Fréttir

Virðiskeðjan frá byggi til bjórs

Matís ohf hefur á undanförnum árum staðið að verkefnum um virðiskeðju korns frá kornskurði til framleiðslu matvæla. Flest þessi verkefni hafa fjallað um íslenskt bygg, gæði þess, efnainnihald og virðisaukningu með framleiðslu matvara. 

Bæði í verkefnum og hjá fyrirtækjum hefur verið sýnt fram á að hægt er að nýta íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum. Framleiðsla áfengra drykkja á Íslandi hefur eflst til muna á undanförnum árum. Um 22 handverksbrugghús eru nú í landinu auk tveggja stórra framleiðenda á bjór. Þá er viskí framleitt á Íslandi í vaxandi mæli. Í flestum tilfellum er notað innflutt bygg til framleiðslunnar.

Í verkefnum Matís hefur athyglin í vaxandi mæli beinst að sjálfbærni. Einn afraksturinn í nýlegu kornverkefni er kafli um sjálfbærni bjórframleiðslu í bókinni Case studies in the Beer Sector sem kom út nú í september hjá Elsevier bókaútgefandanum. Bókin fjallar um fjölmörg svið bjórframleiðslu svo sem þróun bjórmarkaðarins, nýjungar og markaðsmál. Stungið er upp á vænlegri aðferðafræði við markaðssetningu og fjallað um það hvernig bjór tengist svæðisbundnum mat og ferðamennsku. Fjallað er um árekstrana milli umhverfislegrar og hagrænnar sjálfbærni og ályktað er að ræða þurfi sjálfbærnina við stjórnvöld og sveitarfélög.

Þess er að vænta að íslenskir bjórframleiðendur geti sótt margar hugmyndir í bókina en hana má panta á vef Elsevier:  elsevier.com

Þess má einnig geta að Matís átti aðild að vísindagrein um virðiskeðjuna frá byggi til bjórs en hún er í opnum aðgangi hér. 

Fréttir

Matarsmiðjan

Klakavinnslan

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eruDaníel Jón Jónsson og Fannar Alexander Arason hjá Klakavinnslunni. 

Árið 2018 var fyrirtækið Klakavinnslan stofnað og í dag eru það Daníel Jón, annar stofnenda, og Fannar Alexander sem sjá um reksturinn. Þeir hafa báðir unnið í veitingageiranum um árabil og kynntust í gegnum þá vinnu. Þeir eru miklir áhugamenn um góða og vandaða drykki en í störfum sínum sem barþjónar ráku þeir sig oft á það að lök gæði klaka sem þeir nýttu í drykkjargerðina gerðu það að verkum að þeir gátu ekki framreitt drykki af þeim gæðum sem þeir hefðu helst kosið. Að þeirra mati fengu klakar alls ekki nægilega mikla athygli í veitingaheiminum þrátt fyrir að þeir væru stór og mikilvægur hluti af flestum drykkjum sem barþjónar framreiddu. Að auki var aðgengi að góðum klökum lítið sem ekkert á Íslandi

Þeir félagar sáu þarna tækifæri til þess að hefja framleiðslu hérlendis á hágæða klökum úr íslensku vatni. Það er engum blöðum um það að fletta að íslenskt vatn er með því besta í heimi svo þeir sáu fyrir sér að klakar úr því, unnir eftir kúnstarinnar reglum gætu orðið afburða góðir. Klakarnir frá Klakavinnslunni eru frystir hægt og rólega og með þrýstingi þannig að þeir verða mjög þéttir í sér. Ekkert loft verður eftir í þeim og þeir eru því alveg tærir og lausir við göt. Þetta gerir það að verkum að hver klaki bráðnar hægar en ella og þar af leiðandi helst drykkurinn óvatnsþynntur og í sinni réttu mynd mun lengur.

