Fréttir

Viðskipti með lambakjöt í blockchain-tækni

Matís og Advania vilja efla viðskipti með landbúnaðarafurðir með lausn sem byggir á blockchain-tækni. Lausnin mun stuðla að rekjanleika svo neytendur verði upplýstir um uppruna og ferðalag vörunnar.

Matís og Advania hafa gert með sér samkomulag um að nota hina byltingakenndu blockchain-tækni til að skapa vettvang fyrir viðskipti með íslenskar landbúnaðarafurðir. Blockchain eða bálkakeðja er tæknin sem viðskipti með Bitcoin-rafmynt byggir á. Einn helsti kostur hennar er að sýna nánast óvéfenglegan rekjanleika. Þess vegna hentar tæknin afar vel í viðskiptum þar sem uppruni og ferðalag vöru skiptir öllu, svo sem í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

Neytendur vilja vera upplýstir um uppruna matvæla og hafa lengi kallað eftir því að geta átt milliliðalaus viðskipti með landbúnaðarafurðir við bændur. Advania og Matís hyggjast því skapa nýjan vettvang sem byggir á blockchain-tækni og verður aðgengilegur almenningi í haust. Þá gefst fólki kostur á að fá yfirlit yfir framleiðslu lambakjöts af vefsíðunni www.matarlandslagid.is sem hefur að geyma ítarlegar upplýsingar um sérstöðu bænda og ræktun þeirra. Einnig verður horft til þess að nýta lausnina á nýjum matarmarkaði á Hofsósi. 

Hugmyndin er að efla möguleika til nýsköpunar og sérhæfingar í landbúnaði. Vettvangurinn stuðlar auk þess að gagnsæi og heiðarleika í viðskiptum með matvæli. Samkvæmt samkomulaginu útvegar Advania kerfi sem byggir á blockchain-tækni og notað verður til að skrá á öruggan máta upplýsingar um bændaafurðir úr gagnagrunni Matís.

„Það er spennandi að nýta framúrstefnulega tækni til að stuðla að nýjum viðskiptaháttum í matvælaframleiðslu og auka valkosti bænda og neytenda. Sérfræðingar Advania ætla að smíða sína fyrstu lausn með blockchain fyrir þetta skemmtilega verkefni og við ætlum okkur að verða leiðandi afl í notkun á þessari tækni á Íslandi,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania. 

„Það er svo sannarlega ástæða til að leggja áherslu á nýsköpun í framleiðslu lambakjöts. Það var því augljós kostur þegar Advania stakk upp á samvinnu á sviði blockchain, enda teljum við tæknina geta aukið samtal milli bænda og neytenda verulega, minnkað líkur á matvælaglæpum og verkefni af þessu tagi verið stökkpallur fyrir íslenska matvælaframleiðendur og tæknifyrirtæki“, segir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

Á síðari stigum verkefnisins stendur til að nýta blockchain-tæknina til að skrásetja beit sauðfjár með og koma í veg fyrir ofbeit á landi, en Landgræðslan hefur þegar hafið vinnu við undirbúnings slíks verkefnis í samstarfi við sauðfjárbændur.

Fréttir

Bestun í blæðingu laxfiska

Nýtt verkefni er nýhafið hjá Matís. Verkefnið snýr að bestun í blæðingu laxfiska enda umtalsverð verðmæti sem skapast og aukast við góða blæðingu.

Markmið verkefnisins Bestun í blæðingu laxfiska er að bæta blæðingu laxfiska með endurbótum á núverandi aðferðum og þróa hagkvæma leið til að hreinsa vinnsluvatn sem verður til við slátrun, blóðgun og slægingu. Ætlunin er að þróa aðferð sem varðveitir lífvirk efni úr vinnsluvatni sem hægt verður að nýta í verðmætar afurðir en slíkt aðferð tryggir gæði afurða og stuðlar að umhverfisvænni framleiðslu. 

Byrjað verður á gangasöfnun þar sem meðal annars verður skoðað það sem Norðmenn hafa verið að gera þegar kemur að blæðingu laxfiska. Skoðaður verður mismunur á milli mismunandi blæðingaraðferða en auk þess verður efnasamsetning blóðsins rannsökuð með efnagreiningum sem unnar eru á efnarannsóknastofu Matís.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Arnarlax, Arctic Protein og Háskóla Íslands en verkefnastjóri er Gunnar Þórðarson hjá Matís. Auk hans koma að verkefninu frá Matís Magnea G. Karlsdóttir, Hildur Inga Sveinsdóttir, Ásbjörn Jónsson og Sigurjón Arason.

Verkefnið hófst í apríl sl. og lýkur í september 2020 og er styrkt af Umhverfissjóði sjókvíaeldis.

