Fréttir

Samstarf við Sjávarklasann um fullnýtingu fisks í Kanada

Allt frá stofnun Sjávarklasans 2011 hefur Matís átt í góðu og árangursríku samstarfi við klasann sjálfan og þau fyrirtæki sem í honum eru. Það hefur verið ævintýri líkast að taka þátt í og fylgjast með hvernig klasinn hefur blómstrað og skilað af sér nýjum fyrirtækjum, vörum og verðmætum landi og þjóð til heilla.

Meðal þeirra verkefna sem unnið er að um þessar mundir er ráðgjöf við yfirvöld og fyrirtæki í kringum Vötnin miklu (the Great Lakes) í Kanada hvað varðar fullnýtingu á þeim afla sem þar fæst. Verkefnið er unnið í tengslum við hugmyndafræði 100%fish. Í síðustu viku kom hópur tengdur verkefninu til að taka upp kynningarefni á rannsóknarstofum Matís. Fyrir hópnum fór dr. Alexandra Leeper, rannsóknar & þróunarstjóri Sjávarklasans, sem jafnframt er fyrrverandi starfsmaður Matís. Hér fylgja nokkrar myndir frá heimsókninni. Starfsfólk Matís er sérlega stolt að því að taka þátt í samstarfinu við Sjávarklasann.

Fréttir

Virðiskeðja íslensks grænmetis

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Verkefnið Virðiskeðja Grænmetis hófst hjá Matís árið 2021 með styrk frá Matvælasjóði. Verkefnið tók fyrir gæði og geymsluþol íslensks grænmetis, ásamt því að kanna ný tækifæri, til að mynda við nýtingu á hliðarafurðum. Verkefninu er nú lokið og niðurstöður hafa verið gefnar út í fjórum skýrslum. Ólafur Reykdal verkefnastjóri og Eva Margrét Jónudóttir sérfræðingur, segja okkur hér frá verkefninu og þýðingu þess fyrir hagaðila.

Aukin verðmætasköpun í atvinnulífinu

Markmið verkefnisins var að bæta gæði, geymsluþol og minnka sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis í þeim tilgangi að efla grænmetisgeirann á Íslandi með nýrri þekkingu og auka gæði framleiðslunnar. Meginviðfangsefni verkefnisins voru geymsluþolsrannsóknir, athuganir á leiðum til að skapa verðmæti úr hliðarafurðum, og greining á leiðum til að draga úr rýrnun í virðiskeðjunni. Verkefnið gekk vonum framar og nú liggja fyrir nýjar hagnýtar upplýsingar. Áhugavert er að velta upp afhverju ákveðið var í upphafi að ráðast í þetta verkefni? 

„Það er í samræmi við hlutverk Matís að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Ekki hefur verið unnið mikið fyrir grænmetisgeirann og því var ástæða til að bæta úr því,“ útskýrir Ólafur Reykdal.

Áhugaverðar niðurstöður og víðtæk áhrif

Verkefninu er nú lokið og hafa skýrslur verið gefnar út á vefsíðu Matís. Niðurstöðurnar eru margvíslegar og verkefnið skilar aukinni þekkingu sem mun nýtast hagaðilum áfram.

Niðurstöður úr mælingum á efnainnihaldi kartaflna kunna að koma mörgum á óvart. Í ljós kom að meira var af andoxunarefnum í kartöflunum en við var búist og mismikið var af kolvetnum (9-20%) eftir kartöfluyrkjum. Eftir því sem hlutfall kolvetna verður lægra því færri eru hitaeiningarnar í kartöflunum. Í ljósi andoxunarefnanna má því segja að hollusta kartaflna hafi verið vanmetin. Áhrif þessara niðurstaða létu ekki á sér standa og brugðust kartöflubændur á Þórustöðum við með eftirfarandi hætti:

„Verkefnið leiddi til þess að kartöflubændur á Þórustöðum í Eyjafirði endurskoðuðu merkingar á vörum sínum og í ljós kom sérstök efnasamsetning fyrir ný kartöfluafbrigði sem bændurnir höfðu tekið til ræktunar,“ segir Ólafur Reykdal.

Algengar kryddjurtir voru einnig rannsakaðar. Kryddjurtir eru bráðhollar, enda uppfullar af vítamínum og steinefnum auk þess sem þær eru notaðar til að bragðbæta matinn. „Verkefnið sýndi fram á mikla andoxunarvirkni í kryddjurtum og mikilvægi þess að geyma þær við réttar aðstæður. Útbúinn var einblöðungur sem kominn er í dreifingu,“ útskýrir Ólafur Reykdal. Hægt er að nálgast einblöðunginn hér neðst í fréttinni.

Mynd úr einblöðungi

„Borið var saman grænmeti pakkað í plast og ópakkað grænmeti í allt að 12 vikur. Afgerandi munur var á léttingu pakkaðs og ópakkaðs grænmetis, þetta var sérstaklega áberandi fyrir gulrófur. Gæði gulrófna í plastfilmu héldust í að minnsta kosti 12 vikur og þær töpuðu ekki þyngd,“ útskýrir Ólafur.  Útbúinn var einblöðungur með niðurstöðum, sem áhugasamir geta nálgast hér neðst í fréttinni.  

