Fréttir

Námskeið um meðhöndlun matvæla fyrir starfsfólk mötuneyta og eldhúsa

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Matís býður upp á námskeið, varðandi meðhöndlun á matvælum, hreinlæti, helstu áhættur og matvælaöryggi, sem er sérstaklega miðað að starfsfólki í mötuneytum, eldhúsum og veitingahúsum. Tilgangur námskeiðanna er að tryggja að þekking og skilningur aðila sem meðhöndla matvæli á matvælaöryggi og hreinlæti, sé gott, til að lágmarka áhættu á að skaðlegar sýkingar berist í matvæli og ógni þar með heilbrigði og öryggi neytenda. Námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Boðið verður upp á námskeiðið bæði sem staðnámskeið og vefnámskeið.

Matís og sérfræðingar þess eru bakhjarlar þessa verkefnis, en námsefnið er viðurkennt af Matvælastofnun. Fræðsluefnið er unnið úr ýmsum gögnum s.s. þeim lögum og reglugerðum sem fjalla um matvæli, úr fyrri rannsóknum og því náms- og kynningarefni sem útbúið hefur verið hjá Matís og Matvælastofnun.

Áætlað er að tvær til þrjár kennslustundir (3×45 mín) taki nemanda að lesa yfir og tileinka sér það sem borið er fram og að taka próf í lok námskeiðs. Hafi þátttakandi staðist prófið, er gefið út vottorð s.k. matvælaöryggis skírteini. Skírteinið er staðfesting á að þátttakandi hafi aflað sér staðgóðrar þekkingar vegna vinnu við meðhöndlun matvæla samkvæmt kröfum þeirra reglugerða sem mötuneytum og veitingahúsum ber að fara eftir. Krafist er 80% réttrar svörunnar og mögulegt er að endurtaka prófið tvisvar.

Farið er í eftirfarandi þætti:

1 Matvælaöryggi

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni deyja um 240 þúsund manns ár hvert af völdum matarsýkinga eða matareitranna, og þriðjungur eru börn undir fimm ára aldri. Það má því segja að matvælaöryggi sé dauðans alvara. Í þessum hluta er farið yfir helstu hættur í matvælum og hver er hugsanlegur uppruni þeirra. Sérstök áhersla er lögð á sjúkdómsvaldandi örverur, hverjar eru þær helstu og hvernig komast þær í matvæli. Þá er einnig rætt um hvernig þær ná að fjölga sér og hverjar eru helstu afleiðingar nái þær að sýkja neytendur.

Fjallað er um hvaða hættur tengjast matvælum og farið yfir flokkana (eðlis-, efna- og líffræðilegar hættur, þar sem fjallað er um hvers konar hættur þar er að finna og hvar þær gætu verið). Þá er fjallað um hvernig á að verjast því að hætturnar komið í matvæli og neytendur. Farið er yfir meðhöndlun og geymslu matvæli og einnig fjallað um þrif og umgengni um matvæli. Að lokum er farið yfir nauðsyn skráninga.

2 Meðhöndlun og geymsla matvæla

Í þessum hluta er fjallað um hvernig verja má matvæli frá utanaðkomandi smiti. Þá fariðyfir mikilvægi rétts hitastigs við matreiðslu, framreiðslu, kælingu og geymslu matvæla.

3 Hreinlæti

Farið yfir mikilvægi þrifa og sótthreinsunar á umhverfi og áhöldum sem notuð eru við tilbúning matar og sérstök áhersla lögð á hreinlæti og heilbrigði þeirra sem meðhöndla óvarin matvæli.

4 Hættugreining og mikilvægir stýristaðir (HACCP)

Matvælareglugerðir kveða á um að öll meðhöndlun og vinnsla matvæla skuli byggð á HACCP hugmyndafræðinni. Farið er yfir hvað það þýðir og hvaða kröfur eru gerðar til mismunandi fyrirtækja og stofnana.

