Fréttir

Markáætlun um öndvegissetur og rannsóknarklasa – Matís þátttakandi í 5 hugmyndum af 10

Þann 24. júní sl. tilkynnti Rannís (Rannsóknamiðstöð Íslands) um þær tíu hugmyndir sem fá styrk úr markáætlun um öndvegssetur og rannsóknaklasa til að skila fullbúinni umsókn í október næstkomandi, og er Matís ohf. þátttakandi í fimm þeirra.

Hugmyndirnar fimm sem um ræðir eru eftirfarandi:

#5 Rannsóknasetur vitvéla

#7 Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á náttúru og samfélag

#21 Næring í nýsköpun

#29 Lífvirk efni frá láði og legi

#73 Öndvegissetur í fiskeldi 2009-2015 – sjálfbær nýting auðlinda lands og sjávar

Markáætlunin var auglýst í apríl síðastliðnum og var beðið um hugmyndir að öndvegissetrum og rannsóknaklösum á þeim sviðum sem fjallað er um í ályktun Vísinda- og tækniráðs frá því í desember 2007. Alls bárust 82 hugmyndir.

Starfshópur á vegum Vísinda- og tækniráðs valdi tíu hugmyndir og tók mið af stefnu ráðsins og þeim viðmiðunum sem nefnd eru í lýsingu á markáætluninni. Lokaniðurstaða var samþykkt á fundi vísindanefndar og tækninefndar 24. júní síðastliðinn.

Eins og fram kemur í lýsingu á markáætluninni er eitt aðalmarkmið hennar að styrkja tengsl milli háskóla, stofnana, fyrirtækja og stjórnvalda á viðkomandi sviði, innanlands sem utan.

Alls tók Matís ohf. þátt í 16 af þeim 82 hugmyndum sem bárust Rannís í vor, eða 20%. Nú þegar Matís tekur þátt í fimm af þeim tíu hugmyndum sem fá framgang hefur hlutfallið hækkað í 50%.

Fréttir

Skyndibitinn á Höfn er humarsúpa!

Skyndibitastaðurinn Kokkur á Höfn í Hornafirði hefur hafið sölu á humarsúpu í gegnum bílalúgu. Um er að ræða sælkerahumarsúpu sem unnin er úr staðbundnu hráefni. Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís og Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika.

Upplifun
Það er óneitanlega sérstök og sterk upplifun að kaupa jafn glæsilega vöru og sælkerahumarsúpu í bílalúgu á skyndibitastað. Til að auka enn á hughrifin er súpan framreidd í fallegum endurvinnanlegum umbúðum og með henni fylgir servíetta sem vísar til hins eina sanna rauðköflótta lautarferðadúks. Tréspjót með nýgrilluðum humri fylgir með súpunni.


Úrvalshráefni
Vörumerki Humarsúpunnar er skjaldarmerki, sem vísar til gæða vörunnar og þess að hún er frá höfuðstað humarsins á Íslandi. Í súpunni er eingöngu úrvalshráefni en undirstaðan er auðvitað hornfirskur humar.
Eldað hægt – Lykilatriði í humarsúpugerðinni er natni. Ekki minna en fullur vinnudagur fer í humarsúpugerðina þar sem hið eina sanna humarbragð er galdrað fram með hægri suðu í langan tíma undir ströngu eftirliti faglærðra matreiðslumanna.

 
Matarmenning
Humarsúpa Kokksins er einstakur hágæðaskyndibiti sem hefur sterka vísun í upprunann og umhverfið en er um leið sælkeravara á alþjóðlega vísu.  Með vörunni er leitast við að kynna hina sterku humarhefð svæðisins.  Þannig er hægt að upplifa sælkerasúpu sem myndi sóma sér á hvaða veitingastað sem er, á fljótlegan, ódýran og nýstárlegan hátt.


Samstarf Matís og Kokksins
Humarsúpa Kokksins er sprottin upp úr samstarfi við Matís sem selur heildstæða ráðgjöf og aðgang að vöruþróunaraðstöðu til að umbreyta hugmyndum yfir í gæðamatvæli.  Kokkurinn hefur m.a. notið aðstoðar matvælahönnuða og matvælafræðinga sem starfa á vegum Matís til að gera hugmyndina að humarsúpusölu í gegnum bílalúgu að veruleika. 