Myndirnar sýna pakkaðar og ópakkaðar gulrófur eftir 10 vikur í geymsluþolstilraun.

„Pakkað spergilkál fékk góðar gæðaeinkunnir í sjö vikur en það ópakkaða entist mun skemur. Fyrir fleiri grænmetistegundir er vísað til skýrslna.“

Hér má sjá Ólaf Reykdal og Evu Margréti Jónudóttir kynna niðurstöður verkefnisins á Nýsköpunarvikunni 2022.

„Ýmsar athuganir voru gerðar á aðfangakeðju grænmetis. Hitastig var mælt með síritum við flutninga á grænmeti um landið. Veikir hlekkir komu í ljós sérstaklega í dreifingastöðvum og verslunum á landsbyggðinni. Viðkomandi aðilar voru látnir vita og hafa þeir vonandi unnið að lagfæringum. Settar voru fram tillögur um það hvernig mætti draga úr rýrnun grænmetis í virðiskeðjunni,“ segir Ólafur Reykdal.

Niðurstöður mælinga á kartöflum komu á óvart

„Á óvart kom að meira mældist af andoxunarefnum í kartöflum en ýmsum litsterkum grænmetistegundum. Það vakti athygli hversu hátt hlutfall af steinefnum mátti finna í hliðarafurðum grænmetis. Sem dæmi þá er hlutfallslega meira af steinefnum í þurrefni að jafnaði úr hliðarafurðum (laufblöðum) en í algengu grænmeti. Þetta bendir til þess að meira af steinefnum sé að finna í hliðarafurðum en í algengu grænmeti og þar með spennandi möguleikar við vinnslu á því hráefni.

Annað sem vakti athygli var hversu algengt það er að hross séu að hluta til fóðruð á hliðarafurðum garðyrkju án þess að hafa hlotið nokkurn sýnilegan skaða af. Einhver gæti haldið því fram að með því að nota ýmsar hliðarafurðir í fóður þá gætu komið fram eitrunaráhrif en svo virðist ekki vera samkvæmt okkar heimildum miðað við það magn hliðarafurða sem er notað í fóður hér á landi.

Einnig kom verulega á óvart hversu mikið af fullkomlega góðu grænmeti er sóað vegna þess að markaðurinn getur ekki tekið við því öllu þegar það er sem ferskast. Þó við viljum alltaf reyna að minnka plastnotkun eins mikið og hægt er þá viljum við á sama tíma minnka sóun á mat með því að auka geymsluþol. Eins og niðurstöður þessa verkefnis gefa til kynna þá má auka geymsluþol grænmetis verulega með pökkun og því má segja að pökkun í þessu tilfelli kom sannarlega í veg fyrir sóun. Væntanlega verður hægt að draga úr plastnotkun með nýjum pökkunarefnum,” segir Eva Margrét.

Ný tækifæri í kjölfar vel heppnaðs verkefnis

Verkefnið hefur alið af sér tvö spennandi verkefni. Annarsvegar verkefni um áskoranir við pökkun grænmetis og hinsvegar verkefni sem fjallar um verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju. Verkefnin hafa bæði hlotið styrk frá Matvælasjóði.

Verkefnið um áskoranir við pökkun grænmetis hófst nú á árinu 2022. „Vonast er til að niðurstöður þessa verkefnis hjálpi til við val á pökkunarefnum og aðferðum við pökkun,“ útskýrir Ólafur

Lagður hefur verið grunnur að nýjum rannsóknum á hliðarafurðum garðyrkju sem miða að framleiðslu verðmætra afurða, styrkur hefur fengist frá Matvælasjóði og er áætlað að verkefnið fari í gang á árinu 2022. “Verkefnið gengur út á að safna mismunandi hliðarafurðum frá garðyrkju t.d. því sem fellur til við afblöðun tómat- og gúrkuplantna, blöðum af útiræktuðu grænmeti eins og blómkáli, spergilkáli, gulrófum, gulrótum, blöðum og stilkum úr blómarækt. Auk þess verður skoðaður grundvöllur fyrir bættri nýtingu á annars flokks vörum og umfram magni af gulrófum. Lífefni og lífvirk efni verða einangruð úr hverjum lífmassa og magn, lífvirknieiginleikar og vinnslueiginleikar rannsakaðir með það að markmiði að nýta sem innihaldsefni í nýjar afurðir,” útskýrir Eva Margrét.

Sérstakar þakkir til samstarfsaðila í verkefninu: Sölufélag garðyrkjumanna, deild garðyrkjubænda í Bændasamtökunum, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, verslanakeðjan Samkaup og  fjölmargir garðyrkjubændur.

