjóði sem stuðlað getur að nýsköpun í anda Nordbio verkefnanna sérstaklega í ljósi þeirra tækifæra sem nú leynast í aukningu í fjölda ferðamanna er leggja leið sína til Íslands. 

Fréttir

Gullhausinn – Eðlis- og efnaeiginleiki þorskhausa

Elísa Viðarsdóttir mun halda opinn fyrirlestur á Matís, Vínlandsleið 12, stofu 312 þriðjudaginn 10. apríl kl.15.45. Verkefnið hennar heitir: 

Gullhausinn. Eðlis- og efnaeiginleiki þorskhausa. „The Golden head. Effect of size and season of catch on physicochemical properties of cod heads„.

Leiðbeinendur Elísu eru Sigurjón Arason og Magnea Guðrún Karlsdóttir frá Matís og María Guðjónsdóttir frá Háskóla Íslands. 

Veiðar á þorski eru í umtalverðu magni og hófust snemma hér við land og hefur þorskur verið ein mikilvægasta fisktegund Íslendinga. Nýting þorsks er góð miðað við margar aðrar tegundir. Nýting hausa, þá sérstaklega hjá togurum hefur hins vegar ekki verið nægilega góð vegna þess að meirihluti frystitogaranna sér ekki fært að koma með hausana að landi vegna plássleysis og vöntunar á tækjabúnaði.

Markmið verkefnisins var fyrst og fremst að stuðla að frekari þróun og nýtingu á verðmætum afurðum unnum úr þorskhausum (Gadus morhua) til að koma til móts óskir um nýjar vörur sem svar við óstöðuga markaði fyrir þurrkaða þorskhausa. Fyrsta skref í átt að frekari þróun og verðmætasköpun var að búa til mikilvægan þekkingargagnagrunn á efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum mismunandi hluta höfuðsins, þ.e. kinnum, tálknum, augum, heila og gellum. Við gerð gagnagrunnsins var nauðsynlegt að líta til þátta eins og líffræðilegs breytileika fisksins, árstíma við veiðar og stærð fisksins. Þegar þessir þættir hafa verið kortlagðir vandlega mun leiðin að frekari vöruþróun og verðmætasköpun verða markvissari.

Sýni voru tekin í maí og nóvember 2017. Augu, heili, kinnar, gellur og tálkn úr þorskum voru skoðuð hvert í sínu lagi með tilliti til stærðar fisks og árstíma við veiðar. Niðurstöður mælinga sýndu t.d. að fituinnihald í heila var töluvert hærra en fituinnihald í hinum fjórum pörtunum sem mældir voru. Hæsta fituinnihaldið reyndist vera í 6-7 kg fiski sem veiddur var í Nóvember og var fituinnihald hans um 5%, en fituinnihald í hinum pörtunum (augum, tálknum, kinnum og gellum) var á bilinu 0,2-0,9%. Niðurstöðurnar úr þessari rannsókn sýndu að vatn helst ávalt í hendur við prótein og fitu í mismunandi hlutum höfuðsins.  Þegar að vatnsinnihaldið var hátt, var fitu og próteininnihaldið lágt. Öskuinnihaldið í tálknunum var hærra en í öllum hinum hlutunum, líkleg ástæða fyrir því er að tálknin hafa öðruvísi samsetningu en hinir hlutarnir. Omega-6/omega-3 hlutfallið var hátt í öllum hlutunum sem mældir voru en í mismiklu magni. Þetta háa hlutfall er talið gott fyrir mannlega heilsu og því enn ein ástæðan fyrir því að vinna þessa parta úr hausnum í sitt hvoru lagi.

Miðað við þær niðurstöður sem fengust úr efnagreiningu á mismunandi pörtum úr hausnum er full ástæða til að vinna þessa hluta í sitt hvoru lagi til að auka verðmæti haussins.

Fréttir

Bætt líðan aldraðra með þrívíddarprentuðum mat?

Björn Viðar Aðalbjörnsson, starfsmaður Matís og Háskóla Íslands, hlaut fyrir stuttu styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir tvo nemendur en ætlunin er að kanna nýjar leiðir til þess að bæta heilsu, minnka lyfjakostnað og auka lífsgæði aldraðra. 

