Fréttir

Stýring á kælikeðjunni til umræðu í Bonn

Tveggja daga ráðstefna um stýringu á kælikeðju matvæla var nýlega haldin í Bonn í Þýskalandi og var dr. Guðrúnu Ólafsdóttur, matvælafræðingur á Rf á meðal fyrirlesara. Nýjungar um merkingar og mælingar fyrir viðkvæm matvæli sem segja til um hitastig og tímaálag vöru voru meðal annars kynntar.

Hugmyndin að baki Stýringar á kælikeðjunni (Cold Chain Management) er ekki er alveg ný af nálinni. Matvæli, lyf og fleiri vörur sem þarf að geyma kældar eða frosnar innan mjög strangra hitamarka falla t.d. undir þennan vettvang.

Stjórnun á hitastigi og tíma eru þeir þættir sem mestu máli skipta til að tryggja gæði og geymsluþol á viðkvæmri vöru eins og fiski. Með auknum flutningum og lengri dreifileiðlum er í síauknum mæli lögð áhersla á að hægt sé að tryggja lágt hitastig vöru.

Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um þróun á örveruspálíkönum og “Smart label” merkingum til að segja fyrir um geymsluþol og öryggi matvæla. Fyrir neytandann eru komnar á markað merkingar svokallaðir TTI (time temperature indicators) sem geta gefið upplýsingar um hita og tímaálag vöru og RFID (Radio Frequency Identification) merkingar eru að ryðja sér til rúms.

Guðrún kynnti rannsóknir sem tengjast Ph.D. – verkefni hennar á ráðstefnunni í Bonn um notkun rafnefs sem fljótvirkrar mæliaðferðar til að meta gæði fisks. Ráðstefnurit var gefið út með þeim erindum sem flutt voru.

Nánari upplýsingar: Guðrún Ólafsdóttir, s: 530 8647 gudrun@rf.is

Fréttir

Hópur frá Whole Foods Market heimsækir Rf

Fjórir fulltrúar frá verslunarkeðjunni Whole Foods Market heimsóttu Sjávarútvegshúsið í morgun, til að fræðast um íslenskan fisk, rannsóknir á sjávarafurðum og hvernig Íslendingar stjórna fiskveiðum sínum.

Nokkuð gestkvæmt hefur verið í Sjávarútvegshúsinu að undanförnu, en aðeins eru nokkrir dagar síðan hér voru á ferð aðilar frá Marks & Spencer verslunarkeðjunni í Bretlandi. Vonandi er þetta til marks um vaxandi áhuga erlendis á íslenskum fiski og sjávarafurðum og þeirri staðreynd að fiskur er ekki bara góður og hollur, heldur sýna rannsóknir, m.a. sem Rf hefur gert, að óvenju lítið er að finna af óæskilegum efnum í þeim fiski sem veiddur er hér við land.

Whole Foods Market verslunarkeðjan er trúlega stærsta sinnar tegundar, en á vefsíðu WFM segir að keðjan reki 155 verslanir í Bandaríkjunum og í Bretlandi.  Verslunarkeðjan sérhæfir sig í sölu á „náttúrulegum“ og lífrænt ræktuðum matvælum.

Það er Baldvin Jónsson, markaðssérfræðingur og verkefnisstjóri Áforms, sem annaðist Íslandsför hópsins frá WFM, en Baldvin hefur starfað að markaðssetningu Íslands og íslenskum afurðum um langt skeið.  Hann á m.a. stóran þátt í velgengni Fun and Food- hátíðarinnar sem nú er haldin hér árlega með eftirtektarverðum árangri .

Fréttir

Markaðs- og tæknimenn frá Marks Spencer og Coldwater í kynningu í Sjávarútvegshúsinu

Í vikunni voru fjórir starfsmenn fyrirtækjanna Marks & Spencer og Coldwater í Bretlandi á ferð hér á landi til að kynna sér sjávarútveg, fiskvinnslu, fyrirtæki og rannsóknir er lúta a sjávarafurðum á Íslandi. Fjórmenningarnir voru ánægðir eftir heimsókn í Sjávarútvegshúsið í morgun.