Klakavinnslan stundar fyrirtækjaþjónustu og því er hægt að fá klaka frá þeim í drykkinn sinn á hinum ýmsu veitingastöðum og börum í Reykjavík, svo sem á Slippbarnum, Sushi Social og Miami. Auk þess hefur vöruþróun farið fram og margt spennandi í pípunum en þeir hafa nýlega verið teknir í sölu í Melabúðinni og völdum Hagkaupsverslunum svo fólk getur nálgast þá með einföldum hætti og kælt drykkinn sinn.

Nánari upplýsingar um Klakavinnsluna má meðal annars finna á vefsíðu þeirra

Fréttir

Aðstaða til fiskeldisrannsókna hjá Matís : MARS

Matís hefur yfir að ráða góðri aðstöðu og öflugu liði sérfræðinga á sviði fiskeldisrannsókna, þá sér í lagi hvað varðar fóður og atferli fiska.

Í tilraunaeldisstöð Matís sem í daglegu tali er kölluð MARS (Matís Aquaculture Research Station), eru þrjú fiskeldiskerfi sem saman standa af tveimur RAS kerfum (Recirculation Aquaculture System) og einu gegnumstreymis kerfi.

  • RAS 1 samanstendur af 36 kerum sem hvert um sig tekur um 200 lítra af vatni/sjó.
  • RAS 2 samanstendur af 24 kerum sem hvert um sig tekur um 800 lítra af vatni/sjó.
  • Gegnumstreymiskerfið samanstendur af 48 kerum sem hvert um sig tekur um 20 lítra af vatni.

Í MARS eru meðal annars þróuð og framleidd fóður úr nýjum próteinum, auk þess sem framkvæmdar eru vaxtar- og meltanleikatilraunir á ýmsum fisktegunum. Einnig er mikil ásókn frá fóðurframleiðendum og fiskeldisfyrirtækjum víðsvegar um heim í þjónustuverkefni í MARS. Í þeim er meðal annars framleitt fóður úr hráefni sem þessir aðilar eru að þróa (eða kaupa af sínum birgjum) og svo eru þá framkvæmdar vaxtar- og/eða meltanleikatilraunir á fóðrinu.

Í MARS er unnið með mismunandi fisktegundir, sem og fiska á mismunandi æviskeiðum, allt frá seiðum upp í fullvaxinn fisk. Þær tegundir sem haldnar hafa verið í MARS eru Atlantshafs lax, beitarfiskur (tilapia), silungur, regnbogasilungur, hvítleggjarækjur og ostrur.

Það eru fáar tilraunaeldisstöðvar í heiminum sem geta boðið upp á sambærilega þjónustu og Matís hvað varðar fóðurgerð og fiskeldisrannsóknir. Þar að auki eru mikil samlegðaráhrif með öðrum sviðum innan Matís eins og t.d. efnamælingum, örverumælingum, skynmati, vinnslu, vöruþróun o.s.frv. Það er mikil ásókn í samstarf við Matís á sviðum fóðurs og fiskeldis, bæði í rannsóknarverkefnum og þjónustuverkefnum.

Við hjá Matís erum mjög stolt af þeirri aðstöðu og þekkingu sem til er innan fyrirtækisins og horfum björtum augum til framtíðar fiskeldis og fiskeldisrannsókna. 

Fréttir

Er notkun sveppapróteins eitt skref í átt að sjálfbærari og heilsusamlegri matarvenjum?

Með síaukinni fólksfjölgun og vitundarvakningu um umhverfisáhrif matvælaframleiðslu í heiminum hefur þörfin fyrir þróun nýrra innihaldsefna einnig aukist. Samhliða þessu heldur matvælaiðnaðurinn áfram að leitast við að mæta kröfum neytenda um gæði og næringargildi matvæla. Út frá þessu hefur verið skoðað hvort nýta megi líftækni til að þróa próteinríkt innihaldsefni í mat og mæta þar með eftirspurninni sem er eftir aukinni sjálfbærni og heilnæmi í matvælum.

