Fréttir

Nýjar lausnir fyrir áskoranir framtíðar

Tengiliður

Anna Berg Samúelsdóttir

Verkefnastjóri

annab@matis.is

Nýjar lausnir fyrir áskoranir framtíðar – Sérfræðingar NATALIE verkefnisins heimsækja Ísland

Dagana 19.–22. maí mun hópur sérfræðinga úr alþjóðlega rannsóknarverkefninu NATALIE heimsækja Ísland. Sérfræðingarnir starfa á sviði náttúrumiðaðra lausna (e. Nature-Based Solutions, NBS) og fjármögnunar þeirra. Heimsóknin er einstakt tækifæri fyrir alla sem starfa með umhverfismál og loftslagsaðlögun til að kynnast nýjustu lausnum sem miða að því að auka viðnámsþol samfélaga gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

Á vinnufundi með hagaðilum, sem haldinn er á Reyðarfirði, miðvikudaginn 21. maí verður farið yfir helstu niðurstöður verkefnisins hingað til, auk þess sem rætt verður um næstu skref í framhaldi verkefnavinnunnar.

Austurland leiðandi á norðurslóðum

Ljósmynd: Páll Guðmundur, Reyðarfjörður

Í janúar 2024 tók Matís við forystu í tilviksrannsókn NATALIE fyrir norðurslóðir (CS7 – Arctic Case Study), og tók þar með við hlutverki Noregs sem rannsóknarsvæði. Við þessar breytingar komu inn í verkefnið sjálfseignarstofnunin Austurbrú og íslenska nýsköpunarfyrirtækið GreenFish sem samstarfsaðilar Matís, og Austurland var skilgreint sem rannsóknarsvæði verkefnisins.

Áhersla rannsóknarinnar er að meta hvernig náttúrumiðaðar lausnir geti stutt við sjálfbærni og stjórnun strandsvæða Austurlands. Svæðið býr yfir fjölbreyttum áskorunum sem tengjast loftslagsbreytingum, m.a. hættu á aurskriðum, snjóflóðum, hækkandi sjávarstöðu og þörungablómgun sem hefur áhrif á vatnsgæði og lífríki fjarðanna.

Samstarf hagsmunaaðila lykilatriði

Í júní 2024 var haldin vinnustofa með helstu hagsmunaaðilum á Austurlandi þar sem verkefnið var kynnt og farið yfir helstu áskoranir svæðisins. Þá var jafnframt unnið að greiningu á mögulegum lausnum til að styrkja samfélögin gegn náttúruvá og veðurröskunum.

Vinnustofan skapaði mikilvægan vettvang til að kynna hugtakið náttúrumiðaðar lausnir og hvernig þær geta stuðlað að sjálfbærni og eflt viðnámsþol og samfélaga.

  • Greining á helstu áskorunum af völdum veðurraskana og áhrifum þeirra á Eskifirði, Reyðarfirði og Seyðisfirði.
  • Áskoranir og áhættuþættir metnir með tilliti til náttúrumiðaðra lausna.
Ljósmynd: Páll Guðmundur, Seyðisfjörður

Helstu áherslur rannsóknarinnar út frá niðurstöðum

  • Greining á vatnsgæðum og þróun stafræns kerfis, spálíkans byggðu á gervihnattamyndum (Sentinel-2) til að fylgjast með hitastigi sjávar, næringarefnum og chlorophyll-magni í fjörðunum.
  • Hönnun notendaviðmóts sem birtir áhættustig þörungablóma og upplýsingar um vatnsgæði, til að styðja við gagnadrifnar ákvarðanir hagsmunaaðila. Greining á náttúrumiðuðum lausnum til innleiðingar unnin í samráði við hagsmunaaðila verkefnisins.
  • Innleiðing náttúrumiðara lausna unnin í samstarfi við hagsmunaaðila.

Nýsköpun í gagnavinnslu og líkanagerð

Mikil áhersla hefur verið lögð á þróun tæknilegra lausna sem auðvelda ákvarðanatöku og veita yfirsýn yfir stöðu umhverfisins.