5 Ofnæmisvaldar

Ákveðin matvæli og innihaldsefni geta kallað fram sterk ofnæmisviðbrögð hjá vissum einstaklingum. Fjallað er um hvaða matvæli og innihaldsefni það eru og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra sem bjóða fram matvæli sem innihalda slík efni.

Verð á vefnámskeiði eru 22 þúsund krónur. Dagsetningar verða auglýstar síðar.

Frekari upplýsinar veitir Óli Þór Hilmarsson, olithor@matis.is.

Mynd: Shutterstock

Fréttir

Matís leitar eftir metnaðarfullum sérfræðingi í matvælaörverufræði

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Matís er leiðandi á sviði matvælarannsókna og líftækni. Hjá Matís starfar um 100 manna öflugur hópur starfsfólks sem brennur fyrir því að finna nýjar leiðir til að hámarka nýtingu hráefnis, auka sjálfbærni og efla lýðheilsu. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs og tryggja matvælaöryggi, lýðheilsu og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu.

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Almennar örverurannsóknir með faggildum aðferðum
  • Þátttaka í færni-prófunum á sviði matvæla og lyfja
  • Þátttaka í innri samanburðarsýnaprófunum á ýmsum matvælasýklum
  • Þátttaka í verkefnum sem heyra undir tilvísunarrannsókna fagsviðsins
  • Uppbygging faglegrar áherslu varðandi þjónustumælinga í örverufræði

Hæfnikröfur

  • Menntun í matvælafræði, lífeindafræði, líffræði eða skyldum greinum er skilyrði
  • Reynsla af rannsóknum og mælingum er æskileg
  • Jákvætt viðmót og lipurð í mannlegum samskiptum eru skilyrði
  • Samstarfshæfni og sveigjanleiki
  • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
  • Frumkvæði og faglegur metnaður
  • Góð almenn íslensku- og enskukunnátta bæði í tali og riti.
  • Góð almenn tölvukunnátta

Starfshlutfall er 100%. Viðkomandi mun starfa á rannsóknastofu Matís við Vínlandsleið 12, Reykjavík.

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf.

Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Upplýsingar veitir Sæmundur Sveinsson, fagstjóri örverumælinga og erfðagreininga, saemundurs@matis.is, 422 5130.

Fréttir

E. coli STEC í nauthakki – Uppruni matarborins smits staðfestur með heilraðgreiningu á Matís

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Matís getur greint hvort E.coli STEC sé í matvörum

Undanfarnar tvær vikur hafa sérfræðingar Matís unnið hörðum höndum að því að rekja uppruna hópsýkingar af völdum E. coli STEC sem upp kom í leikskóla í Reykjavík um miðjan október. Rannsóknin var unnin í nánu samstarfi við Matvælastofnun, Sóttvarnarlækni, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.

Fjöldi matvæla, sem lágu undir grun, voru skimuð fyrir
E. coli STEC en þessi baktería getur leynst víða. Fljótlega kom í ljós að hakk, sem notað var í matseld á leikskólanum, var langlíklegasti uppruni smitsins. Mikill fjöldi bakteríustofna var ræktaður úr hakkinu og að lokum tókst að einangra þrjá stofna sem innihéldu einkennandi meinvirknigen og voru af sömu sermisgerð og stofn sem einangraður var úr sjúklingi. Erfðamengi þessara fjögurra stofna var að lokum heilraðgreint á Matís. Sú greining leiddi í ljós að stofnar úr hakkinu og sjúklingi voru erfðafræðilega eins. Matís var brautryðjandi í innleiðingu þessarar aðferðafræði hér á landi til að rekja uppruna matarborinna sýkinga.