Í verkefninu FUNGITIME sem styrkt er af Evrópusambandinu í gegnum EIT food og Matís leiðir fer fram þróun ýmissa matvæla sem innihalda ABUNDA® sveppaprótein. Í ABUNDA® próteininu má finna blöndu næringarefna, trefja, vítamína og steinefna og matvælin sem eru í þróun eru fjölbreytt. Sem dæmi má nefna snakk, pasta og ýmsa drykki á borð við mjólkurstaðgengla. Markmið verkefnisins er að þróa matvæli sem hafa afburða næringar- og líffræðilega eiginleika samhliða því að mæta sem flestum kröfum neytenda.

Hjá Matís hefur á undanförnum mánuðum farið fram þróunarvinna á uppskriftum að fersku tagliatelle pasta sem inniheldur ABUNDA® sveppaprótein. Annars vegar er um að ræða hefðbundna pasta uppskrift þar sem ákveðnu hlutfalli af hveiti er skipt út fyrir ABUNDA®. Hins vegar hefur verið þróuð pastauppskrift sem hentar þeim sem kjósa grænkerafæði.

Það er ýmsum vandkvæðum bundið að þróa pasta með þessum hætti en sumir eiginleikar pastadeigsins, svo sem viðloðun og teygjanleiki breytast töluvert þegar átt er við það. Neytendakannanir sem gerðar voru í tengslum við verkefnið hafa einnig sýnt fram á að neytendur óska eftir fleiri vörum án allra aukefna sem gjarnan eru notuð þegar framleiddar eru staðgönguvörur sem eiga að líkja eftir einhverskonar upprunalegum vörum. Því hefur verið haft að leiðarljósi að nota engin viðbætt efni í þessari þróun á pasta til að mæta þessum kröfum.

Gert er ráð fyrir að notkun ABUNDA® sveppapróteins muni þó hafa í för með sér ýmsa kosti. Próteinið er af miklum gæðum en framleiðslukostnaðurinn er þrátt fyrir það lágur og framleiðslan að miklu leyti sjálfbær. Próteinið er auk þess heilsusamlegt, trefjaríkt og hentar grænmetisætum og grænkerum.

Frekara lesefni um ABUNDA® sveppaprótein og tæknina á bakvið það má nálgast hér

Fréttir

Matarsmiðjan

Kombucha Iceland

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Ragna Björk Guðbrandsdóttir og Manuel Plasencia Gutierrez hjá Kombucha Iceland. 

Hjónin Ragna Björk og Manuel stofnuðu fyrirtækið Kombucha Iceland utan um framleiðslu sína á ýmsum afbrigðum kombucha drykkjarins árið 2016. Þau höfðu þá þegar töluverða reynslu af drykkjargerðinni en Manuel, sem er frá Kúbu, hafði verið að prófa sig áfram með gerjun á ýmsum mat og drykk hér á Íslandi, eins og hefð er fyrir á æskuheimili hans í heimalandinu, í allnokkur ár.

Kombucha er í grunninn te sem er gerjað eftir kúnstarinnar reglum. Hellt er upp á te en þau Ragna og Manuel notast við fimm tegundir af lífrænum hágæða telaufum og íslenskt vatn. Við rétt hitaskilyrði og með aðstoð lífræns sykurs hefst gerjunin og hún hrindir af stað ferli sem fyllir drykkinn af fjölbreyttum heilsubætandi efnasamböndum, góðgerlum og vítamínum. Kombucha er því talið afar gott fyrir heilsuna og ekki síst fyrir þarmaflóruna og meltinguna. Drykkurinn er náttúrulega kolsýrður og hefur skemmtilega súr-sætt bragð.

Í framleiðslunni hafa hjónin kappkostað að hafa sem allra flest innihaldsefni drykkjarins fersk, lífræn og helst íslensk ef kostur er. Kombucha Iceland er fáanlegt í fjölmörgum bragðtegundum og má þar til að mynda nefna krækiberjabragð en fjölskyldan fer jafnan saman í Borgarfjörð til að tína berin í drykkjarframleiðsluna. Einnig er m.a. hægt að fá rauðrófu-, glóaldin-, rabarbara- og vanillubragð auk original bragðtegundarinnar sem á marga aðdáendur. Kombucha er heilsueflandi og frískandi drykkur sem má njóta við flest tilefni. Hann inniheldur koffín úr teinu og kolsýru vegna gerjunarinnar og umsagnaraðilar hafa sagt að hann henti vel til að slá á sykurþörf og sem staðgengill fyrir gosdrykki eða áfengi.

