Fréttir

North Atlantic Seafood Forum nýsköpunarsamkeppni

Frá 2005 hefur North Atlantic Seafood Forum (NASF) verið árviss viðburður þar sem stjórnendur og hagaðilar í sjávarútvegi og fiskeldi hittast í Bergen til að kynna sér helstu nýjungar og bera saman bækur.

Að þessu sinni verður NASF haldið dagana 5. –  7. mars 2024 og er búist við að um 1.000 manns sæki viðburðinn. Markhópur þessarar þriggja daga ráðstefnu eru stjórnendur og fjárfestar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum þ.e. tækjaframleiðendur, markaðsfyrirtæki, bankar, tryggingafélög, flutningsaðilar, ráðgjafafyrirtæki o.s.frv.

Meðal þess sem boðið er upp á í dagskránni er frumkvöðla- og nýsköpunarsamkeppni. Gefst þar 10 frumkvöðlum tækifæri til að kynna sínar lausnir og keppa um vegleg verðlaun. Er hér um að ræða gífurlega gott tækifæri fyrir frumkvöðla til að vekja athygli á sínum lausnum sem nýtast sjávarútvegi og fiskeldi.  Sjá má þau fyrirtæki sem tilnefnd voru á NASF23 hér. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir fyrir NASF24. Eru frekari upplýsingar og skráningablöð aðgengileg hér og hvetjum við íslenska frumkvöðla til að sækja um.

Fréttir

Hvernig verður matur framtíðarinnar? Úrslit myndasamkeppni NextGenProteins

Nú í sumar efndi verkefnið NextGenProteins, sem unnið er að hjá Matís, til myndasamkeppni fyrir nemendur á aldrinum 8-10 ára. Viðfangsefnið var matur framtíðarinnar og sendu nemendur inn sína myndrænu útfærslu á því hvernig þeir sæju fyrir sér mat framtíðarinnar.

Gaman er frá því að segja að myndasamkeppninni bárust yfir 50 stórglæsilegar myndir frá grunnskólum víðsvegar að af landinu. Myndirnar voru hengdar upp innan veggja Matís og gáfust starfsfólki og gestum færi á að kjósa sína uppáhalds mynd. Þrjár myndir báru sigur úr bítum og var til mikils að vinna. Í fyrstu verðlaun var Nintendo Switch Light tölva, í önnur verðlaun var 15 þúsund kr. gjafabréf í Smáralind og í þriðju verðlaun var 10 þúsund kr. gjafabréf í Spilavini. Haft hefur verið samband við alla sigurvegara.

Hér má sjá þrjú efstu sætin í myndasamkeppninni:

1. sæti Saga Vogaskóli
2. sæti Íris Vogaskóli
3. sæti Viktoría Höfðaskóli

Sigurmyndin hefur verið send til Þýskalands þar sem hún verður sýnd á lokaráðstefnu verkefnisins NextGenProteins, ásamt sigurmyndum annarra þjóða sem taka þátt í verkefninu.

Matís og NextGenProteins vilja þakka öllum sem tóku þátt í myndasamkeppninni kærlega fyrir þátttökuna!

Fréttir

Nýtt vefforrit til að reikna næringargildi

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Á vefsíðu Matís er nú boðið upp á vefforrit til að reikna næringargildi matvæla út frá uppskrift. Forritið sækir upplýsingar í ÍSGEM gagnagrunn Matís en það auðveldar útreikninga á næringargildinu.

Vefforritið var unnið í verkefninu Nýjar lausnir fyrir vinnu við merkingar matvæla en það var styrkt af Matvælasjóði. Verkefnið var unnið í samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla / Beint frá býli. Matís hefur unnið með samtökunum mörg undanfarin ár og því var ljóst að þörf var á því að auðvelda vinnuna við merkingar matvæla. Vefforritið á að flýta fyrir og einfalda vinnuna við merkingar matvælanna þar sem bæði er hægt að vinna með ÍSGEM gögn og eigin gögn. Mjög mikilvægt er fyrir smáframleiðendur að halda vel utan um upplýsingar um öll hráefni. Vefforritinu fylgir ítarleg handbók um notkun forritsins og aðrar upplýsingar sem þarf á að halda við merkingar matvæla. Forritunarvinna var unnin af fyrirtækinu Hugsjá ehf.