Nokkrir sérfræðingar frá Rf fluttu stutta kynningu á þeim rannsóknum sem hér eru gerðar. Sjöfn Sigurgísladóttir byrjaði á því að bjóða gestina velkomna og sagði þeim síðan frá starfsemi Rf og hvernig unnið væri að því jafnt og þétt að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða. Helga Gunnlaugsdóttir ræddi síðan m.a. um vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum og kynnti nýlega skýrslu um það efni sem Rf vann fyrir tilstuðlan sjávarútvegsráðuneytisins. Vakti það töluverða athygli þeirra hversu lítið mælist af óæskilegum efnum í íslenskum fiski, eins og fram kemur í áðurnefndri skýrslu.

Kolbrún Sveinsdóttir, fjallaði því næst um verkefni sem nefnist  Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.  Ræddi Kolbrún m.a. að kannanir sýni að fiskneysla virðist vera að minnka, sérstaklega á meðal ungs fólks og að þetta væri áhyggjuefni.  Tóku gestirnir undir þetta og höfðu svipaða sögu að segja frá Bretlandi.  Loks greindi Sigurjón Arason frá verkefnum um vinnsluspá og ræddi um nauðsyn rekjanleika.

Loks má geta að fulltrúar frá sjávarútvegsráðuneytinu útskýrðu hvernig fiskveiðistjónarkerfið virkar hér á landi og einnig bar fleiri atriði á góma s.s. eco-labelling, en að sögn gestanna spyrja neytendur í Bretlandi margvíslegra spurninga um uppruna og bakgrunn þeirra matvæla sem þar eru í boði og því nauðsynlegt fyrir söluaðila að hafa haldbærar upplýsingar á reiðum höndum.  Það hefði enda verið tilgangur ferðar þeirra hingað til lands, að afla sér gagna.

Þeir sem heimsótti Sjávarútvegshúsið í morgun voru Andrew Mallison tæknistjóri M&S, Andrew Richy tæknimaður NPD M&S,  Cris Barker tæknistjóri Coldwater í Grimsby og Andy Beeken Sölufulltrúi M&S hjá Coldwater.

Fréttir

Hugvitssamleg notkun loðnulýsis – Grein frá Rf í nýjasta tbl. Ægis

Í nýjasta tbl. tímaritsins Ægis er m.a. að finna forvitnilega grein eftir Margréti Bragadóttur, matvælafræðing á Rf, um hugsanlegar leiðir til að nýta loðnulýsi í auknum mæli til manneldis, t.d. í majónes, salatsósur o.fl.

Í grein sinni bendir Margrét m.a. á að loðna sé sú fisktegund sem veiðst hefur í lang mestu magni hér við land, en verðmæti þessa magns hefur hingað til verið lítið miðað við magnið sem veitt er. Loðnan er einkum nýtt til bræðslu í fiskimjölsverksverksmiðjum til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi, sem einkum hefur verið notað í dýrafóður.

Þetta hefur verið mörgum þyrnir í augum, því ljóst er að ef hægt er að auka hlutfall loðnuafurða sem færi beint til manneldis, myndi það stórauka verðmæti þess loðnuafla sem veiddur er.

Lesa grein

Nánari upplýsingar:

sími: 8612661 / netfang: margret@rf.is

Fréttir

Mens Sana in Corpore Sano

Eins og margir hafa ugglaust tekið eftir þá hefur óvenju mikið verið um hjólreiðafólk á götum og gangstéttum um land allt upp á síðkastið og ólíklegasta fólk hefur sést á ferli. Bæði er nú vorið loksins komið en einnig stóð átakið Hjólað í vinnuna yfir dagana 3. – 16. maí. Rf lét ekki sitt eftir liggja. 

Þó svo ekki sé um formlega keppni milli vinnustaða að ræða, frekar góðlátlegan meting, þá voru vinnustaðir samt flokkaðir eftir fjölda starfsmanna og tölur teknar saman um framistöðu þeirra.  

Rf keppti í flokki vinnustaða með 20 – 69 starfsmenn og tók þriðjungur starfsmanna, eða 22 af 60, þátt í átakinu, sem hlýtur að teljast nokkuð gott.  Samkvæmt tölfræðinni hjóluðu þessir 22 samtals tæplega 1200 kílómetra á meðan á átakinu stóð. 