Nánari upplýsingar um Kombucha Iceland má meðal annars finna á vefsíðu þeirra, https://kubalubra.is/.

Fréttir

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritar þjónustusamning við Matís til þriggja ára

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Matís hafa undirritað tvo nýja samninga, þjónustusamning til að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna og samning um eflingu starfsemi Matís á landsbyggðinni.

„Með samningunum felum við Matís að sinna uppbyggingu á starfsemi sinni á landsbyggðinni í takt við þá stefnu sem við höfum markað okkur um að fjölga störfum og auka verðmætasköpun á landsbyggðinni,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. „Með nýjum þjónustusamningi er settur skýr rammi utan um það mikilvæga verkefni að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna. Samningurinn er nú í fyrsta sinn gerður til þriggja ára til að auka stöðugleika. Matís sinnir lykilhlutverki í matvælaöryggi landsins og mikilvægt er að tryggja þeirri starfsemi öruggan og fyrirsjáanlegan rekstrargrundvöll.“

Uppbygging á landsbyggðinni í samræmi við stefnumótun ráðherra

Með samningi um eflingu þjónustu Matís á landsbyggðinni fær Matís 80 milljónir króna á tveggja ára tímabili til að styrkja starfsemi sína og auka samvinnu við atvinnugreinar í þróunar og rannsóknarstarfi.

„Með þessu mun Matís geta skapað tækifæri til aukins samstarfs við fyrirtæki, stofnanir og menntastofnanir. Við stefnum á að a.m.k. 10% starfsgilda Matís verði á landsbyggðinni,“ segir Oddur M. Gunnarsson forstjóri Matís, en þetta er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um störf án staðsetningar.

Markmið samningsins er meðal annars að færa starfsemi Matís nær viðskiptavinum og bæta verðmætasköpun til framtíðar með aukinni nýsköpun, rannsóknar- og þróunarvinnu.

Þjónustusamningur til þriggja ára

Ráðherra undirritaði einnig þriggja ára þjónustusamning um rannsóknir, rekstur tilvísunarrannsóknarstofu og öryggis- og forgangsþjónustu á sviði matvæla. Markmið samningsins er að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna. Í samningnum er jafnframt kveðið á um hlutverk Matís á sviði rannsókna sem auka verðmæti íslenskrar matvælaframleiðslu og stuðla að öryggi og heilnæmi hennar.

Með samningnum tryggir Matís aðgengi að öryggisþjónustu rannsóknarstofu og lágmarks viðbragðstíma við óvæntar uppákomur sem geta ógnað matvælaöryggi og heilsu neytenda. Þá sér Matís til þess að nauðsynlegir rannsóknarinnviðir séu til staðar svo hægt sé að fara með öflugt matvælaeftirlit.

„Samningurinn er í samræmi við þau markmið um að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum afurðum úr sjó og af landi auk þess að stuðla að aukinni nýsköpun í virðiskeðju íslenskrar matvælaframleiðslu,“ segir ráðherra. 

Fréttir

Lúpína í nýju ljósi

Þær Inga Kristín Guðlaugsdóttir og Elín Sigríður Harðardóttir eru vöruhönnuðir sem reka saman fyrirtækið Efnasmiðjan. Þær hafa undanfarin misseri unnið að og stýrt verkefni sem hefur yfirskriftina „Lúpína í nýju ljósi – trefjaefni framtíðar“ og gengur út á rannsóknir og tilraunir á alaskalúpínu.