Hér fyrir neðan má finna skýrslurnar fjórar:

  • Skýrsla 1: Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis, smelltu hér
  • Skýrsla 2: Hliðarafurðir grænmetisframleiðslu, smelltu hér
  • Skýrsla 3: Greining á rýrnun í virðiskeðju grænmetis, smelltu hér
  • Skýrsla 4: Geymsluþol og rýrnun í virðiskeðju grænmetis, smelltu hér

Einblöðunginn Kryddjurtir- Hollar en viðkvæmar, má finna hér

Einblöðunginn Pökkun á gulrófum varðveitir gæði og hindrar vatnstap, má finna hér

Verkefni um grænmeti eru unnin á ýmsum sviðum hjá Matís en falla undir þjónustuflokkinn Grænmeti og korn. Ef þú hefur áhuga á að kynna þér betur rannsóknir og nýsköpun í þeim þjónustuflokki má nálgast upplýsingar með því að smella hér: https://matis.is/thjonustuflokkar/graenmeti-og-korn/

Fréttir

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra í Vestmannaeyjum

Tengiliður

Tinna Brá Sigurðardóttir

Mannauðsstjóri

tinnabra@matis.is

Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV) og Matís ohf. óska eftir að ráða verkefnastjóra í 100% starf, um 50% starf hjá hvoru fyrirtæki. Starfsstöðin er í skapandi umhverfi ÞSV og samstarfsaðila að Ægisgötu 2 í Vestmannaeyjum.

Meginhluti starfsins  hjá ÞSV í samstarfi við framkvæmdastjóra þess  felst í að sinna svæðisbundnum verkefnum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) samkvæmt sérstökum samningi þar um. Þar á meðal að veita ráðgjöf á sviði atvinnu og menningar og hafa umsjón með styrkveitingum til áhugaverðara verkefna á sviði byggðaþróunar á Suðurlandi.

Starfið hjá Matís snýr að öflun, skipulagningu og þátttöku í innlendum og alþjóðlegum rannsóknar og nýsköpunarverkefnum á sviði sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Einnig er ætlast til að starfsstöðin í Vestmannaeyjum sé í góðum tengslum við matvælaframleiðendur á Suðurlandi og þjónusti fyrirtækin m.a. við styrkumsóknir og í tengslum við aðra sérfræðinga Matís.


Starfssvið:
  • Samstarf við fyrirtæki, einstaklinga og sveitarfélög um byggðaþróun og nýsköpun á Suðurlandi  
  • Viðskipta- og rekstraráðgjöf
  • Verkefnaöflun og aðstoð við fjármögnun verkefna s.s. með gerð styrkumsókna
  • Verkefnastjórnun
Hæfniskröfur:
  • Menntun sem nýtist í starfi
  • Góð færni í mannlegum samskiptum
  • Góð færni í tjáningu í ræðu og riti
  • Frumkvæði, sjálfstæði og metnaður

Öll kyn eru hvött til að sækja um. Umsóknum þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá auk símanúmers eða tölvupóstfangs hjá meðmælenda.


Nánari upplýsingar um starfið veita:
Hörður Baldvinsson, frkvstj. ÞSV hbald@setur.is simi 841 7710 og Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri hjá Matís jonas@matis.is 422 5107.

Umsóknarfrestur er til 20. september n.k.
vinsamlega sendið umsókn á hbald@setur.is

Ljósmynd: Shutterstock

Fréttir

EIT Food North-West viðburður í október

Taktu þátt í viðburði EIT Food North-West sem haldinn verður þann 3.-5. október næstkomandi. Áherslan er á þekkingarmiðlun og öflun tengslanets. Viðburðurinn er fyrir matvælaiðnaðinn, tækniaðila og vöruframleiðendur.

Afhverju að mæta?

  • Til að afla þér þekkingar á breskum matvælaiðnaði.
  • Til að tengjast sérfræðingum í iðnaðinum sem hafa mikilvæg sambönd við tæknisetur og markaðinn.
  • Til að heyra frá aðilum í Bretlandi og á Íslandi sem starfa í matvælaiðnaði og hafa hafa vaxið á árangursríkan hátt.

Viðburðurinn fer fram 3.-5. október:

Mánudaginn 3. októberHvað vilja kaupendur og smásalar? Smásölumarkaðurinn í Bretlandi.
Matís, Reykjavík
Þriðjudaginn 4. októberBláa hagkerfi Íslands og 100% fiskur
Iceland Ocean Cluster, Reykjavík
Miðvikudaginn 5. októberKynning á stýrðu umhverfi í landbúnaðarframleiðslu
Orkídea, Selfossi

Komdu og vertu með! Dagskrá Matís og EIT Food, mánudaginn 3. október finnur þú hér:

09:00 Opnun, Oddur M. Gunnarsson Forstjóri Matís
Neytandinn, eftirspurn og markaðurinn í Bretlandi
Tengslamyndun og miðlun – speed networking – session I
Erindi Mackies, alþjóðlegi smáframleiðandinn – ís beint frá býli
12:15 Hádegishlé – tengslamyndun og miðlun
13:15 Ör erindi; Food Innovation Wales, Schottish Rural Agricultural College, National Manufacturing Institute and Strathclyde
Tækifærin; erindi EIT Food/EEN 
Tengslamyndun og miðlun – speed networking – Session II
16:30 Samantekt og dagskrárlok

Þáttaka er frí en skráning er nauðsynleg með því að smella á skráningarhnappinn hér að neðan:

Allar nánari upplýsingar finnur þú með því að smella hér

Hefur þú fyrirspurn varðandi viðburðinn? Anna Berg Samúelsdóttir, sérfræðingur hjá Matís svarar öllum fyrirspurnum í netfang annab@matis.is

Fréttir

Doktorsvörn í líffræði – Pauline Anne Charlotte Bergsten

Mánudaginn næsta, 12. september, mun Pauline Bergsten verja doktorsverkefni sitt í líffræði. Verkefnið ber heitið: Rannsókn á neðanjarðar örverusamfélögum í basalti á eldfjallaeyjunni Surtsey við Ísland.