Matís vill að lokum vekja athygli á að fyrirtækið býður upp á greiningar á E. coli STEC í matvælum. Matís er tilvísunarrannsóknastofa (NRL) í þessum greiningum hér á landi. Það þýðir að Matís uppfærir sífellt aðferðir sínar í samræmi við nýjustu þekkingu og aðferðir í Evrópu. E. coli STEC er baktería sem getur valdið alvarlegum veikindum.

Fréttatilkynning MAST

Fréttir

Ársfundur Natalie á Gran Canaria

Dagana 14.-16. október hittust allir 43 þátttakendur Evrópuverkefnisins Natalie í Las Palmas á Gran Canaria til þess að ræða framgang verkefnisins fyrsta árið og næstu skref. Þar gafst þátttakendum líka tækifæri til þess að hittast í eigin persónu, margir hverjir í fyrsta skipti. Í verkefninu koma saman 43 fyrirtæki og stofnanir víðsvegar úr Evrópu með það að markmiði að þróa náttúrutengdar lausnir sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er til fimm ára og er styrkt af Horizion áætlun Evrópusambandins.

Í kringum 100 manns tóku þátt í fundinum og voru fulltrúar flestra samstarfsaðila mættir, ásamt hagsmunaaðilum á svæðinu og fleiri hluteigandi. Umræður fundarins snerust m.a. að eftirfarandi:

Staða verkefnisins eftir fyrsta árið

Verkefnið nær til margra þátttakenda í ólíkum löndum þar sem þarfir eru fjölbreyttar. Að fara yfir stöðuna saman gaf því tækifæri til þess að fá innsýn í hvað er í gangi annars staðar í Evrópu. Hvert rannsóknarsvæði uppfærði samstarfsaðila um hvað hafði gengið vel og hverjar helstu ákoranirnar hefðu verið undanfarið ár. 

Rannsóknarsvæðið á Gran Canaria heimsótt. Á myndinni sést uppbyggt votlendi með mælitæki.
Hluti þátttakenda í CS7. Frá vinstri : Annar Berg Samúelsdóttir (Matís), Tinna Halldórsdóttir (Austurbrú), Gabríel Arnarsson (Austurbrú), Katrín Hulda Gunnarsdóttir (Matís) og Jess Penny (University of Exeter).

Undirbúningur næstu vinnustofu

Mikilvægur þáttur verkefnisins er að tengjast hagsmunaaðilum á svæðinu og til þess eru haldnar fjórar vinnustofur. Sú fyrsta hefur þegar farið fram en á fundinum var farið yfir hvernig væri hagkvæmast að halda þá næstu.

Næstu skref

Í lok fundar gafst þátttakendum tækifæri til þess að setjast saman niður og skipuleggja næstu skref. Í svona umfangsmiklu verkefni eru margir þættir sem þarf að hafa yfirsýn yfir og því mikilvægt að allir séu á sömu blaðsíðu.

Þar að auki var farið í vettvangsheimsókn á eitt rannsóknarsvæðanna og fengu þátttakendur þar góða hugmynd um raunveruleg áhrif þess að innleiða náttúrutengda lausn á nærumhverfið. Eftir langa, en árangursríka fundardaga, fara fulltrúar Matís fullir tilhlökkunar inn í næsta ár verkefnisins.

Um verkefnið

Verkefnið Natalie snýr að þróun náttúrutengdra lausna sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn loftslagsbreytingum. Austurland var valið sem sjöunda rannsóknarsvæði (CS7) verkefnisins og þátttakendur í CS7 eru Matís, Austurbrú, University of Tromsø og University of Exeter. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins.

Natalie Leaflet (PDF)

Fréttir

Hvernig gerum við matvælakerfi framtíðar sjálfbærari?

Alþjóðlegt ráðstefna um nýprótein fyrir mat og fóður verður haldin í Berlín dagana 3.-5. desember næstkomandi. Matís er einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar, en um er að ræða mikilvægan vettvang þar sem leitað er leiða til stuðla að sjálfbærum landbúnaðarháttum og matvælakerfum, sem nær yfir framleiðslu og neyslu, á heildrænan hátt og samþætta nýsköpun og umhverfisvernd.