Lúpínuna þekkja Íslendingar vel en hún var flutt inn til landsins árið 1945 og hefur síðan þá víða verið nýtt í jarðvegsuppgræðslu um land allt. Í upphafi verkefnisins voru eiginleikar og styrkleikar lúpínunnar sem hráefnis kannaðir. Markmiðið var að rannsaka eiginleika trefjaefnis sem unnið er úr ýmsum hlutum lúpínunnar frá mismunandi uppskerutímum með mismunandi aðferðum. 

Tilgangur verkefnisins er að þróa umhverfisvænt trefjaefni, til dæmis í umbúðir og byggingarefni, úr alaskalúpínu á sjálfbæran hátt. Efnið er án allra utanaðkomandi bindi- eða aukaefna og getur auk þess brotnað hratt niður í náttúrunni. Áhersla er lögð á að nýta þennan efnivið sem þegar er til staðar í miklum mæli í íslenskri náttúru, án þess þó að útrýma honum.

Verkefnið er enn á rannsóknarstigi og er um þessar mundir verið að skoða hvernig hægt sé að búa til mismunandi trefjaefni með mismunandi aðferðum. Ýmsar tilraunir og mælingar, svo sem áferðarmælingar og fleira sem krefst aðstöðu, búnaðar og frekari vísindalegrar þekkingar eru í höndum Matís sem er samstarfsaðili í verkefninu og er Sophie Jensen tengiliður.

Niðurstöður úr rannsóknum og tilraunum sem hafa þegar verið framkvæmdar gefa til kynna að lúpínan hafi sérstaka eiginleika sem geri það að verkum að trefjar hennar bindist vel saman og myndi sterkt trefjaefni sem er til margs nytsamlegt.

Lúpínan er að mörgu leyti athyglisvert rannsóknarefni og hefur megin áhersla verið lögð á að skoða efnislega eiginleika hennar. Hún vakti þó einnig áhuga Ingu og Elínar vegan þess hve umdeild hún er í íslensku samfélagi. Lúpínan er í raun endalaus uppspretta líflegra umræðna og hafa flestir sterkar skoðanir á hennar málefnum; ýmist elskar fólk lúpínuna eða hatar hana.

Inga og Elín hlutu nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2018 fyrir verkefnið auk þess sem það hefur fengið umfjöllun víða, svo sem í hönnunarritum og á ráðstefnum. Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins og fá frekari upplýsingar á heimasíðu þess; Lupineproject.com.

Fréttir

Matarsmiðjan

SVAVA the Icelandic Mustard lady

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Einn þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni er Svava hjá Sælkeraspinnepi Svövu eða SVAVA The Icelandic mustard lady 

Svava H. Guðmundsdóttir stendur að baki verkefninu en upphaf þess má rekja til þess að hún bjó ásamt fjölskyldu sinni í Suður-Svíþjóð á árunum 1975-1982. Þar um slóðir er sérstakt skánskt sinnep, það er sterkt sinnep með sætukeim, afar vinsælt meðlæti með ýmsum mat og Svava lærði sjálf að búa það til. Þegar fjölskyldan flutti heim reyndist erfitt að finna þessa gerð sinneps í verslunum landsins, sem leiddi til þess að Svava tók að þróa sitt eigið sinnep undir áhrifum frá því skánska. Í kringum efnahagshrunið fór Svava að huga að nýjum tækifærum til þess að grípa í lífinu og sá möguleika fólgna í því að færa út kvíarnar í sinnepsframleiðslunni sem fram að því hafði aðeins verið ætluð fyrir fjölskyldu og vini.

Framleiðsla Í fyrirtækinu Sólakur ehf hófst 2014 undir nafninu Sælkerasinnep Svövu en árið 2020 var umbúðunum og nafni breytt og eru vörurnar nú fáanlegar undir merkinu
SVAVA (The Icelandic Mustard Lady).