 
Saga Kokksins
Bræðurnir Jón Sölvi og Valgeir, opnuðu skyndibitastaðinn Kokkur með stæl í nóvember 2007 en þar eru allar vörur afgreiddar í gegnum bílalúgu.  Það má segja að hugtakið „skyndibiti“ hafi við þetta öðlast nýja og innblásna merkingu en Jón Sölvi er þrautreyndur listakokkur sem hafði fram að þessu starfað við fínustu veitingastaði landsins. Að opna lítinn stað eins og Kokkur lýsir hugarfari Jóns fullkomlega.  Það er ekki stærðin heldur gæðin og frumleikinn sem skipta máli í hans huga.

Á myndinni sést er Guðumundur H. Gunnarsson, deildarstjóri Matís á Höfn, fær sér humarsúpu „beint í bílinn.“

Frekari upplýsingar um verkefnið veita:
Valgeir Ólafsson (Annar eigandi Kokksins):  899-4430 , valgeir@ogsvo.is
Brynhildur Pálsdóttir (matarhönnuður): 849-9764, brynhildur.palsdottir@matis.is
Guðmundur Gunnarsson (deildarstjóri hjá Matís): 858-5046, ghg@matis.is

Fréttir

Matís og Veiðimálastofnun í samstarf: rannsóknir á erfðafræði íslenskra laxfiska

Matís Ohf og Veiðimálastofnun undirrituðu í gær, fimmtudaginn 3. júlí, rammasamning um eflingu samstarfs milli fyrirtækjanna. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfesti samninginn af því tilefni. Undirritunin fór fram í húsnæði Matís-Prokaria, líftæknisviðs Matís, að Gylfaflöt 5 í Grafarvogi. Samstarf Matís og Veiðimálastofnunar verður einkum á sviði erfðarannsókna og í fiskeldi.

Matís–Prokaria sýndi við sama tækifæri nýja raðgreiningarvél en tækið getur raðgreint mikið magn erfðaefnis, t.d. fyrir stofnerfðagreiningar og við leit að áhugaverðum genum fyrir ný ensím sem meðal annars má nota í lyfja-, matvæla- og orkuiðnaði.

Samvinnan er þegar hafin og í gangi er viðamikil rannsókn á stofnbreytileika íslenskra laxa og ferðir þeirra í hafinu umhverfis Ísland. Þetta er hluti af alþjóðlegu rannsóknaverkefni á Atlantshafslaxi. Fyrstu niðurstöður benda til mikils breytileika á laxastofnum í ánum í kringum landið. Markmið vísindamanna er að geta svarað ýmsum spurningum með því að geta rakið uppruna laxa í Atlantshafinu til upprunaár eða árkefis. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið þar sem hvert land þarf að vinna mikla vinnu bæði í sýnasöfnun og erfðagreiningum. Íslendingar virðast komnir einna lengst með vinnu á þessu sviði og er nú stefnt að næsta skrefi rannsóknarinnar sem tengist sjógöngulaxinum. Þar er stefnt að samvinnu við fiskveiðiflotann um að safna sýnum úr laxi sem slæðist með í veiðiafla skipanna..

Mikil hnignun hefur átt sér stað í flestum stofnum Atlantshafslaxins og er hann víða á válista yfir tegund í útrýmingarhættu. Mjög lítið er vitað um sjógöngur laxa og hafa rannsóknir byggt annars vegar á hefðbundnum merkingum og rannsóknum á skipum á hafi úti. Auk þess hafa nýlegar verið hafnar rannsóknir með rafeindamerkjum hér á landi. Þessar rannsóknir sem nú er verið að kynna renna sterkari stoðum undir þekkingu manna á þessu sviði. Samvinna fyrirtækjanna kemur til með að auka þekkingu á erfða- og vistfræði laxfiska. Sú þekking nýtist síðan í frekari rannsóknum á nýtingu og verndun stofnanna landi og þjóð til hagsbóta.

Veiðimálastofnun hefur stundað stofnerfðarannsóknir á ferskvatnsfiskum og Matís stundað rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar og hefur byggt upp mikla þekkingu og færni í erfðagreiningu á alls kyns lífverum úr umhverfinu. Veiðimálastofnun og Matís munu standa að nánu samstarfi um rannsóknir. Þessar rannsóknir spanna grunn- og hagnýtar rannsóknir í náttúru- og erfðafræði með sérstaka áherslu á stofnerfðafræði lax, urriða og bleikju. Slíkar rannsóknir nýtast við veiðistjórnun og við uppbyggingu í fiskrækt og fiskeldi.

