Fréttir

Deildarstjóri yfir vöruþróun og neytendarannsóknum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dr. Þorbjörg Jensdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri yfir vöruþróun og neytendarannsóknum hjá Matvælarannsóknum Íslands (Matís ohf.). Hjá Matís mun Þorbjörg hafa umsjón með nýsköpun og matvælarannsóknum sem meðal annars byggja á þörfum neytenda.

Þorbjörg lauk tvöföldu doktorsprófi við Kaupmannahafnarháskóla árið 2006; annars vegar í heilbrigðisfræðum við tannlæknadeild háskólans og hins vegar svonefndri iðnaðargráðu (Industrial Ph.D.). Hún lauk meistaraprófi í næringarfræði við Háskóla Íslands 2002 og fjallaði lokaritgerð hennar um drykki og glerungseyðingu tanna.

Þorbjörg

Sælgætisfyrirtækið Toms Group A/S, sem framleiðir meðal annars Anton Berg, Gajol, Pingvin og Spunk, styrkti doktorsnám Þorbjargar í Danmörku. Þar þróaði hún nýja aðferðarfræði við rannsóknir á glerungseyðingu tanna af völdum súrra drykkja og fastrar fæðu, svo sem sælgæti. Toms Group hefur sótt um einkaleyfi á aðferðarfræði Þorbjargar.

Matís tók til starfa um síðustu áramót en þar sameinast starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA), Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar, líftæknifyrirtækisins Prokaria og Iceprotein.