Fréttir

Mæði-visnuveira og HIV: margt er líkt með skyldum

Ný grein var  að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Greinin, sem er yfirlitsgrein, heitir Mæði-visnuveira og HIV: Margt er líkt með skyldum og er eftir Valgerði Andrésdóttur. Í yfirliti greinarinnar segir: Mæði-visnuveira sýkir kindur og veldur aðallega lungnabólgu (mæði) og heilabólgu (visnu). Veiran er lentiveira, sem veldur hæggengum sjúkdómi, og er náskyld alnæmisveirunni HIV. 

Veirurnar eiga margt sameiginlegt, svo sem skipulag erfðaefnis, virkni og gerð veirupróteina, fjölgunarferli, viðbrögð hýsils við sýkingu og dvalasýkingu, sem hýsillinn losnar aldrei við. Báðar veirur sýkja frumur ónæmiskerfisins; mæði-visnu veira sýkir átfrumur, en HIV sýkir bæði átfrumur og T-eitilfrumur. Í yfirlitsgreininni eru ýmis líkindi með þessum veirum reifuð.  

Visna og mæði eru sauðfjársjúkdómar sem bárust til landsins með innflutningi á Karakúlfé árið 1933 og ollu miklum búsifjum í íslenskum sauðfjárbúskap. Þetta varð til þess að árið 1948 var Tilraunastöðin á Keldum stofnuð til þess að hafa með höndum rannsóknir á þessum og öðrum dýrasjúkdómum en visnu og mæði var útrýmt með niðurskurði sem lauk 1965. Björn Sigurðsson, fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar stjórnaði rannsóknum á þessum sjúkdómum, og setti fram kenningar um nýjan flokk smitsjúkdóma, hæggenga smitsjúkdóma. Mæði-visnu veiran er í þessum flokki en einnig HIV veiran og hafa rannsóknir á mæði-visnu veirunni gefið mikilsverðar upplýsingar um líffræði HIV.

Það er mikill fengur að hafa fengið þessa yfirlitsgrein sem í grunninn byggir á einhverjum merkilegustu rannsóknum og uppgötvunum sem komið hafa frá íslenskum fræðimönnum.

Fréttir

Verðmæti úr hitakærum bakteríum

Tengiliður

Antoine Moenaert

Ph.D. nemi

antoine@matis.is

Nýtt verkefni er nú nýhafið hjá Matís. Verkefnið snýst um verðmæti úr hitakærum bakteríum er 3ja ára rannsóknaverkefni þar sem kannað er hvort hægt er að nýta kolvetni unnin úr þangi til að framleiða verðmæt efnasambönd.

Eitt af mikilvægustu verkefnum líftækni dagsins í dag er að þróa hagkvæmar og skilvirkar framleiðsluaðferðir fyrir verðmæt lífefni úr sjálfbærum lífmassa, til þess að draga úr mengun og vinna á móti ofnýtingu náttúruauðlinda sem ekki eru óþrjótandi. Hingað til hafa stórþörungar ekki verið nýttir sem hráefni í framleiðslu verðmætra efna í líftækniiðnaði. Þeir eru ríkir af kolvetnum og sem slíkir eru þeir ákjósanlegir í framleiðslu á margvíslegum verðmætum.

Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís og fléttast verkefnið inn í tvö önnur verkefni hjá Matís, verkefnin MacroFuel og ThermoFactories og byggir verkefnið á áratuga rannsóknum og reynslu sérfræðinga Matís í líftækni hitakærra baktería

Verkefnið hófst formlega 1. apríl 2018 sl. og því lýkur 31. mars 2021.

Hluti verkefnisins er til doktorsgráðu Antoine Moenaert hjá Matís en leiðbeinandi Antoine er Guðmundur Óli Hreggviðsson og faglegur leiðtogi yfir verkefninu er Ólafur Héðinn Friðjónsson.

Yfirlitsmynd fyrir verkefnið – höfundur Antoine Moenaert.

Fréttir

Ábyrg matvælaframleiðsla – Ísland og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnu um ábyrga matvælaframleiðslu og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, fimmtudaginn 31. maí í Hörpu kl. 13.00-16.00.

Á ráðstefnunni verður sérstaklega fjallað um hvernig fyrirtæki í matvælageiranum geta tileinkað sér ábyrga framleiðsluhætti, t.d. með því að auka sjálfbærni, minnka sóun, auka hagkvæmni í orkunotkun, bæta nýtingu auðlinda og ganga vel um umhverfið.