Matvæla- og fóðurkerfi um allan heim standa frammi fyrir áskorunum við að tryggja fæðuöryggi og næringu fyrir alla jarðarbúa, á sama tíma og þau þurfa að tryggja lífsviðurværi bænda og annarra hagsmunaaðila í fæðukeðjunni og viðhalda sjálfbæru umhverfi.

Nýprótein (e. alternative protein) eins og skordýr, sveppir, þörungar og örverur fylla skarð sjálfbærrar, næringarríkrar og öruggrar fæðu í framtíðinni.

Á ráðstefnunni verður fjallað um sjálfbær nýprótein og kannað hvernig þau geta umbreytt núverandi matvælakerfum. Áhersla er á öryggi og næringu, auk skynjun neytenda og efnahagslegan grundvöll.

Sem fyrr segir fer ráðstefnan fram í Berlín dagana 3.–5. desember 2024, en það er einnig hægt að sitja ráðstefnuna í gegnum netið, svo þú getur tekið þátt hvar þú ert.

Skipuleggjendur ráðstefnunnar eru:

  • German Federal Institute for Risk Assessment (Bundesinstitut für Risikobewertung, BfR)
  • European Food Safety Authority (EFSA)
  • U.S. Food and Drug Administration (FDA)
  • Singapore Food Agency (SFA)
  • Matís ohf.

Frekari upplýsingar og skráningu má finna hér.

Fréttir

Workshop on Catch Quality and Pricing in the Nordic Region

Tengiliður

Sæmundur Elíasson

Verkefnastjóri

saemundur.eliasson@matis.is

Thursday November 7th 2024. Held in Ríma conference room in Harpa, Austurbakka 2, 101 Reykjavík. Supported by Nordic Council of Ministers – Working Group for Fisheries (AG-Fisk).

Workshop description:

The workshop is held to discuss and investigate factors that affect catch quality and pricing, how they interconnect and differ between the Nordic countries. This includes discussions on quality characteristics, how quality parameters currently are and should be measured, regulation frameworks and what affects pricing and market situations. The outcome of the workshop will outline the strengths of different strategies that relate to catch quality within the Nordic region and explore if there are opportunities to implement different methods  between regions to achieve higher overall catch quality and value.

Revised suggestions for topics in the workshop agenda are:

  • Price and catch value: What affects the prices? Are they reflected correctly by quality parameters?
  • Quality characteristics: What are the most important quality parameters (handling factors, fish size, condition factor,…)? How do we measure the catch quality parameters? Suggestions for standardization of quality assessment?
  • Fishing methods: How do different fishing strategies and methods affect catch quality?
  • Regulations and legal matters: How do regulation vary between the Nordic countries? How does the regulation work across the countries and are there lessons to be transferred?
  • Market aspects: How do prices differ between direct sales vs auction markets and Vertically integrated company’s vs fish market.

Program draft:

9:30 – 12:00 Workshop presentations and discussion

9:30 Opening and short introduction from Jónas R. Viðarsson, Matís

9:45 -10:45

  • Catch quality parameters and fishing gear, Sæmundur Elíasson from Matís and the University of Akureyri.
  • Price and catch value – Norway vs. Denmark market, Geir Sogn-Grundvåg from Nofima
  • Fishmarkets perspectives on price and quality, Bjarni R. Heimisson from the Icelandic fishmarkets (Reiknistofnun Fiskmarkaða)

10:45 Coffee break

11:00 -12:00

  • Can ecolabels tune a supply chain? The case of MSC certified haddock from Norway, Julia Bronnmann, University of Southern Denmark.
  • Pricing and markets, Direct sales vs. Auction, Freysteinn N. Mánason from the University of Akureyri

12:00 – 13:30 Lunch and networking with the Icelandic Seafood Conference

13:30 – 15:00 Group discussion and analysis

15:30 Round up

16:00 Refreshments with the Seafood Conference

Fréttir

Evrópuverkefnið BIO2REG býður til vinnustofu um lífhagkerfi

Matís og RISE frá Svíþjóð munu leiða saman sérfræðinga á sviði lífhagkerfis í vinnustofu sem ber heitið “BIO2REG expert workshop on research infrastructure and living labs” 5. og 6. september næstkomandi í húsakynnum Matís í Reykjavík.  