Matís ohf er hlutafélag í eigu ríkisins, sem hefur það markmið að efla alþjóðlega samkeppnishæfni og þróun íslenskrar matvælaframleiðslu, stuðla að hollustu og öryggi matvæla og styðja við vísindastarfsemi háskólastofnana, nýsköpun og sprotafyrirtæki, auk þess að sinna samfélagslegum skyldum gagnvart einstökum atvinnugreinum.
 
Veiðimálastofnun er rannsókna- og þjónustustofnun. Hlutverk Veiðimálastofnunar er að rannsaka lífríki í ám og vötnum, rannsaka fiskistofna í ferskvatni, veita ráðgjöf um veiðinýtingu og um lífríki og umhverfi áa og vatna t.d. í tengslum við mannvirkjagerð og halda gagnagrunn um náttúrufar í fersku vatni.

Myndin var tekin við undirritun samningsins.

Skýrslur

Efnasamsetning og eiginleikar ufsa ísólats / Chemical composition and properties of saithe isolate

Útgefið:

01/07/2008

Höfundar:

Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, Patricia Y. Hamaguchi, Ragnar Jóhannsson, Sigurður Hauksson, Hörður G. Kristinsson, Guðjón Þorkelsson

Efnasamsetning og eiginleikar ufsa ísólats / Chemical composition and properties of saithe isolate

Iceprotein ehf framleiðir prótein úr hráum fiskefniviði með sýru- og basa meðhöndlun. Úr þessari vinnslu fást tvö lög: efra lagið er próteinísólat og neðra lagið er vökvafasi. Vökvafasinn inniheldur prótein sem hafa ekki verið nýtt hingað til en hafa möguleika sem innihaldsefni í matvæli og sem fæðubótarefni. Ufsaprótein hafa góða möguleika á að vera efniviður í heilsufæði ef þau eru meðhöndluð á réttan hátt. Þannig mætti auka verðmæti ufsa þar sem hann er ódýr og vannýtt fisktegund. Tilgangurinn með þessari tilraun var að kanna möguleika á nýtingu á neðra laginu frá sýru- og basa meðhöndlun úr ufsa. Þá voru borin kennsl á samsetningu og eiginleika þessa efniviðar og ályktað hverjir möguleikar þess eru sem efniviður í heilsufæði. Ufsi var sýru- og basa meðhöndlaður og neðra laginu safnað. Vökvafasi var örsíaður og próteinmassinn var þveginn. Framkvæmd var greining á efnasamsetningu hráefnis, rafdráttur (SDS-PAGE), frostþurrkun, athugun á sambandi leysanleika próteina og sýrustigs og mæling á ACE-hamlandi virkni. Niðurstöður sýna að efniviðurinn var um 95% vatn, 4% prótein, 0,16% fita og 0,5% steinefni. Próteinin voru óleysanleg í vatni, að mestum hluta myósín og aktín og mældust ekki með ACE-hamlandi virkni. Framtíðaráform eru að vatnsrjúfa próteinin með ensímtækni til þess að þau verði leysanleg og lífvirk. Einnig munu verða gerðar tilraunir með íblöndun andoxunarefna í efniviðinn fyrir og eftir ensímmeðhöndlun til að koma í veg fyrir oxun fitu sem annars rýrir bragðgæði.

Iceprotein ehf processes proteins from fish raw material with a pH-shift method. The pH-shift method results in two phases: the upper layer being the protein isolate and the lower layer a liquid phase containing insoluble proteins. These insoluble proteins have not been utilized so far but are potential food ingredients or nutritional supplements. If handled in the right manner, saithe proteins have good potential as ingredients in health foods. This way it would be possible to increase the commercial value of saithe which is an underutilized and inexpensive fish species. The purpose of this investigation was to explore the possibilities of utilizing the lower layer from saithe processed with the pH-shift method. The chemical composition and functional properties of the proteins in the lower layer were analyzed and their potential as health food ingredients explored. Saithe was processed with the pH-shift method and the lower layer was collected. The liquid phase was filtered and the protein mass was washed. The chemical composition was determined, the samples were subjected to electrophoresis (SDS-PAGE), freeze-dried, the relationship between solubility of the protein and pH was investigated, and the ACE-inhibiting function was measured. The results demonstrated that the material was 95% water, 4% protein, 0.16% fat and 0.5% minerals. The proteins were insoluble in water and consisted mostly of myosin and actin and did not show ACE-inhibiting activity. The future plan is to hydrolyse the material using enzyme technology to make them soluble and bioactive. Experiments in which antioxidants are added to the material will also be performed before and after enzyme treatment to prevent lipid oxidation which can have a negative effect on the product.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Undesirable substances in seafood products– results from the monitoring activities in 2006