Serena Brown, stjórnandi á sviði sjálfbærrar þróunar hjá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG á Englandi, heldur erindi þar sem hún fjallar um heimsmarkmið SÞ og sjálfbæra þróun. Hún mun meðal annars fjalla um þau tækifæri sem felast í því fyrir fyrirtæki í matvælageiranum að tileinka sér gildi hennar. Svið sjálfbærrar þróunar hjá KPMG hefur um árabil rannsakað og veitt fyrirtækjum og stofnunum ráð við að innleiða ábyrga framleiðsluhætti í sína starfsemi.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, ræðir um samkeppnisforskot á grunni ábyrgðar og upplýsingagjafar og Einar Snorri Magnússon hjá Coca Cola European Partners segir frá starfsemi síns fyrirtækis í málaflokknum. Heiðrún Lind Marteinsdóttir hjá SFS ræðir um ábyrgar fiskveiðar og í seinni hluta ráðstefnunnar verða sagðar reynslusögur úr ýmsum áttum, m.a. úr landbúnaði, iðnaði, hótelrekstri og landgræðslu.

Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eða heimsmarkmiðin, sem samþykkt voru á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 2015, boða framfarir á heimsvísu. Þau snúa að samfélaginu í víðasta skilningi, s.s. framleiðsluháttum, notkun á orku, samvinnu, útrýmingu á fátækt og hungri og eiga að tryggja góða heilsu og vellíðan svo fátt eitt sé nefnt. Markmiðin eru sautján að tölu ásamt 169 undirmarkmiðum og ber ríkjum heims að ná þeim fyrir árið 2030.

Á ráðstefnunni verður krufið til mergjar hvernig markmiðin snerta íslenska matvælaframleiðslu, allt frá stefnumörkun til aðgerða sem fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld koma að. Leitast verður við að varpa ljósi á tækifæri og áskoranir sem markmiðin hafa á íslenska matvælaframleiðslu.

Enginn aðgangseyrir er að viðburðinum og hann er öllum opinn. Fundarstjóri er Elín Hirst fjölmiðlakona. Skráning er á vefnum si.is.

Að samstarfsvettvanginum Matvælalandið Ísland standa Bændasamtökin, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Matís, Matarauður Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök iðnaðarins.

Dagskrá

Kl. 13.00 Setning og afhending verðlauna Ecotrophelia Ísland
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Matvælalandið Ísland: Samkeppnisforskot á grunni ábyrgðar og upplýsingagjafar
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís

The Sustainable Development Goals: Opportunities for the Icelandic Food Industry
Serena Brown, director, Sustainable Development KPMG International

Áfram veginn
Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca Cola European Partners á Íslandi

Ábyrgar fiskveiðar
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS

Reynslusögur úr ýmsum áttum

  • Arnheiður Hjörleifsdóttir, bóndi á Bjarteyjarsandi
  • Eva María Sigurbjörnsdóttir, framleiðslustjóri Eimverks
  • Bryndís Marteinsdóttir,  verkefnastjóri hjá Landgræðslu ríkisins
  • Ólafur Helgi Kristjánsson, matreiðslumeistari á Hótel Sögu
  • Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss

Fundarstjórn: Elín Hirst fjölmiðlakona

Harpa – Kaldalón
fimmtudaginn 31. maí
kl. 13.00-16.00

Ráðstefnan er ókeypis og öllum opin en nauðsynlegt er að skrá sig á vef Samtaka iðnaðarins, www.si.is.

Fréttir

Einstakt tækifæri til að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri

Mjög áhugaverð vinnustofa var haldin í húsakynnum Matís í sl. viku. Nordic Innovation (NI) er að vinna að stefnumótun og rannsóknaáherslum á sviði viðskipta og nýsköpunar (e. business and innovation) nálægrar framtíðar og hafa áhuga á að fá frá hagaðilum, s.s. fyrirtækjum, efni og ábendingar um möguleg viðfangsefni og verkefni.

Vert er að geta þess að NI hefur haft þrjú þverfagleg þemu til grundvallar fjármögnun nýsköpunar á Norðurlöndum, sem taka til a) lífhagkerfis eða hringrásarhagkerfis (e. bioeconomy / circular economy), b) heilsu og lífsgæða og b) hreyfanleika, tenginga og flutninga (e. mobility, connections and logistics). Sem liður í þessari stefnumótunar vinnu NI fóru þau þess á leit við Matís að skipuleggja vinnustofu 14. maí síðastliðinn í höfuðstöðvum fyrirtækisins.

Fjölmörg íslensk fyrirtæki sóttu vinnustofuna enda um að ræða einstakt tækifæri til að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri þannig að það verði vinnandi vegur fyrir Íslendinga að sækja í Norræn rannsókna-, viðskipta og nýsköpunarköll þegar að því kemur. 

Fréttir

Ábyrg matvælaframleiðsla – Ísland og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnu um ábyrga matvælaframleiðslu og heimsmarkmið SÞ, fimmtudaginn 31. maí í Hörpu kl. 13.00-16.00. Skráning hér.

Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eða heimsmarkmiðin, sem samþykkt voru á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 2015 boða framfarir á heimsvísu. Þau snúa að samfélaginu í víðasta skilningi, s.s. framleiðsluháttum, notkun á orku, samvinnu, útrýmingu á fátækt og hungri og eiga að tryggja góða heilsu og vellíðan svo fátt eitt sé nefnt. Markmiðin sem eru sautján að tölu ásamt 169 undirmarkmiðum og ber ríkjum heims að ná þeim fyrir árið 2030.

Boðað er til ráðstefnu til að skoða hvernig markmiðin snerta íslenska matvælaframleiðslu, allt frá stefnumörkun til aðgerða sem fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld koma að. Leitast verður við að varpa ljósi á tækifæri og áskoranir sem markmiðin hafa á íslenska matvælaframleiðslu.

Að samstarfinu standa Bændasamtök Íslands, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Matís, Matarauður Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök iðnaðarins.

Dagskrá
Kl. 13.00 Setning og afhending verðlauna Ecotrophelia Ísland
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Matvælalandið Ísland: Samkeppnisforskot á grunni ábyrgðar og upplýsingagjafar
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís

The Sustainable Development Goals: Opportunities for the Icelandic Food Industry
Serena Brown, director, Sustainable Development KPMG International

Áfram veginn
Einar Snorri Magnússon, forstjóri Coca Cola European Partners á Íslandi

Ábyrgar fiskveiðar
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS

Reynslusögur úr ýmsum áttum
• Arnheiður Hjörleifsdóttir, bóndi á Bjarteyjarsandi
• Eva María Sigurbjörnsdóttir, framleiðslustjóri Eimverks
• Bryndís Marteinsdóttir,  verkefnastjóri hjá Landgræðslu ríkisins
• Ólafur Helgi Kristjánsson, matreiðslumeistari á Hótel Sögu
• Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjörís

Fundarstjóri: Elín Hirst fjölmiðlakona.

Ráðstefnan er ókeypis og öllum opin en nauðsynlegt er að skrá sig hér.

Harpa – Kaldalón
fimmtudaginn 31. maí
kl. 13.00-16.00

Fréttir

Spennandi ráðstefna í haust um tækifærin í nýtingu ígulkera á Norðurslóðum

Tengiliður

Guðmundur Stefánsson

Fagsviðsstjóri

gudmundur.stefansson@matis.is

Ráðstefna um nýtingu ígulkera fer fram í haust á Matís þar sem þar sem horft verður til helstu þátta við nýtingu ígulkera s.s. veiðiaðferðir, fiskveiðistjórnun og stofnmat, reglugerða, flutnings, vinnslu og markaða. Fengið verður innlegg frá öðrum þjóðum s.s. Írlandi og Kanada.

Nánari upplýsingar þegar líður að hausti og hjá Guðmundi Stefánssyni (tengiliðaupplýsingar hér til hliðar).

Fréttir

Þróun á matvörum fyrir eldra fólk sem hætt er við vannæringu – MS fyrirlestur við HÍ

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Að vera vel nærður er mikilvægt fyrir líkamlega- og andlega heilsu. Vannæring er algeng meðal eldri einstaklinga sem koma inn á spítala. Eftir útskrift af spítala eru þessir einstaklingar ennþá í slæmu næringarástandi.

Markmið verkefnisins var að þróa lystugar og bragðgóðar vörur sem bæta næringarástand eldri einstaklinga. Áhersla var lögð á að þróa vörur með mjúka áferð vegna tyggingar- og kyngingarörðugleika, sem einnig voru orkuþéttar og próteinríkar og jafnframt auðveldar í meðhöndlun með tilliti til minni hreyfigetu og vöðvastyrks.

Hvar: Læknagarður, Vatnsmýrarvegi 16, 101 Reykjavík

Hvenær: Föstudaginn 18. maí kl. 15.30 -16.15

Leiðbeinendur: Kolbrún Sveinsdóttir, Matís og Guðjón Þorkelsson, Matís, HÍ

Prófdómari: Ingibjörg Gunnarsdóttir, HÍ

Prófstjóri: Ólöf Guðrún Geirsdóttir, HÍ

Fréttir

Sendiherra BNA í heimsókn í Matís á Ísafirði

Starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi var á Vestfjörðum í gær. Sendiherrann og fylgdarlið heimsóttu meðal annars Matís. 

Gunnar Þórðarson ráðgjafi Matís og stöðvarstjóri á Vestfjörðum tók á móti hópnum og kynnti starfsemi Matís. 

Frá vinstri: Jill M. Esposito, staðgengill sendiherra, Gunnar Þórðarson, Ester S. Halldórsdóttir, efnahags og viðskiptafulltrúi sendiráðs Bandaríkjanna og John P. Kill, sem starfar á sviði efnahags, umhverfis og viðskipta hjá sendiráðinu.
IS