Vefforritið má nálgast hér.

Leiðbeiningar um notkun vefforritsins má finna hér:

Fréttir

Útvíkkuð faggilding örverurannsóknastofa Matís

Örverurannsóknarstofa Matís í Reykjavík hefur um langt skeið notað MALDI-TOF biotyper tækni (e. matrix assisted laser desorption ionization-time of flight mass spectrometry) við rannsóknir og til að styðja tegundagreiningar á örverum.

Nýverið var faggilding rannsóknarstofunnar útvíkkuð til að innlima MALDI-TOF tæknina við þessar tegundagreiningar á Listeria monocytogenes.  Tæknin gerir rannsóknarstofunni kleift að hraða mjög mikið tegundagreiningu á Listeria monocytogenes og er því hér um umtalsvert framfaraskref í hraða við tegundagreiningar á lifandi bakteríum að ræða. Stefnt er á að útvíkka faggildingu rannsóknarstofunnar til að nýta þessa hraðvirku tækni við tegundagreiningu á fleiri sjúkdómsvaldandi bakteríum og er það ferli langt komið.

Frekari upplýsingar:

Basic Principles of Matrix-assisted laser desorption-ionization time-of-flight mass spectrometry

Fréttir

Endurvottun jafnlaunakerfis

Tengiliður

Marta Gall Jörgensen

Sviðsstjóri mannauðsmála

marta@matis.is

Í janúar síðastliðinn fórum við í úttekt á jafnlaunakerfi Matís, en Matís hlaut fyrst vottun í janúar 2020 og höfum við því unnið samkvæmt jafnlaunakerfi í þrjú ár. Þetta er í fyrsta sinn sem endurvottunarúttekt er gerð á jafnlaunakerfi Matís og það gleður okkur að tilkynna að nú er jafnlaunakerfi Matís komið með nýja vottun á að það uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012, í samræmi við 7. gr. reglugerðar nr. 1030/2017, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85, sbr. ákvæði laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 

Fréttir

Sjáðu sjónvarpsþáttinn um verkefnið Grænir frumkvöðlar framtíðar

Tengiliður

Justine Vanhalst

Verkefnastjóri

justine@matis.is

Sérstakur sjónvarpsþáttur tileinkaður Matís verkefninu Grænir frumkvöðlar framtíðarinnar var sýndur á sjónvarpsstöðinni N4 á dögunum.

Ein helsta útkoma verkefnisins var kennsluefni um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á hafið, lífríki hafsins, sjávarútveg og samfélög. Kennsluefnið, sem inniheldur m.a. kennsluleiðbeiningar, fróðleik, verkefni, leiki og tilraunir, er miðað að nemendum elstu bekkja grunnskóla og verður prufukeyrt í þremur grunnskólum skólaárið 2021-2022.

Sjáðu þáttinn hér:

Fréttir

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra í Vestmannaeyjum

Tengiliður

Tinna Brá Sigurðardóttir

Mannauðsstjóri

tinnabra@matis.is

Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV) og Matís ohf. óska eftir að ráða verkefnastjóra í 100% starf, um 50% starf hjá hvoru fyrirtæki. Starfstöðin er í skapandi umhverfi ÞSV og samstarfsaðila að Ægisgötu 2 í Vestmannaeyjum.

Meginhluti starfsins hjá ÞSV í samstarfi við framkvæmdastjóra þess felst í að sinna svæðisbundnum verkefnum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) samkvæmt sérstökum samningi þar um. Þar á meðal að veita ráðgjöf á sviði atvinnu og menningar og hafa umsjón með styrkveitingum til áhugaverðara verkefna á sviði byggðaþróunar á Suðurlandi. 