Í vinnustofunni verður farið yfir verkefni sem tengjast lífhagkerfum, þróun síðustu áratuga og mikilvægi grænnar orku. Innlendir og erlendir sérfræðingar munu taka til máls auk þess sem farið verður í vettvangsheimsóknir í valin fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. 

Vinnustofan er opin öllum og ókeypis.

Skráningarhlekk ásamt frekari upplýsingum og dagskrárdrögum má finna hér:

Fréttir

Norrænt netverk um útbreiðslu selastofna í Norður Atlantshafi og áhrif þeirra á sjávarútveg og aðra hagaðila

Nýlega lauk rannsóknar & netverksverkefninu Nordic Seals, eða „Norrænt netverk um selastofna á norðurslóð“, sem Matís leiddi. Verkefnið var styrkt af vinnuhópi Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í málefnum sjávarútvegs og fiskeldis AG-fisk. Meginmarkmið verkefnisins var að stuðla að myndun netverks hagaðila er koma að rannsóknum á selastofnum, eða verða fyrir áhrifum af selum á svæðinu. En á þann hátt var unnt að stuðla að virku samtali milli lykil hagaðila varðandi útbreiðslu og áhrif sela á umhverfið og samfélögin í N-Atlantshafi þ.m.t. á sjávarútveg og fiskeldi.

Selveiðar voru mikilvæg atvinnugrein víða á Norðurlöndunum fyrr á tíðum, enda veiddu selfangarar frá Noregi, Finnlandi, Grænlandi, Danmörku, Íslandi, Rússlandi og Kanada hundruð þúsunda sela á ári hverju. Þessi iðnaður varð fyrir harðri gagnrýni á áttunda og níunda áratug síðustu aldar þegar dýravelferð fór að skapa stærri sess í umræðunni um nýtingu villtra dýrastofna. Um aldamótin voru svo selveiðar orðnar pólitískt óásættanlegar, sem hafði áhrif á markaði fyrir afurðirnar og gerði það að verkum að selveiðar í atvinnuskyni lögðust að lokum nánast af. Selveiðar í N-Atlantshafi hafa nú verið nánast engar í rúma tvo áratugi. En hvaða áhrif hefur þessi breyting á nýtingu selastofna haft á vistkerfi og efnahag þeirra sem verða fyrir áhrifum af breytingum á stærð og útbreiðslu selastofna?

Nordic Seals netverkið hefur frá því þegar því var komið á fót árið 2021 safnað, greint og miðlað upplýsingum um selastofnana á norðurslóðum og hefur til dæmis:

  • Safnað upplýsingum um selastofna og útbreiðslu á N-Atlantshafi, í Íshafinu, sem og á aðliggjandi hafsvæðum (t.d. Norðursjó, Eystrasalt, Skagerrak, Kattegat o.fl.),
  • Greint möguleg áhrif selastofna á vistkerfið, og kynnt sér þá vinnu sem er í gangi til að meta þau áhrif,
  • Greint hvaða áhrif selastofnar hafa á norrænan sjávarútveg,
  • tilgreint leiðir til að hafa stjórn á selastofnum, þar með talið sjálfbærar veiðar,
  • Kannað og tilgreint hugsanlegar vörur og markaði fyrir selaafurðir, samhliða því að huga að hindrunum eins og dýravelferð, stefnu og pólitískri rétthugsun, matvælaöryggi og eiturefnum.