Sinnepsfræ frá Svíþjóð eru notuð í framleiðsluna, en reynt er að hafa sem mest af öðrum hráefnum íslensk og helst fengin frá heimafólki í héraði. Þetta sýnir sig vel í vöruúrvalinu en í dag eru framleiddar 6 bragðtengudir; Sterkt sætt, sem er grunn sinnepið, Aðalbláber og blóðberg, Kúmen og ákavíti, Flóki viskí, Íslenskur rabarbari og Lakkrís. Í öllum tegundum sinnepsins er einnig íslenskur bjór að norðan, Kaldi lager.

Á Íslandi er ekki sama hefð fyrir því að nota sinnep með og í mat eins og á hinum Norðurlöndunum, en með tilkomu sinnepsins frá Svövu hefur aðgengi að góðu sinnepi aukist og því er ekkert til fyrirstöðu að prufa sig áfram í matargerðinni. Sinn­epið má nota með pylsum, ofan á brauð, með gröfn­um fiski eða kjöti, í marineringu fyrir grillmat, í sal­atsós­ur og jafnvel með plokk­fiski svo eitthvað sé nefnt.

Nánari upplýsingar um SVAVA The Icelandic mustard lady má meðal annars finna á facebooksíðu fyrirtækisins. 

Fréttir

Norrænt verkefni um aukaefni úr plasti í sjó

Fyrr á þessu ári var farið af stað með samnorrænt verkefni þar sem rannsökuð eru aukaefni úr plasti í sjó. Um er að ræða samstarfsverkefni Árósaháskóla í Danmörku, Nofima í Noregi og Matís á Íslandi. Verkefnið er styrkt af samnorrænum vinnuhópum um hafið, strandsvæði og efnafræði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og er áætlað að verkefninu ljúki í október árið 2021.

Bakgrunnur: Gert er ráð fyrir að allt að 8 milljón tonn af plastúrgangi berist árlega í hafið á heimsvísu og búist er við að losun aukist á næstu árum. Plast er að finna í ótal vörum en margvíslegum kemískum aukaefnum er bætt út í plastið svo það uppfylli ákveðin skilyrði eða hafi ákveðna eiginleika. Plastafurðir sem lenda í sjónum brotna smám saman niður í smærri agnir og uppbygging þeirra og efnasamsetning breytist vegna niðurbrotsins. Kemísk aukefni geta losnað úr plastinu og leitt til óæskilegra áhrifa á lífríki sjávar ef þau hafa skaðleg heilsufarsleg áhrif. Ekki er enn vitað hver áhrifin geta verið á mannfólk sem neytir sjávarfangs og þekkingu á því hvaða efnum er bætt út í plastið, hversu mikil losunin er í hafið og áhættu þessara þátta fyrir lífríki sjávar er ábótavant.

Um verkefnið: Í þessu norræna verkefni verða leifar kemískra aukaefna í tveimur vörum sem framleiddar eru úr tveimur algengum plasttegundum, annars vegar pólývínýlklóríð (PVC) og hins vegar pólýúretan (PUR) skoðaðar og mældar. Plastið verður mulið í míkrómetra litlar agnir eða svokallað örplast og sett, í vatnsgegndræpum pokum, í Samnangerfjörð nálægt Bergen í Noregi. Þar verður það geymt frá júní fram í október árið 2020. Eftir niðurbrot í vatninu verða tegundir og magn kemískra aukaefna í plastögnunum ákvörðuð með efnagreiningaraðferðum og borin saman við tegundir og magn í upprunalega plastinu. Þetta mun veita þekkingu á því hvaða kemísku aukaefni eru í plastinu og mögulegri tilhneigingu þeirra til að losna út í sjávarumhverfið. Byggt á mögulegum áhrifum kemísku aukaefnanna á lífríki sjávar og fólk verður gerður listi yfir þau aukaefni sem mælast og þeim svo raðað upp út frá þeirri áhættu sem þau hafa í för með sér.

