Fréttir

Gleymum ekki grænmetinu

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Hjá Matís hafa verið unnin fjölmörg verkefni sem miða að því að efla þekkingu á grænmeti til hagsbóta fyrir almenning, matvælaiðnað og aðra hagsmunaaðila. Viðfangsefni Matís ná yfir stóran hluta af virðiskeðju grænmetis, allt frá uppskeru og alla leið á borð neytenda. Innlend grænmetisframleiðsla leggur aðeins til ríflega 40% af öllu því grænmeti sem neytt er á Íslandi. Því mætti auka fæðuöryggi landsins með aukinni grænmetisframleiðslu.

Það eru fleiri ástæður til að beina athyglinni að grænmeti. Grænmeti hefur mikið hollustugildi og er þetta staðfest í nýjum norrænum næringarráðleggingum sem sjá má hér og hér. Aukin neysla grænmetis getur dregið úr líkum á krabbameinum í maga og lungum og einnig hjarta- og æðasjúkdómum. Mælt er með neyslu á 500-800 grömmum af grænmeti, ávöxtum og berjum daglega. Þetta er mun meira en flestir Íslendingar neyta nú samkvæmt Landskönnun á mataræði. Best er að neyta fjölbreytts úrvals af þessum fæðutegundum og takmarka neyslu á unnum matvælum með viðbættum sykri. Grænmeti, ávextir og ber eru mikilvæg uppspretta næringarefna eins og trefjaefna og C-, E- og K-vítamína ásamt fólati.

Þess má geta að nú vinna starfsmenn Matís að nýrri grænmetisvefbók með stuðningi frá Þróunarsjóði garðyrkju. Vefbókin verður aðgengileg á vefsíðu Matís og fjallar sérstaklega um niðurstöður úr verkefnum Matís. Nefna má aðferðir til að hámarka gæði og geymsluþol grænmetis, aðgerðir til að draga úr sóun þess, pökkunarleiðbeiningar, næringargildi og vinnslu verðmætra efna úr hliðarafurðum grænmetisframleiðslunnar. Þessi atriði verða skýrð á aðgengilegan hátt og hlekkir verða á ítarlegri umfjöllun og skýrslurnar sjálfar. Vonast er til þess að þetta framtak auki áhuga á grænmeti og stuðli að aukinni neyslu þess. Dæmi um verkefni Matís um grænmeti má sjá hér.

Fréttir

Nægur og heilnæmur matur inn í framtíðina

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

„Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum,“ segir Jónas Viðarsson í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 og nefnir vaxandi próteinskort í heiminum í því samhengi. „Þetta snýr bæði að fæðuöryggi og matvælaöryggi, þ.e. að við höfum bæði nægan og heilnæman mat fyrir okkur inn í framtíðina. Þetta er stór áskorun fyrir heiminn í heild og hluti af því sem við hjá Matís erum að vinna að á hverjum degi.“

Hann bendir á að það séu mörg verkefni í gangi á Íslandi sem snúa að því að búa til meiri mat. „Við á Íslandi getum kennt heiminum heilmikið í tengslum við fullnýtingu, sérstaklega á fiski,“ segir Jónas, en bætir þó við íslenskir neytendur hafi frekar stórt kolefnisfótspor miðað við aðrar þjóðir.

Jónas bendir á að Matís sé mjög framarlega í rannsóknum og þróun á nýpróteinum (alternative próteins) í Evrópu. „Það er eitt af því sem við sjáum að verði hluti af lausnunum, þ.e. að koma inn með nýja próteingjafa.“ Hann nefnir í því samhengi rannóknir á örþörungum, þara, bakteríum eða einfrumungum og svo skordýr.

Viðtalið má nálgast í heild sinni hér (hefst á mínútu 33:50).

Fréttir

Salvör Jónsdóttir nýr stjórnarformaður Matís

Salvör Jónsdóttir var nýverið kjörin nýr stjórnarformaður Matís. Hún tekur við af Hákoni Stefánssyni, sem gegnt hefur stöðunni frá árinu 2019.

Salvör lauk meistaraprófi í skipulagsfræði við University of Wisconsin-Madison og hefur unnið við skipulagsmál í áratugi. Hún hefur meðal annars starfað við skipulag matvælakerfis í Bandaríkjunum og var um árabil sviðsstjóri skipulagssviðs hjá Reykjavíkurborg. Auk þess hefur hún gegnt stöðu aðjúnkts við HR. Salvör vinnur nú að doktorsrannsókn við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands þar sem hún skoðar þætti í náttúru- og félagsvísindum með það markmiði að bæta framleiðslukerfi í landbúnaði með tilliti til sjálfbærrar þróunar. Í rannsókninni er m.a. hugað að fæðuöryggi hérlendis.

Við þökkum Hákoni Stefánssyni fyrir vel unnin störf og bjóðum Salvöru Jónsdóttur hjartanlega velkomna.