Doktorsvörnin fer fram í hátíðarsal aðalbyggingar HÍ og hefst kl 10:00.

Andmælendur:
Dr. Steffen L. Jörgensen, dósent við Háskólann í Bergen, Noregi
Dr. Oddur Þ. Vilhelmsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.

Leiðbeinandi er Dr. Viggó Þór Marteinsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og fagstjóri hjá Matís

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Pauline Vannier, verkefnastjóri hjá Matís
Dr. Snædís H. Björnsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Doktorsvörn stýrir: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ

Ágrip
Surtsey er eldfjallaeyja á rekbelti suðaustan við Ísland. Hún myndaðist í röð neðansjávargosa á árunum 1963-1967 og hefur verið friðuð síðan. Surtsey hefur þá sérstöðu að þar hefur verið mögulegt að rannsaka landnám lífvera og framvindu vistkerfa frá upphafi. Rannsóknin sem hér er lýst snýr að örverusamfélögum í eynni, í umhverfi þar sem nýmyndað basalt mætir jarðhita og sjó. Þar er að finna breytilegt hitastig sem nálgast efri mörk þess sem talið er lífvænlegt.
Alþjóðlegur rannsóknarleiðangur var farinn til Surtseyjar árið 2017 til að afla sýna með borunum. Kjarnasýnum var safnað á mismunandi dýpi ásamt vatnssýnum og heitri gufu úr sprungum á yfirborði eyjarinnar. Þessi doktorsritgerð er fyrsta heildstæða rannsóknin á örverusamfélögum neðanjarðar í Surtsey. Margvíslegum aðferðum var beitt til að rannsaka þau einstöku sýni sem aflað var.
Markmiðið var að auka þekkingu á samfélögunum og efnaferlunum er þau byggja á. Samsetning örvera var greind með því að raðgreina tegundaákvarðandi 16S rRNA gen og annað erfðaefni sem einangrað var úr umhverfinu. Að auki voru bakteríustofnar einangraðir og þeim lýst og smásjáraðferðum beitt. Magn DNA var metið í borkjörnum en samkvæmt því var fjöldi örvera áætlaður á bilinu 5×104 til 1×106 á gramm.
Niðurstöðurnar bentu til þess að afar lítinn lífmassa væri að finna í umhverfinu. Slíkt eykur áhrif mengunar sem getur orðið við sýnatökur. Þrátt fyrir lítinn lífmassa eru örverusamfélög neðanjarðar í Surtsey mjög fjölbreytt og samanstanda bæði af bakteríum og arkeum. Sumar þeirra eru jaðarörverur eða hafa áður greinst í jarðvegi og sjó en aðrir hópar eru lítt þekktir. Greiningar á ættartengslum og lífsháttum benda til þess að sumar fái orku úr lífrænum efnum en aðrar úr ólífrænum og tengist hringrásum brennisteins, köfnunarefnis og metans. Þó tókst ekki að styðja þessar niðurstöður með greiningum á umhverfiserfðamengjum. Fjölmargar auðgunarræktir voru framkvæmdar við ólík skilyrði og með mismunandi ætum. Um 200 bakteríustofnar voru einangraðir. Þar af voru nokkrar nýjar tegundir og einni þeirra, hitakæru bakteríunni Rhodothermus bifroesti lýst að fullu, erfðamengi hennar raðgreint og samanburður gerður við tvær þekktar tegundir sömu ættkvíslar. Í ljós kom að við aðstæðurnar sem notaðar voru tókst aðeins að einangra um 2,15% af þeim örverum sem kennsl voru borin á með 16S rRNA raðgreiningum. Smásjárgreiningar á hraunsýnum sýndu ýmis form sem líktust örverum í samtengdum blöðrum í basaltgleri.
Niðurstöður rannsóknarinnar í heild bentu til mikils landnáms örvera í Surtsey á þeim 50 árum sem liðin eru frá goslokum. Örverurnar gætu hafa dreifst frá nálægum vistkerfum og aðlagast umhverfinu í hrauninu.
Niðurstöðurnar sem lýst er í þessari ritgerð mynda grunn að framtíðarrannsóknum á örverusamfélögum neðanjarðar í Surtsey og framvindu samfara breyttum aðstæðum eins og lækkandi jarðhita.

Frekari upplýsingar má finna með því að smella hér.

Fréttir

Bændasamtök Íslands heimsóttu Matís

Bændasamtök Íslands kíktu í heimsókn til okkar í Matís þann 7. september síðastliðinn. Þau Gunnar Þorgeirsson, formaður, Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri, og Guðrún Birna Brynjarsdóttir, sérfræðingur, skoðuðu framgang í vefjaræktun á stofnútsæði kartaflna sem Matís sinnir fyrir Bændasamtökin. Einnig var farið yfir önnur samstarfsverkefni en þau eru fjölmörg og stefnt er að því að auka þau enn frekar í framtíðinni.