Helstu niðurstöður áðurnefndrar vinnu má nú sjá í nýútkominni skýrslu, sem nálgas má hér.

Aðrar mikilvægar afurðir verkefnisins eru eftirfarandi:

Í samantekt lokaskýrslu verkefnisins kemur eftirfarandi fram:

Samhliða því sem selastofnar hafa stækkað í N-Atlantshafi, Íshafinu og aðliggjandi hafsvæðum á undanförnum misserum, hafa þeir orðið sífellt umdeildari á meðal sjómanna og annarra hagaðila innan virðiskeðja sjávarafurða. Er því gjarnan haldið fram að stækkandi selastofnar hafi neikvæð áhrif á nytjastofna, aflamagn, afurðagæði og efnahagslega afkomu í sjávarútvegi. Margir vísindamenn og náttúruverndarsinnar hafa aftur á móti bent á skort á upplýsingum og skilningi á hlutverki sela í vistkerfinu. Þó vitað sé að selir nærist á ýmsum fisktegundum er rannsóknum á áhrifum þeirra á stofnstærð, aldursdreifingu og viðgangi nytjastofna ófullnægjandi. Almennt skortir verulega upp á þekkingu á hlutverki og áhrifum sela í vistkerfinu. En þar sem sumir selastofnar hafa enn ekki jafnað sig að fullu á þeim veiðum sem fram fóru fyrir mörgum áratugum síðan er ljóst að ákvarðanir um veiðar og nýtingu sela þurfa að vera grundvallaðar á góðri vísindalegri þekkingu. Í dag er það helst að selir veiðist sem meðafli við aðrar veiðar, og getur það haft veruleg áhrif á viðgang einstakra selastofna. Er seladauði við veiðar á grásleppu hér við land gott dæmi um það.

Afrán og skemmdir á veiðarfærum og eldiskvíum af völdum sela er vel þekkt vandamál, en vistfræðileg- og efnahagsleg áhrif þessa eru hins vegar að mestu órannsökuð. Þá eru hringormar þekkt vandamál sem tengis selum, en hringormar hafa mikil áhrif á gæði, nýtingu og efnahagslega aflkomu í sjávarútvegi. Hér á árum áður voru selir veiddir sérstaklega til að koma í veg fyrir útbreiðslu hringorma, en hver man ekki eftir hingormanefnd?

Rannsóknir sýna að þær selategundir sem eru í N-Atlantshafi og tengdum hafsvæðum þurfa að borða lífmassa sem samsvarar 4-6% af líkamsþyngd sinni á dag til að viðhalda sér. Fjöldi sela á svæðinu er nú orðinn um 14 milljónir einstaklinga og því líklegt að neysla sela á lífmassa sé um þreföld á við veiðar mannanna á svæðinu. En eins og áður sagði er þekking á áhrifum neyslu sela á viðgang nytjastofna ófullkomin.

Selir eiga sér langa sögu sem mikilvægur fæðugjafi á norðurslóðum. Selkjöt er næringarríkt og fullt af mikilvægum amínósýrum, vítamínum og steinefnum. En kjötið inniheldur einnig óæskileg efni sem ógnað geta matvælaöryggi, svo sem hringorma, þungmálma og önnur snefilefni. Innflutningsbann á selaafurðum sem Bandaríkin og ESB settu á fyrir all-löngu-síðan hafa gert hvers kyns viðskipti með selaafurðir nær ómöguleg. En þar sem sumir selastofnar stækka á ákveðnum svæðum verður spurningin um mögulega nýtingu áleitnari. Til að svara þeirri spurningu er þörf á frekari rannsóknum til að skilja betur hlutverk sela í vistkerfinu og hvernig hægt sé að framleiða sjálfbær, örugg og stöðug matvæli og fóður úr selaafurðum.

