Hagnýtar erfðagreiningar fyrir sjávarútveg, fiskeldi, landbúnað og upprunagreiningar matvæla.
Faghópur í erfðafræði notar erfðagreiningar í hagnýtum rannsóknum í sjávarútvegi, fiskeldi, landbúnaði og við upprunagreiningar matvæla. Greiningar eru nýttar til stofnagreiningar nytjastofna í hafi, greiningu villtra laxa stofna, greiningu eldislaxa og til kynbóta í búfé með erfðamörkum. Enn fremur framkvæmum við reglulega uppruna- og tegundagreiningar á kjöti og fiski í matvælum. Faghópurinn nýtir hefðbundnar aðferðir í DNA raðgreiningu (e. Sanger) ásamt nýrri og afkastameiri raðgreiningartækni (e. next-generation), ásamt greiningu breytileika í einstaka basapörum (SNP). Sérstök áhersla er lögð að styðja við sjálfbæra nýtingu nytjastofna, stuðla að sjálfbæru fiskeldi og varðveislu íslenskra búfjárstofna með markvissum kynbótum.
Dæmi um verkefni sem eru í gangi hjá faghóp í erfðafræði:
- Greining síldarstofna í Norður-Atlantshafi með erfðafræðilegum aðferðum (í samstarfi við Hafrannsóknastofnun).
- Þróun erfðafræðilegra aðferða til upprunagreininga á hráefnum í unnun matvælum.
- Þróun á greiningum á umhverfiserfðaefnis til loðnuleitar (í samstarfi við Hafrannsóknastofnun).
- Foreldragreiningar í sauðfé með erfðafræðilegum aðferðum (í samstarfi við RML)
- Foreldragreiningar í hrossum (í samstarfi við RML)
- Tegundagreiningar á kjöti og fiski í matvælum
- Greiningar á riðugeni