Útgefið:

01/07/2008

Höfundar:

Ásta Margrét Ásmundsdóttir, Vordís Baldursdóttir, Sasan Rabieh, Helga Gunnlaugsdóttir

Styrkt af:

Ministry of fisheries

Undesirable substances in seafood products– results from the monitoring activities in 2006

Árið 2003 hófst, að frumkvæði Sjávarútvegsráðuneytisins, vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum, bæði afurðum sem ætlaðar eru til manneldis sem og afurðum lýsis- og mjöliðnaðar. Tilgangurinn með vöktuninni er að meta ástand íslenskra sjávarafurða með tilliti til magns aðskotaefna. Gögnin sem safnað er í vöktunarverkefninu verða einnig notuð í áhættumati og til að hafa áhrif á setningu hámarksgilda óæskilegra efna t.d í Evrópu. Umfjöllun um aðskotaefni í sjávarafurðum, bæði í almennum fjölmiðlum og í vísindaritum, hefur margoft krafist viðbragða íslenskra stjórnvalda. Nauðsynlegt er að hafa til taks vísindaniðurstöður sem sýna fram á raunverulegt ástand íslenskra sjávarafurða til þess að koma í veg fyrir tjón sem af slíkri umfjöllun getur hlotist. Ennfremur eru mörk aðskotaefna í sífelldri endurskoðun og er mikilvægt fyrir Íslendinga að taka þátt í slíkri endurskoðun og styðja mál sitt með vísindagögnum. Þetta sýnir mikilvægi þess að regluleg vöktun fari fram og að á Íslandi séu stundaðar sjálfstæðar rannsóknir á eins mikilvægum málaflokki og mengun sjávarafurða er. Þessi skýrsla er samantekt niðurstaðna vöktunarinnar árið 2006. Það er langtímamarkmið að meta ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. magns óæskilegra efna. Þessu markmiði verður einungis náð með sívirkri vöktun í langan tíma. Á hverju ári miðast vöktunin við að bæta við þeim gögnum sem helst vantar og gera gagnagrunnin þannig nákvæmari og ýtarlegri með ári hverju.. Árið 2006 voru mælddioxin, dioxinlík PCB, bendi PCB,, auk þess tíu mismunandi tegundir varnarefna, þungmálmar og önnur snefilefni, í sjávarafurðum sem ætlaðar eru til manneldis og í afurðum lýsis- og mjöliðnaðar.

This project was started in 2003 at the request of the Icelandic Ministry of Fisheries. Until then, monitoring of undesirable substances in the edible portion of marine catches had been rather limited in Iceland. The purpose of the project is to gather information and evaluate the status of Icelandic seafood products in terms of undesirable substances. The information will also be utilized for a risk assessment and the setting of maximum values that are now under consideration within EU. This report summarizes the results obtained in 2006 for the monitoring of various undesirable substances in the edible part of marine catches, fish meal and fish oil for feed. This project began in 2003 and has now been carried out for four consecutive years. One of the goals of this annual monitoring program of various undesirable substances in seafood is to gather information on the status Icelandic seafood products in terms of undesirable substances, this is a long-term goal which can be reached through continuous monitoring by filling in the gaps of data available over many years. For this reason, we carefully select which undesirable substances are measured in the various seafood samples each year with the aim to eventually fill in the gaps in the available data over couple of year time. The results obtained in 2003, 2004 and 2005 have already been published and are accessible at the Matis website (IFL Report 06-04, IFL Report 33-05 and IFL Report 22-06, respectively). In 2006, data was collected on, polychlorinated dibenzodioxins and dibenzofurans (17 substances), dioxin-like PCBs (12 substances), marker PCBs (7 substances), 10 different types of pesticides, polybrominated flame retardants PBDE as well as trace elements and heavy metals.