Starfið hjá Matís snýr að öflun, skipulagningu og þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknar og nýsköpunarverkefnum á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Starfsstöðin í Vestmannaeyjum verður í góðum tengslum við matvælaframleiðendur á öllu Suðurlandi. Viðkomandi mun veita þjónustu m.a. við matvælarannsóknir, ráðgjöf og styrkumsóknir til rannsóknasjóða í samstarfi við aðra sérfræðinga Matís.

Starfssvið

■ Samstarf við fyrirtæki, einstaklinga og sveitarfélög um byggðaþróun og nýsköpun á Suðurlandi  

■ Viðskipta- og rekstraráðgjöf 

■ Verkefnaöflun og aðstoð við fjármögnun verkefna s.s. með gerð styrkumsókna 

■ Verkefnastjórnun 

Hæfniskröfur

■ Menntun sem nýtist í starfi t.d. matvælafræði, sjávarútvegsfræði, verkfræði, viðskiptafræði eða tæknimenntun 

■ Góð færni í mannlegum samskiptum 

■ Góð færni í tjáningu í ræðu og riti 

■ Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður 

Öll kyn eru hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá auk símanúmers eða tölvupóstfangs hjá meðmælenda.  

Nánari upplýsingar um starfið veita:  

Hörður Baldvinsson, frkvstj. ÞSV hbald@setur.is simi 841 7710 og Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís jonas@matis.is 422 5107. 

Umsóknarfrestur er til 13. nóvember n.k.

Ljósmynd: Shutterstock

Fréttir

Þróun aðferða til vöktunar á lífríki botns við fiskeldi í sjókvíum

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Matís, RORUM, Háskóli Íslands, Tækniháskólinn í Danmörku (Danmarks Tekniske Universitet, DTU) og Fiskeldi Austfjarða (Ice Fish Farm) hafa tekið höndum saman um verkefnið BIOTOOL sem mun vinna að þróun nýrra erfðafræðilegra aðferða til vöktunar á lífríki botns við fiskeldi í sjókvíum.

Um er að ræða mjög umfangsmikið verkefni, sem er einstakt að því leiti að nýtt verður 20 ára gagnasafn og hátækni til þess að nema og vakta breytingar sem geta orðið á lífríki vegna fiskeldis í sjókvíum. Markmiðið er að þróa ódýrari og nákvæmari aðferð til vöktunar á mögulegum breytingum á botndýralífi vegna sjókvíaeldis, sem mun ekki aðeins auka hagkvæmni og bæta umhverfismál fiskeldis, heldur einnig aðstoða stjórnvöld og stofnanir, sem ábyrg eru fyrir leyfisveitingum og vöktun umhverfisins.

BIOTOOL verkefnið byggir á langtíma gögnum um fjölbreytni hryggleysingja á botni undir og nærri eldiskvíum og hvernig tegundasamsetning og fjölbreytni þeirra breytist við aukið lífrænt álag samfara fiskeldi. Í verkefninu verður nýjustu erfðatækni í umhverfisrannsóknum beitt, þar sem notast verður við svokallað „umhverfis erfðaefni“ (environmental DNA, eDNA) til að nema breytingar í botnvist undir sjókvíum. Verkefnið mun nota sjálfvirka umhverfissöfnunarvél (Environmental Sampling Processor, EPS) sem getur síað sjó, einangrað erfðaefni úr sjónum og magngreint allt að fimm dýrategundir til að nema breytingar í botnvist. Verkefnið mun miða að því að skilgreina þær fimm dýrategundir, vísitegundir, sem sýna breytileika í fjölda með auknu lífrænu álagi frá fiskeldi í sjókvíum. Erfðamörk til að nema eDNA þessara tegunda í sjó við fiskeldi, verða þróuð á rannsóknarstofu áður en aðferðin verður aðlöguð að umhverfissöfnunarvélinni, sem í framtíðinni verður hægt að koma fyrir í fjörðum í kringum Ísland til sjálfvirkra mælinga.

