Fréttir

Vel heppnaðri áherslufundaröð lokið

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í maímánuði fór ársfundur Matís fyrir árið 2020 fram og í kjölfar hans áherslufundaröð sem gaf frekari innsýn í ákveðna hluta starfsemi fyrirtækisins. Fundaröðin fól í sér að haldinn var einn morgunfundur fyrir afmarkaðan geira eða grein atvinnulífsins sem Matís veitir stuðning og var aðilum þar og áhugafólki boðið til samtals.

Áherslufundaröðin samanstóð af 8 fundum sem fóru fram í gegnum fjarfundarbúnað. Allir fundirnir voru vel sóttir og sköpuðust í flestum tilfellum líflegar umræður um ýmis málefni tengd viðfangsefninu. Sérfræðingar frá Matís, fulltrúar frá stórum og smáum fyrirtækjum í matvælaiðnaði á Íslandi, frumkvöðlar og almenningur fengu þarna tækifæri til þess að ræða saman um það sem efst er á baugi í hverjum málaflokki fyrir sig.

Fyrsti fundurinn fór fram þann 14. maí og var umræðuefnið Kolefnisspor botnfiskafurða og aðlögun sjávarútvegsins að áhrifum loftslagsbreytinga. Á næstu tveimur vikum þar á eftir voru haldnir fundir þar sem umræðuefnin voru: rannsóknir og nýsköpun fyrir fiskeldi framtíðar, uppsjávariðnaður nú og til framtíðar, virðiskeðja grænmetis, rannsóknir og nýsköpun við kjötframleiðslu og kjötvinnslu, mjólkurvörur í nútíð og framtíð og framtíðaráherslur og samstarfsmöguleikar í líftækni og lífefnum á Íslandi.

Síðasti fundurinn sem fór fram var haldinn í samstarfi við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Nýsköpunarvikuna. Fundurinn bar yfirskriftina Sprotar og vöruþróun – hvernig getur Matís aðstoðað? Á þeim fundi var farið sérstaklega yfir það hvernig Matís getur aðstoðað frumkvöðla við nýsköpunarferli, allt frá hugmyndavinnu að markaði. Dagný Hermannsdóttir frá fyrirtækinu Súrkál fyrir sælkera og Óskar Ericsson  frá Himbrimi Gin eru frumkvöðlar sem hafa stundað nýsköpun í matvælaframleiðslu og þau sögðu frá sinni reynslu af samstarfi við Matís  en bæði hafa þau framleitt vörur sem hafa notið mikillar velgengni.

Matís þakkar öllum þátttakendum kærlega fyrir samstarfið og auk þess fyrir þá athygli sem fundaröðin fékk. Stefnt er að því að gera samtalsfundi sem þessa að árlegum viðburði hjá fyrirtækinu.

Alla áherslufundina, auk ársfundar Matís fyrir árið 2020 má finna hér á vefsíðu Matís en einnig á Youtube rás fyrirtækisins.