Fréttir

Heilkorn er tengt við heilsufarslegan ávinning

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Bygg hefur verið ræktað á Íslandi með góðum árangri. Ræktun á höfrum er nýleg viðbót og lofar hún mjög góðu. Í verslunum má finna íslenskt bygg á ýmsu formi en einnig haframjöl. Bygg og hafrar hafa mikla sérstöðu meðal korntegunda, þessar korntegundir eru ríkar af trefjaefnum eins og beta-glúkönum sem eru í mjög takmörkuðum mæli í hveiti. Korn er mjög mikilvægt fyrir fæðuöryggi á Íslandi og er þá bæði átt við korn sem fóður og til matvælaframleiðslu. Manneldiskorn er langveikasti hlekkurinn í fæðuöryggi á Íslandi. Nú standa vonir til aukinnar kornræktar á Íslandi og því er full ástæða til að nota meira af íslenska korninu í matvæli.

Nú í júní 2023 voru gefnar út nýjar norrænar næringarráðleggingar, sem finna má hér og hér. Þær eru mikið framfaraskref og byggðar á traustum vísindalegum grundvelli. Umfjöllunin um korn vekur sérstaka athygli þar sem neysla á heilkorni er tengd við heilsufarslegan ávinning. Mælt er með að neyta að minnsta kosti 90 gramma af heilkorni á dag en ekki sakar að neyta meira magns. Heilkornavörur með minnst 50% heilkorni teljast með í ráðleggingunum. Umtalsverð neysla á heilkorni minnkar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, ristilkrabbameini, gerð 2 sykursýni og ótímabærum dauðdaga.

Heilkorn inniheldur hýðið og þau bætiefni sem því fylgja. Hvítt hveiti og hvít hrísgrjón geta augljóslega ekki fallið undir heilkorn. Hvítt hveiti getur þó gegnt mikilvægu hlutverki fyrir fólk sem þarf mikla orku.

Fólk sem hefur glútenóþol þarf eftir sem áður að forðast heilkorn með glúteni. Þess má þó geta að til eru hafrar sem hafa verið staðfestir glútenlausir.

Matvælaiðnaðurinn hefur ekki hagnýtt heilkorn eins og vert væri. Hægt væri að nýta íslenskt bygg og hafra í mun meiri mæli. Í verkefnum Matís hefur verið sýnt fram á notagildi íslenska kornsins:

Hér eru tækifæri fyrir matvælaiðnaðinn til að skapa sér sérstöðu og ná betur til neytenda.

Greinarhöfundur: Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is

Fréttir

Framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi: Upptaka af málþingi

Þriðjudaginn 6. júní fór fram vel heppnað málþing Matís um framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi í Norðurljósasal Hörpu. Upptaka af málþinginu er nú aðgengileg hér fyrir neðan.

Ljósmyndir: Anton Brink

Fréttir

Hliðarafurðir og Hugmyndir: Spjallað um seyru frá fiskeldi

Tengiliður

Anna Berg Samúelsdóttir

Verkefnastjóri

annab@matis.is

Vinnustofa verkefnisins Örverur til auðgunar fiskeldisseyru var haldin fimmtudaginn 8. júní sl. í húsnæði Sjávarklasans. Verkefnið er unnið af Matís í samstarfi við, Sjávarklasann og Samherja. Megin tilgangur verkefnisins er að fá kannað hvort örverur sem þrífast í fiskeldisseyru séu nýtanlegar til þess að auðga næringarefnin sem eru í seyrunni svo hægt sé að nýta hana sem áburð.

Á vinnustofuna voru boðnir aðilar sem starfa á sviði fiskeldis hér á landi. Fjórir fyrirlestrar voru um verkefnið, skammstöfunina ÖAF, seyruna, efnasamsetningu hennar og áskoranir tengdar notkun hráefnanna seyru og annarra hliðarafurða frá fiskeldi. Að loknum fyrirlestrum var hópavinna þar sem þátttakendur vinnustofunnar unnu með viðfangsefnið og fóru yfir tækifærin sem og áskoranir tengdar framtíðarmöguleikum fiskeldisseyrunnar og öðrum hliðarafurðum frá fiskeldi.

Vel mætt var á vinnustofuna en þátttakendur töldu ríflega 20 manns og mynduðust góðar umræður hjá þátttakendum um viðfangsefnið sem þeir vinna með alla daga. Hluti verkefnisins „Örverur til auðgunar fiskeldisseyru“ er svo að vinna með niðurstöður úr vinnustofunni þ.e. hugmyndir og reynslu þátttakenda.

Eitt af niðurstöðum vinnustofunnar er að tækfæri seyrunna sem og annarra hliðarafurða frá fiskeldi eru fjölmörg s.s. nýting hráefnisins sem áburð og jarðvegsbætir fyrir landbúnað. En samhliða þeim tækifærum eru áskoranir tengdar regluverki og það að gera hráefnið fýsilegt til notkunar út frá hagkvæmni. Hagkvæmnin er tvíþætt þ.e. söfnun og meðhöndlun hráefnisins hjá fyrirtækjunum svo úr verði eftirsótt afurð.