Miðlun: Niðurstöðum verður miðlað í verkefnaskýrslu og í tengslaneti norræna samstarfshópsins NordMar plastic. Stefnt er að því að nýta niðurstöðurnar í kennsluefni og sem gögn til að byggja á í ýmiss konar ákvarðanatöku, í plastiðnaði, hjá samtökum plastiðnaðarins og dreifingaraðilum. Að auki verða niðurstöðurnar kynntar og ræddar við dönsku umhverfisstofnunina, í vísindagreinum og á heimasíðum samstarfsaðila og samfélagsmiðlum þeirra.

Verkefnastjóri verkefnisins er Patrik Fauser hjá Institutfor Miljøvidenskab í Árósaháskóla og Sophie Jensen er tengiliður hjá Matís. Frekari upplýsingar má nálgast hjá þeim.

Fréttina má einnig lesa á upprunalegu tungumáli hér.

Fréttir

Leiðarvísir NordMar Plastic fyrir utanumhald hakkaþons

NordMar Plastic, samnorrænt verkefni sem leitt er af Matís, miðar að því að vekja athygli á og fræða almenning um plastmengun í umhverfinu auk þess að þróa og gefa út námsefni eða halda viðburði sem stuðla að aukinni nýsköpun í tengslum við viðfangsefnið. Nú hefur verið gefinn út leiðarvísir um það hvernig halda má svokallað hakkaþon (e. hackathon) eða hugmyndasamkeppni sem snýr að ákveðnu málefni.

Leiðarvísirinn er nytsamlegur ef halda á hakkaþon hugmyndasamkeppni um umhverfismál, ýmist á staðnum þar sem fólk hittist eins og venjan er í hefðbundnu árferði eða í netheimum. Í leiðarvísinum má finna minnislista, hugmyndir að uppsetningu dagskrár, umsagnir og heilræði um hvað skal gera og hvaða áskorunum skipuleggjendur geta staðið frammi fyrir þegar viðburður af þessu tagi er skipulagður. Leiðarvísirinn er byggður á skipulagningu og framkvæmd tveggja hakkaþon viðburða sem haldnir voru á Íslandi haustin 2019 og 2020.
Leiðarvísinn má nálgast á Pdf. formi hér.

Í september 2019 var haldið Plastaþon, hugmyndasamkeppni sem hafði það að markmiði að finna lausnir við vandamálum sem mannfólkið stendur frammi fyrir í tengslum við plastnotkun. Þátttakendur fengu þjálfun og fræðslu um málefnið og hittu fjölbreyttan hóp fólks sem kom saman til þess að leita skapandi lausna undir handleiðslu sérfræðinga. 50 einstaklingar skráðu sig en alls voru 34 sem kláruðu hakkaþonið. Þátttakendur mynduðu teymi og unnu saman að lausnum á vandanum sem hlýst af ofnotkun plasts. Hugmyndin sem bar sigur úr býtum fól í sér að setja upp sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir mjólkurvörur og aðrar fljótandi vörur í matvörubúðum. Viðskiptavinir gætu þá sjálfir komið með endurnýtanlegar umbúðir og fyllt á eftir þörfum.

Svipaður viðburður var haldinn í ágúst á þessu ári, undir nafninu Spjaraþon. Vegna COVID-19 var viðburðurinn færður í netheima sem hafði í för með sér ýmsar áskoranir en leitast var við að hafa öll tæknileg atriði eins einföld og mögulegt var. Í þessu hakkaþoni komu þátttakendur saman til þess að fræðast um umhverfisvandann í tengslum við textíliðnaðinn og leita leiða til að sporna við textíl sóun. Sérfræðingar ræddu við þátttakendur um stöðuna á vandamálinu og stöðu hönnunarferlisins í iðnaðinum og úr samræðunum spruttu góðar hugmyndir um þróun lausna sem væru í senn áhrifaríkar, raunhæfar og nytsamlegar. 14 einstaklingar settu fram góðar hugmyndir en sigur lausnin bar yfirskriftina Spjarasafn. Spjarasafn er eins konar Airbnb fyrir föt sem gerir notendum kleift að leigja út og fá lánaða dýra munaðarvöru sem annars myndi að öllu jöfnu hanga ónotuð inni í fataskáp.

IS