Næring á efri árum getur við vandasöm og minnkar gjarnan matarlyst eldra fólks. Þetta getur leitt til vannæringar sem hefur margvísleg heilsufarsvandamál. Lystarleysi getur valdið miklu þyngdartapi ásamt þreytu og vanlíðan. Merki um lélegt næringarástand er lágur líkamsþyngdarstuðull sem fylgir þyngdartapi. Þetta er þekktur áhættuþáttur fyrir andlát hjá eldra fólki og eykst einnig hætta á slysum vegna kraftleysis. Aukin matalyst og bætt líðan aldraðra á stóran þátt í næringarinntöku. Næringarinntaka er mikilvæg fyrir sjúklinga sem eru að jafna sig eftir aðgerð eða slys. 

Í verkefninu er stefnt að því að stytta innlögn eða viðveru á sjúkrastofnunum með einfaldri breytingu á útliti þess matar sem er í boði. Styttri viðvera á sjúkrastofnun þýðir betri lífsgæði eldri fólks og þar af leiðandi minna álag á heilbrigðiskerfið með tilheyrandi sparnaði fyrir þjóðfélagið.

Fréttir

Umhverfishátíð í Norræna húsinu – Gerum heimilin grænni!

Helgina 7.-8. apríl verður boðið upp á fjölbreytta umhverfisdagskrá í Norræna húsinu fyrir gesti á öllum aldri. Markmiðið er að kynna einfaldar og skemmtilegar lausnir sem stuðla að umhverfisvænna og grænna heimili.

Meðal annars verður boðið upp á smiðjur, fyrirlestra, námskeið, kynningar, hönnunarsýningu og heimildarmyndir. Viðburðirnir eiga sameiginlegt að kynna leiðir til að nýta betur verðmætin allt í kringum okkur og draga úr sóun á ýmsum sviðum.

Heimili okkar – hús og garður – eru lítil vistkerfi þar sem við setjum reglurnar!

Helstu samstarfsaðilar eru: Garðyrkjufélag Íslands, Landvernd, Listaháskóli Íslands, Matís, Sorpa, Umhverfisstofnun og Vakandi. Norðurlönd í fókus taka þátt í að skipuleggja og kosta umhverfishátíðina.

Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Engin þörf er á skráningu – mættu bara! 🙂

Nánar um viðburðinn má finna á Facebook

Viðburðir fyrir börn/fjölskyldur

  • Umhverfisskóli Landverndar, sunnudag
  • Heimsókn í gróðurhúsið til ömmu náttúru, gróðursetjum og fáum góð ráð fyrir garðinn, laugardag og sunnudag kl. 13-16
  • Furðuverusmiðjan, viltu búa til furðufisk eða geimveru? Þú ræður! á vinnustofunni verður unnið með textílefni sem fellur til við framleiðslu á Íslandi, laugardag kl. 14-16 (skráning)
  • Vorverkin í Vatnsmýrinni, fuglavernd stendur fyrir tiltekt í fuglafriðlandinu í Vatnsmýrinni, göngutúr til góðs! Laugardag kl. 13-17.

Aðrir viðburðir

  • Svona drögum við úr matarsóun / Fyrirlestrar: Selina Juul frá Stop Spild af Mad og Klaus B. Pedersen frá Too Good To Go. Bæði hafa hlotið Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir frábæran árangur í baráttunni gegn matarsóun, laugardag kl. 16-17. Spjall og smakk eftir fyrirlestrana.
  • Súrkál fyrir sælkera: Dagný Hermannsdóttir fræðir gesti um bæði ævafornar og nýtískulegar aðferðir til að sýra grænmeti. Gestir fá tækifæri til að smakka einstök sýnishorn úr garðinum hjá Dagnýju! Sunnudag.
  • Örnámskeið í moltugerð: Garðyrkjufélag Íslands stendur fyrir námskeiði í moltugerð og kynnir einfaldar aðferðir sem henta bæði fyrir eldhúsið og garðinn. Sunnudag.
  • Al-íslenska flatbakan: matarspjall og smakk, Sveinn Kjartansson sjónvarpskokkur og Flatbökusamsteypan ræða um pizzuna sem hina fullkomnu sveigjanlegu uppskrift OG hvernig nýta má íslenskt hráefni á frumlegan hátt, sunnudag kl. 15-17.