Skoða skýrslu

Skýrslur

Fituþol þorsks

Útgefið:

01/07/2008

Höfundar:

Jón Árnason, Rannveig Björnsdóttir, Helgi Thorarensen, Ingólfur Arnarson

Fituþol þorsks

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif fituinnihalds í fóðri á vöxt og þrif í þorski af mismunandi stærð. Þekking á næringarþörfum fiska er nauðsynleg forsenda fyrir gerð fóðurs fyrir þá. Þorskar af tveimur stærðum (120 g og 600 g) voru fóðraðir (í þrítekningu) í 12 vikur á fóðri sem innihélt 10.0%, 13.5%, 21.2%, 24.5% og 27.7% fitu í þurrefni. Mismunandi fituinnihald hafði ekki áhrif á vöxt (SGR), holdstuðul (CF), flakanýtingu, fituinnihald í lifur eða fituinnihald í flökum. Í smærri fiskinum lækkaði fóðurstuðull (FCR) með aukinni fitu í fóðri. Fóðurfitan hafði ekki áhrif á fituinnihald innyfla án lifrar í smærri fiskinum(120g) en í 600 g fiski jókst fita í innyflum með auknu fituinnihaldi fóðurs. Fituinnihald hafði ekki áhrif á hlutfall slægðs þunga af heildarþunga í 600 g fiskinum en í smærri fiskinum lækkaði hlutfallið með aukinni fitu í fóðri. Lifrarhlutfall (HSI) í 600g fiski var ekki háð fituinnihaldi í fóðri, en hins vegar var jákvætt samhengi milli fóðurfitu og HSI í 120 g fiskinum. Þetta þýðir að fituþol þorsks með tilliti til lifrarhlutfalls er háð stærð fisksins.

Detailed knowledge of the nutritional requirements of fish is essential for feed formulation. The aim of this research was to investigate the effects of different lipid content in diets for Atlantic cod of different size. Cod of two size groups (initial weight 120 grams and 600 grams) were fed, in triplicate, for 12 weeks diets containing 10.0%, 13.5%, 21.2%, 24.5% and 27.7% lipid in dry matter. Different lipid content in the diet did not affect growth (SGR), condition factor (CF), fillet yield, lipid content in liver or lipid content in fillet. In the smaller fish, FCR was reduced with increased diet lipid. The lipid content in the diet did not affect the lipid content of intestines in the 120 grams fish but in the 600 grams fish there was a positive correlation between lipid content in diet and intestines. Dietary lipid did not affect gutted weight (calculated as the percentage of round weight) in the 600 grams fish but in the 120 grams fish, the percent gutted weight decreased with lipid content of the diet. The Heposomatic index (HSI) in the 600 grams fish was not affected by the lipid content of the diet but dietary lipid content significantly affected the HSI in the smaller fish. This indicates that the lipid tolerance of Atlantic cod, with respect to the effect on HSI, is size dependent.

Skoða skýrslu

Skýrslur

HEILSUFÆÐI: Samantekt á helstu flokkum heilsufæðis og vísindalegra sannana á virkni þeirra

Útgefið:

01/07/2008

Höfundar:

Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, Guðjón Þorkelsson, Þóra Valsdóttir

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

HEILSUFÆÐI: Samantekt á helstu flokkum heilsufæðis og vísindalegra sannana á virkni þeirra

Matvæli sem eru talin geta bætt heilsu manna má flokka sem heilsufæði t.d. óbreytt lífrænt ræktuð matvæli, fæðubótarefni og markfæði. Í fyrri hluta þessarar ritgerðar er farið yfir skilgreiningar og reglugerðir, efnivið og virkni vinsælla heilsuvara og leyfðar heilsufullyrðingar ræddar. Samkvæmt reglugerð eru fæðubótarefni matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði en markfæði er hinsvegar oft skilgreint sem matvæli sem hefur verið breytt í þeim tilgangi að heilsusamleg áhrif þeirra aukist. Í seinni hluta ritgerðarinnar eru sérstaklega tekin fyrir prótein í heilsuvörum með áherslu á lífvirkni peptíða. Lífvirk peptíð hafa jákvæð áhrif á heilsu umfram hefðbundið næringargildi. Þau geta haft lífeðlisfræðileg áhrif á virkni í meltingarvegi, hjarta- og æðakerfi, ónæmiskerfi og taugakerfi. Farið er yfir áhrif peptíða í þessum kerfum. Möguleikar fiskvöðvapróteina á heilsuvörumarkaði eru hugleiddir. Nú á dögum er mjög mikið magn af vannýttum aukahráefnum úr sjávarfangi og hafa rannsóknir því beinst mikið að því að finna leiðir til að nýta og auka verðmæti þeirra. Markfæðismarkaður er blómlegur um þessar mundir og því spáð að hann fari stækkandi. Sjávarafurðir hafa jákvæða heilsuímynd meðal neytenda og því gætu heilsuvörur sem innihalda fiskvöðvaprótein slegið í gegn. Það krefst þó þess að rétt bragð, áferð og lífvirkni skili sér til neytendans, auk þess sem kynna þyrfti neytendum vörurnar á markvissan og öflugan hátt.