BIOTOOL er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Fréttir

Nordic Salmon vinnufundur

Vinnufundur um framhaldsvinnslu á laxi verður haldinn þann 19. október í ráðhúsinu á Ölfusi. Fundurinn er haldinn í samstarfi við Ölfus Cluster í Þorlákshöfn.

Markmið þessarar vinnustofu er að tengja saman og styðja við fjölmarga hagsmunaaðila sem starfa í laxeldisiðnaði á Norðurlöndum, með áherslu á að kanna valkosti og hagkvæmni fyrir framhaldsvinnslu laxaafurða. Í þessum hópi eru laxeldisstöðvar, sölu- og markaðsaðilar, tæknihönnuðir, framleiðendur vinnslutækja, rannsóknarhópar og flutningafyrirtæki.

Markmið verkefnisins er að koma á fót neti sérfræðinga til að greina heildstætt hvort framhaldsvinnsla á laxi sé fýsilegur kostur á Norðurlöndunum. Hópurinn mun síðan meta framleiðsluskala og greina nauðsynlega verkþætti og tillögur til að ná heildarmarkmiðinu.

Upprunaleg hugmynd verkefnisins er að nýta þekkingu frá velgengni þorskvinnslu á Íslandi yfir í norrænan laxaiðnað, til að stuðla að frekari hagnýtingu og skapa störf á Norðurlöndunum. Með því að nota nútímatækni vinnsluverksmiðja og gera neyslueiningar hagkvæmari, má auka virði í norrænum laxaiðnaði. Flakaafurðir og bitar úr laxi munu lækka útflutningskostnað í samanburði við heilan slægðan lax. Einnig mun það auka staðbundna nýtingu og vinnslu á aukaafurðum, svo sem afskurðir, bein og hausar, auk þess sem kolefnisfótsporið minnkar.

Skráning er hafin!

Skráðu þig með því að smella á skráningarhnappinn hér fyrir neðan:

Vinnufundurinn fer frem á ensku.

Uppkast af dagskrá:

08:30 Opening the workshop: Short introduction to the SWOT analysis, Sæmundur Elíasson
08:45 Address, Elliði Vignisson, major of Ölfus municipality
09:00-10:30 Session 1Competitiveness in secondary processing in the Nordic

  1. Halldor Thorkelson, Marel
  2. Frank Yri, Seaborn/Iceborn
  3. Per Alfred Holte, Maritech

10:30 – 11:00 Coffee

11:00 – 12:30 Session 2: Marketing and environment footprint

  1. Ingólfur Friðriksson, EES affair, Ministry of foreign affairs
  2. Sigurður Pétursson, Nova Food
    1. “Consumer decision making and carbon footprint”
  3. Audun Iversen, Nofima
  4. Jón Hafbo Atlason, Hiddenfjord

12:30 – 13:30 Lunch

13:30  14:45 Session 3: Side streams production

  1. Matti Isohätälä, Hätälä
  2.  Dennis Lohman, BAADER

14:45 Coffee break

15:15 – 16:00 Discussions and Round up

16:00 Closure

17:00 Refreshments at Lax-inn Mýrargötu 26, 101 Reykjavík

Fréttir

Doktorsvörn í líffræði – Pauline Anne Charlotte Bergsten

Mánudaginn næsta, 12. september, mun Pauline Bergsten verja doktorsverkefni sitt í líffræði. Verkefnið ber heitið: Rannsókn á neðanjarðar örverusamfélögum í basalti á eldfjallaeyjunni Surtsey við Ísland.

Doktorsvörnin fer fram í hátíðarsal aðalbyggingar HÍ og hefst kl 10:00.