Heimildarmyndir

  • Just Eat It: A Food Waste Story, margverðlaunuð heimildarmynd um matarsóun, föstudag 6. apríl og sunnudag 8. apríl kl. 18. // http://www.foodwastemovie.com
  • Flatbökusamsteypan, á hátíðinni verður hægt að sjá stutta heimildarmynd um hið bráðfallega matarverkefni Flatbökusamsteypunnar.

Stendur yfir laugardag og sunnudag frá kl. 13-17

Fræðslu- og kynningarbásar

Matarhönnun: Sýning á vegum hönnunarnema við Listaháskóla Íslands

Þema sýningarinnar er matur, matarupplifun, matarhönnun, vannýtt hráefni og nýsköpun. Frumleg, falleg og þankavekjandi sýning frá upprennandi vöruhönnuðum.

Saumaverkstæðið: saumaðu þinn eigin innkaupapoka

Kvenfélagasamband Íslands opnar saumaverkstæði í Norræna húsinu. Áttu efnisbúta, sterklegan dúk eða gardínur heima sem verðskulda nýtt líf? Taktu efnin með og saumaðu þinn eigin innkaupapoka – eða leyfðu annarra að njóta þeirra!

Hægt er senda fyrirspurnir á kristini@nordichouse.is

Fréttir

Íslendingar í lykilhlutverki við að þróa byltingarkennda tækni til fiskveiðistjórnunar

Mjög gott viðtal birtist um helgina í Fiskifréttum. Viðtalið er við Önnu Kristínu Daníelsdóttur og Jónas R. Viðarsson hjá Matís um evrópska verkefnið MareFrame sem lauk nú fyrir skömmu. Óhætt er að segja að það sem úr verkefninu hefur komið muni hafa víðtæk áhrif til bættrar fiskveiðistjórnunar um allan heim þar sem tekið er tillit til fleiri þátta en áður hefur verið gert.

Íslendingar hafa gegnt lykilhlutverki við að þróa byltingarkennda tækni til fiskveiðistjórnunar. Fiskstofnar eru þá skoðaðir í samhengi við vistkerfið í heild ásamt bæði efnahagslegum og félagslegum þáttum.

Anna Kristín Daníelsdóttir hjá Matís hefur undanfarin fjögur ár stjórnað evrópska verkefninu MareFrame ásamt Gunnari Stefánssyni hjá Háskóla Íslands. Hafrannsóknastofnun gegndi einnig lykilhlutverki í verkefninu. Lokaskýrsla verkefnisins er komin út og verður kynnt fyrir hagsmunaaðilum innan tíðar.

„Fiskveiðistjórnun víðast hvar í heiminum hefur snúist næri einvörðungu um einstaka stofna,“ segir Jónas Rúnar Viðarsson, sem einnig hefur tekið virkan þátt í verkefninu ásamt fleiri Íslendingum.

Sjá meira í Fiskifréttum


Mynd með frétt: Anna Kristín Daníelsdóttir verkefnastjóri MareFrame skammtar Jónasi R. Viðarssyni, verkefnastjóra FarFish verkefnisins, heilsusamlegan skammt af síldarlýsi frá Margildi ehf. en nýtt er að lýsi sé unnið úr uppsjávartegundum. Anna hefur nú lokið störfum í MareFrame verkefninu en Jónas er nýbyrjaður sem verkefnastjóri FarFish og því gott að yfirfærsla þekkingar eigi sér stað að þessu tilefni 🙂

Fréttir

Alþjóðlega vísindaritið Icelandic Agricultural Sciences er komið út

Tvær fyrstu greinarnar í hefti 31/2018 voru að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences.