Hér að neðan má sjá myndir af vefjaræktuðum kartöflum sem ræktaðar eru hjá Matís.

Matís þakkar Bændasamtökum Íslands fyrir komuna og hlakkar til áframhaldandi góðs samstarfs. 

Fréttir

Ánægjulegar fréttir fyrir íslenska matvælaframleiðslu og samstarfsaðila Matís

Þróun á umhverfisvænni umbúðum, graspróteinum, hliðarafurðum garðyrkju og matvælum úr stórþörungum ásamt tegundagreiningum á saltfiski eru á meðal nýrra verkefna Matís í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir.

Síðustu vikur reyndust íslenskum matvælaframleiðendum og samstarfsaðilum Matís vel, en þrettán verkefni sem Matís kemur að hlutu styrk úr Matvælasjóði þegar sjóðurinn tilkynnti sína þriðju úthlutun. Fyrr í sumar höfðu átta aðrir sjóðir tilkynnt að tíu samstarfsverkefni sem Matís er þátttakandi í hefðu verið tryggð fjármögnun. Þessi frábæri árangur sýnir vel styrk og mikilvægi þess samstarfs sem Matís á í við fyrirtæki, stofnanir og frumkvöðla af öllum stærðum og gerðum, jafnt innan lands sem utan. 

Markmið Matís er að styðja við rannsóknir og nýsköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, og starfsfólk fyrirtækisins er stolt af því að fá tækifæri til að vinna með framsýnum fyrirtækjum, stofnunum og frumkvöðlum í að móta framtíðina. Hér á eftir fylgir stutt yfirlit yfir 23 ný Matís samstarfsverkefni sem fengu jákvæð svör um styrkfé á undanförnum vikum. Myndin hér að neðan sýnir að samstarfsaðilar Matís í verkefnunum dreifast um land allt.

Matvælasjóður

Verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju er samstarfsverkefni Bændasamtakanna, Orkídeu og Matís þar sem leita á leiða til að skapa aukin verðmæti úr hliðarafurðum garðyrkju á borð við blöð sem falla til við afblöðun í ylrækt, plöntur sem eru hættar að gefa uppskeru, hverskyns afskurð eins og rósablöð, ystu blöð af káli, gulrótagrös og kartöflugrös. Ýmis verðmæt efni má finna í þessum hliðarafurðum en nú fara þau að mestu í moltugerð eða urðun með tilheyrandi kostnaði. Senn líður að því að bannað verður að urða lífrænan úrgang í þeim mæli sem gert er í dag vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Því er mikilvægt að finna þessu hráefni farveg til að auka verðmæti og draga úr sóun.

LuLam Wrap (Matvælaumbúðir úr lúpínu) er samstarfsverkefni Efnasmiðjunnar, Sedna–Biopack, Sölufélags garðyrkjumanna og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa umhverfisvænar, niðurbrjótanlegar umbúðir úr íslenskri alaskalúpínu og þara, og prófa þær til notkunar fyrir matvæli.

Bragðefni unnin úr sjávarfangi er samstarfsverkefni North Seafood Solutions, Útgerðarfélagsins Lokinharma, Iceland Seafood Iberica og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa bragðefni og bragðkrafta úr hliðarafurðum fiskvinnslu hérlendis. Þessar vörur eru ætlaðar einkum á erlenda markaði fyrir veitingahús og mötuneyti.

Kjötsnakk – verðmætasköpun með fullvinnslu á hrossakjöti er samstarfsverkefni 1000 ára sveitaþorps, Orkídeu og Matís. Markmið verkefnisins er að auka fullvinnslu á íslensku hrossakjöti og þróa nýjar og verðmætar afurðir úr þessu vannýtta hráefni þ.á.m. kjötsnakk. Einnig verða markaðsinnviðir byggðir upp til að auka áhuga og neyslu Íslendinga á kjötsnakki úr hrossakjöti.

Vinnsla fásykra úr stórþörungum með ensímvinnslu er nýsköpunarverkefni sem unnið verður innan líftæknihóps Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferð til framleiðslu fásykra úr stórþörungum og auka þannig nýtingu þörunga sem vaxa í miklum mæli við strendur Íslands. Fásykrur eru notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.

BruXOS – Verðmætasköpun úr hliðarafurð bjórgerðar er samstarfsverkefni Ölgerðarinnar og Matís, þar sem markmiðið er að skapa verðmæti úr hrati frá bjórgerð með því að nýta ensím til að umbreyta trefjum í hratinu í xylosa fásykrur. En eins og kom fram hér að ofan eru fáskykrur notaðar í matvælaiðnaði til að breyta bragð- og áferðareiginleikum, auk þess sem þær hafa jákvæð áhrif á örveruflóru í meltingarvegi. Fásykrur geta komið í stað fitu og/eða sykurs í matvælum og leiðir slík notkun til hollari matvæla þar sem fásykrur eru hitaeiningasnauðar.