Á myndinn hér fyrir ofan sést hluti þeirra sem þátt tóku af hálfu Rf:  F.v.:  María, Þóra, Björn, Helga, Hélène, Birna, Ernst, Ragnar, Rósa, Anna, Heiða, Judith og Eyjólfur.  Á myndina vantar nokkra kappa, enda voru 22 skráðir til keppni, sem fyrr segir.

Fréttir

Doktorsvörn

Þann 16. júní 2006 kl. 13:00 mun Sigrún Guðmundsdóttir, líffræðingur á Rf, verja doktorsritgerð sína “Listeria monocytogenes, from humans, food and food processing plants in Iceland – Molecular typing, adhesion and virulence testing” í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Andmælendur verða dr. Bjarnheiður Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands og dr. Marie-Louise Danielsson-Tham, prófessor við Sveriges lantbruksuniversitet, SLU.

Ritgerðin Sigrúnar fjallar um rannsóknir á Listeria monocytogenes í mönnum, matvælum og matvælavinnslum á Íslandi. Gerðar voru úttektir á vinnsluhúsum sem framleiða reyktan lax og soðna rækju. L. monocytogenes stofnarnir sem voru einangraðir voru týpugreindir með sameindafræðilegri aðferð (PFGE) og þeir bornir saman. Einnig voru allir stofnar sem höfðu einangrast úr fólki týpugreindir og bornir saman við matvælastofnana. Auk þess var skoðuð viðloðun og smithæfni valinna stofna.

Leiðbeinendur Sigrúnar voru Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir og dr. Karl G. Kristinsson prófessor við HÍ og í doktorsnefnd voru dr. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við HÍ, dr. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við HA og dr. Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Rf.

Sigrún Guðmundsdóttir er fædd árið 1966.  Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1986, BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1991 og MS-prófi frá Heriott-Watt University, Edinborg, Skotlandi árið 1992. Hún hefur verið sérfræðingur á Rf frá árinu 1995 og hóf doktorsnám við HÍ 2000.

Fréttir

Sendinefnd frá Argentínu í heimsókn í Sjávarútvegshúsinu

Í morgun var sendinefnd frá Argentínu í heimsókn í Sjávarútvegshúsinu og kynnti sér starfemi Rf, Hafrannsóknastofnunar og sjávarútvegsráðuneytisins.

Sendinefndin, sem í eru um 20 tuttugu manns, er skipuð bæði opinberum aðilum og einnig fulltrúum fyrirtækja víðs vegar að úr Argentínu.   Má nefna að í sendinefndinni eru m.a. þingmenn og fleiri háttsettir embættismenn.

Hópurinn hefur hér nokkura daga viðdvöl eftir að hafa sótt sjávarútvegssýninguna í Brussel og er tilgangurinn að kynnast málefnum sjávarútvegs hér á landi, bæði hjá fyrirtækjum og hinu opinbera.  Var þeim kynnt sú starfsemi sem fram fer hér í húsinu og var ekki annað að sjá en að þau væru mjög áhugasöm um að kynna sér hvað landinn er að gera á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu og rannsókna á þeim sviðum.

Fréttir

Rf auglýsir eftir sérfræðingi á nýju sviði

Rf auglýsir eftir sérfræðingi á sviði áhættumats á matvælum. Hlutverk hans verður að taka þátt í rannsóknum á áhrifum fisks á heilsu (risk-benefit analysis of food). Starfið felur m.a. í sér uppbyggingu gagnagrunna og hönnun vefviðmóts.

Hlutverk sérfræðingsins verður að taka þátt í rannsóknum á áhrifum fisks á heilsu (risk-benefit analysis of food). Starfið felur í sér uppbyggingu gagnagrunna og hönnun vefviðmóts. Viðkomandi þarf að geta unnið sjálfstætt og stjórnað verkefnum, ásamt því að vinna í góðu samstarfi við aðra sérfræðinga innan Rf og utan.

Hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun á sviði raunvísinda (tölvunarfræði, tölfræði, efnafræði, líffræði, eða matvælafræði)
  • Mjög góð tölvukunnátta er skilyrði
  • Þekking og reynsla af notkun tölfræði í rannsóknum er kostur
  • Skipulagshæfileikar og hæfni í mannlegum samskiptum
  • Frumkvæði og metnaður í starfi.