  • Keðjuverkunarlíkan náttúruhamfara (e. Cascading Failure Model) hefur verið þróað til að meta hvernig náttúruhamfarir og veðurraskanir geta haft keðjuverkandi áhrif á innviði samfélaga, svo sem heilbrigðisþjónustu, hafnir og fiskeldi.
  • MCDA-GIS greiningaraðferð (Multi-Criteria Decision Analysis með samþættingu landupplýsingakerfa) er notuð til að meta hættu á aurskriðum og kortleggja svæði þar sem náttúrumiðaðar lausnir geta skilað mestum árangri.
  • Ljósþyngdarreiknir (LightGBM) hefur verið nýttur til að þróa nákvæmt líkön sem flokka alvarleika þörungablóma, byggt á viðmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
  • Notendaviðmót á vef er í þróun sem mun veita daglegar uppfærslur um áhættustig þörungablóma og vatnsgæði, sem styrkir bæði vöktun og viðbragðsgetu.
Ljósmynd: Lilja Sigríður, Reyðarfjörður

Alþjóðlegt samstarf og öflug fjármögnun

NATALIE verkefnið nýtur 15 milljóna evra (um 2,2 milljarða ISK) styrks frá Horizon Europe og stendur yfir í fimm ár, ágúst 2023 – 2028. Verkefnið sameinar 45 samstarfsaðila frá 13 löndum, með það að markmiði að þróa og sannreyna náttúrumiðaðar lausnir sem auka viðnámsþol samfélaga gagnvart loftslagsbreytingum og veðuröfgum.

Yfirumsjón verkefnisins er í höndum International Office for Water (OiEau) í Frakklandi.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimsíðu þess en einnig á heimasíðu Matís. Jafnframt er hægt að hafa beint samband við verkefnastjóra verkefnisins Önnu Berg Samúelsdóttur, annab@matis.is

Forsíðumynd: Jessica Auer, Fjarðarbyggð

Fréttir

Notar þú fæðubótarefni? Viltu taka þátt í umræðum fyrir þróun fæðubótarefna með B12 vítamíni?

Við hjá Matís leitum eftir fólki til að taka þátt í umræðum um fæðubótarefni tengdum nýju rannsóknarverkefni sem stýrt er af sérfræðingum Matís og er styrkt af Matvælasjóði.

Tilgangurinn með umræðunum er að fá upplýsingar um notkun á fæðubótarefnum og innsýn í viðhorf til fæðubótarefna með áherslu á B12 vítamín. Þátttaka felst í að taka þátt í umræðum sem tengjast fæðubótarefnum í litlum hópi (6-8 manns) og verður umræðunum stýrt af starfsmanni Matís. Í umræðunum verða þátttakendur spurðir út í notkun og viðhorf þeirra með áherslu á B12 vítamín.

Þátttaka felst í að mæta í Matís, Vínlandsleið 12 Grafarholti. Gert er ráð fyrir að umræðurnar taki að hámarki tvo tíma. Þátttakendur fá afhent 7.000 Kr. gjafabréf eftir umræðurnar.

Umræðurnar verða teknar upp og unnið verður úr niðurstöðum samkvæmt aðferðafræði fyrir eigindlegar rannsóknir. Nöfn þátttakenda, eða aðrar persónuupplýsingar, munu hvergi koma fram í túlkun niðurstaðna, skýrslum, greinum eða öðru efni þar sem fjallað verður um rannsóknina. Vinnsla gagna verður í samræmi við persónuverndarlög.

Samsetning einstaklinga í umræðuhópnum fer eftir ákveðnum bakgrunnsþáttum og fæðuvali.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt smellir þú á tengilinn hér að neðan sem vísar á stuttan spurningalista með spurningum tengdum þátttökuskilyrðum. Ef þú uppfyllir skilyrði fyrir þátttöku verður þú beðin/beðinn/beðið að gefa upp nafn, símanúmer og tölvupóstfang í lok spurningalistans. Þá verður fljótlega haft samband við þig með boði um þátttöku, og þá færðu nánari upplýsingar varðandi skipulag og tímasetningu umræðanna.

Skilyrði fyrir þátttöku eru eftirfarandi:

  • Að vera á aldrinum 25-75 ára
  • Að taka inn fæðubótarefni og/eða vítamín reglulega (a.m.k. 2-3 sinnum í viku)
  • Að leitast eftir því að draga úr neyslu dýraafurða eða neyta ekki dýraafurða
  • Að vinna ekki við neytenda- eða markaðssrannsóknir, markaðssetningu, líftækni, matvælaframleiðslu, -rannsóknir eða -þróun.