Fyrri greinin, Munur á afkomu kvæma afíslensku birki í 14-ára tilraun á Miðnesheiði, greinir frá samanburðartilraun með 25 kvæmum af íslensku birki víðsvegar að af landinu. Miðnesheiðin er vindasamt svæði með saltákomu og jarðvegurinn er rýr og stendur það skógrækt þar fyrir þrifum. Tilgangurinn með rannsókninni var að finna birkikvæmi sem best hentuðu fyrir þetta svæði. Tilraunin hófst 1998 og árið 2003 voru lúpínuplöntur gróðursettar innan um birkið. Árið 2012 fjórtán árum eftir gróðursetningu birkisins var árangurinn metinn.

Sunnlensk birkikvæmi reyndust betur á Miðnesheiði en kvæmi úr öðrum landshlutum. Hæð og lifun kvæmisins Þórsmörk reyndist best. Staðarkvæmi frá Reykjanesi þrifust verr en önnur sunnlensk kvæmi. Þegar rækta á birkiskóg á ófrjósömum jarðvegi á Suðurnesjum er mælt með því að leggja áherslu á þau kvæmi sem sýnt hafa besta frammistöðu í tilrauninni. Einnig er mælt með að bera á plöntur fyrstu árin eftir gróðursetningu og um leið að sá lúpínu.

Seinni greinin, Áhrif hækkaðs jarðvegshita ámyndun koldíoxíðs (CO2), metans (CH4), hláturgass (N2O),nituroxíðs (NO) og nitraðrar sýru (HONO) í skógarjarðvegi á Suðurlandi, fjallar um rannsóknir sem eru hluti af stóru rannsóknaverkefni, ForHot (www.forhot.is), um áhrif aukins hita í jarðvegi í kjölfar Suðurlandsskjálftans árið 2008 á lífríki og vistkerfisferla.

Í þessari rannsókn voru mælingar gerðar á flæði metans (CH4), hláturgass (N2O) og koldíoxíðs  (CO2)  með auknum jarðvegshita í foldu í sitkagreniskógi. Losum sömu lofttegunda voru mældar í jarðvegskjörnum á rannsóknastofu við 20°C hita, auk lofttegundanna nituroxíðs (NO) og  nitraðrar  sýru (HONO).

Niðurstöðurnar sýndu að átta ára jarðvegshlýnun hafði bæði breytt efnasamsetningu og örveruflóru jarðvegsins og  þar með getu til að framleiða áðurnefndar lofttegundir. Hinsvegar breyttist framleiðslugeta CO2, CH4 og N2O á rannsóknastofu við 20 °C ekki reglulega með auknum hita í foldu. Höfundar fjalla um aðlögun örvera að auknum hita, en velta því einnig upp hvort hluti lofttegundanna sem losnar í náttúrunni geti verið úr meiri dýpt, af jarðfræðilegum uppruna, frekar en vegna rotnunar í jarðveginum.

Þetta mun vera fyrsta íslenska rannsóknin sem skoðar losun á nitraðri sýru (HONO) úr jarðvegi. 

Fréttir

Strandbúnaður 2018

Spennandi ráðstefna um málefni þörungaræktar, fiskeldis og skelræktar fer fram dagana 19. og 20. mars undir yfirskriftinni Strandbúnaður 2018.

Miklar áskoranir blasa við Íslend­ing­um eins og öðrum jarðarbúum, matvælaframleiðsla til framtíðar er þar á meðal. Þeim fjölgar sem veita því athygli að innan við 5% af heildarmatvæla- og fóðurframleiðslu heimsins kemur úr höfum og vötnum, þó svo þau þeki um 70% af yfirborði jarðarinnar. Því er vert að horfa til þess að nýta vatn betur til matvælaframleiðslu og þar kemur strandbúnaður sterkur inn, þannig spilast saman sjötta heimsmarkmiðið –  hreint vatn og salernisaðstaða  – og það fjórtánda –  líf í vatni  – við annað heimsmarkmiðið –  ekkert hungur. Atvinnugreinar sem byggjast á hagnýtingu auðlinda á og við strendur landsins geta sannarlega liðkað til við lausn þeirra áskorana sem við okkur blasa. Fæðuöryggi heimsins getur styrkst með hinni svokölluðu bláu byltingu – fæðuframframleiðslunni – í vatni – þ.m.t. við ströndina.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að færa hugtakið aquaculture yfir í íslenskan búning. Fiskeldi fjallar fyrst og fremst um ræktun fiska, eldi á skeldýrum eða ræktun og nytjar þörunga falla þar ekki undir. Lagareldi vísar til eldis í vökva, það hugtak hefur ekki leyst landfestar. Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/​eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða, rétt eins og landbúnaður vísar til þess að yrkja jörðina, rækta dýrategundir og hafa nytjar af því sem dýrin gefa af sér. Merkja mátti á fyrstu ráðstefn­unni, fyrir ári, að nafnið strandbúnaður gæti fest í sessi.