Upprunavottun á íslenskum saltfiski á Spáni er samstarfsverkefni samtaka Íslenskra saltfiskframleiðenda, Hafrannsóknarstofnunar og Matís. Í verkefninu er stefnt að því að þróa erfðafræðilega aðferð sem getur greint á milli þorsks frá Íslandsmiðum og þorsks sem er veiddur við Noregsstrendur og í Barentshafi. Saltfiskframleiðendur hér á landi grunar að saltaðar þorskafurðir frá Noregi séu stundum ranglega merktar sem íslenskar á mörkuðum í Suður-Evrópu. Markaðsstaða íslenskra saltfiskafurða hefur um langa tíð verið mjög sterk í Suður-Evrópu, sérstaklega á Spáni, Portúgal og Ítalíu. Á þessum mörkuðum hafa íslenskar afurðir ákveðna sérstöðu og er verð fyrir íslenskan saltfisk almennt hærra en fyrir salfisk frá öðrum svæðum. Gangi markmið verkefnisins eftir mun því verða unnt að sannreyna að saltfiskur sé ekki seldur undir fölsku flaggi.

Tenging NIR við vöxt og meltanleika fóðurs fyrir laxfiska er samstarfsverkefni Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda, Síldarvinnslunnar, Eskju, Ísfélags Vestmannaeyja, Háskóla Íslands og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa líkan til að meta gæði fiskimjöls sem hráefni í laxeldisfóður á skjótan, auðveldan og ódýran hátt. Líkanið mun byggja á NIR tækni (nær innrauðri litrófsgreiningu) sem gefur upplýsingar um innihald og einkenni mælisýna. Þessar upplýsingar er hægt að nota og bera saman við in vivo raunmælingar og fá þannig spá fyrir ýmsa þætti í hráefninu. Þar má nefna, efnainnihald og meltanleika hráefnis, samsetningu næringarefna á borð við amínósýrur og fitusýrur svo eitthvað sé nefnt. NIR tæki gefur í raun fingrafar hráefnisins. Með NIR líkaninu verður því unnt að meta gæði fiskimjöls, sem mun veita fiskimjölsframleiðendum gögn til að bæta sínar afurðir og styrkja samningsstöðu sína gagnvart fóðurframleiðendum. Að sama skapi mun afrakstur verkefnisins gera fóðurframleiðendum kleift að velja rétta „rétta“ fiskimjölið fyrir sitt fóður.

Er grasið er grænna hinum megin? (grasprótein) er samstarfsverkefni Matís, Bændasamtakanna, Landbúnaðarháskólans og Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins. Mikil eftirspurn er eftir próteini og einn mögulegur próteingjafi er gras. Erlendis, sérstaklega í Danmörku, hafa verið framkvæmdar rannsóknir á sviði próteinvinnslu úr grasi með góðum árangri. Markmið verkefnisins er að hefja rannsóknir á þessu sviði á Íslandi og framkvæma grunnvinnu sem síðan er hægt að byggja á. Ekki er hægt að yfirfæra niðurstöður frá Danmörku beint yfir á íslenskar aðstæður og því mikilvægt að framkvæma rannsóknir á þessu sviði hér. Prótein unnið úr grasi er hægt að nýta bæði sem fóður og fæði. Einnig hafa rannsóknir sýnt að hrat frá próteinvinnslu er nýtanlegt sem fóður. Í verkefninu verður sýnum af grasi safnað úr tilraunaræktun mismunandi yrkja og aflað þekkingar á próteininnihaldi og eiginleikum einangraðs próteins.

Næringargögn – lykill að lýðheilsu landsmanna og nýsköpun matvælaiðnaðarins er samstarfsverkefni Matís, European Food Information Resource (EuroFIR), Félags Smáframleiðenda Matvæla (SSMF), Mjólkursamsölunnar og annarra fyrirtækja í matvælaiðnaði. Þegar fullyrt er um hollustu og öryggi matvæla þarf upplýsingar og þekkingu. Markmið verkefnisins er að bæta og uppfæra íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM). ÍSGEM er nú í umsjón Matís en ekki hefur tekist að fjármagna viðhald hans síðastliðin 12 ár. Það háir jafnt matvælaiðnaði, vísindamönnum og almenningi að geta ekki að fullu treyst upplýsingunum. Skref verður stigið til að auðvelda matvælaiðnaði og almenningi notkun á gagnagrunninum á vefsíðu Matís. Við vöruþróun í matvælaiðnaði er mikilvægt að geta skoðað samsetningu hráefna þegar stefnt er að ákveðnum markmiðum í þróuninni.

Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða er samstarfsverkefni Icelandic Lamb markaðsstofu og Matís. Verkefnið snýr að úttekt á nýtingarhlutföllum innan kjötmatsflokka lambakjöts og greiningar á efnainnihaldi kjöts og aukaafurða sem eru vaxandi verðmæti. Verkefninu er ætlað að uppfæra gömul og jafnvel úrelt gögn og vista í opinberum gagnagrunnum.

Furan fitusýrur sem gæðavísir er samstarfsverkefni True Westfjords og Matís þar sem markmiðið er að nýta Furan fitusýrur til að meta gæði lýsis, en True Westfjörds er framleiðandi að kaldunnu lýsi sem selt er undir vörumerkinu Dropi.

Bætt gæði a sjófrystum ufsa er samstarfsverkefni Útgerðafélags Reykjavíkur og Matís, þar sem leitast verður við að bæta vinnsluferla og gæði sjófrystra ufsaafurða.