Andmælendur:
Dr. Steffen L. Jörgensen, dósent við Háskólann í Bergen, Noregi
Dr. Oddur Þ. Vilhelmsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Leiðbeinandi er Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og fagstjóri hjá Matís

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Pauline Vannier, verkefnastjóri hjá Matís
Dr. Snædís H. Björnsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Doktorsvörn stýrir: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ

Ágrip
Surtsey er eldfjallaeyja á rekbelti suðaustan við Ísland. Hún myndaðist í röð neðansjávargosa á árunum 1963-1967 og hefur verið friðuð síðan. Surtsey hefur þá sérstöðu að þar hefur verið mögulegt að rannsaka landnám lífvera og framvindu vistkerfa frá upphafi. Rannsóknin sem hér er lýst snýr að örverusamfélögum í eynni, í umhverfi þar sem nýmyndað basalt mætir jarðhita og sjó. Þar er að finna breytilegt hitastig sem nálgast efri mörk þess sem talið er lífvænlegt.
Alþjóðlegur rannsóknarleiðangur var farinn til Surtseyjar árið 2017 til að afla sýna með borunum. Kjarnasýnum var safnað á mismunandi dýpi ásamt vatnssýnum og heitri gufu úr sprungum á yfirborði eyjarinnar. Þessi doktorsritgerð er fyrsta heildstæða rannsóknin á örverusamfélögum neðanjarðar í Surtsey. Margvíslegum aðferðum var beitt til að rannsaka þau einstöku sýni sem aflað var.
Markmiðið var að auka þekkingu á samfélögunum og efnaferlunum er þau byggja á. Samsetning örvera var greind með því að raðgreina tegundaákvarðandi 16S rRNA gen og annað erfðaefni sem einangrað var úr umhverfinu. Að auki voru bakteríustofnar einangraðir og þeim lýst og smásjáraðferðum beitt. Magn DNA var metið í borkjörnum en samkvæmt því var fjöldi örvera áætlaður á bilinu 5×104 til 1×106 á gramm.
Niðurstöðurnar bentu til þess að afar lítinn lífmassa væri að finna í umhverfinu. Slíkt eykur áhrif mengunar sem getur orðið við sýnatökur. Þrátt fyrir lítinn lífmassa eru örverusamfélög neðanjarðar í Surtsey mjög fjölbreytt og samanstanda bæði af bakteríum og arkeum. Sumar þeirra eru jaðarörverur eða hafa áður greinst í jarðvegi og sjó en aðrir hópar eru lítt þekktir. Greiningar á ættartengslum og lífsháttum benda til þess að sumar fái orku úr lífrænum efnum en aðrar úr ólífrænum og tengist hringrásum brennisteins, köfnunarefnis og metans. Þó tókst ekki að styðja þessar niðurstöður með greiningum á umhverfiserfðamengjum. Fjölmargar auðgunarræktir voru framkvæmdar við ólík skilyrði og með mismunandi ætum. Um 200 bakteríustofnar voru einangraðir. Þar af voru nokkrar nýjar tegundir og einni þeirra, hitakæru bakteríunni Rhodothermus bifroesti lýst að fullu, erfðamengi hennar raðgreint og samanburður gerður við tvær þekktar tegundir sömu ættkvíslar. Í ljós kom að við aðstæðurnar sem notaðar voru tókst aðeins að einangra um 2,15% af þeim örverum sem kennsl voru borin á með 16S rRNA raðgreiningum. Smásjárgreiningar á hraunsýnum sýndu ýmis form sem líktust örverum í samtengdum blöðrum í basaltgleri.
Niðurstöður rannsóknarinnar í heild bentu til mikils landnáms örvera í Surtsey á þeim 50 árum sem liðin eru frá goslokum. Örverurnar gætu hafa dreifst frá nálægum vistkerfum og aðlagast umhverfinu í hrauninu.
Niðurstöðurnar sem lýst er í þessari ritgerð mynda grunn að framtíðarrannsóknum á örverusamfélögum neðanjarðar í Surtsey og framvindu samfara breyttum aðstæðum eins og lækkandi jarðhita.

Frekari upplýsingar má finna með því að smella hér.

IS