Fréttir

Sjálfbær hágæða matvæli úr stórþörungum

Upphafsfundur SEAFOODTURE verkefnisins fór fram þann 13. maí 2024 hjá Institute of Food Science Research (CIAL) í Madríd á Spáni. Verkefnið miðar að því að nýta lífmassa stórþörunga til þróunar á sjálfbærum, hágæða matvælum. Verkefnið er styrkt af Sustainable Blue Economy Partnership (SBEP).

Það voru 10 samstarfsaðilar frá 8 löndum sem sóttu upphafsfund verkefnisins sem fór fram þann 13. maí 2024 á Institute of Food Science Research (CIAL) í Madríd á Spáni.

Um er að ræða þriggja ára verkefnið sem felur í sér 9 vinnupakka þar sem eftirtaldir samstarfsaðilar taka þátt:

  • Spanish Council for Scientific Research (CSIC – verkefnisstjórn), Spánn
  • Universidade de Santiago de Compostela (USC), Spánn
  • Tarsus Üniversitesi (Tarsus), Tyrkland
  • Porto-Muiños, Spánn
  • Sapienza Università di Roma (Sapienza), Ítalía
  • Universidade de Aveiro (UA), Portúgal
  • Innovate Food Technology LTD. T/A Innovate Solutions, Írland
  • Matís, Ísland
  • SINTEF Ocean, Noregur
  • Þang / Tartu Ülikool (Tartu), Eistland

Verkefnasíða verkefnisins er aðgengileg hér.

Vefsíðu verkefnisins má svo finna hér.

Fréttir

Hvað verður í matinn? – Málþing Matís um framtíð matvælaframleiðslu

Á föstudaginn næstkomandi, þann 31 maí, fer fram málþing Matís um framtíð matvælaframleiðslu. Málþingið ber yfirskriftina „Hvað verður í matinn?“ og stendur frá 9:00 – 12:30 í Norðurljósasal Hörpu.

Þarna verður það nýjasta á sviði matvælarannsókna í brennidepli ásamt áskorunum og tækifærum í matvælaframleiðslu í framtíðinni. Á meðal fyrirlesara verða Bente Torstensen, forstjóri NOFIMA (matvælarannsóknir í Noregi), Dirk Carrez, framkvæmdastjóri Biobased Industries Consortium og Ólavur Gregersen frá Ocean Rainforest, en sá síðastnefndi er færeyskur frumkvöðull í nýtingu þörunga í matvæli, fóður og umbúðir. Hann hefur komið upp gríðarstórri þörungaverksmiðju og er leiðandi á heimsvísu í rannsóknum og þróun á nýtingu þara. Þessi starfsemi hefur vakið mikla eftirtekt víða um heim enda gæti þessi iðnaður gegnt lykilhlutverki við að skipta út hefðbundnum plastumbúðum fyrir lífbrjótanlegt plast og einnig til að stuðla að auknu fæðuöryggi um heim allan.

Sérfræðingar Matís munu jafnframt kynna sínar rannsóknir, t.d. í tengslum við hliðarafurðir í grænmetisrækt, þróun fiskneyslu Íslendinga, nýtprótein, matvælakerfi í borgum svo eitthvað sé nefnt. Svo munu fulltrúar frá meðal annars SFS, bændasamtökunum og Háskóla Íslands sitja í pallborði og svara spurningum um áhrif matvælarannsókna á matvælaiðnaðinn og samfélagið.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra, opnar málþingið og fundarstjóri verður Bergur Ebbi. Hér fyrir neðan er dagsrká málþings og skráningarhlekkur. Þau sem skrá sig hér fá einnig sendan hlekk á streymið, en málþinginni verður jafnframt streymt á Visir.is.

Facebooksíða málþingsins

Upptökur, glærur fyrirlesara og myndir frá málþinginu eru aðgengilegar hér:

Hvað verður í matinn? Málþing Matís um framtíð matvælaframleiðslu

IS