Fimmtudaginn 2. október 2025 ver Monica Daugbjerg Christensen doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Einangrun og niðurbrot sjávarfjölsykra og mat á ónæmismótandi áhrifum þeirra. Refining marine polysaccharides and their immunomodulatory effects.
Andmælendur eru dr. Kari Tvete Inngjerdingen, dósent við Háskólann í Ósló, og dr. Finn Aachmann, prófessor við Norwegian University of Science and Technology.
Umsjónarkennarar voru Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og Guðjón Þorkelsson, prófessor. Leiðbeinendur voru Guðmundur Óli Hreggviðsson, prófessor og stefnumótandi sérfræðingur, og Jóna Freysdóttir, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ólafur H. Friðjónsson, fagstjóri og Eva Nordberg Karlsson, prófessor.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.30.
Ágrip
Brúnþörungar innihalda mikið magn af fjölbreytilegum fjölsykrum sem hafa margvíslega lífvirkni. Í þessu doktorsverkefni var kannað á fjóra vegu hvernig nota megi ensím til umbreyta sjávarfjölsykrum og áhrifum þeirra á ónæmiskerfið. 1) Nýr súlfatasi, SulA1, úr sjávarbakteríunni Arthrobacter, var framleiddur með erfðatæknilegum aðferðum og rannsakaður ítarlega. SulA1 súlfatasinn gat fjarlægt súlfathóp af N-Acetyl-D-galactosamine-4-sulfate sem endurspeglar eiginleika hans við að fjarlægja súlfathópa og breyta þannig lífvirkni fjölsykra. 2) Laminarin sameindir úr þremur gerðum brúnþörunga (Laminaria digitata, L. hyperborea, and Saccharina latissima) voru einangraðar og klipptar niður í smásykrur. Bygging smásykranna var greind og kom í ljós að stærð og greining þeirra hafði áhrif á boðefnaseytun angafrumna og getu þeirra til að ræsa og sérhæfa T-frumur. Þessar niðurstöður benda til þess að hugsanlega sé unnt að nota laminarin sameindir og afleiður þeirra í meðferð á sjúkdómum tengdum ónæmiskerfinu. 3) Fúkóídan úr S. latissima var klippt niður í fásykrur af mismunandi stærð. Stuttar fásykrur höfðu bólguhamlandi áhrif með því að minnka seytun angafrumna á bólguboðefnum og draga þannig úr Th1 ónæmissvari. Þær gætu því hugsanlega nýst við meðferð á bólgusjúkdómum. 4) Tvær fásykrur úr algínati juku seytun angafrumna á bólguboðefnum og ýttu undir Th1 svörun T frumna í samrækt. Þetta bendir til þess að þessar fásykrur geti nýst við eflingu ónæmissvars, t.d. í meðferð við krabbameinum eða sem ónæmisglæðar. Til samans sýna niðurstöður þessa verkefnis að niðurbrot sjávarfjölsykra með ensímum geti haft áhrif á ónæmisvirkni niðurbrotsefnanna sem eykur líkur á notkun þeirra í þróun meðferða á sjúkdómum í ónæmiskerfinu. Auk þess gæti þetta leitt til umhverfisvænnar vinnslu á fjölsykrum úr brúnþörungum með ensímum sem getur aukið verðmæti þeirra og notkunargildi í lyfja- og fæðubótariðnaði.