Mikilvægt er að fyrir hendi sé opinn vettvangur fyrir faglega og fræðandi rökræðu um brýnustu og mikilvægustu úrlausnarefnin fyrir atvinnugreinarnar sem hagnýta auðlindir og gæði á, við og fyrir ströndum landsins. Atvinnu­greinarnar sem umræðir eru fiskeldi, þörungaræktun og skelræktun. Hagaðilar hafa tækifæri til að ráða ráðum sínum á ráðstefnunni Strandbúnaður 2018 sem fram fer á Grand Hótel dagana 19. og 20. mars nk. Ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála mun setja ráðstefnuna. Strandbúnaður 2018 er öllum opinn, þar verður rætt sérstaklega um, á skilgreindum málstofum; siðferði, velferð, möguleika til landeldis á laxi, hvort laxalús sé „upprennandi“ vandamál, örlög íslenskrar skelræktar í ljósi samkeppni við lifandi innflutta skel, nýtingu smáþörunga sem byltingu í framleiðslu lífrænna efna og að eldi sé meira en lax. Á meðal málstofanna er uppskeruhátíð rannsókna og að lokum verður rætt um heilbrigði í strandbúnaði með undirtitlinum verk og vitundarvakning.

Í öllu ræktunarstarfi þar sem maðurinn nýtir land- eða hafsvæði sér til hagsbóta geta vaknað spurningar um hvað sé siðferðislega rétt að ganga langt með tilliti til umhverfis, siðferðis og ekki síst velferðar lífveranna sem aldar eru. Þessar vangaveltur eiga rétt á sér í tengslum við þær atvinnugreinar sem falla undir strandbúnað sem og aðrar greinar þar sem lífverur eru ræktaðar til manneldis. Ráðstefnum Strandbúnaðar er ætlað að vera vettvangur uppbyggilegra umræðna um atvinnugreinarnar og í opnunarmálstofunni gefst tækifæri til að ræða þessi álitamál. Þar verður fjallað um efnistökin út frá sjónarhóli siðfræðinnar, friðunar landsvæða, möguleg víti til varnaðar verða skoðuð og horft til mögulegra fyrirbyggjandi aðgerða.

Í ljósi þess að rannsók­ir leggja af mörkum þekkingu sem styður við atvinnuuppbyggingu er sérstök málstofa helguð afrakstri rannsókna og þróunar sem m.a. hefur verið fjármögnuð af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Umhverfissjóði sjókvíaeldis, Tækniþróunarsjóði, norrænum sjóðum, evrópskum sjóðum og hagaðilum. Þar verða nokkur dæmi þess hvernig ný þekking hefur verið hagnýtt í þágu íslensks atvinnulífs til verðmætasköpunar í strandbúnaði reifuð og jafnframt gefin dæmi um sóknartækifæri á því sviði. Mikilvægt er að vel takist til við innleiðingu nýrrar þekkingar í rekstri fyrirtækja svo hámarka megi áhrif fjárfestingarinnar sem lögð hefur verið í rannsókna-, nýsköpunar- og þróunarvinnuna.

Í málstofunni um heilbrigði strandbúnaðar verður m.a. fjallað um; hverjar eru stærstu áskoranirnar, hvar og hvað má gera betur og hvaða nýjung­ar má sækja í reynslubanka nágranna okkar til þess að nýta þær aðstæður sem eru taldar hagfelldar til að auka framleiðslu matar frá fiskeldi og öðrum strandtengdum greinum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2018

IS