Hér er tengill framangreindan spurningalista:

Fréttir

Mótvægis og aðlögunaraðgerðir gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg i Evrópu

Upphaf maí mánaðar markaði formlegt upphaf MeCCAM verkefnisins, sem er evrópskt rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem ætlað er að þróa mótvægis og aðlögunaraðgerðir gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga fyrir sjávarútveginn.

MeCCAM er fjögurra ára verkefni sem er leitt af Sjókovanum í Færeyjum, en alls eru 16 samstarfsaðilar í verkefninu frá 9 Evrópulöndum. Verkefnið er fjármagnað af rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun, Horizon Europe, með heildarfjármögnun upp á 4,5 milljónir evra.

Á næstu fjórum árum munu samstarfsaðilar MeCCAM þróa, innleiða og mæla með lausnum til að draga úr umhverfisáhrifum og auka seiglu og sjálfbærni evrópska fiskveiðigeirans. Lausnirnar eru hannaðar til að bregðast við fjölbreyttum áskorunum sem blasa við um alla Evrópu – frá Norðaustur-Atlantshafi til Miðjarðarhafsins. En MeCCAM mun:

  • Rannsaka og spá fyrir um hvernig dreifing, vöxtur og framleiðni muni breyst út frá mismunandi sviðsmyndum varðand hlýnun sjávar.
  • Þróa og prófa nýstárleg tól og tækni sem stuðla munu að bættri eldsneytisnýtingu og kjörhæfni.
  • Þróa og prófa stafræna tækni til gagnasöfnunar og gagnaúrvinnslu, sem styður svo við upplýsta ákvarðanatöku. MeCCAM mun þannig þróa og sameina gagnalindir með það að markmiði að hagræða og hámarka sjálfbærar fiskveiðar í Evrópu.

MeCCAM mun framkvæma sex svæðisbundnar rannsóknir á Norðaustur-Atlantshafi, Norðursjó og Miðjarðarhafi til að prófa og sýna fram á fjölbreyttar aðgerðir til aðlögunar og mótvægisaðgerða gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga. Þessar tilvikarannsóknir hafa verið valdar sérstaklega til að endurspegla fjölbreyttar áskoranir sem evrópskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir. Íslenskir þátttakendur koma með beinum hætti að tveimum þessara tilvikarannsókna, en íslenskir þátttakendur í verkefninu eru Matís, Brim, Tracwell og Stika umhverfislausnir.

Hægt verður að fylgjast með framvindu verkefnisins hér

Fréttir

Vel heppnuð heimsókn til Mto wa Mbu í Tansaníu

Næring barna bætt með íslenskri næringablöndu og þjálfun kennara við Bandari skólann.

Börn og konur í Afríku eru í mestri hættu vegna vannæringar með alvarlegum afleiðingum. Ein gerð vannæringar stafar af skorti á vítamínum og steinefnum sem eru nauðsynleg fyrir líkamsstarfsemi.

Mikilvægt er að bregðast við þessu og markmið verkefnisins „VAXA aðgerðaráætlun um bætta næringu í Tansaníu“ er að styðja við bætta næringu og menntun um næringu og hreinlæti. Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu styrkir verkefnið.

Crystal Riedemann, VAXA fundar með foreldrum barna við Bandari School

Verkefninu „VAXA aðgerðaráætlun um bætta næringu í Tansaníu“ er stýrt af VAXA Technologies Iceland sem þróað hefur vítamín- og steinefnaríka blöndu úr íslenskri Ultra Spirulina, sem ætlunin er að prófa og nota til að bæta næringarástand barna við Bandari School í Mto wa Mbu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Matís sem hefur aðlagað kennsluefni um hreinlæti og næringu að aðstæðum og þörfum umsjónafólks og kennara við Bandari School. Verkefnið er jafnframt unnið í samstarfi við Óskar Örn Óskarsson barnalæknir sem mun fylgjast með áhrifum á heilsu og vellíðan barnanna meðan á verkefninu stendur.

Börn í matsal Bandari School.

Í lok febrúar 2025 heimsóttu samstarfsaðilar frá VAXA Technologies Iceland, Matís og Óskar skólann í Mto wa Mbu með það að markmiði að kynnast betur starfsemi Bandari School og framkvæma mælingar til að meta heilsu og vellíðan barna við skólann á aldrinum 6-12 ára, auk þess að fræða og þjálfa starfsfólk Bandari School um næringu og hreinlæti.