Food that has the potential of improving health can be categorized as health food e.g. organic food, dietary supplements and functional food. Definitions, regulations, composition and functionality of popular health food and permitted health statements, are discussed. According to regulation dietary supplements are food that are intended as an addition to a normal diet, however functional food is commonly referred to as food that has been fortified to enhance its positive effects on health. The latter part of this paper discusses proteins in health foods with emphasis on bioactive peptides. Bioactive peptides have a positive effect beyond their regular nutrition value. They have been shown to have a biological effect in the alimentary canal, the heart and the vascular system, the immune system and the nervous system. The mechanisms involved are reviewed. The potential of fish protein in the functional food market will also be addressed. Today, great quantity of marine by-products are underutilized. Therefore, emphasis has been within the research community on finding methods to utilize and enhance their value. Currently the functional food market is blooming and is expected to grow in the following years. Marine products have a positive health image among consumers, thus health products containing fish proteins could be a great success. To be realized, this requires that the right taste, texture and bioactivity is delivered to the consumer accompanied by a good advertisement campaign.

Skoða skýrslu

Fréttir

Viltu læra af fremsta vísindafólkinu? – Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc)!

Efnarannsóknardeild Matís ohf býður áhugasömum nemenda í efnafræði eða lífefnfræði styrk til mastersnáms (MSc) á sviði snefilefnagreininga
Titill verkefnis er Greining eitraðra og hættulausra efnaforma arsens í fiskimjöli með HPLC-ICP-MS

Stutt lýsing á verkefninu
Í lífríkinu er mikið til af efninu Arsen í lífrænum efnasamböndum sem og á ólífrænu formi og hafa fundist meira en 50 náttúruleg efnaform af arseni. Sjávarfang inniheldur frá náttúrunnar hendi háan styrk heildararsens miðað við t.d. landbúnaðarafurðir. Stærsti hluti arsens í sjávarfangi er hins vegar bundið á lífrænu formi sem kallast arsenobetaníð, sem er mönnum og dýrum með öllu hættulaust. Eins og í landbúnaðarafurðum koma önnur form arsens fyrir í sjávarafurðum, s.s. ólífrænt arsen (arsenít og arsenat), metýlarsensambönd (mónó, dí, trí og tetra), sem eru mjög eitruð og þar með hættuleg heilsu manna.

Formgreining arsens í sjávarfangi er mikilvæg vegna þess að upptaka (bioavailability) og eiturvirkni arsens er mjög háð því á hvaða efnaformi það er. Engu að síður taka núverandi reglugerðir um innihaldsmörk arsens í matvælum og fóðri einungis tillit til heildar arsens í fæðu/fóðurþáttum en miðast ekki við eitrað efnaform arsens. Rannsóknir á efnaformum arsens og formbreytingum þessara efna eru mikilvægar til þess að skilja hve mikil hætta okkur stafar af arseni í sjávarfangi.

Markmið
Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að þróa efnagreiningaraðferðir sem geta greint bæði eitruð og hættulaus efnaform arsens í fiskimjöli en ekki bara heildarmagn arsens eins og gert er í dag. Notaður verður HPLC-ICP-MS efnagreiningarbúnaður til greiningar á nýjum og þekktum arsenformum í fiskimjöli.

Þetta verkefni hlaut nýverið styrk úr rannsóknasjóði AVS og verður unnið í samstarfi við Síldarvinnslan hf. og Vinnslustöðin hf auk þess sem fleiri framleiðendur fiskimjöls koma að verkefninu.

Staðsetning
Matís & HÍ. Einnig er möguleiki er á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir sem Matís er í samstarfi við.

