Fréttir

Framtíðarnýting stór- og smáþörunga í textíliðju á Íslandi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Síðastliðið sumar vann Sigmundur Páll Freysteinsson, meistaranemi í textíl og fatahönnun við Kyoto University og Kyoto Seika Univeristy í Japan, að verkefninu Framtíðarnýting stór- og smáþörunga í textíliðju á Íslandi í nánu samstarfi við Matís. Verkefnið var stutt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Textíl- og fataiðnaður á langt eftir í að tileinka sér betri og umhverfisvænni ferla og talinn einn mest mengandi iðnaður í heiminum. Þörungar geta verið einstakt hráefni til að nýta til umhverfisvænnar textíllitunar. Ýmsar þjóðir hafa áttað sig á nýtingarmöguleikum stór- og smáþörunga en nú er tækifæri til að nýta þá í framleiðslu á náttúrulegum textíllitum, sem ekki hefur þekkst áður. Verkefnið fólst bæði í ítarlegri rannsókn á heimildum um fjörunytjar á Íslandi sem og litatilraunum með þeim stór- og smáþörungum sem koma til greina við framleiðslu á stórum skala. Verkefnið horfir til framtíðar og stuðlar að sjálfbærni, nýsköpun og nýjum tækifærum tengdum textíliðju, hönnun og þörungaræktun á Íslandi. Eitt af hráefnunum sem voru prófuð voru blátt næringar- og andoxunarefni sem VAXA Technologies hefur þróað meðal annars í verkefninu Iceblue. Einnig voru prófaðir stórþörungar úr verkefninu MINERVA.

Matís tekur einnig þátt í báðum þessum verkefnum en Iceblue er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís sem hluti af Eurostars áætlun Evrópusambandsins. MINERVA er styrkt af BlueBio Cofund.

Sigmundur ásamt leiðbeinendum hjá Matís – Rósu Jónsdóttur og Margréti Geirsdóttur.
Hér má sjá fallega litunarprufu á íslenskri ull með bláu næringar- og andoxunarefni frá VAXA Technlogies.
Hér má sjá litapalettu úr íslenskum stór- og smáþörungum unnin á bómull.