Óskar Örn Óskarsson framkvæmir mælingar

Samstarfsaðili verkefnisins í Tansaníu er The Bandari Project (óhagnaðardrifin samtök) sem þegar vinna að því að rjúfa vítahring fátæktar með því að veita fátækum börnum og konum í Mto wa Mbu, Tansaníu menntunarmöguleika. Nemendur í Bandari School eru börn úr fjölskyldum sem eru hvað verst settar á svæðinu og mjög oft eru máltíðarnar sem börnin fá í skólanum eina næringin sem þau fá. Því skiptir miklu máli að máltíðarnar séu sem næringarríkastar og mikil þörf á verkefni sem þessu.

Hádegismatur í Bandari School

Í samvinnu við foreldra, heilbrigðisstarfsfólk í Mto wa Mbu og starfsfólk Bandari School var heilsa og vellíðan um 150 barna metin, og sex kennarar við skólann fengu fræðslu og þjálfun í miðlun efnis um næringu og hreinlæti.

Margeir Gissurarson, Matís fræðir kennara um næringu og hreinlæti

Greinilegt var að starfsfólk Bandri School sinnti starfinu af miklum metnaði og alúð. Börnin við skólann voru almennt mjög glaðvær og greinilegt að gott traust og samband ríkti milli þeirra og starfsfólks skólans.

Fréttir

Starfsstöð Matís í Neskaupstað

Matís rekur öfluga starfsstöð í Neskaupstað þar sem unnið er bæði við þjónustumælingar sem og að rannsóknum og nýsköpun í matvælaframleiðslu.

Starfsstöðin í Neskaupstað sinnir fjölbreyttri þjónustu, þar sem við metum meðal annars gæði og ferskleika sjávarafurða og annarra hráefna sem fara til matvælaframleiðslu. Við þjónustum m.a. sjávarútveginn, fyrirtæki í matvælaframleiðslu, álframleiðslu, heilbrigðiseftirlit og fleiri aðila sem treysta á faglega greiningarþjónustu. Að sama skapi standa dyrnar opnar fyrir öllum þeim sem hafa áhuga á samstarfi, stóra sem smáa, og leggjum við okkur fram um að styðja við nýsköpun, vöruþróun og gæðamál í atvinnulífinu.

Við leggjum jafnframt  áherslu á að styðja við verðmætasköpun í sjávarútvegi og annarri matvælaframleiðslu með því að þróa nýjar lausnir og afurðir, bæta gæði og tryggja öryggi matvæla. Verkefnin okkar eru unnin í samstarfi við fyrirtæki, sveitarfélög, háskóla og aðra hagaðila, bæði á landsvísu og alþjóðavettvangi.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að Matís sé með starfsstöð á Austurlandi. Nálægðin við fyrirtækin á svæðinu styrkir tengslin við atvinnulífið og eykur aðgengi þeirra að rannsókna- og greiningaþjónustu. Með því að byggja upp öfluga þekkingarstarfsemi í heimabyggð skapast ný tækifæri fyrir ungt fólk, stuðlað er að fjölbreyttari atvinnu og aukinni nýsköpun á svæðinu. Þannig leggur Matís sitt af mörkum til að efla byggð á landsbyggðinni.

Fréttir

Málþing Matís 2025

13. maí, 2025, 9:00 – 12:30 | Norðurljósasalur Hörpu

Aðalfyrirlesari:

Bente Torstensen, forstjóri Nofima, norsku rannsóknarstofnunarinnar á sviði matvæla, sjávarútvegs og fiskeldis

Fundarstjórn: Bergur Ebbi

Hægt er að fylgjast með málþinginu í beinu streymi hér:

Dagskrá

09:00Kynning fundarstjóra – Bergur Ebbi
09:05Opnunarávarp atvinnuvegaráðherra – Hanna Katrín Friðriksson
09:15Ávarp forstjóra Matís – Oddur M. Gunnarsson
09:22Getum við dregið úr upplýsingaóreiðu í tengslum við matvæli? – Þóra Valsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís
09:29Neysla gjörunninna matvæla á Íslandi – hvað vitum við?
– Steina Gunnarsdóttir, Ph.D nemi hjá Háskóla Íslands
09:36Í upphafi skal endann skoða – þróun þarmaflóru  – Agnes Þóra Árnadóttir Ph.D. nemi hjá HÍ og Matís
09:43Lagt á borð fyrir neytendur framtíðar – Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís
09:50Neytendahegðun – Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís
09:57Matvælaöryggi og gagnagrunnar – Natasa Desnica, fagstjóri Matís
10:04Heilsa og sjálfbærni: Það er hættulega auðvelt að gabba neytendur – Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR
10:11Pallborðsumræður: Neytendur
– Gréta María Grétarsdóttir
– Valdimar Sigurðsson
– Þóra Valsdóttir
10:30Kaffihlé | Kynning smáframleiðenda
10:45Matþörungar í matinn? – Rósa Jónsdóttir, fagstjóri hjá Matís
10:52Hvaða máli skiptir innlent korn fyrir neytendur? – Eiríkur Blöndal, Bóndi á Jaðri í Bæjarsveit
10:59Matarsóun á Íslandi – Bergdís Helga Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun
11:06Kjötneytendur framtiðar – Eva Margrét Jónudóttir, verkefnastjóri hjá Matís
11:13Nýprótein og neytendur: hreinasta martröð eða þjóðhagslegir hagsmunir – Birgir Örn Smárason, fagstjóri hjá Matís
11:20Circular food systems – challenges and solutions – Bente Torstensen, Nofima, CEO
11:35Pallborðsumræður: Stefnumótun í rannsóknum neytenda og matvæla
– Bente Torstensen
– Eiríkur Blöndal
– Bergdís Helga Bjarnadóttir
– Salvör Jónsdóttir

Smáframleiðendur sem kynna vörur sínar í kaffihléi:

  • Kemuri
  • Dalalaukur

Hér eru myndir af málþinginu, ljósmyndari Anton Brink:

Fréttir

Íslenskir skólar hafa tækifæri á að sækja um ProBleu styrk

Matís og verkefnið BioProtect vekja athygli á að íslenskir skólar hafa tækifæri til að sækja um Pro Bleu styrk:

Styrkur: ProBleu funding call

ProBleu hefur það að markmiði að efla skóla samfélag í Evrópu (Network of European Blue Schools) með því að bjóða allt að 7.500 evrur í styrk til verkefna sem varða aukinn skilning á vatni og hafi. Umsóknir skulu berast fyrir 23. maí, klukkan 17:00 CET.

Hvað er ProBleu? 

ProBleu styður við skóla sem eru í fararbroddi við að kenna krökkum um verndun hafs og ferskvatns. Á næstu þremur árum mun ProBleu bjóða að minnsta kosti 100 skólum styrki fyrir spennandi verkefni. Skólar geta fengið allt að 7.500 evrur í styrk fyrir verkefni sem standa yfir í allt að ár.

Hverjir geta sótt um styrkinn

ProBleu styrkurinn er sérstaklega ætlaður skólum í löndum sem eiga fulltrúa í Blue Schools samfélaginu: Austurríki, Belgíu, Danmörku, Þýskalandi, Íslandi, Írlandi, Kosovo, Lúxemborg, Möltu, Svartfjallalandi, Noregi, Slóveníu og Úkraínu. Það kemur þó ekki í veg fyrir að önnur lönd geti sótt um styrkinn.

Hér er hægt að finna allar nánari upplýsingar:

Fréttir

Doktorsvörn í  matvælafræði – Clara Jégousse

Þriðjudaginn 1. apríl 2025 ver Clara Anne Thérèse Jégousse doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Örverusamfélög á Íslandsmiðum rannsökuð með víðerfðamengja raðgreiningum. Exploration of microbial communities from Icelandic marine waters using metagenomics.

Doktorsvörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands klukkan 13:00 til 16:00.

Andmælendur eru dr. Alexander Sczyrba, prófessor við Bielefeld University, Þýskalandi, og dr. Ian Salter, rannsóknastjóri við Havstovan – hafrannsóknastofnun Færeyja.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild og fagstjóri hjá Matís. Auk hans var dr. María Guðjónsdóttir, prófessor við sömu deild og verkefnastjóri hjá Matís, meðleiðbeinandi og í doktorsnefnd sátu dr. René Groben, verkefnastjóri hjá Matís, dr. Pauline Vannier, lektor við Université de Toulon, og dr. Arnar Pálsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild.