Leiðbeinandi hjá Matís er Dr Sasan Rabieh er sérfræðingur á þessu sviði og leiðir uppbygginguna á þessu nýja rannsóknarsviði hjá Matís. Í þessari uppbyggingu felst m.a. stuðningur við nemenda til mastersnáms á þessu sviði. Möguleiki er
á að hluti námsins fari fram við erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir.

Tengiliður
Áhugasömum er bent á að hafa samband í síma 422 5112, sasan@matis.is eða helgag@matis.is

Fréttir

SAFEFOODERA heimsækir Matís

Þann 18. júní s.l. var haldinn fundur hér á landi á vegum SAFEFOODERA EraNet verkefnisins, en hér er um að ræða alþjóðlegt samstarfsverkefni sem hefur að markmiði að efla matvælaöryggi. Verkefnið heyrir undir 7. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins (7. RÁ ESB), en einn lykilþáttur í 7. RÁ er uppbygging Evrópska rannsóknasvæðisins (ERA).

Tæplega 50 manna hópur kom hingað til lands til að vera viðstaddur fundinn og byrjaði Íslandsheimsókn hópsins á heimsókn í aðalstöðvar Matís við Borgartún, þar sem hann fræddist m.a. um starfsemi Matís og naut kvöldhressingar með útsýni yfir sundin blá.

Meðal þeirra sem kváðu sér hljóðs við þetta tilefni var Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstóri Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og síðan Oddur Már Gunnarsson, sviðsstjóri hjá Matís, sem bauð hópinn velkominn til landsins. Þá tóku þeir Johs Kjosbakken frá Norska rannsóknaráðinu (RCN), formaður stýrihóps SAFEFOODERA og Mads Peter Schreiber frá NICe einnig til máls. Gerðu þeir góðan róm að landi og þjóð við komuna og sögðust hlakka til dvalarinnar. Að loknum stuttum ávörpum gerðu gestirnir veitingum skil og héldu svo með áætlunarbíl áleiðis til Stykkishólms, þar sem fundurinn var haldinn.

Þess má geta að búið er að auglýsa eftir styrkumsóknum úr SAFEFOODERA verkefninu og hyggst Matís leggja inn umsóknir. Umsóknarfrestur er til 15. september 2008.

Fundur´hjá Matís í Safefoodera-verkefninu 18. júní 2008

Á myndinni eru þeir Johs Kjosbakken (tv) og Sigurgeir Þorgeirsson.

Fréttir

Rannsókn á Matís: nýting makríls sem veiðist á Íslandsmiðum

Makríll hefur hingað til ekki talist til nytjastofna á Íslandsmiðum, enda eru heimkynni hans einkum út af Austurstönd N-Ameríku, í Norðursjó, Miðjarðarhafi og Svartahafi. Á síðustu árum hafa íslensk síldveiðiskip hins vegar orðið vör við makríl í auknum mæli og hafa skipin veitt makríl í bland við norsk-íslensku síldina austur af landinu síðsumars. Makríll er mjög verðmikill fiskur og verðið er oft yfir 100 kr/kg. fyrir ferskan haustveiddan fisk í vinnslu og fyrir frosinn slægðan fisk veiddan yfir sumartímann. Á Matís er nú að fara af stað verkefni sem kallast Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum.

Markmiðið með þessu verkefni er að kanna veiðar uppsjávarfiskiskipa á makríl á Íslandsmiðum, gera mælingar á lögun, koma með lausnir hvernig flokka megi makrílinn frá öðrum fiski um borð og hvernig vinnslu skuli háttað í frystiskipum. Greindur verður tækjakostur sem nauðsynlegur er við vinnsluna, einnig verða markaðir kannaðir fyrir makríl veiddan á Íslandsmiðum eftir árstímum. Stefnt er að því að afrakstur verkefnisins verði sjófrystar íslenskar makrílafurðir en þær hafa ekki verið framleiddar hingað til.
 
Útgerðir munu geta nýtt sér niðurstöður verkefnisins sem stuðning ef þær hyggjast hefja makrílveiðar með síldveiðum hér við land, einnig mun þetta verkefni undirbúa útgerðirnar ef vaxandi makrílgengd á Íslandsmiðum reynist til langframa.

Verkefnisstjóri er Ragnheiður Sveinþórsdóttir.

IS