Umsókn þarf að fylgja greinargott yfirlit um námsferil, tölvukunnáttu og fyrri störf.

Launakjör eru skv. kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um starfskjör, réttindi og skyldur gilda að öðru leyti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr 70/1996.

Umsóknarfrestur er til 28. maí 2006. Umsóknir með upplýsingum um menntun og fyrri störf, ásamt afritum af prófgögnum, óskast sendar með tölvupósti (helgag@rf.is) eða til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.  Upplýsingar um starfið veitir Helga Gunnlaugsdóttir í síma 530 8600.

Fréttir

Ráðið í ástand lífríkis með því að skoða eyrun á þorski

Við rannsóknir á fiskum geta vísindamenn nýtt sér kvarnir til að aldurs- og tegundagreina hann. Í öllum beinfiskum eru steinar úr kalkefnasamböndum í innra eyra þeirra sem kallast kvarnir. Þær gegna margvíslegu hlutverki, þ.á.m. er heyrnar- og jafnvægisskyn fisksins í sjónum, en hægt er að ráða ýmislegt fleira með því að skoða þær. Í vikunni var verið að fjarlægja kvarnir smáþorsks á Rf, m.a. til að athuga ástand lífríkissins í hafinu umhverfis Ísland.  

Þessi “eyrnaskoðun” er hluti af AMSUM-vöktunarverkefninu, sem Rf hefur tekið þátt í síðan 1989, en markmið þess er að vakta breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis Ísland á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Hlutverk Rf í verkefninu er umsjón með mælingum á ýmsum ólífrænum snefilefnum og klórlífrænum efnum í sandkola, þorski og kræklingi sem safnað er umhverfis landið. Rf sér einnig um að koma gögnum í gagnabanka Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Í vikunni voru starfsmenn frá umhverfis- og gæðasviði Rannsóknarsviðs Rf að undirbúa smáþorsk fyrir rannsóknir í vinnslusal Sjávarútvegshússins með því að flaka hann og fjarlægja kvarnir.

Verkefnisstjóri á Rf:  Eva Yngvadóttir

Fréttir

Ráðherra afhjúpar nýja tegund af fiskikeri í Brussel

Fyrirtækið Sæplast ehf á Dalvík hefur þróað nýtt byltingarkennt fiskiker í samvinnu við Rf, FISK Seafood hf og Háskóla Íslands. Fiskikerið var formlega afhjúpað af sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni á sjávarútvegssýningunni í Brussel í dag. Frá þessu segir á vefsíðu AVS sjóðsins, en hann styrkti einmitt þetta verkefni.

Þetta verkefni hófst árið 2004 og markmið þess var að finna leiðir til að minnka farg á fiski í neðstu lögum fiskkera og minnka þar með rýrnun og mar í fiski. Fyrstu hugmyndirnar voru þær að reyna að útbúa og þróa nokkurs konar hillukerfi í kerin, en væntanlegir notendur slógu þá hugmynd fljótlega af svo reynt var að nálgast verkefnið með öðrum hætti.

Niðurstaðan var sú að byrja frá grunni og hanna alveg nýtt ker sem uppfyllti þau markmið að bæta gæði hráefnis og að bæta jafnframt nýtingu rúmmáls um borð í skipum, geymslum og flutningstækjum. Nú hefur nýtt ker litið dagsins ljós og er það nokkuð lægra en flest fiskiker eru í dag, einnig er kerið léttara, og við stöflun þá lokar efra kerið því neðra án þess að skítur frá lyftara berist í neðra kerið.  Að auki er rúmmálsnýting í lestum skipa og flutningstækjum umtalsvert betri með nýja kerinu. 

Einn kostur er að nýja kerið staflast með eldri kerum þannig að ekki er um neina slíka kerfisbreytingu að ræða. Það verður spennandi að fylgjast með og sjá hvernig þessu nýja keri verður tekið og hvernig það reynist, etv er hér komið nýtt og betra tæki til að bæta nýtingu og gæði hráefnis.

Verkefnisstjóri á Rf var Sveinn V. Árnason 

IS