Ólöf Guðný Geirsdóttir, deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip

Örverur gegna  lykilhlutverki í því að viðhalda heilbrigði og fæðukerfi hafsins og við að stýra næringarefnahringrás hafsins. Við Íslandsstrendur, þar sem heitir Atlantshafsstraumar og kaldir norðurskautsstraumar mætast, myndast einstakt umhverfi og lífríki sjávar. Þó svo að rannsóknir hafi staðið yfir á frumframleiðni frá miðju síðustu aldar með aðstoð smásjáa og gervitunglmynda hafa rannsóknir á flokkunarfræði örvera á umhverfiserfðamengjum í íslenskri lögsögu verið takmarkaðar. Meginmarkmið doktorsrannsóknarinnar var því að skoða hvaða tegundir örvera finnast í íslenskri lögsögu, í hvaða hlutföllum, hvert hlutverk þeirra er í vistríki sjávar og hvaða umhverfisþættir hafa áhrif á dreifingu þeirra.

Meginniðurstöður ritgerðarinnar eru að nauðsynlegt er að kanna örveruflóru hafsins allt árið um kring og einnig mismunandi dýpi. Niðurstöðurnar afhjúpa samhengi örverusamfélaga og umhverfisþátta og leggja grunn að frekari rannsóknum. Opin gögn úr þessari rannsókn mynda viðmið fyrir frekari rannsóknir á vistfræðilegum ferlum og sjálfbærri nýtingu auðlinda hafsins við Ísland á tímum hnattrænna loftslagsbreytinga.

Fréttir

Þjónustugátt Matís

Allar niðurstöður á einum stað!

Matís býður viðskiptavinum sínum nú upp á þjónustugátt þar sem hægt er að nálgast allar niðurstöður mælinga á einum stað. Með þjónustugátt Matís fær viðskiptavinurinn góða yfirsýn yfir allar mælingar á sýnum sem hann hefur sent til Matís.

Aðgengi að niðurstöðum er einfalt og þægilegt; notandinn sér nýjustu mælingarnar og getur síað eftir t.d. dagsetningu, tímabilum og efnisorðum. Einnig er hægt að taka út gögnin í excel skrá.

Fyrirtækjaaðgangar – allt að fimm notendur geta haft aðgang innan hvers fyrirtækis.

Þjónustugátt Matís – Allt á einum stað:

Ert þú í viðskiptum við mæliþjónustu Matís og vilt fá aðgang að þjónustugáttinni. Skráðu þig í gáttina með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan:

Fréttir

Af hverju finnst arsen í þörungum?

Þörungar njóta sífellt meiri vinsælda á Vesturlöndum til neyslu, meðal annars vegna þess að þeir eru rík uppspretta steinefna og vítamína. Þeir taka hins vegar einnig upp frumefnið arsen (e. arsenic) úr sjónum, sem getur verið krabbameinsvaldandi.

Í þörungum greinist arsen aðallega á formi fjölbreyttra lífrænna efnasambanda arsens t.d. arsenósykrur og arsenólípíð, en lífrænar arsentegundir hafa verið taldar hættulausar. Nýlegar rannsóknir á arsenólípíðum hafa þó sýnt að þau geta sýnt svipaða eiturvirkni og krabbameinsvaldandi ólífrænt arsen. Spurningunni hefur einnig verið varpað fram hvort arsenósykrur, sem eru í meirihluta þess arsens sem mælist í þörungum, geti haft langvarandi neikvæð áhrif við reglubundna neyslu. Styrkur eitraðs ólífræns arsens og arsenólípíða er þó að jafnaði lágur í þörungum en á því eru undantekningar. Til að mynda er ekki mælt með neyslu á brúnþörungnum Hijiki, sem nýttur hefur verið t.d. í súpur, þar sem hann inniheldur mikið magn af ólífrænu arseni.

Brúnþörungurinn Hijiki. Mynd: Shutterstock

Margt er enn á huldu um uppruna arsenólípíða en upphafspunktur framleiðslu þeirra er talinn eiga sér stað í þörungum.

Brýn þörf er á frekari upplýsingum um þessi efnasambönd arsens til að meta til hlítar hvort neyslu þeirra fylgi áhætta og tryggja þá að settar séu viðeigandi reglur um hámarksmagn þeirra í matvælum.