Tækniþróunarsjóður Rannís

BIOTOOL, Hátækni til umhverfisvöktunar í fiskeldi er samstarfsverkefni RORUM (Rannsóknir og ráðgjöf í umhverfis- og byggðamálum), Háskóla Íslands, Danska Tækniháskólans (DTU) og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa alhliða erfðasameindatæki til vöktunar botndýrasamfélaga vegna fiskeldis. Tækið sem um ræðir er mjög næmt og mun hafa í för með sér mikinn sparnað í tíma og kostnaði sem er mikilvægt fyrir bæði fiskeldið og opinbera eftirlitsaðila. Verkefnið byggir á einstökum langtíma gögnum og nýjustu tækni í umhverfis erfðafræði. Notast verður við mjög hraða og umhverfisvæna tækni sem nýtir umhverfis DNA (eDNA) til þess að vakta og nema breytingar í botnsamfélögum.

Fagráð í sauðfjárrækt

Aukin afköst og hagkvæmni í greiningum á riðugeni er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og Matís. Nú er staðan í greiningum á riðugeni gjörbreytt. Verndandi breytileiki gegn riðu, þ.e. í sæti 171 í riðugeninu, hefur fundist í hjörð í Þernunesi í Reyðarfirði  og umfangsmiklar rannsóknir eru í gangi til að kanna áhrif annarra breytileika í riðugeninu á næmni gagnvart riðu: 137, 138 og 151. Auk þess er mikilvægt fyrir bændur að fá upplýsingar um sæti 136 og 154, líkt og Matís hefur greint um árabil. Því er ljóst að bændum og ráðanautum bráðvantar arfgerðagreiningar á öllum þessum sex sætum í sem flestum gripum. Markmið verkefnisins er að auka afköst og lækka verð á greiningum riðugens hér á landi. Verður styrkurinn notaður til að mæta kostnaði við raðgreiningu á riðugeni til bænda og RML.

Lóu sjóðurinn

Veiðar og vinnsla rauðátu í Vestmannaeyjum er samstarfsverkefni Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Rannsóknaþjónustu Vestmannaeyja, Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunnar, Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja og Matís. Í verkefninu mun raunhæfi veiða og vinnslu á rauðátu í Vestmannaeyjum verða kannað.

Sjóður til eflingar hringrásarhagkerfis á Íslandi

Örverur til auðgunar fiskeldisseyru er samstarfsverkefni Sjávarklasans og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa aðferðir til að nýta lífræna hliðarstrauma (úrgang) frá laxeldi í áburð.

Bestun Framkvæmdar á nýtingur hliðarstrauma til lífkola og áburðargerðar er samstarfsverkefni Landeldis og Matís, en markmið verkefnisins er að Markmið verkefnisins er að rannsaka og skrásetja endurheimt næringarefna úr mismunandi þurrefnasíum í landeldi og besta meðhöndlun þeirra til lífkolagerðar. Leitast er við að rannsaka og besta ferla við blöndun búfjáráburðar, fiskiseyru, fóðurleifa og dauðfisks úr landeldi, með það að markmiði að hámarka jarðvegsbætandi eiginleika lífkola og kraft áburðar. Rannsakað verður hvernig framleiða má lífkol á sem hagkvæmastan hátt.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis

Vöktun sjókvíaeldissvæða með hraðvirkum erfðafræðilegum aðferðum er samstarfsverkefni RORUM og Matís. Markmið verkefnisins er að þróa hraðvirkar erfðafræðilegar aðferðir til að vakta líffræðilegan fjölbreytieika í botnlögum undir og við laxeldiskvíar.

EIT food

Samband fóðurs og árstíðabundinni sveiflna á næringarinnihaldi mjólkur (NUTRIMILK – Connecting milk seasonality and nutritional requirements to inform farm-to-fork innovations for optimum nutrient supply). Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskólann í Reading, Bretlandi. Markmið verkefnisins er að skoða breytingar á næringarsamsetningu eftir árstíð. Verkefnið mun (i) kanna áhrif framleiðslukerfis (lífræn framleiðsla vs hefðbundin) og árstíðar (janúar-desember), á styrk snefil- og steinefna í mjólk og (ii) meta hvaða áhrif það hefur á steinefnainntöku mismunandi samfélagshópa þvert yfir árið.

Norska rannsóknarráðið (Forskningsrådet)

Greining á ástæðum laxadauða í fiskeldi (Causal categorisation of mortality as a model system for sustainable growth and increased value creation in aquaculture) er verkefni sem fjármagnað er af Norska Rannsóknaráðinu og er leitt af dýralæknasviði NMBU Háskólans í Noregi. Aðrir þátttakendur eru ÅKERBLÅ AS, SINTEF, PISCADA AS, LERØY, Laxar, Arctic Fish, Arnarlax og Matís. Markmið verkefnisins er að greina ástæður laxadauða í fiskeldi og leitast við að nýta þá þekkingu til að draga úr laxadauða.