Verkefnið er einn liður í stóru púsli til þess að efla hringrásarhagkerfið og er styrkt af Hringrásarsjóði.

Anna Berg Samúelsdóttir
Sérfræðingur Matís á sviði sjálfbærni og eldi.

Fréttir

Vinnustofa: Hliðarafurðir og hugmyndir

Vinnustofan Hliðarafurðir og Hugmyndir fer fram fimmtudaginn 8. júní klukkan 9:30 í Sjávarklasanum

Þar verður áherslan á seyru frá fiskeldi og rannsóknir í því samhengi. Vinnustofan er á vegum verkefnisins Örverur til auðgunar fiskeldisseyru sem leitt er af Matís og unnið í samstarfi við Sjávarklasan og Samherja fiskeldi.

Fréttir

Vilt þú taka þátt í rannsókn á nýju andlitskremi?

Viltu taka þátt í rannsókn á áhrifum efna úr þangi á öldrunareinkenni heilbrigðrar húðar?

Rannsóknin felur í sér samanburð á teygjanleika, raka og húðfitu í andliti fyrir og eftir um 12 vikna notkun á andlitskremi. Helmingur þátttakenda fær krem með efnum úr þangi en hinn helmingurinn sama krem án efna úr þangi. Eftir að rannsókn lýkur verður dregið úr hópi þátttakenda tvö 20.000 kr. peningaverðlaun.

Þú getur tekið þátt ef þú ert:

  • á aldrinum 40 til 60 ára
  • með heilbrigða húð og ekki með þekkt undirliggjandi húðvandamál

Hvað þarf þú að gera?

  • Nota andlitskremið tvisvar á hverjum degi, kvölds og morgna.
  • Ekki nota önnur andlitskrem meðan á rannsókn stendur
  • Mæta þrisvar í mælingu til Matís, Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík: fyrir notkun, eftir um 6 vikna og um 12 vikna notkun á andlitskreminu
  • Svara spurningakönnun um upplifun á kreminu eftir síðustu mælingar

Hvernig skráir þú þig?

  • Sendir tölvupóst til Aðalheiðar Ólafsdóttur adalheiduro@matis.is með eftirfarandi upplýsingum:
  • nafni
  • fæðingarári
  • netfangi
  • símanúmeri
  • stuttri lýsingu á því hvaða húðvörur þú notar reglulega á andlit (t.d. andlitskrem, tóner, serum, hreinsivörur)

Rannsóknin er hluti af verkefninu MINERVA sem miðar að því að auka og bæta nýtingu stórþörunga sem framleiddir eru á sjálfbæran hátt og þróa nýjar verðmætar vörur úr þeim. Verkefnið er styrkt af ERA-NET Cofund Blue Bioeconomy og er samstarfsverkefni fyrirtækja, háskóla og rannsóknafyrirtækja á Írlandi, Íslandi og í Svíþjóð.

Nánari upplýsingar eru sendar ef áhugi er fyrir þátttöku.

Fréttir

Sumarhátíð Matís

Verið öll hjartanlega velkomin á sumarhátíð Matís þann 7. júní næstkomandi kl 16:00 – 18:00 að Vínlandsleið 12.

Það verður sannkölluð skemmtun fyrir alla fjölskylduna, þar sem Stjörnu Sævar mun mæta á svæðið, andlitsmálning fyrir börnin ásamt spennandi vísindastöðvum fyrir unga sem aldna.

Smelltu á myndina hér fyrir neðan til að fara á viðburðinn á Facebook.

Sjáðu myndirnar frá sumarhátíðinni:

Fréttir

Þekkir þú matarlistamann framtíðarinnar?

Verkefnið NextGenProteins, sem unnið er að hjá Matís, hefur efnt til myndasamkeppni fyrir nemendur á aldrinum 8-10 ára (3-4. bekkur grunnskóla). Viðfangsefni keppninnar er matur framtíðarinnar, en krakkarnir eru hvattir til þess að láta hugan reika og setja niður á blað hvernig þeir sjá fyrir sér mat framtíðarinnar. Það má senda teikningu, málverk eða aðra myndræna útfærslu. Hámarksstærð mynda er A3 og skulu þær berast til Matís í bréfpósti.

Helstu upplýsingar: 

  • Opnar:  1. maí 2023
  • Hverjir mega taka þátt? Krakkar á aldrinum 8-10 ára
  • Lokar: 1. júní 2023

Til mikils að vinna!
Verðlaun:

  1. Nintendo Switch Light
  2. 15.000 króna gjafabréf í Smáralind
  3. 10.000 króna gjafabréf í Spilavini

Með því að taka þátt í keppninni, er veitt samþykki fyrir birtingu myndanna á miðlum verkefnisins. Þegar myndum er skilað, skal nafn þátttakanda og nafn myndar fylgja.

Nánari upplýsingar veitir Katrín Hulda Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Matís í netfang: katrinh@matis.is

IS