Sýnataka gaf dýpri skilning

Til að öðlast dýpri skilning var tugum sýna af rauð-, græn- og brúnþörungum safnað nálægt Grindavík og Kjalarnesi. Sýnin voru ítarlega rannsökuð m.t.t. þungmálma og framkvæmd var tegundagreining arsens til að afla upplýsinga um efnaform arsensins.

Sýnatakan fór fram á vindasömum degi. Mynd: Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir

Tegundagreining getur verið flókin og var framkvæmd með sértækum massagreinum. Aukinheldur var brúnum stórþörungum skipt í líffræðilega hluta til að ákvarða hvort dreifing arsentegunda væri jöfn um þangið. Takmarkaðar upplýsingar eru til á heimsvísu um arsenólípíð í þangi, svo þessi umfangsmikla prófílgreining arsentegunda í mismunandi tegundum þörunga leggur lóð á vogarskálarnar til að skýra hvernig þessi dularfullu lífrænu efnasambönd arsens myndast og hvar þau eru geymd innan þörunganna.

Niðurstöður sýndu mikinn mun á milli þörungategunda

Niðurstöðurnar sýndu m.a. að styrkur vatnssækinna arsentegunda, eins og arsenósykra og ólífræns arsens, reyndist breytilegur milli mismunandi þörungategunda. Ólífrænt arsen fannst í lágum styrk í öllum þörungunum sem mældir voru nema í hrossaþara en þar var styrkurinn hár – en þó mishár eftir því hvaða hluti þörungsins var mældur. Samsetning arsenósykra var einnig háð þörungategundum og árstíð. Áhugavert var að allir stórþörungar virðast hafa getu til að framleiða fjórar helstu afleiður arsenósykra þó samsetningin sé breytileg.

Fitusæknar tegundir arsens (arsenólípíð) voru einnig mismunandi milli þörungategunda. Breytilegt var hvaða tegund arsenólípíða var ríkjandi, en sá munur var mestur milli brún- og rauðþörunga samanborið við grænþörunga. Þetta hefur aldrei verið sýnt fram á áður.

Þessar niðurstöður gefa til kynna að hringrás arsens sé mjög háð þörungategundum, sem hafa e.t.v. þróað með sér mismunandi aðferðir og leiðir fyrir efnaskipti arsens.

Mynd: Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir

Annað markmið var ítarleg greining á arsentegundum í mismunandi hlutum þörunga (t.d. festi, stilki, blaði, eða æxlunarvef) og milli árstíða til að gefa innsýn í hvernig þessi efnasambönd myndast. Arsenósykrur og ein tegund arsenólípíða sem innihalda arsensykrur fundust í hæstum styrk í æxlunarvef brúnþörunga. Þetta gefur til kynna að sykrurnar séu upphafspunktur framleiðslu þessara arsenólípíða. Mögulegt er að arsenósykrur eða arsenólípíð séu framleidd með ákveðinn líffræðilegan tilgang og þörungurinn geti nýtt þessi efnasambönd en framleiðsla þeirra gæti einnig verið fyrir slysni! Arsenósykrur virðast þó ekki þjóna tilgangi orkugeymslu eins og aðrar sykrur, og enn hefur ekki verið uppgötvað hvort og hver ávinningur er af tilveru þeirra í frumuveggnum.

Hefur þú áhuga á að vita meira?

Verkefnið „Dreifing arsentegunda eftir þanghlutum, sér í lagi arsenlípíða“  fékk styrk úr Rannsóknarsjóði árið 2020 og hefur verið í gangi síðastliðin 4 ár til að öðlast betri og dýpri skilning á þessu áhugaverða sviði. Verkefnið var unnið m.a. sem hluti doktorsnáms við Háskóla Íslands, í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun, Háskólann í Graz og Háskólann í Aberdeen.

Rannsóknin hefur stuðlað að betri skilningi á tilvist mismunandi efnasambanda arsens í stórþörungum. Gögnin geta einnig nýst við áhættumat á arsentegundum í þangi til manneldis og geta því haft áhrif á framtíðarlöggjöf um matvælaöryggi. Niðurstöðurnar úr verkefninu eru viðamiklar og má fylgjast með nýjum vísindagreinum sem enn er verið að birta úr verkefninu hér.

IS