BlueBio Cofund

Efling sjávarútvegs í Evrópu með mótun „fingrafars“ vannýttra fisktegunda til að auka sjálfbærni og draga úr sóun (EuFish_SustainableGrowth – European fisheries enhancement through “Omic” characterization and innovative seafood production from underutilised fish species. Verkefnið er leitt af Háskólanum Naples Federico II, Ítalíu og unnið í samstarfi með AquaBioTech ltd, Stazione Zoologica Anton Dohrn of Naples, Brim, Grími kokki og Matís. Markmið verkefnisins er að skoða vannýttar fisktegundir með því að nýta þær betur sem næringarríka fæða og/eða sem fóður í fiskeldi. Með því að nýta fjölbreyttar fisktegundir getum við aukið aðgengi að næringarríku sjávarfangi og dregið úr matarsóun. Þróuð verða sértæk fingraför mismunandi tegunda sem hægt verður að deila með hagsmunaaðilum í gagnagrunni.

BláGræntFóður (Synergy of blue and green sectors for resilient biomass production and processing to develop sustainable feed ingredients for European aquaculture). Verkefnið er leitt af SINTEF í Noregi, með þátttöku Háskólans í Åarhus, Háskólans í Tallin, Háskóla Íslands, Laxá og Montasjen í Noregi. Markmið verkefnisins er að þróa fiskeldisfóður úr graspróteinum og fjaðurmjöli frá alifuglarækt.

Fréttir

Ráðstefna 8. september. Nýsköpun og tækifæri í íslenskri matvælaframleiðslu

Orkídea og Landbúnaðarháskóli Íslands halda ráðstefnu um nýsköpun og tækifæri í matvælaframleiðslu þann 8. september næstkomandi á Hótel Selfossi. Rósa Jónsdóttir og Kolbrún Sveinsdóttir starfsmenn Matís halda þar erindi um Framleiðslu nýrra próteina fyrir matvæli og fóður.

Brýnt er að auka matvælaframleiðslu í heiminum verulega á næstu áratugum vegna sífellt vaxandi íbúafjölda heimsins. Í þessu felast miklar áskoranir þar sem stór hluti af nýtanlegu gróðurlendi heimsins er þegar notað í landbúnaðarframleiðslu. Nýtanlegir fiskistofnar eru margir komnir að þolmörkum og vaxandi skortur er á orku og vatni til fæðuframleiðslu. Í þessum áskorunum felast jafnframt mikil tækifæri fyrir Ísland sem ætlunin er að varpa ljósi á þessum viðburði sem er samstarfsverkefni Orkídeu, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, Háskólans á Bifröst, Íslandsstofu, Lax-inn fræðslumiðstöðvar, Matís, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Samtökum smáframleiðenda matvæla og Ölfus Cluster.

Myndbandsupptökur frá ráðstefnunni má finna með því að smella á hnappinn hér að neðan:

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér:

Fundarstjóri: Vigdís Häsler, framkv.stj. Bændasamtaka Íslands

Fréttir

Matís kemur að leit erfðaþátta bógkreppu

Bógkreppa er arfgengur erfðagalli í sauðfé á Íslandi. Gallinn er að öllum líkindum víkjandi, sem þýðir að til þess að lömb fæðist með einkenni bógkreppu þurfa þau að fá gallaða genið frá báðum foreldrum. Þetta hefur í för með sér að erfðagallinn hefur leynst árum saman í íslenska fjárstofninum og skýtur síðan óvænt upp kollinum.

Matís er þátttakandi í verkefni sem miðar að því að finna erfðamark sem hægt væri að nýta til að greina gallann í arfblendnum einstaklingum. Ef slíkt erfðamark fyndist væri hægt að útrýma erfðagallanum úr íslensku fé og tryggja að hann bærist ekki inn á sæðingastöðvar.

Rannsóknaverkefnið er styrkt af Fagráði í sauðfjárrækt, leitt af Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og auk Matís kemur RML að verkefninu.

Sjá nánar á vefsíðu Bændablaðsins með því að smella hér

Mynd: Shutterstock

Fréttir

Erfðabreytingar á örverum

Gestir hlaðvarpsþáttarins Matvælið að þessu sinni eru þeir Björn Þór Aðalsteinsson, verkefnastjóri hjá Matís og Tryggvi Stefánsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri hjá Algalíf. Í þættinum fara þeir yfir markaðsleg og rannsóknarleg sjónarmið í tengslum við erfðabreytingar á örverum.

Björn Þór segir okkur frá verkefninu Thermo-Tools sem líftæknihópur Matís hefur verið að vinna að síðastliðin ár. Thermo Tools verkefnið miðar að því að þróa ný tæki til að erfðabreyta hitakærum örverum. Ísland hefur þá sérstöðu að vera með mikið magn af heitum hverum og þar af leiðandi mjög gott aðgengi að hitakærum örverum. Hitakærar örverur lifa við mjög hátt hitastig, allt frá 50-121°C, og liggur vandamálið í því að þau tæki og tól sem alla jafna eru notuð við erfðabreytingar virka ekki við svo hátt hitastig.

Tryggvi Stefánsson hjá Algalíf segir okkur frá framleiðslu þeirra á Astaxanthin og hvernig markaðurinn sem Algalíf starfar á, setur skýra stefnu gegn erfðabreytingum og mikilvægi þess að þeir séu með non-GMO vottun í þeirra framleiðslu.

Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan:

Þáttastjórnandi er Ísey Dísa Hávarsdóttir

IS